31 janúar 2008

Kulvís ísbjörn

Í fyrra lífi hef ég verið ísbjörn - ef fyrra líf er til.
En ég hef örugglega verið rosalega kulvís ísbjörn.
Mér finnst æðislegt þegar það er bylur og ég er inni í hlýjunni, það sér varla út fyrir snjónum sem er klesstur á gluggana, eins og núna.
Þegar snjórinn fýkur fyrir utan og ég veit að allir eru í öruggu skjóli, þá líður mér rosalega vel.
Ég hef verið veðurteppt upp á fjöllum í blindbyl, en það var bara gott - við höfðum það fínt í skálanum. Þegar ég var föst á Öxi í meira en hálfan sólarhring leið mér ágætlega, það var hlýtt í bílnum og ég vissi að fyrr eða seinna kæmi björgunarsveitin. Verst að vera þar sem ekkert símasamband var og geta ekki látið vita af sér. Enda voru einhverjir sem héldu að við hefðum dempt okkur útaf í Hvalnesskriðum eða eitthvað þaðan af verra.
En mér leið bara ágætlega pikkföst í skafrenningi og varla sá út fyrir húddið á bílnum.
Ef ég væri ekki úttroðin af lifrarpylsu myndi ég hita mér kakó.

|

Góður þessi

Slæ Önnu Berglind út og blogga líka tvisvar.
Þetta er ógisslega fyndið.

|

Miðað við árstíma

Er þetta ekki árstíminn þegar skítakuldinn er?
Ég veit alla vega ekki hvaða árstími hentar betur fyrir kulda, ég vil alla vega ekki hafa þetta veður á sumrin.

|

29 janúar 2008

Klófríður kjáni

Í dag hefur mér verið kalt inn að beini, svo þið sjáið hvað það hefur verið mikill kuldi á Héraði að hann skuli ná svo langt.
Ég hitti mann sem sagði að það væri ekki enn tímabært að kvarta yfir kulda því það ætti eftir að kólna enn meira þegar liði á vikuna.
Til að ná úr mér hrollinum lét ég renna í heitt og gott bað. Meðan ég beið eftir að baðkarið fylltist settist ég fram í stofu og fletti Mogganum.
Heyri ég þá ekki bara splass, skvamp og sull úr baðherberginu. Ég þau á fætur og kom rétt passlega til að sjá hana Klófríði mína skríða rennblauta og skælandi upp úr baðkarinu.
Litli kjáninn. Ég pakkaði henni inn í handklæði og reyndi að ná mestu bleytunni af henni en þrátt fyrir að hafa lent í þessu óhappi vildi hún endilega sitja á baðkarsbrúninni meðan ég var í baði og þar var þetta holdvota grey að sleikja feldinn sinn.
En að öðru. Nú er mælirinn fullur að mínu mati. Ef ég fengi að ráða þá yrði fyrrum uppáhalds sjónvarpsþátturinn minn, Spaugstofan, lagður niður. Ég held að þessir svokallaðir grínistar hafi ekki snefil af siðferðisvitund lengur. Hafa þeir aldrei heyrt um að aðgát skal höfð í nærveru sálar? Þegar menn fara að skopast að veikindum fólks þá er mér nóg boðið.
Það er fullt af hæfileikafólki út í samfélaginu sem ætti að fá tækifæri til að sýna hvað í þeim býr og þessir gömlu Spaugstofukarlar ættu að fara að setjast í helgan stein.

|

27 janúar 2008

101 Reykjavík

Þorrablót Egilsstaða lukkaðist vel.
Eins og venjulega stigu fram á sviðið áður óþekktir listamenn og ég verð að segja að Siddi, Freyja og Hafdís Boga komu mér mest á óvart. Þau fóru á kostum.
Maturinn var miklu betri en í fyrra, nú var hann eins og hann átti að vera.
Í gær flaug ég til Reykjavíkur. Við vorum að skakast þetta í 14.000 feta hæð og þetta var eins og að aka í þúfóttu landslagi. Það var víst svo mikill mótvindur ofar. En mér finnst nú yfirleitt best að fljúga í 18 til 20.000 fetum á milli Egilsstaða og Reykjavíkur þá er vélin alla vega ekki skoppandi alla leið.
Það sem mér fannst kannski markverðast við þetta flug var að þrátt fyrir lága flughæð sáum við ljósin á Akureyri - ef maður á að trúa því sem flugstjórinn sagði. Við hljótum að hafa flogið norðan jökla.
Þegar ég kom á Reykjavíkurflugvöll var töluverður snjór á bílaplaninu þar sem bíll beið mín. Mér gekk illa að bakka bílnum út úr stæðinu og var að spá í hvað það ætti nú að þýða að hafa bílaleigubíl fastan í snjó þegar maður tæki við honum. En með kvenlegri lagni þá tókst mér að koma honum langleiðina út úr stæðinu með því að skipta úr bakk í fram, úr fram í bakk.
Rosalega var ég stolt af því hvað ég var laginn ökumaður.
Þá er bankaði í gluggann hjá mér og þar er kominn maður sem spyr hvort ég sé nokkuð með bílinn í handbremsu, því afturhjólið snúist ekkert.
Hvað á það að þýða að láta bílinn vera í skafli og í handbremsu þegar ég tek við honum? En hvað um það, ég komst alla vega upp á Hverfisgötu þar sem ég dvel nú í góðu yfirlæti hjá Gunnhildi og Mirek.

|

24 janúar 2008

Pólitískur farsi

Það er fjör í borgarstjórn.
Ég var að horfa á fréttirnar þar sem sýnt var frá þessum fundi þar sem allt ætlaði um koll að keyra. Menn tóku varla eftir að Björn Ingi sagði af sér.
Svo kom frétt um Ástþór forsetaframbjóðanda og ég fór að velta því fyrir mér hvort Ástþóri hafi ekki dottið í hug að bjóða sig fram til borgarstjórnar. Þar væri hann fremstur meðal jafningja.
Hann tæki sig vel út í Viðey með Yoko Ono í friðadansi. Já, ég held að Ástþór ætti að taka stefnuna á borgarstjórastólinn, það embætti losnar líka miklu oftar en forsetaembættið svo Ástþór getur fengið mörg tækifæri þar.

|

Hjá dýralækninum

Kolgríma fór í ormahreinsun í morgun.
Við mættum á réttum tíma en þurftum að bíða dágóða stund eftir að Hjörtur dýralæknir léti sjá sig. Kisa var ekkert hrifin af þessu ferðalagi.
Þegar Hjörtur loks birtist var hann að tala við einhvern hundaeiganda í símann. Hann nikkaði til mín, benti mér á að koma með kisu inn á aðgerðarstofuna, hélt áfram að tala um hundaofnæmi og meðhöndlun á hundum í símann en fór að leita í skúffum og skápum að einhverju, sem ég reiknaði með að væri til ormahreinsunar.
Hann fann lyfjaglas, sprautu og fór að draga upp í sprautuna. Alltaf var hann samt að tala við hundaeigandann í símann.
Þegar hann nálgaðist Kolgrímu með sprautu á lofti þá leist mér ekki lengur á blikuna og sagði honum að kisa væri að koma í ormahreinsun.
Þá rankaði hann við sér, kvaddi hundaeigandann og baðst afsökunar, hann minnti að hann hefði átt von á ketti í geldingu og ætlaði að fara að svæfa köttinn.
Eins gott að það er ekki svona hjá mannalæknum.
Kisa fékk svo ormalyfið og ég fór heim með lyf handa Klófríði svo nú eru þær báðar nýhreinsaðar.

|

22 janúar 2008

Vinnuföt

Hvað eru menn að fara á límingunum út af fötunum hans Björns Inga?
Mér þykir verra að hann skuli hafa vaxið upp úr fötunum en að hann hafi fengið þennan vinnugalla sinn hjá flokknum.
Svo þykjast hinir pólitíkusarnir vera stikkfrí og hafa keypt hverja spjör á sig sjálfir!!!
Ég man nú þegar þjóðfélagið var að sálast út af Dior-dragtinni hennar Guðrúnar Helgadóttur þegar hún varð forseti Alþingis. Ekki er Guðrún í Framsóknarflokknum.
Ekki er Ingibjörg Sólrún í Framsókn, en mér sýnist hún nú heldur betur hafa fegnið yfirhalningu hjá útlitsfræðingum. Skyldi hún hafa notað allt sitt kaup í það?
Svo er ég búin að fá upp í kok af þessum pólitíkusum sem vita ekki hvort þeir eru að koma eða fara og þora ekki að líta orðið hver af öðrum af ótta við að samherjar séu að hlaupa út undan sér. Varla að menn þori orðið á klóið.
Og ég trúi sko ekki öðru en að allir hinir pólitíkusarnir eigi sína fatasponsora, þeir eru bara ekki að asnast með það inn í bókhaldið eins og Framsóknarmenn og geta þess vegna pússað geislabaugana og sett upp sakleysissvip.
Ef einhver vill kaupa flott föt á mig þá skoða ég það sko með opnum huga.

|

21 janúar 2008

Versti dagur ársins

Kannski hjá Birni Inga og gamla R-listanum í Reykjavík.
En ekki hjá mér. Þetta hefur verið góður dagur hjá mér hvað sem mbl.is segir.
Ég byrjaði daginn í sjúkraþjálfun þar sem ég fékk að vita að ég er með tognaða öxl, búin að vera með hana tognaða síðan í fyrravetur. En nú á að laga þessa axlardruslu.
Svo mætti ég í vinnuna en var snúið við á tröppunum því ég átti að mæta með morgunmat í dag. Ekki lengi að bjarga því og við sátum öll og spjölluðum yfir kaffi og kruðeríi.
Eftir vinnu fór ég að lesa á spítalanum og svo kemur rúsínan í pylsuendanum, ég mætti LOKSINS í ræktina. Reyndi að laumast inn án þess að Steini yrði mín var en hann sá mig en gerði samt ekkert mikið grín að mér.
Loks skellti ég mér í ljós til að ná þessum gráskitulega húðlit af mér fyrir þorrablótið.
Kvöldið verður svo bara áframhaldandi dekur og huggulegheit, eins og reyndar öll vikan framundan.
Framundan eru tímar í ræktinni, ljósum, á snyrtistofunni, á hárgreiðslustofunni, út að borða og svo partý og þorrablót á föstudaginn.
Borðið sem ég verð við á þorrablótinu heitir held ég Hálftaf, sem ég geri ráð fyrir að sé eyrnamark á rollu.
Til að ná þessu öllu hef ég samið um einn og hálfan dag í frí frá vinnu.

|

19 janúar 2008

Frændi

Þá er hann Gunnar móðurbróður minn dáinn.
Hann dó í svefni í fyrrinótt, 90 ára gamall.
Gunnar og mamma voru alltaf náin, enda ólustu þau tvö upp saman hjá henni Rannveigu ömmu. Amma var ekkja með tvö börn í Reykjavík í kreppunni upp úr 1930 og aldrei þáði hún aðstoð frá því opinbera enda var hún afar stolt kona.
Gunnar lærði prentiðn og mamma hjúkrun og saman komust þau þrjú í gegnum allar hindranir sem kreppan lagði á fólk.
Mamma og Gunnar voru sérstaklega glæsileg, það er til mynd af þeim frá því sennilega á stíðsárunum og mér hefur alltaf þótt þetta geta verið mynd af glæsilegustu Hollywoodstjörnum. Ég erfði útlitið úr föðurættinni minni - ekki að ég sé að vanþakka neitt.
Gunnar giftist Guðnýju Helgadóttur og saman eignuðust þau þrjár dætur, Rannveigu, Ástu og Kristínu. Það var alltaf notalegt að koma til þeira á Kleppsveginn og seinna í Dúfnahólana. Þau áttu myndarlegt og fallegt heimili sem var þeim ótrúlega eiginleika búið að það sást aldrei blettur eða hrukka, það var aldrei drasl neins staðar en samt var allt svo afslappað og notalegt og manni var alltaf tekið fagnandi.
Ég hugsa oft um heimili Gunnars og Guðnýjar þegar ég er að drukkna í ryki og drasli. Hvernig fer sumt fólk að því að hafa alltaf svona snyrtilegt en samt sést aldrei til þeirra með tusku á lofti?
Við systkinin kölluðum Gunnar lengi vel bara Frænda, þó við ættum fjöldann allan af frændum og frænkum þá var bara einn Frændi. Hann var alltaf svo hlýr og góður við okkur.
Ég þakka Gunnari samfylgdina og Guðný mín, Rannveig, Ásta, Kristín og þið öll - Guð styrki ykkur í sorginni.

|

17 janúar 2008

Gaman í vinnunni

Ég er svo heppin að vera í góðri vinnu.
Starfið er fjölbreytt og skemmtilegt. Ég hitti alls konar fólk og er í tengslum við fólk um allt land.
Það ríkir góður andi á mínum vinnustað.
Stundum veit ég ekkert fyrirfram hvað dagurinn ber í skauti sér. Í morgun var ég með ákveðin plön um hvað ég ætlaði að gera í dag en svo var eitt og annað sem kom upp á sem ég hafði ekkert átt von á. Samt tókst mér að gera flest af því sem ég hafði ráðgert, m.a. að taka heilmikið til á þessum fjölmörgu fermetrum af borðplássi sem ég hef til umráða. Ótrúlegur fjöldi af alls konar bækingum og blaðadrasli fór í ruslafötuna og eitt og annað fór á þá geymslustaði sem það átti að vera komið á fyrir mörgum mánuðum.
En svo kom óvænt og skemmtilegt atvik. Sýsluskrifstofan er á sömu hæð og ég er að vinna á og það var hóað í mig til að vera vottur við giftingu.
Ég óska brúðhjónunum velfarnaðar, þau vita alveg hvað þau voru að gera, búin að búa saman í alla vega 15 ár. Hamingjuóskir til þeirra.
Svo verður bara haldið áfram að taka til á skrifstofunni eftir helgi, morgundagurinn fer í vinnuferð á Höfn í Hornafirði. Gaman, gaman, nýtt kortatímabil og útsala í Lóninu - einni af betri fataverslunum landsins.

|

16 janúar 2008

Barnalæsingar

Ég þakka Guði fyrir góða heilsu.
Fyrst og fremst af því að ég á mjög erfitt með að opna lyfjabox með barnalæsingum. Ég þarf næstum á áfallahjálp að halda þegar ég lendi í að kljást við barnalæsingar - samt er nokkuð liðið síðan ég komst af barnsaldri.
Ég á munnskol í flösku og það er mér alltaf hausverkur og kostar hækkaðan blóðþrýsting að komast að innihaldinu.
Það er vel skiljanlegt að lyf og hættuleg þvottaefni þurfa að vera óaðgengileg fyrir börn, en mér finnst nú allt í lagi að kona á miðjum aldri ráði við þessar pakkningar án þess að fara á taugum.
Svo eru alls konar óskiljanlegar pakkningar utan um matvörur. Krydd t.d. það kostar oft geðheilsuna að komast að innihaldinu í nýjum kryddbauk. Meira að segja tannkrem er með álímdu plasti utan um tappann, plastinnsigli og svo til að kóróna allt er líka komin lítil álþynna sem maður þarf að ná af (og getur verið snúið) áður en maður kemst að innihaldinu.
Af hverju eru bara ekki lyf og matvæli í niðursuðudósum sem ekki er hægt að opna nema á þar til gerðum stofnunum? Þá ætti öryggið að vera tryggt.
Ég legg alla vega til að það fylgi svona neyðartafla með, ein taugaróandi. Nú eða bara að það væri aðvörun á umbúðunum að fólk sem ekki er með handverksnám að baki láti það vera að kaupa viðkomandi vöru.

|

14 janúar 2008

Ef til vill og kannski eða bara eitthvað annað

Mikið eru dætur mínar heppnar að það var ekki ég sem valdi nöfnin á þær.
Ég væri sennilega ekki enn búin að komast að niðurstöðu með hvaða nafn væri best, alla vega er ég alltaf að skipta um skoðun hvað kisu varðar.
Pabbi valdi nafnið á Gunnhildi, bað mig um að ef ég eignaðist stúlku þá fengi hún þetta nafn eftir formóður okkar. Ég féllst strax á það, enda fannst mér nafnið fallegt.
Nú, svo völdu Finnur og Gunnhildur nafnið á Önnu Berglind, Anna í höfuðið á tengdamömmu og Gunnhildi fannst Berglindar nafnið svo fallegt.
Svo loksins þegar ég fæ að velja nafn, þá bara er ég alltaf að skipta um skoðun.
Dætur mínar fussuðu og sveiuðu yfir Kleópötru nafnin - það væri svona tú möds.
Anna Berglind stakk upp á nafni sem ég er bara mjög ánægð með, Klófríður - enda kalla ég kisu Litlu Kló.
Svo ef ég verð ekki búin að skipta um skoðun um næstu helgi, þá heitir hún Klófríður Kúld.
Annars er það helst að frétta héðan af heimilinu að kvörnin í Kolgrímu er komin aftur í gang, en hún hætti alvega að mala eftir að Litla Kló kom til okkar. Þær eru að verða mestu mátar, leika sér og geta borðað samtímis. Svo kom ég að Kolgrímu þar sem hún var að sleikja hausinn á litlu kisu.
Þetta stefnir í að vera friðsælt fyrirmyndarheimili hér í Skógarkoti.

|

13 janúar 2008

Svartur fugl

Við Nína fórum í leikhús í gærkvöldi.
Hafnarfjarðarleikhúsið kom með leikrit David Harrower, Svartur fugl, og setti það upp í gamla sláturhúsinu okkar hér á Egilsstöðum.
Ég verð að viðurkenna þá skömm að eftir að það fór að vera menningarlíf í sláturhúsinu þá hef ég bara aldrei komið þangað. Ég hef ekki komið í sláturhúsið frá því að hann Lolli heitinn sat á kontórnum og afgreiddi mann með kjötskrokka og annað í pottana.
En eins og húsið er ljótt að utan, þá stefnir það í að verða mjög skemmtilegt að innan.
Hvað um það, leiksýningin. Pálmi Gestsson og Sólveig Guðmundsdóttir léku í þessu áhrifamikla verki. Við Nína vorum þannig staðsettar í salnum að það var næstum eins og það væri bara verið að leika fyrir okkur. Nálægðin við leikarana var mikil og verkið tilfinningaþrungið þannig að maður hvarf bara inn í þennan heim.
Leikritið fjallar um kynferðislega misnotkun og maður er svona á barmi þess að vera dómharður og fullur viðbjóðs eða sýna persónunum skilning og finna til með þeim.
Mannskepnan er skrýtin skrúfa.

|

11 janúar 2008

Reykjavík city

Brá mér örferð til höfuðborgarinnar.
Það er afskaplega þægilegt að geta lent í miðborg Reykjavíkur, þar bíður bílaleigubíll og svo getur maður endasendst um borgina á einum degi og tekið kvöldvélina heim aftur.
Reyndar notaði ég daginn á námskeiði niður við Lækjartorg sem endaði með heimsókn í Hæstarétt. Ef þið eruð að þvælast í bænum og gerist lúin, þá vil ég benda ykkur á að í Hæstarétti eru áhorfendabekkirnir á við allra bestu sæti í bíó. Vantar bara popp og kók, þá væri maður í 7. himni. Mig langaði mest til að fá mér blund það fór svo vel um mig. Skrapp í Reykjavíkursveitina og knúsaði örverpið áður en ég fór aftur heim á Hérað.
Ég steinsofnaði í fluginu á leiðinni heim, enda var þetta ekki svona hryllingsflug með ókyrrð, ælum og taugaáföllum eins og manni heyrist að tíðkist núna, báðar ferðir voru fínar.
Þegar ég kom heim í Skógarkotið fékk ég aldeilis góðar móttökur. Báðar kisurnar komu hoppandi fram í forstofu, heilsuðu mér og stungu svo smá saman nefjum að því loknu. Þær enda sem góðar vinkonur.
Ég hef verið að máta allar þessar fínu nafnatillögur sem ég hef fengið á kisu. Ég held ég láti hana heita Kleópötru Kúld. Kleópatra eftir þeirri egypsku og Kúld til heiðurs Þuríði Kúld sem bjó í Stykkishólmi á 19. öld og var minnst sem mikillar glys-og gleðikonu.
Kleópatra Kúld. Hjómar það ekki bara vel?

|

10 janúar 2008

Góð landkynning

Ég sá í slúðurdálkunum að Paris Hilton drekkur íslenskt vatn.
Er hún þá ekki komin í hóp Íslandsvina? Alla vega svona Íslandskunningja.
Og það var ekki við neitt slordónatækifæri sem hún var að sveifla flösku af íslensku vatni og yljaði Íslendingum um hjartarætur, það var þegar hún var að fara í fangelsi. Eða var hún að koma úr fangelsi, ég man það ekki alveg.
Svo hann Kalli Bjarna, honum finnst ferlegt að hafa verið tekinn. Hvað mega þeir segja greyin sem voru teknir á Fáskrúðsfirði?
Jæja, ég verð að viðurkenna að mér finnst það bara fínt að þeir voru allir teknir. Ég hef meiri samúð með dópistum og þeirra fjölskyldum en dópsölum.

|

05 janúar 2008

Hvað á barnið að heita?

Rúsína er ekki nógu gott nafn.
Ég er alveg í vandræðum með hvað litla kisa á að heita. Eins gott að það gekk ekki svona með dætur mínar. Maður getur ekki skipt um skoðun eftir að búið er að gefa barni nafn.
Annað mál með kettling.
Rúsína er bara gæluyrði sem ég nota alveg jafnt um Kolgrímu. Auk þess finnst mér að Kolgríma og Rúsína passi ekkert vel saman.
Nú þarf ég að finna betra nafn og bið ykkur um aðstoð. Ég hef látið mér detta í hug Matthildur eða Kolfinna og Gréta stakk upp á að hún héti Branda.
Litla kisa er afskaplega fjörug, geðgóð, kelin og mikill malari. Hún er grábröndótt í hvítum sokkum, með hvítan mallakút og hvíta bringu.
Jæja, allir að finna nafn handa kisu. Í verðlaun eru kósýheit parexelans í Skógarkoti. Hugguleg kvöldstund með okkur tríóinu hér. Alveg rétt, það er búið að tengja kamínuna svo nú get ég farið að höggva niður litla jólatréð mitt og kveikja upp í kamínunni.

|

04 janúar 2008

Áramótaskaupið

Ég fattaði nú ekki djókið nema í einu og einu atriði.
Ég horfi svo lítið á sjónvarp svo ég þekkti ekki þessa þætti sem Skaupið byggðist á.
Besta atriðið og það sem ég hló mest að var Remax-auglýsingin.
Kannski er það af því að þegar ég var krakki þá var sjónvarpsdagskráin svo rosalega lítið spennandi að það skemmtilegasta voru auglýsingarnar.
Við systur kölluðum á hvor aðra "auglýsingar, auglýsingar, komdu, það eru auglýsingar". Svo horfuðum við á Árna Tryggva lúlla undir sæng frá Dún- og fiðurhreinsuninni, Bessa Bjarnason í Kórónafötum á flótta undan krimmum og svo allar þessar yndislegu húsgagnaauglýsingar sem ég held að megi finna núna á YouTube.
En allra mesta uppáhaldið var auðvitað Badidasauglýsingin, þar sem munúðarfull kona lá í freyðibaði sem flæddi yfir baðkarsbrúnina, það var toppurinn.
Kannski er ég bara svona rosalega mikið auglýsingafórnarlamb sbr. það að gamla góða kókauglýsingin er einn af nauðsynlegum þáttum jólanna í mínum huga.
En mér datt í hug að næst mætti kannski bara sleppa Skaupinu og stórgræða með því að selja tímann sem því er ætlaður til auglýsenda. Skilyrðið væri að auglýsingarnar væru fyndnar.

|

03 janúar 2008

Ég er að spá

í að skipta um vinnu.
Nú gefst tækifæri til að sækja um á Bessastöðum og ég er að velta því fyrir mér hvort ég, Kolgríma og Rúsína værum ekki fínar í djobbið.
Að vísu gætu þær ekki komið með mér til útlanda, þeim yrði ekki hleypt aftur inn í landið nema með alls konar serímoníum, sóttkví og veseni.
En á móti kæmi að það þyrfti ekki að ræsa út handhafa forsetavaldins meðan ég væri að dunda mér sem fulltrúi þjóðarinnar í útlöndum.
Ætti ég ekki bara að slá til? Verst að það hefur enginn hvatt mig til að bjóða mig fram. Skyldi ég ekki eiga meiri möguleika en Ástþór?

|

02 janúar 2008

Ég vona

... að fall sé fararheill.
Ekki fór nú árið vel af stað hjá mér.
Ég fékk ekki nema hluta af laununum útborgaðan. Það verður leiðrétt um næstu mánaðamót - svo sem ágætt, þá kemur jólakortareikninginn.
Mikilvægasta forritið í tölvunni minni er úti, þetta hefur aldrei áður gerst og mér líst ekki á bilkuna. Ég bara vona að það sé ekki hrunið því þá er ég í afar vondum málum.
Hausinn á mér er að klofna. Ég fór í vinnuna í morgun en svo var mér farið að vera svo illt í hausnum og mér var svo kalt svo ég fór heim, bruddi nokkrar verkjatöflur og breiddi sængina upp fyrir haus. Ég hef sofið meira og minna í dag, en ég er samt syfjuð og verð örugglega ekkert lengi að sofna.
En ljósi punkturinn í tilverunni er að það er að komast á friður á heimilinu. Kolgríma er hætt að sækja í að hanga í bílskúrnum, þar sem hún hefur meira og minna hangið í fýlu síðan Rúsína kom. Hún hefur meira að segja verið að nusa svolítið af henni án þess að hvæsa. Og Rúsína hefur fengið að nusa svolítið af skottinu á Kolgrímu.

|

01 janúar 2008

Gleðilegt ár

og takk fyrir allt á liðnu ári.
Jæja, þá er nú nýtt ár gengið í garð og viðburðaríkt ár að baki. Ár mikilla framkvæmda og breytinga í mínu lífi. Breytinga sem ég trúi að verði til góðs.
Gamlárskvöld og nýársnótt voru afskaplega hugguleg hér í Skógarkoti. Systkini mín og nokkrir af þeirra fylgifiskum komu hingað upp í skóginn þegar nálgaðist miðnætti og það var eins og ég hafði reiknað út, alveg með eindæmum fínt útsýni yfir flugeldasýningu bæjarbúa. Nema þetta var bara miklu meir upplifun en ég hafði gert ráð fyrir því ég hafði ekki tekið með í reikninginn alla flugeldana sem fóru í loftið hjá nágrönnum mínum hérna niður í brekkunni.
Þetta var alvega ólýsanleg upplifun. Gestirnir mínir voru með tertur og ragettur með sér svo það fóru nokkur ljós upp í himinhvolfið héðan frá Skógarkoti.
Ég tilkynnti systkinum mínum að ég vonaðist til þess að þetta yrði árlegur viðburður hjá okkur, að við myndum koma saman hér fyrir miðnætti og eiga svo skemmtilega nýársnótt saman.
Nína vinkona kom líka og við sátum og spjölluðum löngu eftir að allir hinir voru farnir. Framundan eru fimmtugsafmælin okkar Nínu. Hún er reyndar töluvert eldri en ég, verður fimmtug í júli en ég verð nú ekki fimmtug fyrr en í nóvember.
Svo verða æskuvinkonurnar í Kópavogi líka flestar fimmtugar á árinu þannig að þetta verður mikið afmælisár.
Ég steig á stokk og strengdi alls konar heit. Aðallega að lifa heilbrigðu lífi og í takt við það fékk ég mér kókóstertu með jarðaberjarjóma í morgunmat. Mjólkurafurð með ávöxtum, kannski óþarflega mikið af fitu og sykri, en það er nú einu sinni nýársdagur.

|