30 ágúst 2007

Tími til að gleðjast

Allar konur eru sérstakar.
Einhvern veginn þannig hljómar ein sú fallegasta auglýsing sem ég hef séð. Hún er frá Baðhúsinu og sýnir mynd af fallegri nakinni konu. Konan er 41 árs, myndarleg, kvenleg og hugrökk að láta birta þessa mynd af sér því hún er með venjulegt hold utan á sér, en er ekki bara beinin og bjórinn. Þetta er mjög sérstök kona og Baðhúsið fær stóran plús fyrir þessa auglýsingu.
Af mér er það að frétta að nú er komið að síðustu vergöngunóttinni hjá mér.
Nú er þessu undarlega sumri að ljúka. Ég hugsaði í vor að þó ég vildi að sumarið yrði sem lengst þá vildi ég samt að það liði hratt því ég hlakkaði til að komast í húsið. Og nú er biðin á enda.
Vaskir menn, þeir feðgar Maggi og Fannar komu í dag og báru allt það sem eftir var í gámnum inn í bílskúr. Meðan við sátum og spjölluðum inn í stofu að verki loknu komu Eimskipsmenn og tóku gáminn án þess að gera vart við sig. Gott að það var enginn inn í gámnum þegar þeir komu, annars væri sá hinn sami núna á Reyðarfirði.

|

29 ágúst 2007

Iðnaðarmenn

Iðnaðarmenn eru sér þjóðflokkur.
Ég veit um iðnaðarmenn í Reykjavík sem fengu borgað fyrir verk í maí sl. og eftir ítrekaðar kvartanir verkkaupa var verkið loks unnið núna um miðjan ágúst.
Svo les maður alls konar hryllingssögur af fólki sem lendir í svikulum klóm iðnaðarmanna.
Hér fyrir austan ganga hlutirnir betur. Að vísu hefur þetta gengið upp og ofan í sumar með Skógarkotið af því að undirverktakar hafa ekki mætt á staðinn. En þessar elskur hér á Egilsstöðum fá 10+ í einkunn.
Í gær þurfti ég að fara í Mylluna og fá smíðaðan járnfót undir borðstofuljósið mitt því loftið hallar um 22° (þetta er ekki leyndur galli, húsið er teiknað svona). Það tók Sigga Clausen 2 tíma að búa til þennan fína ljósafót handa mér.
Ég var að vandræðast með að tengja þvottavélina og þegar ég ætlaði að skoða hvernig ætti að gera þetta þá var bara búið að tengja hana þeygjandi og hljóðalaust. Bjössi yfirsmiður átti leið framhjá henni og bara kviss bang, vélin tengd.
Það er svolítið skrýtið að vera að flytja í götu sem er í smíðum, ég hef aldrei áður gert það. Hins vegar er það sárabót að ég hef alveg helling af flottum og vöðvastæltum körlum til að horfa á. Ég veit ekki hvaðan þeir eru, sennilega eru þeir flestir frá Póllandi.
En ég er eiginlega komin á þá skoðun að Markús smiður og Kristján rafvirki hafi fylgt húsinu því þeir eru enn að dunda í Skógarkoti.
Það er fínn kaupbætir með góðu húsi.

|

26 ágúst 2007

Í skóginum

Dagskráin í gær gekk eftir.
Eða þar til kom að lið 10. Ég fór reyndar í mitt ból í Kelduskógunum en ég var svo þreytt eftir daginn að ég sleppti síðustu pílagrímsferðinni í Skógarkot.
Þakka allar góðar kveðjur og óskir sem ég fékk í gær. Þetta var alveg ógleymanlegur dagur. Bjössi yfirsmiður kom og færði mér konfektskál og fallegt kort. Mér þótti náttúrulega mjög vænt um það.
Skógarkotið er voða fínt. Hreindýraveislan í tjaldinu lukkaðist vel og tarfurinn var lungamjúkur. Simmi og Jói voru veislustjórar og Simmi rifjaði upp sögur frá bernsku- og unglingsárum sínum hér á Egilsstöðum sem voru frekar skrautleg. Charles Ross var útnefndur bæjarlistarmaður og það fór vel á því.
Dagurinn leið við stanslausa gleði og gaman. Loks var fjölmennt ball í Valaskjálf og ég held að ég hafi örugglega yfirgefið staðinn fyrst af öllum því það var mjög mikið stuð í liðinu, en ég var bara alveg búin með alla orku.
Vinir og vandamenn, ég vona að þið verðið öll dugleg að hafa upp á mér á nýjum stað. Þetta er auðþekkt, eins og einn flutningabílstjóri sagði eftir að vera búinn að fara í allar göturnar í hverfinu að leita að Skógarkoti "Nú, er þetta við ómerktu götuna". Veit ekki af hverju allar hinar voru merktar en ekki Bjarkarselið. Minnir á vonbrigðin sem ég upplifði, þegar ég var á fjórða ári, við fermingarmessu elsta bróður míns og uppgötvaði að allar stelpurnar voru með rós í hárinu nema Gissur bróðir.

|

25 ágúst 2007

25. ágúst 2007

Þá er þessi langþráði dagur runninn upp.
Og hvað skyldi frú Rannveig svo gera á þessum merka degi? Jú, dagskráin er:

1. Kl. 9.00. Fjáröflunarverkefni með systrum mínum Soroptimistum. Alþrif á nýju húsi sem verður afhent í dag.
2. Dáðst að Skógarkoti.
3. Kl. 13.00. Formleg afhending á Skógarkoti.
4. Telja hvað margir karlar fylgja með Skógarkoti - ætli það verði nokkur.
5. Móttaka á nokkrum fílefldum og myndarlegum karlmönnum í Skógarkoti. Þeir verða með ýmsar eigur mína meðferðis.
6. Dáðst að Skógarkoti.
7. Kl. 18.00. Hreindýraveisla og skemmtun í miðbæ Egilsstaða. Heilgrillaður hreindýratarfur, hrútaber o.fl.
8. Upp í skóg að dáðst að Skógarkoti.
9. Nostalgíuball í Valaskjálf. Dúkkulísurnar o.fl. hljómsveitir. M.a. Austurland að Glettingi sem hefur á að skipa yfirsmiðnum og píparanum í Skógarkoti. Feikna skemmtileg hljómsveit. Dansað fram á rauða nótt.
10. Kíkja upp í skóg og dáðst að Skógarkoti áður en ég fer í háttinn í Kelduskógum.

Þannig er nú planið hjá mér í dag. Svo þarf ég að fara að fjárfesta í eyrnatöppum handa vinum og vandamönnum sem hafa sýnt mér ómælda þolinmæði þegar ég mala stanslaust um Skógarkotið.

|

24 ágúst 2007

Klofningur

Líkami minn situr við skrifborðið í vinnunni.
Andi minn flögrar um í skóginum þar sem sólin skín.

|

23 ágúst 2007

Langlífi

Þá veit ég það.
Ég hef alltaf haldið að langlífi réðist að stórum hluta af einhverjum genatengdum líffræðilegum þáttum.
Kerlingarnar í móðurættinni minni verða allra kerlinga elstar.
Langamma mín, Grasa-Þórunn, komst á tíræðisaldur. Ég hef alltaf haft það bak við eyrað að hún ku hafa drukkið svart kaffi frá morgni til kvölds. Þess vegna tamdi ég mér það fyrir 20 árum að drekka bara svart kaffi.
En svo skýrir Mogginn frá því að einhverjar rannsóknir í útlandinu sýni að langlífi kvenna ráðist af því hversu eftirlátar þær eru eiginmönnum sínum.
Jæja, þá get ég slakað á í kaffidrykkjunni. Hún langamma fussaði og sveiaði, klippti hár sitt stutt og sprangaði um í slorugum sjógallanum þegar hann langafi kom alla leiðina austan úr Skaftafellssýslu suður á Reykjanes að hitta langalangafa til að falast eftir henni langömmu.
Þarna liggur hundurinn grafinn. Ég verð að temja mér að vera ákveðin ef ske kynni að karl ræki á fjörur mínar.

|

22 ágúst 2007

Allir draumar geta ræst

eða alla vega næstum allir.
Það er sagt að orð séu til alls fyrst. En á undan þeim hlýtur að hafa vaknað draumur.
Sumir draumar rætast næstum strax, aðrir eftir ár eða áratugi. Sumir draumar eru svo stórir að við höfum ekki trú á að þeir rætist. En samt ...
Draumurinn minn sem er um það bil að rætast kviknaði 5. febrúar 2006.
Draumurinn um Skógarkot.
Þetta virtist heldur stór og fjarlægur draumur, ég hef líka nokkrum sinnum á leiðinni misst trú á að hann myndi rætast. En núna, eftir ríflega 18 mánuði er hann að koma fram.
Næsta laugardag fæ ég draumahúsið mitt afhent. Alveg fullbúið. Mér finnst næstum allt tilbúið, ég gæti bara flutt inn á morgun. En það eitthvað smávegis eftir eins og að tengja dyrabjölluna, festa upp útiljós, hleypa á vatninu og rafmagninu og festa höldurnar á allar innréttingarnar.
Ég er hætt að sofa á nóttunni því draumurinn minn er farinn að halda fyrir mér vöku.

|

21 ágúst 2007

Feit fegurð

Mamma sló mér alveg óvænta gullhamra.
Ég fór til hennar í gærkvöldi, hún horfði á mig og sagði "Ég hef aldrei séð þig svona feita Rannveig mín, þetta fer þér mjög vel. Þú ert falleg svona."
Hummmm, ég sem hef verið í mislukkaðri megrun síðan um fermingu, ég held ég hætti öllu megrunarstússi því mamma er mjög hreinskilin og segir aldrei nema það sem henni býr í brjósti.
Feit og falleg það er málið.

|

19 ágúst 2007

Lystitúr og list

Þórhallur Þorsteins bauð í lystitúr í gær.
Ferðinni var heitið í Víkur sunnan Borgarfjarðar. Ég sagði honum að ég væri pestargemsi en ef hann nennti að hafa svoleiðis ferðafélaga þá væri ég til.
Við komum í Breiðuvík og það var skýjað niður í miðjar fjallshlíðar. Þegar niður að skála kom sagði Þórhallur að nú ætti ég að hjálpa honum að bera eldiviðarpokana úr bílnum. Ég bað hann vel að lifa og fór í berjamó. Ég tíndi aðalbláber handa Þórhalli en hafði krækiberin fyrir sjálfa mig.
Að lokinni kaffidrykkju og spjalli við skálagesti var haldið yfir til Húsavíkur og þá var nú heldur betur farið að létta til.
Víkur eru leikgarður þokunnar og það er óborganlegt að fylgjasta með henni koma inn eins og ormur eða slæða, vefja sig um fjöllin en topparnir standa upp úr. Hvítserkurinn sýndi öll sín fallegu litbrigði í kvöldsólinni en þokan skreið við fjallsræturnar.
Í dag var Eivör Pálsdóttir með tónleika í Hallormsstaðaskógi. Ég ætla ekki að reyna að lýsa þeim því Eivör er engri lík, sannkallað náttúruundur og skógurinn, baðaður sól, var fallegt svið sem hæfði þessari einstöku söngkonu.

|

17 ágúst 2007

Ormsteitið ...

... fer vel af stað.
Sólin skín og fyrir hádegi fór Lára Vilbergs um bæinn og safnaði öllum börnum bæjarins saman í rútu. Það á að fara að gera eitthvað skemmtilegt.
Lára er ríflega þyngdar sinnar virði í gulli og grænum skógum fyrir Fljótsdalshérað því hún á allan heiðurinn af þessari skemmtilegu bæjarhátíð.
Í gær skrapp ég í Kverkfjöll og Snæfell með Magga og pestarskíturinn sem sullaði í mér áður en ég lagði af stað hefur heldur betur sótt í sig veðrið í þessari fjallaferð.
Nú er ég nánast við dauðans dyr og sé ekki fram á að geta mætt í hverfagrill í kvöld.
Reyndar hvarflaði að mér í morgun að ég væri komin til himna. Ég skrapp í Skógarkot og þangað var þá mætt enn eitt málaragengi. Ekki veit ég hvar Sæmi fann þessa hvítklæddu flottu kappa en miðað við útlitið á þeim þá er ég helst á því að þeir komi frá himnaríki.
Ég sé að Kaupþing er að halda veglega upp á 25 ára afmæli bankans. Fyrir u.þ.b. 45 árum eignaðist ég bankabók hjá bankastofnun sem hét þá Búnaðabanki Íslands en heitir í dag Kaupþing og er að halda upp á 25 ára afmæli sitt. Ég verð að viðurkenna að ég hef alltaf átt erfitt með að skilja reiknisaðferðir bankastofnana.

|

15 ágúst 2007

Alþjóðlega samvinnuverkefnið

Bara 10 dagar eftir.
Ég sé að það á að efna til mikillar hátíðar hér á Egilsstöðum daginn sem ég fæ Skógarkotið. Hreindýraveisla í miðbænum, grillaður hreindýrstarfur og nýtt grænmeti á boðstólum. Maður mætir auðvitað og svo er húllum hæ á eftir.
Ég hef verið að velta vöngum yfir þessu alþjóðlega samfélagi iðnaðar- og verkamanna í Bjarkarselinu. Ég er ekki viss af hversu mörgum þjóðernum þessar hendur eru sem hafa unnið við Skógarkotið. En hvað er það sem dregur alla þessa menn hingað? Auðvitað eru það margar ástæður eins og bágt atvinnuástand heima fyrir, ævintýraþrá o.fl.
T.d. skosku feðgarnir sem hafa verið að vinna við að mála. Ég spjallaði við pabbann um daginn, vinalegasti karl sem sagði mér að þeir væru bara tímabundið hér því fjölskyldan væri nýlega flutt frá Skotlandi til Kanada og þeir færu þangað þegar þeir væru búnir hér á Egilsstöðum.
Það átti að koma einhver sænsk stelpa, málarameistari, en hún lét ekki sjá sig.
Það er eins og hálf heimsbyggðin sé á faraldsfæti.

|

14 ágúst 2007

Regn, regn, regn

Er þetta ekki bara að verða gott.
Ég bað um smá regn um daginn til að Grislingur skilaði sér heim. Hann er kominn í leitirnar svo nú má alvega hætta að rigna.
Það er svo haustlegt og búið að vera núna síðustu daga. Lemjandi riging og skýin hanga alveg niður að húsþökum.
Í gær brá ég mér upp að Ufsarstíflu á Eyjabökkum til að heilsa upp á hana systur mína. Þar var auðvitað skítaveður og það litla sem ég sá af Snæfellinu bar með sér að það hafði snjóað nóttina áður alveg niður fyrir miðjar hlíðar.
Ekki veit ég hvað kom yfir mig þarna upp á fjöllum en það heltist yfir mig þvílík þreyta og ég skreið upp í rúm og steinsvaf þar til að kominn var tími til að halda heim á leið.
Í gærkvöldi var ég svo komin með hálsbólgu og kvef. Ég er farin að halda að það eigi að gera út af við mig í sumar. Sumarfríið mitt er búið, ég fer að vinna á fimmtudag. Ég sem ætlaði að nota það til að koma mér fyrir í Skógarkoti.
Jæja, það þýðir víst lítið að grenja, en ég vildi gjarnan fá skárra veður takk. Alla vega á meðan á bæjarhátiðinni okkar stendur. Spurning í hvaða liði svona vergöngukerling á heima og hvert á ég að mæta í götugrill???

|

13 ágúst 2007

Klukk

Gréta kom mér í vandræði með því að klukka mig.
Hver fann upp á þessari vitleysu í bloggheimum?
Jæja, ég á að tiltaka 8 staðreyndir um mig. Ég sagði Grétu að það væri ekki víst að allar staðreyndir um mig væru opinberlega birtingahæfar.
Eftir smá umhugsun og ritskoðun þá held ég að ég geti sagt að:
1. Mér þykir óhemju gott og gaman að borða.
2. Ég þarf að losna við 10 - 15 kg til að geta haldið áfram að borða.
3. Ég elska að liggja í freyðibaði.
4. Mig dreymir um að leggjast í grænan dýjamosa sem er þakinn daggarperlum.
5. Mér hættir til að aka helst til hratt úti á þjóðvegunum.
6. Ég hef drukkið kaffi frá því að ég var 4 ára.
7. Það er ekki í tengslum við lið 6, en þegar ég var á fjórða ári var mér vísað úr kirkju (hver sagði - leyfið börnunum að koma til mín?)
8. Mér þykir gaman að lesa en hef ekki tekið eins miklu ástfóstri við neina sögu eins og tékkneska ævintýrið um Lötu stelpuna, næst henni kemur kvenspæjarinn í Botsvana sem hefur hefðbundið vaxtarlag og notar föt nr. 20.

En ég verð víst að klukka einhverja, látum okkur nú sjá, þá er helst að mér detti í hug Lambið mitt, Tóta, Dandý og R.Ben ef hún er enn á lífi í bloggheimum.

En fréttir dagsins í minni tilveru: Það er byrjað að eiga við það að setja upp eldhúsinnréttingu í Skógarkoti.

|

12 ágúst 2007

Af húsnæðsmálum

Það er mikið að gerast í húsnæðismálum okkar mæðgna.
Örverpið og unnusti hennar fá afhenta fallega íbúð í dag. Hún er lengst upp í sveit í Reykjavík, í Grafarvoginum. Það verður gott fyrir svona landsbyggðarkonu eins og mig að fá að dvelja þar og horfa á Esjuna, geta labbað niður í eina af þessum fáu náttúrlegu fjörum sem Reykvíkingar eiga eftir og svei mér ef það er ekki bara holt þarna rétt hjá þar sem er smá berjalyng.
Ég óska krökkunum til hamingju með húsnæðið.
Frumburðurinn og eiginmaður hennar leita logandi ljósi að huggulegri íbúð í 101 Reykjavík, enda eru þau óttalegar miðbæjarrottur. Þau eru komin með augastað á einni og ég verð að segja að það verður mjög þægilegt fyrir svona gamla dreifbýliskonu eins og mig að geta valið um gistingu í 101 og í hinu póstnúmerinu sem ég man ekki hvað er, þarna upp í Reykjavíkursveitinni.
Sjálf er ég enn á vergangi. Það seinkaði afhendingu á Skógarkotinu en ég er núna komin með niðurneglda dagsetningu, 25. ágúst kl. 13.00. Þá mæti ég og slæ eign á kotið með öllu sem í því er, þannig að ef iðnaðarmennirnir eru enn að vinna, þá lít ég svo á að þeir fylgi með. Gott að ég lagði áherslu á að bílskúrinn yrði svona fínn, ég get hýst þá þar.

|

10 ágúst 2007

Betri er einn köttur í húsi ...

... en tveir í skógi.
Garpur er kominn í leitirnar, hafði lagst út í Selskógi en Grislingur valsar enn um. Ég bind vonir við að þessi rigning sem nú er reki hann heim til sín aftur, mætti kannski rigna meira.
Garpur kom ólarlaus heim og nú er hann búinn að fá eina gula og bleika að láni hjá Kolgrímu. Hann er svolítið eins og hann sé að fara á Gay pride.

|

09 ágúst 2007

Strokukettir

Ég stend mig ekki vel sem kattagæslukona.
Þórhallur og Guðlaug fóru til Akureyrar fyrir verslunarmannahelgi og mér var falið að passa húsið og kettina, þ.e. fressköttinn Grisling og svo elskuna hana Kolgrímu mína.
Maggi fór á Rolling Stones tónleika í Köben og ég tók að mér að passa Garp.
Grislingur var heima í einn dag en síðan hefur ekkert til hans spurst. Garpur var lengur heima en hefur ekki sést síðan á sunnudag.
Kolgríma mín er hins vegar vel upp alin og skilar sér heim, hún er ekki fyrir það að vera að þvælast úti á kvöldin og á nóttunni.
Ef þið sjáið Grisling, hvítan ólarlausan kött með grábröndóttar skellur eða Garp sem er gulbröndóttur eða næstum því rósóttur köttur með svarta ól, þá vinsamlegast látið mig vita hér á síðunni.
Maggi keypti handa mér forláta Georg Jensen-dót í Illum Bolighus, ég verð örugglega að skila honum því aftur ef kötturinn kemur ekki heim - svo elskurnar mínar, þið sem búið á Egilsstöðum, kíkið út í garð og í kringum húsin ykkar og látið mig vita ef svona kettir sjást þar.
Í gær var ég að þvælast um virkjanasvæðin á Eyjabökkum og við Kárahnjúka. Æi, ég verð bara sorgmædd að horfa á þetta, sérstaklega á Eyjabökkunum. En á leiðinni út Fljótsdalsheiði var mjög fallegt. Í kvöldsólinni naut ég þess að horfa á tjarnir kringdar fallegum fífum, á fjallahringinn, Snæfellið, Herðubreið, Vatnajökul, Eyjabakkajökul, Þrándarjökul og á Austfjarðafjallgarðinni. Á litlu vatni voru álftahjón með fjóra unga. Væn lömb bitu heiðargróðurinn og hreindýraveiðimenn voru að hvíla sig eftir daginn. Að aka niður með Bessastaðaánni er næstum eins og að vera í flugvél sem er að koma inn til lendingar á Egilsstöðum.
Já, það er gott að búa á Fljótsdalshéraði og hálendi Austurlands er ótrúlega fallegt.

|

05 ágúst 2007

Útlendingar læri íslensku ...

... þó ekki væri til annars en að segja Íslendingum til vegar.
Ég var stödd á bensínstöðinni minni hér á Egilsstöðum í dag. Þangað inn kom virðuleg kona, vel klædd og hafði greinilega allt til alls. Hún var að spjalla við einhvern í farsíma en lítur allt í einu upp og segir við stúlkuna á kassanum "Afsakið þér, en hvar er ég?"
Afgreiðslustúlkan, sem mig minnir að sé þýsk frekar en pólsk, leit undrandi upp "HA????". "Hvar er ég stödd?" sagði konan. "Þú ert í Egilsstaðir."
Ég vildi fá að vera fluga á vegg þegar þessi frú fer að segja vinkonum sínum ferðasöguna og frá þeim stöðum sem hún heimsótti á leið sinni um landið.

|

Æðruleysi

Nú er gott að kunna æðruleysisbænina.
Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Ég fer með bænina aftur á bak og áfram, oft á dag um þessar mundir.
Það gengur allt öfugt við það sem það ætti að ganga ef ég fengi einhverju ráðið. Veðurspáin getur ekki einu sinni druslast til að rætast þennan eina dag í sumar sem ég hef haft þörf fyrir að hún rættist. Við mæðgur ætluðum að gramsa í gáminum í dag, tína út úr honum eitt og annað og finna dót sem örverpið mitt ætlar að nota í fínu íbúðinni sem hún og unnusti hennar voru að kaupa í höfuðstaðnum. Þau hafa komið akandi að sunnan til að vinna þetta verk en það bara rignir og viðrar ekki til þess.
Í gær kom ég upp í Skógarkot og þá sátu skoskir feðgar í svefnherberginu mínu, drukku kaffi og reyktu. Guð má vita hvað menn af mörgum þjóðernum hafa verið að þvælast í svefnherberginu mínu. Tengdasonur minn benti mér á að flesta konur myndu missa mannorðið ef svefnherbergi þeirra væri svona eins og alþjóðleg brautarstöð.
Jæja, en Skotarnir eiga að mála bílskúrinn minn aftur, Pólverjunum var ekki sagt nógu vel til verka svo það verður að byrja upp á nýtt.
Ég ætla að hafa stjörnuspána mína bak við eyrað í dag og ekki láta smá mótlæti beygja mig. Skyldi það vera skynsamleg ákvörðun að fara bara í pollabuxur og kíkja eftir sveppum?
Sporðdreki: Sagan er rituð af sigurvegurum. Vertu einn af þeim og skrifaðu sögu lífs þíns. Með það í huga tekurðu skynsamari ákvarðanir.

|

02 ágúst 2007

Mig langar í Hummer

Það er frekar stuttur hjá mér kveikjuþráðurinn núna.
Ég er með þrjú sett af iðnaðarmönnum að vinna fyrir mig og það eru tafir og seinkanir á öllum vígstöðum. Ég sem átti að leggjast undir kutann hjá doktor sæta Sívagó 20. ágúst, ég þori ekki öðru en að fresta því. Ekki verð ég nýskorin að koma mér fyrir í Skógarkotinu.
Nema hvað, það lá ekkert vel á mér í dag þegar ég brá mér út í sveit á honum Súbba mínum. Ég hef aldrei getað skilið hvað íslenskur meðaljón hefur við ökutæki af Hummergerð að gera. Ég get skilið að fólk í Írak eða Afganistan vill eiga svona stríðsjeppa, en ég hef ekki skilið hvað fólk á okkar friðsæla Fróni hefur við svona tæki að gera.
Þar til í dag, þá allt í einu sá ég að það sem mig vantar er Hummer og ekkert annað.
Ef við hér á Fljótsdalshéraði hættum okkur út á þjóðvegina þá er eins víst að við þurfum að keyra eins langt út í kant og þorandi er þegar við mætum steypubíl frá BM Vallá - þeir virðast telja sig vera að aka um á einkavegum, á húrrandi ferð á miðjum veginum. Við mætum stórum vörubílum, stórum flutningabílum og stórum flutningabílum með stóra tengivagna. Allir aka eins og þeir séu á einkavegi og að við almúginn séum bara að brjóta allar reglur með að nota þessa svokölluðu þjóðvegi.
Og nú hefur enn einn voðinn bæst við. Það eru þessir stóru, já og reyndar líka litlu, bílar sem aka um með alls konar vistarverur hangandi aftan í sér. Geta menn ekki orðið farið í sumarfrí nema með 50 m2 íbúð með sólpalli og heitum potti hangandi aftan í ökutæki sínu? Svo til að halda þessum lúxus íbúðarhótelum sínum á veginum þá náttúrlega aka menn á miðjum vegi.
Nei, nú ætla ég að safna mér fyrir Hummer, það er eina ökutækið sem við Héraðsmenn getum verið öryggir á hér í okkar heimabyggð.

|

01 ágúst 2007

1. ágúst ...

... og líf mitt hefur verið sett á hold.
Samkvæmt kaupsamningi sem undirritaður var í apríl átti ég að fá Skógarkotið afhent í dag. En það stóð svo lengi málurunum að verkið hefur tafist.
Það sér ekki enn fyrir endann á þessari vergöngu minni, en ég ætla að vera bjartsýn og trúa því að henni fari að ljúka. Alla vega áður en vetur gengur í garð svo ég þurfi ekki að liggja endalaust upp á ættingjunum.
Anna systir er alla vega flúin til fjalla, farin að hjúkra mönnum inn á Eyjabökkum

|