30 september 2008

Komin heim

Þá er Spánardýrðin á enda og við erum komin heim.
Þetta var alveg yndisleg ferð þrátt fyrir að ég steyptist út í sólar- eða rakaofnæmi eins og á Tenerife í fyrra.
Ég var bara búin að gleyma hvernig fór fyrir mér í fyrra en sem betur fer var ég með ofnæmistöflur með mér - þær dugðu samt ekki nógu vel.
Maggi var spældur yfir því að það rigndi í tvo og hálfan dag, en mér var slétt sama. Ég hafði bara gaman af að horfa á öldurnar.
Ferðin til Tanger í Marokkó var mikil upplifun. Ég sá svo margt á stuttum tíma að ég þarf tíma til að hugsa um það. Við fórum um mjög þröngar götur í gömlu hverfi og vorum svo allt í einu komin inn á framandi matsölustað þar sem beið okkar veisla. Þríréttuð marokkósk máltíð, hljóðfæraleikur og dans.
Síðan var ferðinni haldið áfram um þröngar og skítugar götur og allt í einu vorum við stödd í þvílíku verslunarhúsnæði að ég hefði þurft nokkra daga til að fá að skoða mig um. Þarna voru okkur sýndar gólfmottur af ýmsum stærðum og gerðum og útskýrt fyrir okkur hvernig þær eru unnar. Hver um sig er listaverk og það er mikið handverk sem liggur í hverri og einni mottu. Síðan skoðaði ég kistla úr sítrusviði, stóra gólfvasa, skartgripi og alls konar fallega hluti. Það var svo mikil veisla fyrir augun að koma þarna að ég gat ekki valið mér neitt til að kaupa.
Götusalar eltu okkur á röndum og voru mjög ágengir. Ég hefði vilja kaupa eitthvað af þeim en það var ekki nokkur leið því þá hefði ég misst af hópnum og ég hefði aldrei fundið hann aftur í þessum þröngu og krókóttu götum.
Síðasti viðkomustaður var búð sem seldi krydd og alls konar jurtir sem lækna alla kvilla. Þar keypti ég saffran og fleiri krydd. Starfsmaður í jurtabúðinni hélt líflega og skemmtilega kynningu fyrir okkur á broti af því sem boðið var upp á í þessari óvenjulegu búð.
Það er himin og haf sem skilur að þetta hverfi sem við heimsóttum í Tanger og lúxushótelið sem við dvöldum á í Torremolínos.
Þetta var yndisleg ferð. Hótelið flott með góðum sundlaugargarði, maturinn góður og ljúft að fá sér kvöldgöngu meðfram ströndinni.
Ferðin heim á Hérað gekk vel þó það væri smá snjóþekja á Öxi.
Það er gott að vera komin heim og gaman að á meðan ég var í burtu var steypt gangstétt í götunni minni þannig að aðkoman að Skógarkoti hefur batnað.
Svo er náttúrulega toppurinn að hitta þær Klófríði og Kolgrímu og knúsa þær.

|

26 september 2008

Bongóblída

Tad er blessud blídan hér á Spáni.
Vid hofum tad aldeilis fínt hér, sólbod og letilíf.
Kettirnir hér koma mér spanskt fyrir sjónir. Teir eru háfaettari og grennri en hinn íslenski fjóskottur, en litirnir eru svipadir. Svo eru teir ekki med ól um hálsinn eda ormerktir. Teir eru markadir eins og lombin heima. Gagnbitid vinstra, sneitt haegra. Annars sýnist mér vinsaelasta markid vera bitid haegra.
Í morgun kvad vid mikil sprenging. Vid héldum ad hús hér í hverfinu hefdi hrunid. Í fréttum á CNN var sagt frá sprengingu sudur af Malaga en ekki saeust nein ummerki um hana. Svo kom í ljós ad tad hafdi thota rofid hljódmúrinn.
Á morgun er tad svo Marokkó. Vid erum einu Íslendingarnir sem aetlum tangad svo vid vorum hengd á einhverja spaenska ferdaskrifstofu. Vona ad farastjórinn týni okkur ekki, eda vid honum.

|

24 september 2008

Á Spáni

Thad leit ekki vel út med vedrid í gaer.
Ég heyrdi eitthvad undarlegt hljod thegar ég opnadi augun og aetladi bara ekki ad fatta hvad thetta var. Smam saman gerdi ég mér grein fyrir ad thad var ausandi, úrhellis rigning.
Gat sked, ég komin á sólarstrond og ekki einu sinni med regnhlíf med mér.
En thad raettist úr vedri eftir hádegi og vid fórum í fínan labbitúr medfram strondinni og yfir í gamla baeinn.
Í dag logdumst vid eins og tvo endurskinsmerki á bekk í sundlaugargardinum og vid tókum baedi heilmikinn lit thrátt fyrir sólarvorn nr. 10.
Síddegis fórum vid í spássiferd og tríttludum um throngar verslunargotur. Thad er greinilegt ad thad er ekki sér íslenskt vandmál karla ad fara med kerlum sínum í búdir, thad er althjódlegt. Maggi hefur varla haldid vatni yfir bol sem hann sá einn mann skarta. Thad var letrad á bumbuna "Hold so kjaeft kaerling."
Annars er thetta búid ad vera alveg afskaplega yndislegt og ég maeli med tessum stad. Hotelid er flott og allt fyrsta flokks.
Flugfélagid sem vid áttum ad ferdast med fór á hausinn og af thvi leidir ad vid verdum hér rúmlega hálfum sólarhring en upphaflega stód til.

|

22 september 2008

Klukk

Gréta klukkaði mig.
Það er þá að reyna að svara þessum spurningum.

Fjögur störf sem ég hef unnið um ævina:
1. Unglingavinnan í Kópavogi.
2. Silli og Valdi í Glæsibæ.
3. Ráðskona hjá Vegagerð ríkisins.
4. Skógrækt ríkisins á Hallormsstað.

Fjórar bíómyndir sem ég gæti horft á aftur og aftur:
1. Litle big man.
2. Thomas Crown affair.
3. Stella í orlofi.
4. Litle Miss Sunshine.

Fjórir staðir sem ég hef búið á:
1. Kópavogur.
2. Borgarfjörður eystra.
3. Vallahreppur.
4. Egilsstaðir.

Fjórir sjónvarpsþættir sem mér líkar.
1. Sporlaust.
2. CSI
3. Law and order.
4. Æi, ég man ekki eftir fleiri þáttum.

Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:
1. Hálendi Íslands.
2. Danmörk.
3. Spánn.
4. Þýskaland.

Fjórar bækur sem ég les oft í.
1. Íslensk orðabók.
2. Matreiðslubækur.
3. 24 stundir.
4. Litle book of hope.

Fjórir staðir sem ég vildi vera á núna.
1. Þar sem ég er núna.
2. Á sólarströnd.
3. Í Skógarkoti.
4. Í bólinu mínu.

Fjórar manneskjur sem ég skora á að svara þessu líka:
1. Nína vinkona.
2. Dandý.
3. Anna Berglind.
4. Guðlaug Björns.

Jæja, þetta er ágætt. Ég er farin til Spánar með Magga. Strandtaskan er næstum því tilbúin. Ég klára hana í kvöld þegar ég verð komin á hótelið. Hún er bara nokkuð góð hjá mér.
Eigið þið öll góðar stundir.

|

21 september 2008

Áfall

Það munaði minnstu að ég hefði þurft áfallahjálp í gær.
Kolgríma fór að heiman um það leyti sem við Maggi lögðum af stað í Spánarferðina í fyrrakvöld. Á leiðinni til Reykjavíkur var ég í sambandi við Siggu Bú sem er kattagæslukona um helgina og þó komið væri langt fram á kvöld bólaði ekkert á Kolgrímu.
Mér leist ekki á blikuna í gærmorgun þegar það kom í ljós að kisa var ekki enn komin heim. Hún hefur aldrei verið næturlangt að heiman.
Svo leið allur gærdagurinn án þess að Kolgríma léti sjá sig og ég var farin að kynna mér flug heim aftur.
En svo kom þessi elska loksins heim upp úr kvöldmat í gær. Glorsoltin. Sigga gaf henni stóran skammt af nammi og mat og ég get núna róleg haldið áfram ferð minni til Spánar, en það er brottför frá Keflavík í hádeginu á morgun.
Í gærkvöldi var veisla hér í Goðaborgum. Hjónaleysin Ragna og Funi, sonur Magga, komu og borðuðu með okkur Magga, Önnu Berglind og Nonna. Í forrétt var einn sá allra besti humar sem ég hef smakkað en Nonni aflaði hans. Svo var hreindýrsvöðvi sem við komum með að austan, lerkisveppasósa o.fl. Algert gúrme.
Loks var farið að sjá Fló á skinni og allir skemmtu sér vel.
Í dag er það Kolaportið, ég hef ekki komið þangað síðan í fyrra alla vega. Ég lenti á snyrtivörumarkað í Debenhams í gær svo nú þarf ég varla að líta á nokkurn hlut í Fríhöfninni á morgun.
En ég upplifiði nokkuð merkilegt í gær. Ég fór í Kringluna, alveg ótilhöfð, engin andlitsmálning og ég í gallabuxum og íþróttaskóm. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fer í Kringluna og skoða mig um alveg óáreitt. Mér var ekki einu sinni boðinn góður dagur í búðum. Venjulega, þegar ég mæti í svörtum buxum eða pilsi, fínum skóm og kápu, þá er tekið á móti mér með brosi og mér boðin þjónusta í verslunum. En í gær var mér ekki boðin nokkur einasta þjónusta í Kringlunni.
Athyglisverð upplifun.

|

18 september 2008

Stundum er ég eins og álfur

... út úr hól og lengst úti á túni.
T.d. þegar ég heyri ungar konur ræða meðgöngu og fæðingu. Þá fer ég að brjóta heilann um hvort það sé misminni að ég hafi gengið með tvö börn.
Ég man ekki eftir að til væri eitthvað sem heitir grindargliðnun. Nú er önnur hver ófrísk kona að kljást við það vandamál.
Ég minnist þess ekki að maður hafi fengið einhverja kynningu á hvernig fæðingadeild liti út, maður bara fór þangað þegar barnið var að koma í heiminn. Í dag fara foreldrar í sérstaka kynnisferð og sjá hvernig ljósmóðir og læknir líta út. Hvernig fæðingastofan er innréttuð og hvernig rúm nýfædda barnið verður lagt í. Ekkert skal koma á óvart.
Þetta er reyndar gott mál.
En í dag þegar ég var að kaupa í matinn í Bónus rakst ég á nokkuð sem fékk mig enn og einu sinni til að spyrja sjálfa mig hvort ég væri kona fædd á 18. eða 20. öld.
Ég sá nefnilega nokkuð sem kom mér mjög spánskt fyrir sjónir. Dömubindi með E-vítamíni.
Svei mér þá, ég sem hef alltaf haldið að E-vítamín væri eitthvað sem væri í matnum sem maður borðaði og meltingakerfið myndi skila út í líkamann.
Ég hlýt að þjást af E-vítamínskorti. Hvernig fá karlar E-vítamín? Þeir þurfa kannski ekki á því að halda.

|

Hálendið á leið út í hafsauga

Það er ekki fagurt yfir að líta á Héraði í dag.
Það er rétt að ég sjái norður í Fellabæ héðan frá Egilsstöðum, slíkur er mökkurinn sem berst ofan af hálendinu. Jökulleir úr fjöru Hálsalóns.
Áður en framkvæmdir hófust við Kárahnjúka fengum við stundum sandinn frá Dyngjuföllum yfir okkur, en það var ekki svona oft og svona skelfilegt eins og þessi sandstormur ofan af Kárahnjúkum.
Ég sé fyrir mér að með hverju árinu verði mökkurinn þykkari því smám saman eykst jökulleirinn sem sest í lónið og vestanvindurinn fær meiri jarðveg til að taka með sér út Hérað og út á haf.
Mig minnir að Landsvirkjun hafi talað um að hafa menn með garðslöngur til að vökva fjöruna meðan lónið væri að fyllast. Hvar eru þessir vökvunarmenn?

|

16 september 2008

Nýtt útlit

Mér tókst að koma nýju linsunum í augun.
Það var nú bara töluvert þrekvirki satt að segja og ég sé fyrir mér að ef ég næ ekki betri tökum á þessu þá verð ég að vakna kl. 5 á nóttunni til að koma linsunum í áður en ég fer í vinnuna.
En það er ótrúlegt að horfa út í buskann og sjá allt þó ég sé ekki með gleraugu. Ég sé betur en með gleraugunum, næstum bara í gegnum holt og hæðir.
Það er hvíld að taka niður gleraugun, ég er stundum svo þreytt í nebbanum.
Aðal ástæðan fyrir því að ég ákvað að fá mér linsur er aftur á móti löngunin að fá svona flott sólgleraugu eins og margir eru með. Mig hefur dreymt um að fá stór svört sólgleraugu og vera svolítið gelluleg eins og Sigga vinkona mín er. Hún er rosa skvísa með sólgleraugu eins og Jackie Kennedy.
Ég var svo heppin að augnlæknirinn ráðlagði mér að fara ekki í leisergeislaaðgerð, ég myndi ekki græða mikið á því. Ég er guðslifandi fegin að hafa fengið þá niðurstöðu því ég er orðin svo leið á að segja að ég þori ekki í augnaðgerð þegar fólk er að stinga upp á því við mig að fara í slíka aðgerð. Nú get ég verið kokhraust og vitnað í orð augnlæknisins.

|

15 september 2008

16 ára starfsaldur

Í dag eru 16 ár síðan ég byrjaði í núverandi starfi mínu.
Samt er ótrúlega stutt síðan.
Ef ekkert óvænt kemur upp í lífi mínu þá á ég eftir að vinna á þessum stað næstu 20 árin. Maður er nú ekkert að stökkva milli starfa ef allt gengur vel.
En sem ég fór nú að rifja það upp í huga mínum að ég væri búin að vera hér í þessu starfi í 16 ár, þá reyndi ég að ímynda mér hversu marga verkefnabunka ég hef afgreitt af skrifborðinu mínu. Örugglega heilt fjall. Og hvað skyldu hafa rúllað mörg kíló af pappír í gegnum prentarann hjá mér á þessum tíma? Eða ég drukkið marga lítra af kaffi á kostnað hins opinbera?
Það hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikið af kaffi ofan í mig síðan ég hóf störf í litlu bráðabyrgðahúsnæði niður á Selási 20, þann 15. september 1992. En það á vonandi eftir að renna enn meira vatn til sjávar þar til ég hætti hér árið 2028. Ég lofaði fyrsta yfirmanni mínum að vera ekki deginum lengur en til 17. nóvember það ár. Ætli það verði hjá því komist að standa við það.

|

13 september 2008

jæja

Björn hefur áttað sig á hvaða dagur er og leiðrétt bloggfærsluna sína.

|

12 september 2008

Hummmm

... skyldi maðurinn vita hvaða ár er?
Ekki veit hann hvaða dagur er, svo mikið er víst.
Svo velti ég því fyrir mér af hverju dómsmálaráðherra er ekki með http://www.domstolar.is/ á tenglasafninu sínu.
Fyrst ég er komin inn á þetta svið. Ég held að Margrét Frímannsdóttir verði að fara að huga að því að koma upp öldrunarþjónustu á Litla Hrauni, sbr. þessa frétt. Auk þessa gamla manns eru núna á Litla Hrauni Þjóðverji á sjötugsaldri og Hollendingur á áttræðisaldri.

|

10 september 2008

Ausandi vatnsveður

Í dag var ég á Höfn í Hornafirði.
Það ringdi og ringdi. Þegar ég lagði af stað heim leist mér eiginlega ekki alveg á blikuna. Það var rok og hellirigning í Lóni.
Ef ekki væri búið að laga veginn í Hvalnes- og Þvottárskriðum hefði hann örugglega verið ófær í kvöld. En nú er búin að setja vegrið meðfram veginum um skriðurnar, malbika og það sem mestu skiptir, það er búið að setja vegg sem stöðvar grjótið sem fellur úr fjallinu. Þannig að þó það rigndi eins og í syndaflóðinu gerði það ekkert til.
Ég hef varla séð aðra eins vatnavexti. Allar ár voru upp bólgnar og ég hef bara ekki séð önnur eins vatnsföll á Öxi.
En þetta gekk allt vel. Ég notaði tækifærið á Höfn og fór til augnlæknis. Svoleiðis þjónustu hef ég bara ekki geta nýtt mér á Austurlandi í 15 til 20 ár, eða síðan ég gafst upp á að fara til augnlæknisins sem landlæknir sendir okkur Héraðsmönnum. Það gerir svo sem ekkert til þó hann sé bæði ókurteis og hranalegur, það sem gerði útslagið hjá mér var þegar hann neitaði Önnu Berglind um gleraugu þegar hún var hætt að sjá á töfluna í skólanum. Ég veit nú ekki til hvers gleraugu eru ef ekki má nýta þau fyrir ung skólabörn. Enda fór ég með hana suður og þar fékk hún gleraugu og hefur gengið með gleraugu upp frá því, ja fyrir utan það að hún notar víst linsur í dag.
Í kvöld komu Anna systur, Guðlaug mágkona og Guðný Rós í Skógarkot og við áttum skemmtilegt dvd-kvöld, horfðum á frábæra írska gamanmynd, Waking Ned.

|

09 september 2008

Óskabarn þjóðarinnar

Óskaplega er leiðinlegt að lesa um gengi Eimskipafélagsins.
Óskabarn þjóðarinnar, sem á ekki nema 6 ár í aldarafmælið. Vonandi ná þeir að standa af sér brotsjói og komast út á lygnan sjó.
Kannski að innrammað hlutabréfið sem ég á frá 1914 sé verðmætara en einn hlutur í félaginu.

|

08 september 2008

Nú helgin er liðin

Skagfirðingar eru höfðingjar heim að sækja.
Við Soroptimistasystur fengum engar slordónamóttökur. Um hádegi á laugardag var móttaka á bænum Syðra Skörðugili og þar létu húsráðendur það ekki vefjast fyrir sér að taka á móti 40 konum í hádegismat.
Syðra Skörðugil er mikið myndar- og menningarheimili sem gaman var að heimsækja. Húsfreyjan snaraði sér svo í leiðsögumannshlutverk og sýndi okkur það helsta í Skagafirði. M.a. heimsóttum við kirkjuna að Víðimýri og fengum skemmtilega fræðslu hjá staðarhaldara.
Svo var haldið í Hrímnishöll. Ein af Skagafjarðarsystrum hefur, ásamt manni sínum, byggt myndarlegt hesthús með sýningaraðstöðu. Fyrst sýndi hún okkur manninn sinn á baki á gæðingi einum. Það var nú ekki leiðinleg sýning. Svo var höllin skoðuð og bornar fram kökur og kaffi. Gleymdi að segja að þegar við komum að Hrímnishöll var komið á móti okkur með drykki á bakka.
Þá var bara að skella sér að Bakkaflöt þar sem kvölddagskráin beið okkar. Einhverjar notuðu hléið fram að kvöldmat til að fara í heita pottinn þar sem tíminn var notaður til að setja saman brag sem við sungum fyrir norðankonur um kvöldið, en ég lagðist bara upp í rúm og gerði slökunaræfingar.
Svo tók við þriggja rétta kvöldverður, skemmtidagskrá og spjall og söngur fram á nótt.
Hingað til hef ég alltaf brunað stystu leið í gegnum Skagafjörð á leið minni til Reykjavíkur en hér eftir á ég eftir að líta þennan fallega stað öðrum augum.
Ég segi bara eins og ein Reykjavíkurdama sem þurfti að erinda á Sauðarkróki: Það er nú bara fallegt þarna fyrir norðan og það býr þarna bara venjulegt fólk.
Ég er strax farin að hlakka til að heimsækja Húsavíkursystur, en þær verða næst með móttöku fyrir okkur konur af Norður- og Austurlandi.

|

05 september 2008

Skín við sólu Skagafjörður

Þá er komið að haustferð okkar Soroptimistasystra.
Í dag brunum við Austurlandskonur norður í land til fundar við systur okkar á Norðurlandi.
Það verður gaman að eiga eina helgi í Skagafirði í skemmtilegum félagsskap.
Veðrið er yndislegt á Fljótsdalshéraði og morguninn fallegur. Ég held það hljóti að hafa verið næturfrost.

|

04 september 2008

Í krabbameinsskoðun

Ég er svo seinheppin þegar ég fer í krabbameinsskoðun.
Reyndar hef ég verið svo heppin hingað til að það hefur verið allt í lagi með mig, eða alla vega hafa krabbameinsleitendur ekki fundið neitt athugavert við mig.
Einu sinni fór rafmagnið af þegar ég var komin upp í þessa leiðindastöðu í stólnum og læknirinn bara sat þarna með hausinn milli fóta mér og spjallaði um daginn og veginn meðan hann beið eftir að það yrði aftur ljós.
Í morgun var ég í krabbameinsskoðun. Það gekk eiginlega allt á afturfótunum hjá mér. Ég vissi ekki að maður átti að fara niður í kjallara fyrst, skrá sig og borga fyrir skoðunina. Ég dreif mig upp og í bleika sæta dressið. Svo var ég rekin niður í dressinu til að borga. Þegar ég kom upp aftur upphófst mikil bið. Ég reyndi að vekja á mér athygli en það hafði lítið að segja. Loks kom hjúkka og athugaði af hverju ég var látin bíða og bíða. Þá kom upp úr dúrnum að ég var skráð kl. 16.10 en ekki 8.50. Eins gott að það uppgötvaðist, annars sæti ég enn á bleika dressinu, bíðandi eftir að nafnið mitt verði kallað upp.
Jæja svo hófst nú skoðunin. Brjóstin teygð, flött og kramin og teknar myndir í bak og fyrir. Svo skoðun í neðra og þegar ég loksins var búin var ég orðin svo samdauna bleika dressinu að ég var rétt farin út af spítalanum svona klædd. Ja það hefði eflaust vakið athygli ef ég hefði komið í vinnuna eins og bleikur öskupoki.
En þrátt fyrir að það fer alltaf allt í flækju hjá mér þegar ég mæti í skoðun þá er ég afskaplega þakklát fyrir að búa við þá góðu heilbrigðisþjónustu sem við íslenskar konum njótum, m.a. með því að okkur skuli vera boðin reglubundin krabbameinsskoðun í heimabyggð.
Allar konur ættu að svara kalli þegar bréfið frá Krabbameinsfélaginu berst.

|

03 september 2008

Ísland er svo lítið ...

eða Steinsættin og Grundarættin stórar.
Blessunin hún Ragnheiður mín Bragadóttir er farin suður og ég er búin að fá nýjan yfirmann, eina ferðina enn. Þetta er 5. yfirmaðurinn sem ég hef á 16 árum.
En hvað um það. Ég vissi akkúrat ekkert um nýja yfirmanninn minn áður en hann kom. Hafði reyndar frétt svona smávegis eins og að fyrir utan að hafa tilskylda menntun og reynslu í starfið, þá væri hann menntaður leikari.
Svo var það að við, ég og nýi yfirmaðurinn, sátum að spjalli fyrsta dag hans í starfi. Þá kom nú ýmislegt í ljós.
Hann heitir Halldór í höfuðið á afa mínum. Mamma hans heitir Anna Halldóra í höfuðið á ömmu og afa. Amma hans var uppeldissystir pabba og við erum skyld í 3. og 4. lið á tvo vegu.
Svona er lífið, alltaf að koma manni á óvart.
Í kvöld verð ég á Borgarfirði eystra að fagna 5 ára afmæli Soroptimistaklúbbs Austurlands. Það verður glatt á hjalla og bragðlaukarnir gladdir eins og venja er þegar Borgarfjarðarkonurnar elda ofan í okkur systurnar.

|

02 september 2008

Strúts-syndrom

Ég er illa haldin af strúts-syndromi.
Ég forðast það að skoða heimilisbankann minn því ég á ekki von á fallegum tölum í heimilisbókhaldinu. Það er einhvern veginn bara auðveldara að gera eins og strúturinn og stinga hausnum í sandinn.
Áðan þá mannaði ég mig upp í að skoða hvernig mánaðamótin komu út hjá mér og það var svo sem ekkert slæmt.
En skuldirnar, ég fékk áfall. Fyrir fjórum árum tók ég lán upp á 4 milljónir. Ég hef skilvíslega borgað af þessu láni og hvað haldið þið að eftirstöðvarnar hljóði upp á í dag, fjórum árum síðar??? 5.058.000 krónur!!!
Ja það verður bið á því að ég taki hausinn aftur upp úr sandinum og skoði heimilisbankann minn.

|