30 júní 2007

30. júní

Í dag er Þórhallur bróðir minn 55 ára.
Ósköp eldast þessi systkini mín, öll komin vel á sextugsaldur. Ég held ég verið að fara að athuga um pláss á elliheimili fyrir þau meðan ég er enn svona ung og spræk.
Við hér á Fjósakambinum ætlum niður að Fljóti í kvöld að grilla og húsbóndinn er búinn að taka úr frosti ýmsa líkamsparta af lambi, þetta verður kjöt fyrir alla ættina. Vona að Þórhallur sjái sér fært að koma til byggða og fá sér bita af grilluðu kjöti í kvöldsólinni við Lagarfljót.
Konni kynlegi kíkti hingað í gærkvöldi og ég er ekki frá því að hann mæti í grillsamkvæmið með sína fjölskyldu.
Það stefnir í skemmtilegt kvöld og veðrið er eins og best verður á kosið.
Það lítur líka út fyrir að það verði byrjað að flísaleggja bílskúrinn í Skógarkoti um helgina, kamínan er komin austur, búið að smíða allar innréttingarnar í húsið, ég er búin að velja lit á veggina og nú bara sit ég og spila fingrunum í borðplötuna og vona að þetta gangi allt hratt og vel. Ég er búin að vera tvo mánuði á vergangi.

|

28 júní 2007

Máttur bænarinnar

Um daginn bað ég æðri máttarvöld um smá rigningu.
Ég hef heldur betur verið bænheyrð. Ég hef verið í fríi 3 daga í þessari viku, tvo daga hefur verið rigning, þokuloft og skítakuldi.
En takk fyrir að bænheyra mig þú þarna í efra, takk kærlega, en þetta er orðið gott, nú vil ég gjarnan sjá sólina aftur.
Þetta hefur samt bara verið ágætt, í svona veðri færist yfir mann værð og ég hef verið að drepast úr leti, ekki gert neitt af viti og sofið langt fram á dag, alveg til kl. 10 á morgnanna. Hef nú samt mætt tvisvar í ræktina í þessari viku og stefni þangað á morgun.
Þetta er nokkuð ljúft ástand.

|

22 júní 2007

Að byrja í ræktinni

Ég var að kaupa mér kort í ræktinni.
Hversu oft hefur þessi færsla ekki sést hér á síðunni. Nýtt heilsuátak, byrja nýtt líf á morgun, spara, megra mig og Guð má vita hvað, allt sem ein nútímakona þarf að huga að.
En núna er ég búin að fjárfesta í árskorti í þrek og sund. Og ekki nóg með það, ég hef mætt daglega þessa tvo daga sem ég hef átt kortið.
Kannski verð ég laus við plíseringuna af bakinu fyrir haustið.
Húrra fyrir mér.

|

21 júní 2007

Sumarsólstöður

Uppáhalds árstíminn minn.
Annars á hver árstíð með sinn sjarma. Það er t.d. fátt fallegra en litríkt haust.
En hvað um það, ég ætti auðvitað að fara út á Vatnsskarð eða þó ekki væri nema upp á Fjarðarheiði og fylgjast með miðnætursólinni. Best af öllu væri náttúrlega að vera niður á Borgarfirði.
Það styttist í að sumarbúðirnar við Kárahnjúka opni þetta árið. Krakkarnir hafa bara gott af að koma og anda að sér heilnæmu íslensku fjallalofti. Kannski er þetta eina tækifærið sem þau hafa til að fara úr borginni og sjá íslenskt landslag - þau hefðu kannski átt að koma fyrr, áður en framkvæmdir hófust þarna uppfrá.

|

19 júní 2007

19. júní

Sólin skín á Héraðsmenn.
Það gerði hún líka sunnudaginn 19. júní 1977, en þá fæddist hún Gunnhildur mín á sjúkrahúsinu á Egilsstöðum að viðstöddum föður sínum og móðurömmu auk venjulegs hjálparliðs við fæðingar.
Þegar Gunnhildur byrjaði í leikskóla fannst mér ótrúlegt að ég ætti svona stórt barn, þegar hún byrjaði í grunnskóla horfði ég á hana og furðaði mig á að eiga svona sæta stelpu, þegar hún fermdist, þegar hún fór í MA, þegar hún gifti sig, fór í Háskólann - undarlegt að vera móðir svona ungrar konu.
Nú er staðan hjá okkur mæðgum sú að örverpið er á þrítugsaldri, frumburðurinn á fertugsaldri og ég á fimmtugsaldri.
Til hamingju með daginn Gunnhildur mín.
Ég óska Margréti Thoroddsen til hamingju með níræðisafmælið í dag og Höllu Ragnheiðar- og Eymundardóttur með 6 ára afmælið.
Nú svo óska ég öllum íslenskum konum til hamingju með daginn!

|

16 júní 2007

Breyttir tímar

Hvað er að gerast í mínum kæra Kópavogi?
Bærinn sem byggðist upp í skipulagsleysi og spannst næstum af fingrum fram, nú er búið að steypa allt í ófrávíkjanlegar og undarlegar reglugerðir þar.
Þegar ég var krakki í Kópavoginum þá var nágranni okkar með rakarstofu í bílskúrnum og eftir að við fluttum af Neðstutröðinni þá var gömlu stofunni okkar breytt í sjoppu og seinna í vídeóleigu.
Þegar ég var krakki þá voru hænsnabú inn í miðjum íbúðargötum og maður var sendur að kaupa egg.
En nú er öldin önnur. Það eru reyndar leyfðir pútustaðir ennþá í Kópavoginum, kannski ekki fjaðraðar pútur, en að klippa og greiða í íbúðahverfi það er bannað, sbr. þessa slóð á mbl.is.
http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1275212

|

15 júní 2007

Dulbúin auglýsing

Obbb obbb obbb!
Hvað er tölvusérfræðingur Lötu Grétu að misnota síðuna????
Af því að ég hef ekki hana Kolgrímu mína hjá mér þessa dagana og sakna hennar óskaplega þá fór ég að skoða myndirnar af henni, sjá hér linka til vinstri á síðunni.
En hvað gerist ef ég ýti á Dekurdagur hjá Kolgrímu!!? Það kemur sko ekkert um hana Kolgrímu mína heldur er þetta orðinn linkur á síðu hjá fyrirtæki nokkru hér norður í Fellum. Fyrirtæki sem tölvugúru Lötu Grétu tengist fjölskylduböndum fyrir utan önnur tengsl.
Ja, nú dámar mér - og tölvusérfræðingurinn farinn norður í land.

|

12 júní 2007

Lífið í skóginum

Ég er búin að koma mér vel fyrir í Hallormsstaðaskógi.
Þetta er besti tíminn í skóginum, gróðurinn kraftmikill í blóma, kvöldsólin svo falleg og túristarnir eru ekki enn farnir að flæða inn í hvert rjóður.
Fyrir 32 árum kom ég unglingsskvísa hingað og fór að vinna hjá Skógræktinni, aðstoðarstúlka hjá ráðskonunni. En síðan hefur nú Fljótið runnið í rúmmetravís til sjávar.
Herbergið sem ég hef er rúmgott og fallegt. Gluggarnir snúa út í garðinn og ég hlakka til að það fari að rigna svo skógurinn fari að ilma. Ég er samt bara að óska eftir rigningu í eina nótt, þú þarna uppi sem stjórnar veðrinu.
Það fer svo vel um mig hér á Fjósakambinum að það hefur hvarflað að mér að selja bara Skógarkotið og setjast að hér í þessu fína herbergi.

|

10 júní 2007

Systur í spandreisu

Við Anna Guðný brenndum norður í land í gær.
Þegar við vorum að aka frá Egilsstöðum kl. 8 um morguninn voru komnar 2 þotur á flugvöllinn, ein var að lenda og ein var að koma inn til lendingar - bara eins og í útlöndum.
Það var greinilega að drífa að gesti í álveisluna á Reyðarfirði.
Við systur höfðum með okkur nokkra nestiskassa, enda var ekki gert ráð fyrir að koma aftur heim fyrr en um kvöldið. Við skiptum verkum, ég sá um grænmeti og ávexti en hún um afganginn af nestinu.
Þegar við ókum um Heiðarendann spurði ég systur mína hvort hún hefið ekki örugglega tekið með diska.
AGÁ: "Diska, jú Rannveig ég var að sýna þér geisladiskana sem ég tók með"
RÁ: "Ja, ég var nú að meina matardiska."
AGÁ: "Hva??!!! eins og ég hafi klikkað á því."
Svo var bara ekið sem leið lá og stoppað í fjóskaffinu í Mývatnssveit, það er nokkuð sem ég mæli með. Þar er æðislegt kaffi og svo fær maður að fara í fjósið og heilsa upp á kýrnar og kálfana. Við kíktum aftur þar við í bakaleiðinni og þá var mjaltatími og það voru borin til okkar staup með spenvolgri mjólk - alveg rosalega huggulegt.
Nú það var sól og blíða, landið skartaði sínu fegursta þar til við komum í Víkurskarð, þar var svarta þoka. Við ákváðum að láta það ekki á okkur fá enda væri örugglega góð raflýsing á Glerártorgi. En svo var þetta allt í lagi, það var sól á Akureyri.
Við skrunuðum síðan í gegnum mollin og smollin og ég græddi litlar 70 - 130.000 á þessum innkaupaleiðangri, eftir því hvernig dæmið er reiknað.
Hvernig? nú ég ákvað að láta skynsemina en ekki snobbið ráða för og keypti borðstofuborð og sófaborð í RL-búðinni. Massíf eikarborð, ég endaði alltaf aftur og aftur við þessi borð, sama hvað ég fann mikið af fínum borðum í fínni búðum. Ég meira að segja fann nákvæmlega sömu borðin í "betri" búð og þar voru þau á 100% hærra verði en í Rúmfatalagernum.
Úbbbss, gleymdi næstum einu - ég lenti í hjúskaparmiðlara á Glerártorgi - spennandi að vita hvað kemur út úr því.

|

08 júní 2007

Kveðjustund

Í dag var Hrafkell A. Jónsson kvaddur hinstu kveðju.
Það var fallegt veður á Héraði og hann fékk gott í gröfina. Gróðurinn útsprunginn og gróskumikill.
Athöfnin í Egilsstaðakirkju var mjög falleg en að mörgu leyti sérstök. Hrafnkell fékk að sjálfsögðu margar þakkir fyrir vel unnin störf frá félögum sem hann hefur starfað í og ekki síst félögum Sjáfstæðismanna. Blómaskreytingar voru í bláu og hvítu og einstaka rauð rós sást. Félagar hans úr Samfrímúrurum stóðu heiðursvörð við kistuna og svo þegar kistan var borin út var Internationalinn leikinn.
Andstæður eins og margt í lífi Hrafnkels.
Það verður tómlegt að koma á Héraðsskjalasafnið framvegis og ekki víst að þar gangi maður að því vísu að eiga hauk í horni, en Hrafnkell lagði sig sérstaklega fram um að efla bókakostinn á safninnu á þann veg að hann nýttist sem best þeim sem stunda fjarnám hér fyrir austan.

|

07 júní 2007

Hægt og hjótt

Kolgríma fer alveg hljóðlaust um húsið.
Þetta truflar mig svolítið, en hún hefur haft nokkrar bjöllur um hálsinn frá því að hún var kettlingur. En í dag kom hún sem sagt ólarlaus heim.
Fína rauða ólin sem ég keypti í einhverri dýraverslun úti á Jótlandi í fyrra heyri sögunni til. Mér vitanlega eru ekki seldar kattaólar hér á Egilsstöðum svo nú er ekki um annað að ræða en að leggja í ferðalag og renna á Reyðarfjörð. Þar er gæludýraverslun.
Mig er búið að langa að skreppa niður á firði í vor en hef ekki haft mig í það. Nú er ég komin með brýnt erindi svo það er bara að skella sér á laugardaginn.
Ég er samt að velta því fyrir mér hvernig Kolgríma upplifir þessa þögn. Hvort henni finnst þetta himneskt eða hræðilegt.
Reyndar langar mig oft að vita hvað hún hugsar.

|

Góður vergangur

Lífið á verganginum er afar ljúft.
Við Kolgríma höfum átt góða daga á Faxatröðinni og reyndar er Kolgríma svo ánægð með lífið þar að það hefur samist svo um að hún verði þar, þar til við flytjum í Skógarkotið.
Ég er reyndar svolítið leið út af því að Kolgríma hefur tekið svo miklu ástfóstri við húsráðendur að hún sér mig ekki nema hún finni enga aðra manneskju í húsinu.
Á morgun flyt ég í Hallormsstað. Þar bíður mín nú ekki slordónavist. Gissur bróðir ætlar að ferja hjólið mitt uppeftir í kvöld og svo er ég búin að semja við Sissu um heitt bað og nudd á hverju kvöldi svona til að byrja með alla vega.
Nú svo er veðurspáin góð fyrir helgina þannig að ég sé fram á sólbað í skóginum.
Það verður bara sangría og sól, grænmeti og ávextir næstu vikur.

|

05 júní 2007

Árskort í íþróttahúsið

Ég gerði smá verðkönnun í dag.
Heilsuátakið sem ég sagði ykkur frá hér fyrir mörgum dögum fer frekar svona hægt af stað. Ég nota mér annríki Nínu vinkonu til afsökunar og drekki sorgum mínum bara í ís meðan hún er út og suður og mest fyrir sunnan að halda upp á eitthvert útskriftarafmæli, knúsa barnabarnið og svona.
Ég hef svo sem farið í eina og eina skógargöngu eða stafagöngu eða út að hjóla. En það er bara ekki nóg svo ég hringdi í íþróttahúsið, spjalaði við Fríðu og fékk hagnýtar upplýsingar. Ég spurði hana nú bara svona mest í gríni hvort það væri kannski selt inn eftir vigt. Nei, nei, alls ekki vildi hún meina það. Árskortið í þrek, leikfimi og sund kostaði 40.000 kall fyrir mig.
Nú það er náttúrulega gjafverð, ríflega 3.000 á mánuði og ef ég druslast til að mæta þrisvar til fjórum sinnu í viku er þetta náttúrulega bara tombóluprís.
En það er ekki allt sem sýnist. Ég fór að segja Ragnheiði, yfirmanni mínum, frá þessu og þá vissi hún allt um þetta því þau hjónin væru nýbúin að kaupa árskort á 50.000 kall fyrir þau bæði.
Bíddu nú, kostar bara 10.000 kall fyrir karlmenn???
Nei, málið er ekki svona einfalt. Ég fór inn á bað og horfði á mig í spegli og sá að það væri greinilegt að það væri selt inn eftir vigt.

|

04 júní 2007

Montin mamma

Ég vil biðja ykkur að lesa Moggann í dag.
Þar er jómfrúargrein Gunnhildar dóttur minnar sem blaðamanns. Fjallar um lundann í Vestmannaeyjum.
Ég er mjög stolt af frumburðinum mínum í dag og auðvitað líka af örverpinu mínu. Ég er svona ógeðslega montin mamma.

|

02 júní 2007

Allt í plati

Þá er búið að upplýsa það að Hollendingar voru bara að plata okkur.
Þátturinn Viltu vinna nýra, var bara brella til að vekja athygli á málefnum líffæraþega og ég verð að viðurkenna að eins og ég var hneyksluð á þessum þætti þegar ég hélt að þetta væri alvöru þá get ég líka sagt að þetta var stórsnjallt.
Það veitir ekki af að efla umræðuna um líffæragjafir bæði hér á landi og annars staðar.
Það er hverjum manni mikið áfall að fá að vita að hann sé kominn með banvænan sjúkdóm. Þegar við það bætist að eina vonin um að fá að lifa áfram sé sú að einhver sé tilbúinn að gefa part af sjálfum sér, þá verður staðan enn verri.
Að upplifa það að fólk fer að forðast mann af því að það þorir ekki að spyrjast fyrir í hverju það felst að gefa líffæri, að horfa upp á ástvin sinn missa kjarkinn af því að honum finnst umhverfið hafa hafnað sér. Það er alveg nóg að að berjast fyrir lífi sínu þó annað bætist ekki við.
Ég vil hvetja alla til að staldra við og spyrja sjálfa sig hvort þeir hafi not fyrir líffæri sín eftir dauða sinn. Hvort þeir séu e.t.v. tilbúinir að segja sínum nánustu að líffærin megi nota til að bjarga mannslífum ef dauðann ber skyndilega að garði. Að við gerum okkar nánustu grein fyrir afstöðu okkar í þessum málum því það eru þeir sem þurfa að svara spurningum um hugsanlega líffæragjöf eftir okkar dag.

|

Karlaþáttur

Karlarnir sem vinna í Bjarkarselinu eru sko mínir menn.
Í gær tóku þeir 3 stóra steina sem komu upp úr grunnunum í götunni og röðuðu þeim fallega í eitt hornið á lóðinni minni. Ég var nefnilega búin að segja þeim að mig langaði í þessa steina. Svo eru þeir bara komnir inn í garðinn minn, nosturslega raðað saman.
Ég fór líka og keypti stóra Makkintosdós til að færa þeim með kaffinu á mánudaginn.
Þegar ég ók um götuna í gær, veifuðu Pólverjarnir til mín og brostu sínu blíðasta, kannski segja þeir ekkert, koma nú helvítis kerlingin, eins og ég ímyndaði mér að þeim myndu segja af því að ég er eins og grár köttur þarna uppfrá.
Hákon Aðalsteins stóð úti á hlaði með pípu sína, en hann og Sía eru fyrstu íbúarnir í götunni. Við tókum tal saman og hann sýndi mér hvað allt er að verða fínt hjá þeim.
Fallegasti maður á Fljótsdalshéraði var að vinna í húsinu mínu í vor, en því miður er hann hamingjusamlega giftur.

|

01 júní 2007

Sumarið er komið

Í dag er yndislegt veður á Fljótsdalshéraði.
Þetta er svo ljúfur tími, það er ekki bara að farfuglarnir eru allir komnir, gróðurinn sprunginn út og lömbin að leika sér á túnunum. Það er ekki síst gaman að sjá öll þessi börn sem allt í einu eru út um allt á hjólum, með bolta eða bara á hlaupum hvert á eftir öðru.
Lífið á Héraði er ljúft og gott.

|