Ég hef verið að brjóta heilann um spariféð mitt.
Þegar ég var smá stelpa, þriggja ára skotta, þá eignaðist ég grænan sparibauk sem er eins og bók í laginu og honum fylgdi innlánsreikningur í KRON, Kaupfélagi Reykjavíkur og nágrennis.
Ég á ennþá baukinn og sparisjóðsbókina sem fylgdi innlánsreikningnum en ég er hrædd um að ég geti ekki úr því sem komið er tekið út inneignina. Hvenær leið KRON undir lok?
Á sama ári og ég eignaðist KRON-baukinn gáfur amma og afi mér sparisjóðsbók í Búnaðarbankanum á Egilsstöðum. Sú inneign er glötuð fyrir margt löngu.
Í barnaskóla var maður látinn kaupa sparimerki sem maður límdi í þar til gerða bók. Þessi viðskipti fóru fram í skólastofunni. Ég var nú aldrei hrifin af þessum sparimerkjum. Keypti lítið af þeim sem betur fer því ég hef ekki hugmynd um hvert þetta sparifé fór.
Svo var það rétt fyrir 1970 að ég lagði inn svolitla upphæð á innlánsreikning hjá Sparisjóði Kópavogs. Innleggið var bundið í nokkur ár. Einhvern tíma mörgum árum eftir að inneignin átti að vera laus hafði ég samband við sparisjóðinn og fékk að vita að þar sem ég væri búin að týna sparisjóðsbókinni þá gæti ég ekki tekið peningan út.
Á unglingsárunum var dreginn lögboðinn skyldusparnaður af launum sem maður vann sér inn. Þessir aurar voru læstir bak við lás og slá og þurfti að uppfylla ýmis skilyrði til að fá að sjá þessar krónur aftur. Eitt ráðið var að gifta sig og ég notfærði mér það áður en verðbólgan, sem þá geysaði á Íslandi, náði að éta allan skyldusparnaðinn minn.
Þegar hér var komið sögu var ég ekki nálægt því að vera búin að brenna mig nógu oft á að reyna að leggja fyrir fé.
Ég gerðist áskrifandi að ríkisskuldabréfum, ég lagði fé á bankabækur og loks fjárfesti ég í hlutabréfum í bankanum mínum Kaupþing hf. Þar fékk ég greiddan arð í Existabréfum svo ég þóttist bara vera á grænni grein með mitt sparifé.
Ekki veit ég hvaða heilladísir höfðu nú tekið að sér að vakta sparipeningan mína. Ég sem hef ekki hundsvit á fjármálamarkaði fór að hafa efasemdir um að það gæti verið eðlilegt að gengi bréfanna óx og óx og óx eins og baunagrasið hans Jóa.
Haustið 2007 seldi ég allt þetta bréfarusl þrátt fyrir að slíkt þætti ekki gáfulegt á þeim tíma. Ég notaði andvirðið sl. sumar til að láta taka garðinn minn alveg í gegn, tyrfa lóðina, planta trjám og runnum o.fl.
Spariféð mitt á því loksins eftir að bera ávöxt, eftir alla þessa leit mína að heppilegu sparnaðarformi.