30 september 2007

Sunnudagur í sveitinni

Ég elska lífið.
Ég elska fólkið mitt, ég elska fjöllin, ég elska Fljótsdalshérað, Kolgrímu og haustið.
Byrjaði daginn á hjólatúr norður að Lagarfljótsbrú. Gróðurinn er í litríkum haustbúningi. Ilmurinn af haustinu stígur upp af jörðinni. Sólin skín og fjöllin eru þarna öll á sínum stað.
Kolgríma fór í fyrsta könnunarleiðangur sinn i Selskógi í dag. Hún fór nú ekki nema 2 til 3 metra frá húsinu og kom svo inn aftur eftir að vera búin að nusa af öllu sem á vegi hennar varð í þessum mikla landkönnunarleiðangri.
Gissur bróðir er úti að vinna í pallinum og ég er að fara í Vallaneskirkjugarð að segja til um hvernig ég vil að legsteinninn hans Finns veður settur niður.
Það er sunnudagur í sveitinni.

|

29 september 2007

Sumt...

...á ég mjög erfitt með að skilja.
Eins og til dæmis þessa fasteignaauglýsingu: http://www.mbl.is/mm/fasteignir/fasteign/?eign=255169
Ég held að það hafi ruglast eitthvað þarna. Lýsingin á húsnæðinu finnst mér benda til að þetta húsnæði sé ætlað fólki sem ekki er yfir 150 cm að hæð, alla ef þetta litla bláa hús með rauða þakinu á að rúma allt sem segir í lýsingunni.
Hvar getur þetta litla hús falið 254 fermetra? Það hlýtur að vera stórt neðanjarðarhýsi undir því.
Og hvernig í veröldinni er hægt að láta sér detta í hug að þetta húsnæði sé 57 milljón króna virði?

|

28 september 2007

Lífið, tilveran og dauðinn

Mamma er á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði.
Þar hefur hún dvalið sl. 5 ár á deild fyrir heilabilaða. Á deildinni er fólk sem er með Altsheimer eða elliglöp.
Mamma er 86 ára og hún er alltaf fín og vel til höfð. Hún tekur alltaf brosandi á móti mér, faðmar mig og segir mér hvað það gleðji hana að sjá mig.
Við spjöllum saman og eigum notalegar stundir saman. Við spjöllum ekki um síðasta Kastljósþátt, við spjöllum ekki um landsins gagn og nauðsynjar. Við spjöllum um einfalda hluti sem gleðja. Um Kolgrímu, um náttúruna, um afkomendur mömmu.
Stundum þarf ég að endurtaka sömu fréttirnar oft, en það gerir ekkert til því við erum bara að spjalla og vera saman. Stundum man mamma að ég hef sagt henni þessar fréttir áður.
Þegar ég fer, faðmar hún mig og þakkar mér kærlega fyrir að hafa komið og segist hlakka til að ég komi aftur. En hún ásakar mig aldrei um að ég komi sjaldan.
Fyrst var ég mótfallin því að mamma færi á Seyðisfjörð, ég vildi að hún væri á Egilsstöðum. Deildin á Seyðisfirði er lokuð og mér fannst það skelfileg tilhugsun að mamma væri á deild sem væri lokuð og læst.
En svo lærði ég að líta ekki á þessa deild sem lokaða deild heldur sem öruggt skjól.
Það vill svo vel til að það er að mestu leyti sama starfsfólkið sem búið er að vera á deidinni frá því að mamma kom og hún nýtur þeirra sjálfsögðu mannréttinda að fá öldurnarþjónustu á sínu móðurmáli.
Í gær var ég á fjölskyldufundi á Seyðisfirði ásamt lækni og hjúkrunarfræðingi. M.a. var rætt um meðferð við lífslok. Hvað á að taka til bragðs ef upp koma alvarleg veikindi hjá mömmu? Ef hún fær svæsna lungnabólgu, hjartaáfall?
Þegar nýr einstaklingur kemur í heiminn þá gleðjumst við og viljum öll leggja okkar af mörkum til að litli einstaklingurinn finni sig velkominn í heiminn og að hann fái góðan uppvöxt og gott atlæti.
Eins held ég að við ættum að huga að því að þegar einstaklingur hefur skilað ævistarfinu þá verði honum gert það sem léttbærast að fara síðasta spölinn með reisn og stolti.

|

27 september 2007

Kolgríma í Skógarkoti

Hún er komin heim þessi elska.
Ég held að henni lítist ekkert illa á kotið. Hún er búin að labba hér um allt og nusa af öllu. Prufa að leggjast í sófann, fela sig undir rúminu í gestaherberginu, fá sér blund á borðstofustól og leggjast upp í rúmið mitt og mala.
Æi, það er ósköp notalegt að kisa skuli vera komin heim.

|

Í bílskúr úti í bæ

Ég heyrði í Dr. sæta Sívagó í gær.
Við erum búin að finna dagsetningu sem hentar fyrir næstu aðgerð (vonandi verða þær ekki fleiri). Núna verð ég ekki lögð á sjúkrahús, nei, ég verð bara skorin í bílskúr úti í bæ eins og pabbi orðaði það svo snyrtilega þegar það var tekinn af honum einn putti á læknamiðstöð í Reykjavík. Það var þegar verið var að byrja að flytja aðgerðir af sjúkrahúsunum og á læknamiðstöðvarnar.
Jæja, mér rann samt svolítið kalt vatn milli skinns og hörunds. Ég spurði hvort það væri öruggt að ég myndi ekki vakna alein í Domus Medica, komin nótt og allir farnir heim.
Dr. sæti Sívagó lofar mér að ég vakni strax og aðgerðinni er lokið og að ég fái kaffi áður en ég fari heim.
Ég ætla nú samt til vonar og vara að láta liggja skilaboð til skúringakonunnar um að hagræða sænginni minni ef hún finnur mig þarna steinsofandi.

|

26 september 2007

Svolítið skrítið

að koma á lappir og það eru 3 karlmenn á dyrahellunni.
En svona er lífið í skóginum, karlar út um allt. Tveir voru að laga stéttina mína og einn var að fara að huga að því að tengja kamínuna.
Ummmmmmm, það verður huggulegt að kveikja upp núna þegar það er orðið svona haustlegt.
Ég er búin að prufa að elda á þessari tæknigræju sem kallast eldavél. Í gær sauð ég kartöflur, það lukkaðist vel. Í morgun sauð ég egg. Það gekk hálf illa, það var eitthvað undir pottinum sem ekki átti að vera þar og ég var smá tíma að fatta af hverju eldavélin vildi ekki sjóða eggin. En svo þegar ég var búin að kveikja á perunni og laga þetta þá kviknaði á hellunni. Kemur í ljós í hádeginu hvernig eggjasuðan lukkaðist.
Mér finnst ég vera svolítið svona eins og þegar ég var 17 ára og byrjaði að halda heimili. Þá kunni ég bara að búa til kaffi og hafragraut.

|

25 september 2007

Alveg vissi ég þetta

Nú þarf ég sko að safna liði.
Ég þarf að fara að næturlagi á Faxatröðina og ræna henni Kolgrímu minni. Ég sagði við Guðlaugu í gær að ég ætlaði að sækja Kolgrímu í dag. Þá yrði ég búin að kaupa sand og mat og allt sem ein lítil kisa þarf að hafa á sínu heimili.
Það var ekki eins og Guðlaug segði "kominn tími til að þú takir þennan kött þinn" nei, ó, nei. Hún sagði við mig hvort ég vildi ekki bara sækja hana á föstudaginn svo ég yrði örugglega heima hjá elsku Kolgrímu minni fyrstu dagana á nýja heimilinu hennar.
Fyrst vildi Guðlaug að Kolgríma yrði hjá henni í allt sumar, svo að ég myndi ekki sækja hana fyrr en ég yrði búin að koma mér vel fyrir og núna þegar ég er tilbúin að taka hana þá bara er mér bent á að Kolgríma þurfi betri undirbúning og aðlögun að nýju heimili.
Á föstudaginn veit ég að Guðlaug stingur upp á því að ég taki Kolgrímu ekki fyrr en um jól.
Svo kemur mér ekki á óvart þó ég fái kettling í jólagjöf frá Guðlaugu.

|

24 september 2007

Alkomin heim

Komin heim í kotið.
Alltaf er það toppurinn á vel lukkuðu ferðalagi að koma aftur heim - eða það finnst mér.
Þetta er búin að vera mikil ævintýraferð og það er ekki hægt að lýsa henni í einni bloggfærslu. En við Soroptimistasystur hlógum svo mikið í lestinni frá Sorö til Kaupmannahafnar í gær að það var eins og maður væri búinn að vera heilan tíma í magaæfingum hjá Dandý. Upphafið að þessum mikla hlátri var matreiðslubók nokkur sem ég fjárfesti í. Þar voru gamlar danskar uppskriftir, ekki ósvipaðar okkar gömlu sláturuppskriftum. Guðlaug mágkona fór að spyrja innfædda sem sátu skammt frá henni í lestinni um þýðingu á ákveðinu orði sem kom fyrir í bókinni og afleiðingin var sú að Guðlaugu var stranglega bannað að blanda geði við innfædda það sem eftir væri ferðarinnar. Förum ekki nánar út í það.
Ég varð uppalendum mínum held ég bara ekkert til skammar. Á föstudagsmorgun fórum við séra Jóhanna með bænina "Vertu Guð faðir faðir minn, í frelsarans Jesú nafni. Hönd þín leiði mig út og inn, svo allir sind ég hafni."
Þetta hafði góð áhrif og eftir dagsgöngu um stórmagasínin í Köben kom í ljós að ég hafið ekki eytt nema 180 dönskum krónum. Síðan keypti ég mér fyrrgreinda matreiðslubók svo samtals var peningaeyðsla mín í búðum í þessari ferð um 250 danskar krónur. Ég hef bara aldrei notað svona fáar krónur í Danmerkurferð. Ég játa samt að ég keypti mér eitthvað fínerí og nammi í fríhöfninni.
Nú hef ég flogið 10 flugferðir á 18 dögum og varið samtals rúmum 20 tímum um borð í flugvélum. En nú er mál að linni og ég hef sett sjálfa mig í mánaðar farbann. Ég fer ekki lengra en sem nemur 50 km radíus út frá heimi mínu á þessu tímabili. Og rúsínana í pylsuendanum, á morgun flytur Kolgríma mín Högnadóttir i Skógarkotið.

|

19 september 2007

Danmerkurferðin

Jæja, þá er ég aftur lögð af stað í ferðalag.
Nú er stefnan tekin á Danmörku.
Ég var að lenda í höfðustaðnum og fara enn eina ferðina um þessar fornminjar þjóðarinnar sem kallast flugstöðin í Reykjavík. eru þessi mannvirki kannski friðuðu af Þjóðminjasafninu. Jæja, hvað um það. Leiðin lá frá flugvélinni um afgirtan göngustíg sem var meira og minna á floti. Sá eftir að hafa ekki verið í vaðstígvélum.
Á morgun má búast við ævintýrum í öryggiseftirlitinu í Leifsstöð. Einn samferðamaðurinn er með járnkrók í staðinn fyrir hendi þannig að það pípir örugglega allt viðvörunarkerfið.
En þið þurfið ekkert að hafa áhyggjur af mér í kóngsins Köben, ég lendi örugglega hvorki í sollinn eða síkin því mér hefur verið skipað í herbergi með séra Jóhönnu. Best að reyna að rifja upp nokkrar kvöld- og morgunbænir svo ég verði ekki uppalendum mínum til skammar.

|

18 september 2007

Haust á Héraði

Ósköp sem það er gott að búa á Héraði.
Ég kom í Húsasmiðjuna í dag og svei mér þá, þær urðu bara kátar að sjá mig stelpurnar. Ég held næstum að þær hafi verið farnar að sakna mín.
Þar sem ég bý hér inni í Selskóginum get ég horft út allt Hérað, út á Kollumúla og á haustlitina í skóginum.
Ég vil hins vegar ekkert vera mikið að góna þangað núna því það stendur maður fyrir neðan næsta hús utan við mitt hús og er að pissa í góða veðrinu.
Svo ég vil bara horfa inn eftir, inn í Egilsstaðaskóg og á fjöllin í gamla Vallahreppi. Skógurinn er mjög haustfagur og það vill svo vel til að ég hef gengið á nokkra fjallatoppa sem ég sé út um gluggann minn. Ég nefnilega hét mér því þegar ég átti heima á Strönd að ganga á öll fjöll sem ég sæi út um stofugluggann, sem betur fer sé ég nokkur af sömu fjöllum úr stofuglugganum í Skógarkoti og ég sá á Strönd. Höttinn, Sandfellið og Snæfellið. Ég verð samt að taka fram gönguskóna á næstu árum og feta nýjar slóðir. Úthéraðsfjöllin eru alveg eftir hjá mér.
Jæja, maðurinn er hættur að pissa svo ég get farið að dáðst að Kollumúlanum.

|

16 september 2007

Komin heim

Þetta var nú aldeilis ævintýraferð.
Á miðvikudagsmorgun fengum við Ragnheiður far suður á Hornafjörð með Helga Jenssyni sem var hinn kátasti því hann hafði loks fengið úthlutuðu leyfi til að veiða hreindýratarf. Af þeim sökum var hann með báða hundana sína, skotvopn og veiðigallann í bílnum. Þetta hefði nú svo sem verið allt í lagi ef annar hundurinn hefði ekki fundið hjá sér þörf fyrir að troða á töskunni minni. En ég varð að fara á Hótel Höfn og fá að þrífa hana áður en lagt var í Noregsferðina.
Um kvöldið var haldið til Reykjavíkur með flugfélaginu Ernir. Það var eins og maður væri kominn heila öld aftur í tímann. Ég hélt að það væri verið að fylla út handa mér merkispjald á töskuna en þessi litli handritaði miði reyndist vera brottfararspjald.
Þetta var ósköp eitthvað heimilislegt og maður horfði í bakið á flugmanninum á leiðinni til Reykjavíkur.
Ferðin út gekk vel. Við hentum dótinu inn á hótel og drifum okkur í skoðunarferð. Það var mikið um að vera á Karl Jóhann, ég held að allur norski herinn hafi staðið þar í röð, alveg upp að konungshöllinni. Fánar löfðu í logninu og allt var mjög hátíðlegt.
Tilefnið var ekki koma okkar til borgarinnar heldur koma brasilíska forsetans eða forsetisráðherrans.
En dagskráin hjá okkur rann ljúflega í gegn, við heimsóttum dómhúsið, einhverja stóra lögmannsstofu og svo Kaupthing.
Kaupþingsmenn tóku á móti okkur með drykkjum, snittum og flottum ávaxtabökkum. Ég hvarf ofan í ávextina.
Það var stingandi að sjá hvað eiturlyfjaneysla og vændi fer fram fyrir opnum tjöldum í Osló, en það segir mér ekki annað en að samfélagið annað hvort líti framhjá þessu eða samþykki það. Það var dapurlegt að horfa á ungt fólk að sprauta sig, bara úti á götu á Karl Jóhann og ungar sómalaskar stúlkur að falbjóð sig. Ég hefði samt ekki fattað að þetta væru vændiskonur nema af því að karlkyns ferðafélagar bentu á að svo var og við horfðum á þar sem fram fóru samningaviðræður og fram voru taldir einhverjir peningar áður en stúlkan gekk burtu með karli nokkrum sem var vægast sagt ógeðslegur.
Svo var mikið af alls konar ógæfufólki og betlurum sem óneitanlega kom á óvart í höfuðborg þessa ríka lands. Þetta var í það minnst mun meira áberandi en í Kaupmannahöfn.
Ég get samt vel hugsað mér að heimsækja Osló aftur og á örugglega eftir að gera það.

|

11 september 2007

Noregsferðin

"Daginn sem mamma fór til Noregs."
Það verður spennandi að lesa hvað örverpið mitt skrifar um þessa Noregsferð, en frú Rannveig er að leggja upp í jómfrúarferð sína til Noregs.
Hingað til hef ég látið mér duga að horfa niður á þetta land þegar ég hef verið að fljúga til og frá Kaupmannhöfn.
Dagurinn í dag er búinn að vera með ólíkindum, allt hefur einhvern veginn verið upp í loft og mér hefur lent saman við ólíkasta fólk, ég sem er gædd þessu líka ljúfa jafnaðargeði. Ég var meira að segja farin að hvæsa gegnum símann þegar ég talaði við bláókunnugan mann í Reykjavík.
Svona er lífið, ég er eins og sprungin blaðra þar sem ég hef komið mér vel fyrir með hitapoka við mína gömul og gigtveiku síðu. Nú þyrfti ég að fá andanefjulýsi eins og ráðskona góða dátans Sveik notaði á auma líkamsparta.
Hafið það öll gott, ég kem örugglega aftur heim í heiðardalinn því fagurt er Hérað, bleikir eru akrar o.s.frv.
Heja Norge.

|

10 september 2007

Ný sannindi

Ég bara verð að deila þessu með ykkur:
"Niðurstöður nýrrar rannsóknar benda til að menn séu gáfaðri en apar. Sýndi rannsóknin að börn áttu auðveldara með félagsmótun en fullorðnir órangútanar og simpansar. Heilinn í mönnum er um það bil þrefalt stærri en heilinn í þeim fremdardýrum sem eru skyldust þeim.
Þegar tveggja og hálfs árs börn fengu í hendur pípu sem í var matur eða leikfang fylgdu þau fordæmi rannsakendanna við að ná innihaldinu út, en aparnir einbeittu sér að því að reyna að bíta í pípuna eða brjóta hana.
Getan til að læra af fordæmi annarra gerir mannabörnum kleift að þróa félagslega- og líkamlega hæfni, segja höfundar rannsóknarinnar, sem greina frá niðurstöðum sínum í tímaritinu Science sem kemur út í dag.
Rannsóknin var gerð við Max Planck stofunina í þróunarmannfræði í Leipzig í Þýskalandi. Rannsakaðir voru 100 simpansar, 30 órangútanar og 100 mannabörn, tveggja og hálfs árs.
"
Þetta var á mbl.is í morgun.
Minnir mig á fróma spurningu sem ég fékk frá frumburðinum þegar hún var 5 ára "Mamma, þekkjum við einhvern sem var einu sinni api?"

|

08 september 2007

40 ár

Brá mér í höfuðstaðinn í gær.
Í 19.000 feta hæð á leiðinni heim í dag, var ég að hugsa um að það eru 40 ár síðan ég flaug fyrst. Það var vorið 1967 þegar ég, lítil Kópavogsdama, var send til sumardvalar hjá ættingjum austur á Borgarfirði. Flogið var frá Reykjavík til Egilsstaða og svo hef ég örugglega farið með Birni sólarhring á "rútunni" niður á Borgarfjörð. Alla vega ferðaðist ég oft með honum.
Ekki hef ég tölu á hvað ég hef oft flogið á þessum 40 árum, en oftast hef ég flogið milli Egilsstaða og Reykjavíkur. Ég er örugglega búin að fljúga 10 sinnum á þessu ári og næsta hálfa mánuðinn flýg ég u.þ.b. 10 sinnum, samt ekki alltaf á milli Eg. og Rvk. Ég fer líka um flugvöllinn á Höfn, í Osló og Kastrupflugvöll.
En það er margt öðruvísi í dag en var þá. Flugstöðin hér var bara pínulítið hús og þar réði Þráinn Jónsson ríkjum. Það er enn verið að byggja við flugstöðina okkar. Bara að þeir væru svona framkvæmdaglaðir á Reykjavíkurflugvelli. Flugstöðin þar myndi sóma sér vel á Árbæjarsafni.
En samsetning farþega hefur líka breyst mikið. Í gamla daga voru mest bændur að fara í bændaferðir og svo útgerðamenn og síldarspekúlantar að ferðast. Kvenfélagshópar í leikhúsferðum og svo ein og ein krakkakind.
Í dag eru þetta verkfræðingar og aðrir sem tengjast framkvæmdunum hér. Það er oft að 90% farþega eru karlar.
Í dag var farþegahópurinn fjölbreyttari en oft áður. Fyrir utan að það voru margar konur í farþegarýminu, þá sátu þar einn munkur, tveir borðalagir flugmenn og ein flugfreyja. Ég held að það hafi samt örugglega verið annað fugmannasett í stjórnklefanum. Í það minnsta var önnur flugfreyja því hún fór um og bauð upp á kaffi.
En mikið afskaplega er gott að vera komin aftur heim i Skógarkot.

|

06 september 2007

Skyr.net

Þá er Skógarkot komið í samband við umheiminn.
Það kom hingað vaskur piltur frá Mílu og tengdi bæði netið og heimasímann. Allt annað líf. Nú get ég hangið á msn og skoðað allar fínu designe búðirnar á netinu, Rúmfó og Ikea. Talandi um Ikea, netverslunin þeirra er svo flókin að ég get ekki verslað þar,verð að láta mér Rúmfó duga :)
Svo var ég varla búin að setja símann í samband en hann byrjaði að hringja.
Búskapurinn hér í kotinu er nú með þeim ósköpum að það er ekkert til matarkyns, ekki hveiti, ekki salt og pipar, eða neitt þess háttar og ekki eitt sykurkorn. Það er til mjólk, grænmeti, kaffi og ávextir, svona þetta allra nauðsynlegasta.
Ég er ekkert farin að elda neitt því ég hef ekki haft tíma til að kynna mér hvernig þessar móderne eldunargræjur virka, svo ég hafði bara skyr í kvöldmatinn. Þá vandaðist málið af því að ég á ekki sykur, en ég var svo heppin að eiga hunang og úr þessu varð mjög góður réttur - hunangsskyr. Þið verðið að prufa það, rosa gott.
Og í þessum skyrhugleiðingum varð mér hugsað til hennar Dísu Einars sem segist aldrei borða þetta ísskyr sem alltaf er verið að auglýsa.

|

04 september 2007

Hvaða öld er eiginlega

Ég trúi varla að það sé sú 21.
Mér finnst ég vera stödd á 7. áratug síðustu aldar. Þá var ég í eldhúsinu hjá mömmu á Neðstutröðinni í Kópavoginum. Mamma átti forláta tröppustól sem hún notaði til að komast í efstu hillurnar í skápunum, en ég fékk að nota stólinn fyrir skrifborð. Ég sat á efri tröppunni, stakk fótunum niður á milli lappanna á stólnum og notað efsta hlutann fyrir borð og þarna sat ég og teiknaði og litaði.
Núna er þessi stóll mikið þarfaþing í Skógarkoti og ég nota hann til að komast í efstu hillurnar í skápunum hjá mér.
En það eru ekki bara svona ljúfar minningar sem fá mig til að hverfa aftur til 7. áratugarins, ég pantaði flutning á heimasímanum og adsl-tenginu í Skógarkot fyrir 12 dögum. Já, þetta er rétt lesið, TÓLF dögum og ég er ekki enn farin að sjá bóla á neinni tengingu.
Í síðustu viku fékk ég samband við þjónustuver Símans eða Mílu, eða hvað fyrirtækið heitir nú, í Reykjavík og þá var mér sagt að það stæði á einhverjum manni með tenginguna. Nú, já, hvaða manni, spyr ég. Má ekki segja, segir stúlkan. Nú, já, er það eitthvað tengt verktakanum mínum? spyr ég. Nei, nei, segir stúlkan. Nú, já, er þetta þá innanhússmál hjá ykkur? spyr ég. Nei, ég má ekki segja, segir stúlkan.
Er ég stödd í Rússlandi 1965?
Jæja, ég ákvað að reyna að hafa samband við einhvern hér fyrir austan í gær. Ekki tók betra við.
Er þetta ný gata? spyr stúlkan sem ég talaði við. Já, en það býr samt fólk þarna, segi ég. Já, en fyrst þetta er ný gata þá tekur þetta lengri tíma, segir stúlkan. Já, en ég er bara ekki sátt við að fá ekki nettengingu heim, þetta er alveg ómögulegt, segi ég. Þá bara las stúlkan yfir mér og fræddi mig á því að það væri fjöldi manns sem væri háður netinu, fólk í fjarnámi, fólk sem notaði netið starfsins vegna og það væri bara ekkert hægt að setja alla í forgang (- nú, er ég bara einhver kerling sem hefur í sjálfum sér ekkert við netið að gera?). Nei, ég skildi vel að það var ekki hægt að setja alla í forgang, enda kvaðst ég ekkert vera að biðja um að vera sett í forgang, mér finndist þetta bara mjög langur tími sem þetta tæki og ég fattaði bara ekki svona þjónustu á þessum síðustu og upplýstustu tæknitímum.
Kannski maður taki bara aftur upp gamaldags bréfasamband við fólk og þjálfi upp nokkrar bréfadúfur.

|

03 september 2007

Lífið í skóginum.

Nýja lífið fer vel af stað.
Mér líður alveg afskaplega vel í Skógarkoti, sef eins og engill og tími helst ekki að fara að heiman. Samt verð ég að fara í vinnuna og svona að snúast svolítið.
Ég hlakka mikið til þegar það fer að hægjast um hjá mér. Þegar ég get verið heima hjá mér í friði og ró og Kolgríma verður komin til mín. Hún kemur þegar ég verð búin að fljúga 10 flugferðir sem eru á dagskrá hjá mér næstu þrjár vikurnar. Það er ekki mjög viskuleg dagskrá - ég er skrifstofustúlka en ekki flugmaður.
Í morgun vaknaði ég kl. 6 og við Nína drifum okkur í fyrsta spinningtíma vetrarins í Heilsubót. Ég er eins og nýsleginn túskildingur og hlakka til að koma mér í gott form í vetur. Við erum búnar að velja okkur 4 tíma í viku sem við getum verið saman í ræktinni. Ég verð bara að fara í þreksalinn þennan eina dag sem Nína verður í body pump.
Verst að það skyldi frjósa í nótt, ég sem átti eftir að tína sveppi.

|