28 júní 2006

Kolgríma skottbrotna

Ekki veit ég hvað kom fyrir hana Kolgrímu.
Enn síður veit ég í hvers konar félagsskap hún er farin að halda sig.
Ætli það hafi ekki verið á sunnudaginn sem ég tók eftir því að hún var með lafandi skottið og það mátti ekki koma við það. Hún hefur verið hálf pirruð og greinilega liðið illa í skottinu í kvöld.
Í gærkvöldi kom hún bjöllulaus heim. Það vantaði á hana allar þrjár bjöllurnar. Hún fær ekki að fara út fyrr en ég er búin að bæta úr því en ég hef verið á Borgarfirði í dag og ekki komist í búð.
Nú eru fuglsungarnir komnir á kreik og hún Kolgríma fær sko ekki að stunda ungaveiðar.
Hún hefði bara átt að láta bjöllurnar eiga sig, þá sæti hún ekki í stofufangelsi núna.
Annars er hún auðvitað voða góð þessi elska og liggur hér á bakinu og bíður eftir mallanuddi.

|

25 júní 2006

Gleði

Verð að blogga aftur þó ég hafi bloggað fyrr í dag.
Í Lesbók Morgunblaðsins er ljóð eftir konu í Reykjavík, hún heitir Steinunn P. Hafstað.
Ég er svo hrifin af ljóðinu og vil leyfa ykkur að njóta þess með mér. Það heitir Gleði:

Þegar við hittumst
er gleðin slík,

að í mínum huga
ertu gleðimaður.

En dettur þér einhverntíma í hug
að ég sé gleðikona?

|

Afsakiði

Ég er búin að finna allar bækurnar um kvenspæjarastofuna.
Fann þær í morgun þegar ég var að leita að allt öðrum bókum. Þær voru allar saman komnar í bókaskápnum í gestaherberginu.
Ég get svo svarið að ég var búin að marg renna augunum yfir þennan bókaskáp.
Biðst afsökunar á að halda að ég hafi lánað einhverju ykkar bækurnar.
Garpur litli er farinn heim til sín.
Ég ætla aldrei aftur að taka að mér að fara með kött í geldingu. Ég tók Garp með mér í vinnuna af því að það var föstudagsmorgunmatur og ég vildi ekki missa af honum. Garpur naut mikillar samúðar karlmannanna við matarborðið, þeir sátu allir með krosslagða fætur og grettu sig.
Þegar ég var búin að fá mér morgunmat upp í vinnu þá fórum við Garpur að hitta Hjört dýralækni og ég get sagt ykkur að hann Garpur litli varðist fimlega því hann vildi hreint ekki láta taka sig af númerunum. Ég er með nokkur sár á höndunum og Hjörtur makaði joði á allar rispurnar.
Svo svaf Garpur fram eftir degi og um kvöldið þegar hann var farinn að labba um húsið var hann svo ræfilslegur að ég fékk kökk í hálsinn og nagandi samviskubit. Það var eins og hann væri grátbólginn því það hafði verið sett krem í augun á honum til að verja hornhimnuna (kettir eru með opin augun í svæfingunni).
Jæja svona er lífið. Tíminn hlýtur að lækna þessi sár eins og önnur.
Sólin skín, sæt og fín og í dag ætla ég að spássera með slátturvélina um garðinn.

|

23 júní 2006

Tapað fundið

Í gærkvöldi byrjaði ég á 5. bókinni um Kvenspæjarastofu nr. 1.
Ég hef verið að svipast um eftir hinum fjórum en ég finn þær ekki. Nú kynni einhverjum að detta í hug að það sé eðlilegt, það muni vera erfitt að finna tilteknar bækur hér á þessu heimili. Ég er samt bara orðin nokkuð viss um að þær eru ekki hér.
Ég held ég hafi lánað þær, en ég man ekki hverjum. Þannig að ef einhver les þetta og minnist þess að hafa fengið þessar bækur að láni hjá mér þá vinsamlegast hafðu samband. Ég er ekki að kalla eftir bókunum bara fá að vita hvar þær eru.
Sögurnar um hana Precious Ramotswe, eiganda Kvenspæjarastofu nr. 1 í Botsvana eru yndislegar. Hún hefur hefðbundið vaxtarlaga og notar föt nr. 20. Hún virðir gömul gildi og er rosalega klár spæjari. Merkilegt að karlmaður skuli hafa samið þessar sögur.
Garpur á að mæta til dýralæknis eftir rúman klukkutíma. Litla krílið.
Það er auðvitað ekkert gaman að standa í þessu stússi með hann en mér þykir enn verra að vera að svelta kettina. Þau hafa ekki fengið neitt að borða síðan í gærkvöldi og aumingja Kolgríma sem er ekki að fara í neina aðgerð hefur þurft að fasta Garpi til samlætis. Um leið og ég verð búin að segja Garp í búrið og koma honum út fær Kolgríma nammi og eitthvað meira gott í gogginn.
Ég hef meir samúð með þeim sem þurfa að fasta en ketti sem þarf að gelda. Svona er nú forgangsröðunin á þessum bæ.

|

22 júní 2006

Kettir

Kolgríma mín tríttlaði kát og glöð út að leika sér.
Ég hef bara verið að dunda mér hér heima, á frí fram að hádegi. Ég er í svona lausbeisluðu sumarfríi.
Allt í einu heyri ég þessi líka skelfilegu læti, kattagrenjur og hvæs. Ég fékk auðvitað hland fyrir hjartað og hélt að hún Kolgríma mín væri lenti í klónum á einhverju óargadýri.
Framan við eldhúsgluggann minn voru tveir fresskettir í miklum bardaga og miðað við fjaðrafokið í kringum þá voru þeir að slást um dauðan fugl.
Annar kötturinn er örugglega flækingsköttur, ég hef stundum séð hann hér í hverfinu. Þetta er sami kötturinn og laumaði sér inn í þvottahúsið hjá mér og var svo mikill dóni að míga á gólfið og skilja eftir sig ógeðslega fýlu. Þessi köttur er illa til reika og hefur ekki verið geltur.
Þetta er hinn svokallaði slæmi félagsskapur úr undirheimum sem leynist í öllum samfélögum.
Ég fór út í garð og þar húkti Kolgríma mín og var dauðfegin að komast inn og sleppa úr þessum hættulegu aðstæðum.
Aumingja Garpur litli veit ekki hvað býður hans á morgun. Hann fór til síns heima fyrir viku síðan en í kvöld kemur Maggi með hann aftur því ég hef tekið að mér það verkefni að fara með hann og láta gelda hann, Garp þ.e.a.s.
Litla greyið, ég vona að hann verði fljótur að jafna sig og erfi það ekki við mig þótt ég hafi tekið að mér þetta hlutverk. Ég hlakka til að sjá þessa elsku og ég veit að Kolgríma verður líka kát að fá Garp aftur í heimsókn.

|

19 júní 2006

Þyrstur tengdasonur

Um daginn þegar ég kom frá Danmörku var 50 kall eftir í veskinu mínu.
Nú, ég var huffleg við tendason minn sem er sjómaður og gaf honum aurana með þeim orðum að næst þegar hann kæmi að landi í Þórshöfn í Færeyjum skyldi hann kaupa sér eina bjórkollu.
En fyrr má nú aldeilis vera þyrstur. Ég les það á mbl.is að tengdasonur minn og skipsfélagar hans réðust til uppgöngu í færeyskt skip sem var í mesta sakleysi að veiðum í íslenskri landhelgi. Það var ekki hægt að bíða þar til komið væri að landi í Færeyjum, nei, ó, nei, Nonni minn, þetta þykir mér full mikið á sig lagt fyrir eina bjórkollu.

|

Kvenréttindadagurinn

Í dag eru 91 ár frá því að íslenskar konur fengu kosningarétt.
Í dag er Margrét Thoroddsen 89 ára.
Í dag er Halla Eymundardóttir 5 ára.
Í dag eru 29 ár síðan frumburðurinn minn, hún Gunnhildur, leit dagsins ljós á sjúkrahúsinu hér á Egilsstöðum.
Ég var reyndar ekki mikið að hugsa um veðrið þann dag en í minningunni var þetta sólríkur dagur alveg eins og hann er hér á Egilsstöðum í dag.
Ég óska konum til hamingju með daginn en sérstaklega þessum þremur framangreindu.
Hún Gunnhildur mín var eiginlega stúdentsgjöf til hans Finns því hann varð stúdent vorið sem hún fæddist.

|

18 júní 2006

Þjóðhátíð

Þjóðhátíðardagurinn var hinn besti.
Varði honum með vinum og vandamönnum en það sem bar helst til tíðinda var að ég fann mér ferðafélaga til að kom með mér í langþráða sólstrandarferð. Nú er stefnan sett á miðbaug í mars 2007, gaman, gaman. Maður verður sko að hafa eitthvað til að hlakka til.
Fór með Nínu vinkonu á hátíðahöld bæjarins sem voru í flatari kantinum en við bættum okkur það upp á Kaffi Nielsen.
Svo var ríkissjónvarpið svo huggulegt að sýna eina af uppáhalds bíómyndunum mínum, Thomas Crown affair. Pierce Brosnan alltaf flottur og auðvitað Rene Russo líka en ég hef meiri smekk fyrir Brosnan. Tónlistin í myndinni er akkúrat fyrir minn smekk og atriðið þegar Thomas fer að "skila" Monet myndinni er frábært undir þessari tónlist.
Á unglingsárunum tók ég ástfóstri við Litle big man með Dustin Hoffman. Ég veit ekki hvað ég sá þá mynd oft. Dustin Hoffman hefur líka alltaf verið einn af mínum uppáhalds leikurum, þótt hann sé smár, bara jafnhár og ég, heilir 165 cm (það las ég alla vega fyrir margt löngu). Hann var alveg frábær í Midnight cowboy og svo ekki sé nú minnst á Mrs. Robinson.
Það sem Thomas Crown og Litle big man eiga sameignlegt er að Fay Dunaway leikur aukahlutverk í báðum myndunum. Hún er sálfræðingur Thomasar en í Litle big man er hún prestmaddaman sem fer að vinna fyrir sér á hóruhúsi - hörð lífsbaráttan í vilta vestrinu.

|

17 júní 2006

17. júní

Þættinum hefur borist bréf.
Ég fékk athugasemd út af blogginu mínu í gær. Rauða fína slátturvélin mín sem er af einhverri gerð sem ég man ekki hver er, er bensínvél en ekki rafmagnsvél. Þetta leiðréttist hér með því ég vil að sjálfsögðu hafa það sem sannara reynist.
Upp er runninn sólríkur og fallegur þjóðhátíðardagur. Í tilefni af því settist ég út á pall í náttfötunum í morgun, drakk kaffið mitt og naut þess að horfa á nýslegna grasflötina sem hann Bjarni granni minn laumaðist til að slá í gær meðan ég var í vinnunni.
Dagurinn í dag á að fara í algert letilíf, smá hjólatúr og bara nákvæmlega það sem ég nenni að gera.

|

16 júní 2006

Sumar og sól

Ég hef ekki getað ákveðið neitt varðandi sumarfrí.
Ætlaði að geyma megnið af fríinu þar til færi að bóla á Skógarkoti. Það er ekkert farið að gerast neitt þarna upp í skógi svo ég bara hef ákveðið að byrja í sumarfríi í næstu viku.
Ligga, ligga, lá, ég vona bara að sólin haldi áfram að skína. Það er reyndar spáð rigningu hér fyrir austan fyrsta sumarleyfisdaginn minn en ég tek nú ekki mark á þeirri spá. Ég tek aldrei mark á stjörnuspánni eða veðurspánni nema þær séu góðar.
Í gær vann ég það afrek að slá í fyrsta skipti með rafmagnsslátturvél. Bjarni granni minn sem hefur slegið fyrir mig sl. tvö sumur er að flytja til Danmerkur svo ég neyddist til að læra á gripinn, þ.e.a.s. slátturvélina. Ég sem hélt að þetta væri ófrávíkjanlega karlmannsverk, þetta er ekkert mál. Meira að segja bara skemmtilegt. Ég ætla að halda áfram að slá þegar ég kem heim úr vinnunni.

|

15 júní 2006

Aumingja kisi

Hafið þið séð mbl.is í dag?
Þar segir frá manni sem var dæmdur í sekt í Héraðsdómi Vesturlands fyrir að hafa skilið köttinn sinn eftir vikum saman án umönnunar. Kötturinn var náttúrulega ekkert nema beinin og bjórinn eftir þessa meðferð.
Svona fólk á auðvitað ekki að hafa neitt lifandi í sinni umsjá, hvorki dýr né plöntur.
Loksins er ég komin heim eftir margra daga fjarveru. Garpur og Kolgríma hafa haft það gott því Elva hefur mokað í þau matnum, þau voru eins og tungl í fyllingu þegar ég kom heim - ég líka, þegar ég kom frá Höfn í gær.
Fyrst borðaði ég morgunmat á við tvo, svo fórum við Ragnheiður á Kaffihornið í hádeginu og fengum æðislega góðan fisk. Þá hugsaði ég mér að nú myndi ég bara borða eitt epli á heimleiðinni því ég væri búin að borða ríflega dagskamt.
En svo bregðast krosstré og ég lenti í afmælisveislu hjá einum af kokkunum úr Breiðdalsferðinni, einum af þessum sem stóð að því að framreiða 17 rétta matseðilinn. Þið getið ímyndað ykkur hvernig ég var þegar lagt var af stað heim.
Bíllinn var svo þungur á heimleiðinni að við vorum 4 tíma milli Hafnar og Egilsstaða. Reyndar var búið að hengja hestakerru með einni meri aftan í bílinn en ég held að það hafi ekki skipt miklu máli.

|

13 júní 2006

Stutt stopp heima

Þá er ég komin úr höfuðborginni.
Þetta var að mörgu leyti fín ferð. Tónleikarnir í Egilshöll voru bara mjög skemmtilegir, eins og ég var nú búin að vera með hnút í maganum yfir þeirri vitleysu minni að vera að kaupa þennan miða. Ég hef nefnilega verið illa haldin af mannhafsfóbíu síðan ég lenti í hræðilegum troðningi á samkomu hjá herstöðvaandstæðingum í Háskólabíói fyrir 29 árum síðan. Þá var ég komin rúma 6 mánuði á leið með frumburðinn og ég hélt að krakkinn yrði kreistur úr mér.
En ég sem sagt tók það stóra skref á þroskabrautinni í gær að fara á 15.000 manna samkomu án þess fá hræðslukast. Fékk aðeins smá í magann þegar ég fór að hugleiða hvað myndi gerast ef það kviknaði í húsinu. Hratt þeirri hugsun frá mér og hugsaði með mér að það gæti allt eins hrapað flugvél á Egilshöll.
Hann pápi minn sagði, að ef ég þyrfti endilega að hræðast eitthvað skyldi ég bara vera hrædd við að hátta í rúmið mitt því flestir gæfu upp öndina í rúminu sínu. Annars sagði hann að hræðslumælirinn í mér væri vitlaust stiltur því ég hræddist ekki það sem væri ástæða til að hræðast en væri lömuð af ótta út af einhverju sem engin ástæða væri til að óttast.
En ég er nú líka ánægð með að ég sem var svo hræðilega flughrædd hér á árum áður hef líka komist yfir það og þrátt fyrir að flugmaðurinn reyndi að hrist vélina eins og hann gat í aðfluginu að Egilsstaðavelli í morgun, léti hana detta nokkrum sinnum og sveiflast til og frá, þá sló hjartað í mér ekki svo mikið sem eitt aukaslag.
Ég er að leggja af stað á Hornafjörð. Síðan er það Borgarfjörður um helgina og svo neita ég að fara út fyrir bæjarmörkin fyrr en í ágúst. Mig langar að fá að vera nokkra daga heima hjá mér.
Ég heyrði góðar fréttir af mér í dag. Mér var sagt að bæjarfréttirnar segðu að ég væri búin að fá mér karl. Nú þarf ég bara að komast að því hver hann er svo ég geti í það minnsta haft svo náin samskipti við hann að heilsa honum á förnum vegi. Ef þið vitið hver þetta er, endilega látið þið mig vita.

|

10 júní 2006

Obbolítil frænka

Í gærkvöldi eignaðist ég agnarlitla frænku.
Hún er bara 4 merkur litla krílið. Ég vona að Guð gefi henni að fá að vaxa og dafna og verða hraust og spræk stelpa eins og mamma hennar sem var bara 5 merkur þegar hún kom í heiminn.
Hún obbolitla Ögn sem fæddist í gærkvöldi, kom í heiminn í flugvél á leiðinni frá Egilsstöðum til Reykjavíkur. Ég hef verið að velta því fyrir mér hver fæðingarstaður hennar telst vera í þjóðskránni.
Ég óska Rannveigu og Óla til hamingju með litlu dótturina og Kolbeini og Grími til hamingju með ponsulitlu systur sína. Kolbeinn og Grímur eru einmitt félagarnir sem hún Kolgríma mín heitir í höfuðið á.
Ég uppgötvaði mér til skelfingar í dag að báðir tengdasynir mínir hafa áhuga á fótbolta. Ég hélt að Mirek væri eini fótboltaáhugamaðurinn í fjölskyldunni en svo var hann Járni að játa það fyrir mér, tengdamóður sinni, að hann hefur áhuga á þessari heimsmeistarakeppni þarna suður í Þýskalandi.
Maður er alltaf að uppgötva eitthvað nýtt og óvænt um sína nánustu.

|

08 júní 2006

Hann á afmæli í dag....

Garpur er 6 mánaða í dag.
Af því tilefni verður svolítil veisla í kvöld. Það verður boðið upp á soðinn fisk og rjóma og svo harðfisk í eftirmat. Reyndar er Garpur svo laus við matvendni og hefur það rétt eins og kötturinn þeirra Bakkabræðra að hann étur allt, þannig að ég er ekki viss hvort hann fatti að þetta er veisla.
Kolgríma mín fattar það því hún er svo mikill gikkur. Hún búin að horast eftir að Garpur kom á heimilið því Garpur hleypir henni ekki að matardöllunum. Séntilfress eða hitt þó heldur.
Sumardvöl Garps hjá okkur Kolgrímu veður víst styttri en upphaflega var ráðgert því Maggi er búinn að fá nóg af sollinum fyrir sunnan.
Ég er búin að fá tíma á réttingaverkstæðinu fyrir Súbarúinn, ég get nú ekki ekið honum svona um götur bæjarins. Svo var ég að frétta að hann Benzi minn lenti í því vestur á Stykkishólmi um daginn að bakka á kolryðgað og beyglað biðskyldumerki.
Hvað er verið að setja svona drasl eins og umferðarmerki og fánastengur nálægt bílvegum? Ég bara spyr.

|

06 júní 2006

Brúðkaups- og fermingardagur

Fyrir 7 árum var 6. júní sjómannadagur.
Þann dag gengu Gunnhildur og Mirek í borgaralegt hjónaband hjá sýslufulltrúanum á Egilsstöðum en Anna Berglind var fermd í Vallaneskirkju.
Þetta var mjög hagkvæmt því það var hægt að hafa eitt stk. veislu.
Pápi minn lagði mikið á sig til að Runa væri hrein og fín. Að það væri hvítt á rúmunum, falleg handklæði tiltæk, rósir í stofunni og kampavínsflaska á stofuborðinu því hann vildi að ungu hjónin ættu huggulega brúðkaupsnótt á Borgarfirði.
Óska ykkur til hamingju með daginn krakkar.

|

05 júní 2006

CRAFT-syndrum

Ég held ég verði að fara að leita til læknis.
Ég gleymi öllu, ég gleymi verkefnum sem ég tek að mér, ég gleymdi um daginn að mæta niður á spítala og lesa.
Í dag mundi ég eftir að það væri mánudagur og að ég ætti að fara niður á spítala að lesa. Ég gleymdi bara að stoppa við sjúkrahúsið og keyrði á fánastöngina.
Þetta er ekki alveg eðlilegt miðað við það að ég er ekki nærri orðin fimmtug, það eru mörg ár í það, eða ég held alla vega að ég sé ekki orðin fimmtug. Kannski er ég 65 ára en man bara ekki eftir því.

|

04 júní 2006

Dauðar mýs

Í morgun kom fólk að skoða húsið.
Þegar komið var inn í stofu lágu nokkrar mýs á gólfinu. Frúin rak upp stór augu "Hva, eru þetta mýs????" Ég fattaði að þetta var kannski ekki heppilegt stofuskraut "Hafðu engar áhyggjur þetta eru bara dauðar mýs. Eða þannig, þær eru ekki lifandi, sko, þetta er bara dót sem kettirnir eiga."
Kannski ég feli mýsnar ef það koma fleiri að skoða húsið.

|