31 mars 2009

Góð hugmynd

Ég rakst á sniðuga frétt á visir.is
Þegar ég er orðin gömul þá get ég hugsað mér að taka þátt í svona starfi. Ég vil samt ekki vera leigð út á heimili með eintómum óþekktaormum og vandræðapésum.

|

30 mars 2009

Tilgangur með fréttamyndum.

Ég var að skoða mbl.is.
Þá rakst ég á þessa frétt héðan af Fljótsdalshéraði.
Eins og vonandi einhverjir vita er Fellabær á Fljótsdalshéraði og í fréttinni segir frá því að þakplötur hafi fokið af gróðrastöðinni Barra í vonsku veðri í nótt. Barri er rétt utan við Fellabæ.
Það sem vekur athygli mína er myndin sem fylgir fréttinni. Hún sýnir hús og bíl á kafi í snjó og í myndatexta segir að hún sé frá Grenivík.
Ég verð nú að viðurkenna að ég sé ekki samhengið á milli fréttarinnar og myndarinnar.
Þetta er ekki einu sinni neitt merkileg mynd. Hún nær ekki hughrifum vetrarstormsins sem fjallað er um í fréttinni.
Ég hélt að Mogginn ætti nú merkilegra myndasafn en þetta og gæti fundið myndir sem hæfðu hverri frétt. Hefði svi mér þá trúað því að þar á bæ væru til vetrarmyndir af Fljótsdalshéraði sem hægt væri að birta með fréttum af tilþrifum Veturs konungs á Héraði.

|

28 mars 2009

Davíð og Kristur

Ekki finnst mér nú Davíð eiga mikið sammerkt með Kristi.
En maður spyr sig, ef Davíð lítur á sig sem Krist, hvenær mun hann þá upp rísa? Og hvenær verður uppstigningadagur Davíðs? Hvar mun hann taka sæti???
Maður verður að fara að rifja upp Biblíusögurnar. Hver kyssti Davíð? Ekki Geir, hann vildi ekki vera Júdas. Maður fer nú bara að skilja ýmislegt.

|

28. mars

Ég sem hélt að vorið væri komið.
En veðrið er samt búið að vera yndislegt í dag, þrátt fyrir að snjórinn hafi aftur þakið jörðina.
Ég fékk mér góðan göngutúr niður í þorp í vetrarsólinni. Með lítinn bakpoka, nýja dökkbrúna hárið mitt og svört sólgleraugu. Það heilsaði mér enginn að fyrra bragði.
Í kaupfélaginu okkar er alls konar glingur á tombóluprís. Einhvern tíma hefði ég látið freistast, en ég er orðin svo varkár í peningaeyðslu eftir bankahrunið að ég lít á allt svona dót sem óþarfa.
Hins vegar keypti ég mér andlitskrem sem eiga að draga úr hrukkumyndun húðarinnar. Ég fyllti litla bakpokann af sjampói og kremum - kannski er það álíka óþarfi og þetta glingur sem ég lét ekki freistast af.
En kisurnar hafa alla vega áhuga á að skoða það sem ég kom með heim, þær eru á kafi í bakpokanum að reyna að finna út hvort eitthvað gott handa þeim leynist þar.

|

27 mars 2009

Nýtt útlit

Ég fór á hárgreiðslustofuna í gær og endurheimti gamla háralitinn minn.
Ekki þennan sem ég er örugglega með þarna undir niðri heldur þennan sem ég var með áður en ég fór að vera fastagestur í strípur.
Ég er sem sagt hætt að vera ljóska og er komin með brúnt hár.
Þetta er svona í takt við tíðarandann - hið nýja Ísland. Aftur til fortíðar. Að virða gömlu gildin.
Verst að hárið á mér er alveg jafn óekta á litinn og það var í bankahruninu - bara annar litur. En kannski verð ég komin með hið náttúrulega grásprengda hár mitt um það leyti sem Ísland rís úr öskustónni.

|

26 mars 2009

Sparifé

Ég hef verið að brjóta heilann um spariféð mitt.
Þegar ég var smá stelpa, þriggja ára skotta, þá eignaðist ég grænan sparibauk sem er eins og bók í laginu og honum fylgdi innlánsreikningur í KRON, Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis.
Ég á ennþá baukinn og sparisjóðsbókina sem fylgdi innlánsreikningnum en ég er hrædd um að ég geti ekki úr því sem komið er tekið út inneignina. Hvenær leið KRON undir lok?
Á sama ári og ég eignaðist KRON-baukinn gáfur amma og afi mér sparisjóðsbók í Búnaðarbankanum á Egilsstöðum. Sú inneign er glötuð fyrir margt löngu.
Í barnaskóla var maður látinn kaupa sparimerki sem maður límdi í þar til gerða bók. Þessi viðskipti fóru fram í skólastofunni. Ég var nú aldrei hrifin af þessum sparimerkjum. Keypti lítið af þeim sem betur fer því ég hef ekki hugmynd um hvert þetta sparifé fór.
Svo var það rétt fyrir 1970 að ég lagði inn svolitla upphæð á innlánsreikning hjá Sparisjóði Kópavogs. Innleggið var bundið í nokkur ár. Einhvern tíma mörgum árum eftir að inneignin átti að vera laus hafði ég samband við sparisjóðinn og fékk að vita að þar sem ég væri búin að týna sparisjóðsbókinni þá gæti ég ekki tekið peningan út.
Á unglingsárunum var dreginn lögboðinn skyldusparnaður af launum sem maður vann sér inn. Þessir aurar voru læstir bak við lás og slá og þurfti að uppfylla ýmis skilyrði til að fá að sjá þessar krónur aftur. Eitt ráðið var að gifta sig og ég notfærði mér það áður en verðbólgan, sem þá geysaði á Íslandi, náði að éta allan skyldusparnaðinn minn.
Þegar hér var komið sögu var ég ekki nálægt því að vera búin að brenna mig nógu oft á að reyna að leggja fyrir fé.
Ég gerðist áskrifandi að ríkisskuldabréfum, ég lagði fé á bankabækur og loks fjárfesti ég í hlutabréfum í bankanum mínum Kaupþing hf. Þar fékk ég greiddan arð í Existabréfum svo ég þóttist bara vera á grænni grein með mitt sparifé.
Ekki veit ég hvaða heilladísir höfðu nú tekið að sér að vakta sparipeningan mína. Ég sem hef ekki hundsvit á fjármálamarkaði fór að hafa efasemdir um að það gæti verið eðlilegt að gengi bréfanna óx og óx og óx eins og baunagrasið hans Jóa.
Haustið 2007 seldi ég allt þetta bréfarusl þrátt fyrir að slíkt þætti ekki gáfulegt á þeim tíma. Ég notaði andvirðið sl. sumar til að láta taka garðinn minn alveg í gegn, tyrfa lóðina, planta trjám og runnum o.fl.
Spariféð mitt á því loksins eftir að bera ávöxt, eftir alla þessa leit mína að heppilegu sparnaðarformi.

|

25 mars 2009

Loksins eitthvað áhugavert

Kannski maður taki sér ferð á hendur og fari í leikhús.
Þessi kommúnistasöngleikur á örugglega eftir að fara sigurför um heiminn.
Eða þannig sko.

|

24 mars 2009

Vorboðinn ljúfi

Norræna er farin að skila á land puttaferðalöngum.
Ég sá tvo á labbi áðan með klyfjar á bakinu. Þeir stefndu til Reyðarfjarðar.
Persónulega finnst mér ekki orðið nógu hlýtt til ferðast um landið á reiðskjótum postulanna, en það er sennilega bara kerlingarkuldi í mér.

|

22 mars 2009

Þar kom að því.

Ekki hef ég nú mikinn áhuga á fótbolta.
Hópur fullorðinna karlmanna hlaupandi um túnið og reyna að ná völdum yfir einum bolta. Missa sig alveg ef boltinn hafnar í markinu, hoppa hver upp á annan, faðmast og veltast um í einni kös í grasinu.
Fjöldi manna á áhorfendapöllum á vellinum eða við sjónvarpið heima í stofu á barmi taugaáfalls við að fylgjast með ferð boltans um völlinn.
Frekar undarleg hegðun.
Þess vegna fylgist ég afskaplega lítið með því hvað gerist í heimi fótboltamanna. Auðvitað kemst maður ekki hjá því að meðtaka eitthvað af boltafréttum. Í dag rakst ég á frétt sem gladdi mig. Ísland 1 mark - Færeyjar 2 mörk.

|

20 mars 2009

Hvað það er dásamlegt vorveðrið

Snæfellið var eins og rjómaterta í morgunsólinni.
Sólin skín sæt og fín og ég ætla að taka hjólið mitt í notkun í hádeginu. Ohhh ég hlakka til að hjóla.
Maggi stakk upp á skemmtiferð til Akureyrar á morgun. Svo nú hef ég daginn til að brjóta heilann um hvort ég verð kærulaus og set kaffi í brúsa og nesti í box og bruna norður í fyrramálið, eða hvort ég verð samviskusemin uppmáluð og nota morgundaginn til að vinna eitt verkefni sem ég tók að mér.
Ég hef auðvitað sunnudaginn upp á að hlaupa. Ætti maður ekki bara að skella sér norður? Ég var nú að græða tuttugu þúsund kall í bankanum áðan þegar ég ætlaði að fara að borga reikning sem ég reyndist hafa borgað fyrir mánuði síðan.

|

19 mars 2009

Að segja það sem máli skiptir

Alltaf er nú gott að fá mikilvægar upplýsingar.
En ég fatta ekki alveg hvað blaðamaðurinn er að fara í þessari frétt um gróskumikla kannabisræktun:
Skráður eigandi af iðnaðarhúsnæðinu, og annar hinna handteknu, er tuttugu og sex ára gamall karlmaður og er af höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt upplýsingasíðum á veraldavefnum þá er hann nokkuð metnaðargjarn hundaeigandi og á hunda af tegundinni French Mastiff.
Hvað koma þessir hundar málinu við?

|

16 mars 2009

Mín ástkæra heimabyggð

Það var vor í lofti þegar ég kom heim úr vinnunni í dag.
Ég ákvað að spássera um bæinn, fara fótgangandi niður á spítala og þaðan niður í Bónus að versla til heimilisins.
Elsku bærinn mínn. Egilsstaðir árið 2009. Mishæðótt malargatan frá sjúkrahúsinu, karamellulitaðir pollar af ýmsum stærðum, hálfbyggt stórhýsi í hjarta bæjarinns. Hvað þetta minnti mig allt á bernskuárin í Kópavogi.
Ég andaði að mér fersku vorloftinu. En hvað allt er dásamlegt. Ryoal búðingurinn í sömu umbúðum og á 7. áratugnum, sama má segja um þunna norska hrökkbrauðið. Allt eins fyrir 40 árum.
Í dag krækti ég reyndar fyrir pollana í stað þess að hoppa ofan í þá.

|

15 mars 2009

Þau eiga afmæli í dag

Mamma er 88 ára í dag og kærastinn minn 52 ára.
Af því tilefni hef ég bakað franska súkkulaðiköku og er að fara niður á Seyðisfjörð með hana þar sem hún verður snædd með afmæliskaffinu. Guðlaug mætir með bláberjapæ svo það stefnir í góða afmælisveislu.
Maggi ætlar loksins að koma með mér að heimsækja mömmu. Ég er oft búin að segja mömmu sögur af kærastanum, hvað hann sé myndarlegur og skemmtilegur, en ekki hefur mér tekist að draga hann yfir Fjarðarheiðina til að heilsa upp á aldraða móður mína.
Síðast þegar ég heimsótti mömmu sagðist hún vera farin að halda að þessi kærasti minn væri bara tilbúningur, svo loks lét Maggi undan, safnaði kjarki og samþykkti að koma með mér.
Kreppuhlekkirnir eru að falla af mér með hækkandi sól og ég er farin að ferðast um heiminn á Google earth og við Maggi látum okkur dreyma um ferð út í heim í sumar. Nokkuð sem ég hef sko ekki verið til viðtals um í allan vetur.
Hvort sem við förum til Ítalíu eða Tyrklands, upp á hálendi Íslands eða bara í lautarferð út í skóg þá er ég farin að hlakka til sumarsins.

|

14 mars 2009

Vor í sálinni

... þó úti sé allt á kafi í snjó.
Ég er komin svolítið fram úr sjálfri mér. Farin að lifa sumarið í huganum. Stússa í garðinum, bera á pallinn, ferðast á fjöll, farin til útlanda og snurfussa allt innandyra jafnt sem utan í Skógarkoti.
Það styttist í jafndægur að vori. Í dag ætla ég í Blómaval, kaupa kryddjurtafræ og mold og leggja drög að smá ræktun. Svo er ég líka að spá í tilraunabakstur fyrir fermingu Berglindar Rósar Nínudóttur.
Annars held ég að taki lífinu bara með ró og reyni aðeins að snyrta húsið. Kisurnar eru svo mikið inni núna og það eykur hreingerningaþörfina á heimilinu.
Kolgríma lagðist í húsfreyjustólinn fyrir nokkrum vikum og hefur varla farið fram úr honum nema rétt svona til að sinna sínum brýnustu þörfum.

|

13 mars 2009

Lötu Grétu hafa borist bréf frá lesendum

þar er kvartað yfir bloggleti Lötu Grétu.
Ekki veit ég hvað menn eru að kvarta, það eru allir hættir að kommenta.
En hvað um það. Í kvöld á ég í mikilli innri baráttu. Minn kæri Kópavogur, þar sem ég sleit barnsskónum, er að fara að keppa í úrslitum í Útsvari við mitt fagra Fljótsdalshérað, þar sem ég hef alið manninn meirihluta ævinnar.
En ég held samt með Fljótsdalshéraði þótt Kópavogur sé nafli alheimsins.
Í dag ákvað ég að hafa það eins og stjórnmálamennirnir og láta sem ekkert amaði að í efnahagsmálum þjóðarinnar. Fór og keypti mér fínt ilmvatn og sökkti mér ofan í glanslegar auglýsingar um utanlandsferðir.
Kannski maður bara skelli sér bara til Ítalíu í sumar og snæði spagetti á sólarströnd.
En alla vega, þá er hér í Skógarkoti tilbúin skyrterta með karamellu og súkkulaði og hún verður snædd þegar ég fanga sigri, hvort liðið sem vinnur.
Áfram Fljótsdalshérað - þið eruð búin að standa ykkur frábærlega.

|

04 mars 2009

Nú frostið úti fýkur

Eiginlega ætti ég að vera á leiðinni á fund.
Í kvöld átti að halda aðalfund Soroptimistaklúbbs Austurlands en þar sem veðurútlitið var afleitt var honum frestað um viku.
Nú er ég því komin heim úr vinnunni og ætla að njóta þess að eiga huggulegt kvöld með kærastanum og köttunum. Elda góðan mat og hafa það virkilega notalegt.
Merkilegt hvað mér líður alltaf vel þegar veðrið er brjálað og ég er heima - svo framarlega sem enginn er í hættu staddur þarna úti í óveðrinu.
Kannski af því að það passar svo ágætlega að koma sér vel fyrir með bók þegar það er vont veður - það einhvern veginn passar ekki eins vel að sökkva sér niður í lestur í fallegu veðri.
Ég er að lesa rosalega spennandi bók, Verðir sáttmálans eftir Tom Egeland. Næstum of spennandi fyrir mig.

|

02 mars 2009

Kisurnar í Skógarkoti

Þær eru búnar að vera skemmtilegar í kvöld Klófríður og Kolgríma.
Klófríður gerði sér lítið fyrir og náði í nammidallinn. Með lagni tókst henni að opna hann og stela sér smá nammi. Einstaklega gáfaður köttur.
Kolgríma lætur sér fátt um finnast þótt kveikt sé á sjónvarpinu. En síðasta mánudagskvöld var fjallað um lífið í kálgarðinum þar sem búa alls konar skordýr. Þetta þótti Kolgrímu minni mjög áhugavert og hoppaði upp á skenkinn sem sjónvarpið stendur á og stóð alveg límd við skerminn.
Í kvöld var hún bara að leggja sig inn í herbergi en áðan þegar seinni hluti kálgarðsmyndarinnar byrjaði kom hún skokkandi, stökk beint upp á sjónvarpsskenkinn og er núna límd við sjónvarpið.
Ekki veit ég hvað fékk hana til að rífa sig upp frá blundinum, rödd þularins eða skordýrahljóðið í myndinni.
Alltaf eru þessar kisur að koma manni á óvart.

|

01 mars 2009

Nú helgin er liðin

... og aldrei hún kemur til baka.
Veðrið hefur verið eins fallegt á Héraði og hugsast getur á veturna. Sól, logn og ekkert mikið frost.
Í morgun komu nokkrar vinkonur í náttfatabröns. Þær svindluðu reyndar svolítið nema Nína, hún var sú eina sem mætti á náttfötunum. Hinar afsökuðu sig með því að eiga ekki skapleg náttföt eða að hafa verið að koma úr flugi og ekki kunnað við að fljúga frá Reykjavík í náttfötunum til að mæta beint í brönsinn.
Jæja, það má alltaf finna afsakanir fyrir hlutunum.
Eftir hádegi fórum við Klófríður í spássitúr. Kisa var kát með að fá að fara með mér og skottaðist í kringum mig inn götu og niður í áttina að bænum. Ég leyfði henni að koma með því ég ætlaði bara að fara einn lítinn hring í hverfinu okkar.
Það var svolítið tafsamt að hafa kisu með því hún þurfti að rannsaka eitt og annað á leiðinni, en alltaf kom þessi elska á eftir mér að lokum þar til við vorum rétt að koma heim í Skógarkot aftur. Þá sá hún kött sem hún þurfti að blanda geði við svo ég lét hana bara eiga sig.
Maggi er kominn heill heim af fjöllum. Hann var með 4x4 köppum á þorrablóti í Kverkfjöllum. Færi var þungt og ferðin gekk hægt, bæði inneftir og heim aftur.
Það var bara gott að ég ákvað að vera heima og njóta helgarinnar í félagsskap katta og vinkvenna.

|