Tími til að gleðjast
Allar konur eru sérstakar.
Einhvern veginn þannig hljómar ein sú fallegasta auglýsing sem ég hef séð. Hún er frá Baðhúsinu og sýnir mynd af fallegri nakinni konu. Konan er 41 árs, myndarleg, kvenleg og hugrökk að láta birta þessa mynd af sér því hún er með venjulegt hold utan á sér, en er ekki bara beinin og bjórinn. Þetta er mjög sérstök kona og Baðhúsið fær stóran plús fyrir þessa auglýsingu.
Af mér er það að frétta að nú er komið að síðustu vergöngunóttinni hjá mér.
Nú er þessu undarlega sumri að ljúka. Ég hugsaði í vor að þó ég vildi að sumarið yrði sem lengst þá vildi ég samt að það liði hratt því ég hlakkaði til að komast í húsið. Og nú er biðin á enda.
Vaskir menn, þeir feðgar Maggi og Fannar komu í dag og báru allt það sem eftir var í gámnum inn í bílskúr. Meðan við sátum og spjölluðum inn í stofu að verki loknu komu Eimskipsmenn og tóku gáminn án þess að gera vart við sig. Gott að það var enginn inn í gámnum þegar þeir komu, annars væri sá hinn sami núna á Reyðarfirði.