30 apríl 2008

Dekurdúllukvennabarátta

Já, við konur á Norðurlöndum höfum það aldeilis bærilegt.
Meðan konur í Afríku berjast fyrir að fá að halda kynfærum sínum, þá berjast konur á Norðurlöndunum fyrir að fá kerlingar á umferðaljósin, sbr. þessa frétt.
En ég spyr, er eitthvað kynferðislegt við umferðaljós? Hvaða máli skiptir hvers kyns fígúran á gönguljósunum er?
En það er nú kannski ekki að marka mig, á öllu Austurlandi er ekki einn einasti umferðaviti, þannig að svona kynjamisrétti er ekki til staðar í minni sveit.

|

30. apríl

Það er allt á kafi í snjó.
Framan við bílskúrinn er metersdjúpur snjóskafl og því komst ég ekki af stað með Súbba minn í morgun. Snjóskafl og snjóskafl er ekki það sama og þar sem þetta var samanþjappaður og blautur snjór ákvað ég að láta bílinn eiga sig. Ef þetta hefði verið púðursnjór hefði ég bara látið vaða í gegnum skaflinn.
En ég dró fram snjóbuxurnar, gönguskóna, legghlífarnar, húfu og vetrarúlpu og tölti af stað í vinnuna.
Alltaf skal maður væla í lok vetrar yfir að vorið láti standa á sér. En veðurguðirnir fara ekki eftir dagatali okkar mannanna og þó svo að það sé kominn sumardagurinn fyrsti hér á Fróni, þá vorar bara aldrei fyrr en seinni partinn í maí hér á Héraði. Allan tímann frá sumardeginum fyrst og fram að vorkomu bíð ég með óþreyju eftir betri tíð.
Hvað mega aumingja farfuglarnir segja? Í gær sá ég stelk sem kafaði snjóinn. Hvar skyldu allir fuglarnir halda sig í dag?

|

28 apríl 2008

Ó þú ljúfa sumar

... það snjóar.
En hverjum er ekki sama sem á mjúk náttföt, góða bók að lesa og ljúfa tónlist að hlusta á.
Tvær kisur í koti og ilmandi kaffi í bolla.

|

27 apríl 2008

Hráslagakaffi

Þegar ég var ung og sæt þá vann ég í Hallormsstaðaskógi.
Vinnudagurinn var frá kl. 8 á morgnanna til kl. 19.00 á kvöldin. Við fengum góðan morgunmat áður en við héldum til vinnu en svo var ekkert hlé tekið fyrr en kl. 12 að við fórum í mat. En við fengum líka langan matartíma og á sólskinsdögum fórum við öll saman í sólbað í hádeginu. Það voru ljúfir dagar.
En það kom fyrir, sérstaklega á vorin, að það var kalt úti og jafnvel rigning. En jafnvel þeir dagar voru góðir, því þá fengum við hráslagakaffi kl. 10 uppi í skemmu. Svo voru dagar sem voru svona skítsæmilegir, eiginlega ekkert hráslagalegir en heldur ekkert sólskin bara svolítið kalt og þá var það alltaf spennan - verður hráslagakaffi í dag. Svo brutust út fagnaðarlæti þegar einhver sást rogast með gulan bala fullan af glösum og kaffi frá Mörkinni yfir í skemmu.
Jibbý - hráslagakaffi.
En ég er ekki að fara í hráslagakaffi núna kl. 10, jafnvel þótt veðrið bjóði upp á löglegt hráslagakaffi. Ég er að fara í náttfatakaffi til Nínu. Við Nína og Dandý eigum það nefnilega til að borða saman morgunmat á sunnudögum og það er skilyrði að mæta í náttfötunum.
Svo er slúðrað og spjallað. Gaman, gaman.

|

26 apríl 2008

Aumingjagangur

Hvar er blessuð sólin?
Er hún alveg búin að yfirgefa Austurland? Það var búið að spá sólskini á morgun en nú er búið að breyta spánni og það á bara að vera skýjað. Á mánudaginn er spáð snjókomu. Í dag er hráslagalegt haustveður.
Ég hef oft verið spurð að því undanfarin misseri hvort ég ætli ekki bara að flytja suður. Dæturnar þar og svona. En ég fæ alltaf sting í hjartað, suður, nei, Guð forði mér frá því. Pabbi og mamma komu ekki með mér þegar ég fór að heiman svo ekki fer ég að elta dætur mínar.
Ég svaraði þessar spurningu síðast í flugvélinni á leiðinni til Reykjavíkur um daginn.
En þegar ég skoðaði veðurspá komandi viku þá flaug mér alvarlega í hug að kannski væri bara best að flytja suður. Fara þangað sem sólin skín.
Hvað ætti ég að gera fyrir sunnan? Humm, miðaldra kona. Og hvar ætti ég að setjast að? Auðvitað í Kópavoginum mínum kæra, þar búa allar gömlu vinkonur mínar. Ég gæti farið með Siggu í ræktina, skroppið í morgunkaffi til Önnu Stellu og droppað inn hjá Ingu þegar mig langaði.
Vinna og húsnæði væri kannski smá þröskuldur en ég hef stigið yfir hærri þröskulda um ævina.
Ég er ekki viss um að Klófríður og Kolgríma myndu þrífast vel í umferðinni fyrir sunnan. Klófríður er svo greindarskert að hún væri vís að æða fyrir bíl.
Jæja, best að hrista af sér þennan vesaldóm, klæða sig í kuldagallann og skreppa í göngutúr. Kíkja kannski í kaffi hjá einhverjum niður í þorpi og athuga hvort maður hressist ekki.

|

25 apríl 2008

Aumingja sparigrísinn














Ég verð að fara að taka mig á í sparnaði.
Aumingja sparigrísinn minn er að horfalla. Nú dugar ekkert elsku mamma lengur - sparnaðarátakið Rannveig lætur eitthvað á móti sér er komið í gang enn og aftur.

|

24 apríl 2008

Blessuð sólin elskar allt

allt með kossi vekur.
Hún hefur ekki látið sjá sig á Egilsstöðum það sem af er sumri og við Klófríður og Kolgríma liggjum bara í leti og hlustum á tónlist.
Þær eru búnar að fara út að leika sér en ég ætla að hafa náttfatadag fram að hádegi, kíkja í bók og sötra kaffi.
Ég er að lesa Karítas, óreiða á striga. Góð bók sem Nína lánaði mér.
Í gær lenti ég í árekstri svo Súbbi minn þarf að fá tíma í viðgerð og svo snéri ég öllu við í stofunni hér í Skógakoti í gærkvöldi. Ég held ég sé búin að finna út hvernig húsgögnin fara best. En ég verð í nokkrar vikur að ákveða hvort svo sé.
Lífið er afskaplega ljúft og ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars.

|

23 apríl 2008

Bílstjórablús

Ég verð að viðurkenna að ég hef ekkert rosalega samúð með bílstjórum.
Ég veit ekki hverjir slíta meira upp vegina en flutningabílar, þannig að ég held að það sé allt í lagi að það sé tekinn tollur af bensíni og olíu til að kosta lagfæringa á þjóðvegum landsins.
Það hefur ekki verið neitt þægilegt að aka um hér fyrir austan síðan framkvæmdir hófust og vegirnir eru fullir af alls konar stórum ökutækum sem stjórnað er af mismunandi góðum bílstjórum.
Sem betur fer eru margir bílstjórar gætnir og fara eftir umferðareglum, en maður veit það ekki þegar stórt ökutæki nálgast hvers konar stjórnandi er þar við stýrið.
Á ferðum mínum milli Hafnar og Egilsstaða hef ég marg oft þóst sleppa naumlega frá því að lenda undir stórum flutningabíl sem ekið er allt of hratt miðað við aðstæður, það er ekki slegið af þótt bíll komi á móti og stundum hef ég lent í því að jafnvel á blindhæð eru þeir hálfir yfir á öfugum vegarhelmingi. Svo maður tali nú ekki um að margir bílstjórar nota tímann í ferðum sínum til að tala í símann.
Hvergi er ég hræddari en í Hamarsfirðinum.
Nei, þessi bílstjóradeila hefur bara minnt mig á að það væri óskandi að strandsiglingar yrðu teknar upp að nýju. Það er alls konar varningur sem hægt er að flytja sjóleiðina þó sumt þurfi að berast hratt milli staða.

|

21 apríl 2008

Að bregað sér að heiman

... er nauðsynlegt endrum og sinnum.
Þó ekki sé til annars en að upplifa þá yndislegu tilfinningu sem hellist yfir mann þegar maður kemur aftur heim.
Annars var þetta fín borgarferð. Átti stund með dætrunum á laugardagskvöld, brá mér í heimsóknir á sunnudaginn, skannaði Ikea og Smáralindina og fór svo í leikhús um kvöldið.
Sá Gítarleikarana í Borgarleikhúsinu og skemmti mér vel. Jóhann Sigurðsson er frábær leikari og hann er eitthvað svo rosalega stór á litla sviðinu. Ég sé fyrir mér að svona munu aðdáendur Bjartmars Guðlaugssonar safnast saman á Eiðum þegar hann hverfur yfir móðuna miklu.
Fékk mjög skemmtilegt flug suður og sá vel yfir landið. Við flugum aðeins norðar en venjulega, næstum bara yfir Herðubreið sem skartaði sínum fegursta vetrarbúningi. Svo var gamana að fljúga nánast yfir Jarlhettur, ég hef aldrei séð þær frá þessu sjónarhorni sem ég fékk á þær á laugardaginn. Í dag var hins vegar skýjað yfir mest öllu landinu, en samt sá ég Kverkfjöllin.
Þegar ég ók inn í bæinn hér á Egilsstöðum, mætti ég Magga og félögum við gatnamótin við Söluskálann. Þeir voru að koma úr viku fjallaferð og komu bara á tveimur bílum því Hrollurinn dó drottni sínum við Kverkfjöll.
Klófríður og Kolgríma tóku vel á móti mér en voru samt kátastar með að fá að fara út að leika sér eftir tveggja sólarhringa inniveru.

|

19 apríl 2008

Laugardagur

Hér er Ísland í dag og ég flýg til Reykjavíkur síðdegis.
Kannski að ég geti veifað útilegumönnunum sem fóru frá Veiðivötnum í gær og stefndu í Landmannalaugar.

|

18 apríl 2008

Vorið er komið og grundirnar gróa

Ég hef verið í miklu vorskapi í gær og í dag.
Hef ekið um með hátt stillta tónlist, sungið með þegar ég er komin út á þjóðveginn - eins og á leið minni til Seyðisfjarðar í gær.
Ég kann ekki við að syngja hástöfum á ferðum mínum um þorpið. Annars finnst mér alltaf gaman að sjá fólk syngja undir stýri, maður sér það samt ekki oft. Ég syng aldrei í baði, bara úti á þjóðvegunum. Ég syng mjög oft á Fjarðarheiðinni.
Í dag fór ég í fyrstu hjólaferð sumarsins. Lét mig renna niður á bensínstöð og bætti lofti í dekkin. Hjólaði svo syngjandi kát um götur bæjarins.
Þegar ég kom heim mokaði ég snjó af pallinum. Mikið hlakka ég til að setja upp garðhúsgögnin.
Annars er ég að koma úr matarboði hjá Nínu. Við sátum tvær og gæddum okkur á unaðslegri fiskisúpu og nýbökuðum múslibollum. Slúðruðum smá og spjölluðum um lífið og tilveruna.
Afskaplega líður mér eitthvað vel. Notalega þreytt eftir hjólatúrinn og moksturinn og sólsetrið hér í Skógarkoti er ekki síður fallegt en vorkvöld í Reykjavík.
Lífið er ósköp ljúft. Já og meðan ég man, mér finnst Eurovision-myndbandið okkar fyndið og flott.

|

Hundalíf

Skrapp í gær á Seyðisfjörð að knúsa mömmu og sýna henni myndirnar frá Barcelona.
Svo var ferðinni heitið inn á Velli, upp í Gunnlaugsstaði að skoða hundaræktina hjá Hjördísi og Steina.
Þar tóku á móti mér fjórir Siberian Husky og einn Labrador. Ég fékk svo góðar móttökur að ég ætlaði bara ekki að komast upp að dyrunum. Þeir þurftu allir að nusa af mér og heilsa mér. Voðalega fallegir hundar.
En í kjallaranum lá hún Róma með 6 litla hvolpa á spena. Ég hálf vorkenndi henni því það var svo mikill áhugi hjá þeim að ná sér í næringu. En mikið afskaplega er nú ungviðið alltaf fallegt og þessir hvolpar heilla mann alveg upp úr skónum.
Klófríður sá hund í fyrsta skipti í gær. Það komu í Skógarkot konur með lítinn hund. Hann fékk nú ekki að koma inn en Klófríður var úti og ég hélt að hún hefði horfið endanlega út í skóg, hún varð svo hrædd. En Kolgríma mín setti upp kamb, tvöfaldaði skottið sitt og hvæsti duglega á hundinn. Hann ákvað að vera ekkert að abbast upp á þetta stóra ljón sem allt í einu var komið þarna.
Sólin skín enn einn daginn og veðrið er yndislegt. Í kvöld er það svo fiskisúpa og stelpukvöld með Nínu vinkonu.

|

16 apríl 2008

Aðdáendur

Í kvöld hafa tveir karlkyns aðdáendur verið á vappi við Skógarkot.
Þeir hafa að mestu haldið sig á pallinum og þar hafa þeir sungið ástarsöngva rámri röddu.
Mér líst bara nokkuð vel á þá, þetta eru myndarlegustu herrar. Sérstaklega annar þeirra, hann er með alveg sömu litasamsetningu og hún Kolgríma mín. Mjög dökkur, bröndóttur, brún og svartur með smá gráum lit, brúnt tríni og svartar loppur. Mér hálf brá þegar ég sá hann, hann hefði getað verið tvíburabróðir Kolgrímu.
Hinn var svartur og hvítur, ekki alveg eins myndarlegur - það vantaði gljáann í feldinn hans. En samt sætur.
Ekki veit ég hvað dregur þá að húsi okkar, Kolgríma geld og Klófríður bara ókynþroska krakkakjáni. Eða hvað?
Alla vega létu þær dömurnar mínar sér fátt um finnast þótt þessir fressir væru að gera sig til.

|

Eru Hafnfirðingar heimskir?

Samkvæmt íslenskri fyndni eru Hafnfirðingar mun verr gefnir en allur þorri þjóðarinnar.
En þeir Hafnfirðingar sem ég hef kynnst skera sig ekkert frá fólki úr öðrum bæjarfélögum. Eru kannski bara betur gefnir en gengur og gerist, eins og hún Nína vinkona mín. Ég man reyndar eftir einni opinberri persónu úr Hafnarfirði sem mér finnst svolítið langt frá því að vera ein af björtustu perunum í seríunni.
Hvað með Pólverja? Eru þeir upp til hópa latir glæpamenn?
Alla vega ekki þeir Pólverjar sem ég hef kynnst. Þeir eru ekkert frábrugnir Íslendingum, alla vega ekki hvað heiðarleika og dugnað snertir.
T.d. hann Mirek tengdasonur minn. Hann er frá Varsjá. Ég held að hún Gunnhildur mín hefði ekki fengið betri eiginmann þótt hún hefði leitað með logandi ljósi um allt Ísland. Mirek er líka fyrirmyndar tengdasonur og það sem kannski greinir hann frá venjulegum Íslendingi er að hann er kurteisari og meiri sjentilmaður.
Þegar ég var um fermingu fór ég með foreldrum mínum til Færeyja. Þar var okkur alls staðar tekið með mikilli gestrisni bara af því að við vorum Íslendingar. Eftir að Smyrill, seinna Norræna, kom til sögunnar 1975 þá breyttist viðhorf Færeyinga til Íslendinga af því að einhver rumpulýður hafði komið siglandi frá Íslandi og spilað rassinn úr buxunum þar.
Þegar ég kom til Færeyja 1978 áttum við varla að fá gistingu á hótelum bara fyrir það eitt að við vorum Íslendingar. Viðmót Færeyinga til Íslendinga hafði snarbreyst.
En síðast þegar ég kom til Færeyja hafði viðmótið sem betur fer breyst aftur í átt til þess sem áður var.
Ég held að menn ættu aðeins að hugsa sinn gang áður en þeir fella sleggjudóma um heila þjóð út frá einhverjum vafasömum einstaklingum. Satt að segja held ég að Ísland hafi ekki alið af sér færri afbrotamenn og auðnuleysingja en Pólland, alla vega ekki miðað við okkar vinsælu höfðatölu.

|

15 apríl 2008

Sólin skín

... sæt og fín.
Hún gerði það líka í gær. Veðrið hér á Héraði var afskaplega fallegt í gær og í dag er útsýnið út um stofugluggana mína aldeilis hreint fallegt.
Ég sé Snæfellið hreint og tært. Fljótsdalsheiði, Fellaheiði, Smjörfjöllin, Hellisheiðina og Kollumúlann. Öll fjöllin snjóhvít og falleg. Smá skýjaslæður hér og þar á himni.
Það liggur við að ég öfundi þá fjallakappa sem eru að leggja inn á hálendið í 6 daga útilegu. En það eru gerðar þær kröfur til mín í vinnunni að ég láti sjá mig þar endrum og sinnum.
Nú er að sjá hvort eitthvað er að marka það sem pólitíkusar segja, en Nína vinkona sendi mér sms til Barcelona og sagði að vorið kæmi í dag á Fljótsdalshéraði.
Annars hefur mér skilist að Nína hafi reynst vinur í raun í Útsvarinu sl. föstudagskvöld. Mér finnst liðið okkar Héraðsmanna hafa staðið sig frábærlega vel í þessari spurningakeppni.

|

14 apríl 2008

Barcelona - Egilsstaðir

Lenti á Egilsstaðaflugvelli í nótt eftir frábæra ferð.
Ég upplifði svo margt á svo stuttum tíma að heilinn þarf að vinna úr því á næstu dögum.
Heldur þykir mér nú arkitektúrinn hér á Egilsstöðum fátæklegur eftir að vera búin að sjá verk Gaudis og snautlegt verður að koma í Bónus eftir að vera búin að skoða matarmarkaðinn á Römblunni.
Við skoðuðum fótboltaleikvang Börsunga, Olimpíuleikvanginn, röltum á Römblunni, skoðuðum Gaudigarðinn, munkaklaustur upp á fjalli, lentum í kaþólska messu, fórum á markaði og gerðum margt, margt fleira.
Ég er gengin vel upp fyrir hné og mun nota vikuna í að ná úr mér harðsperrunum eftir allt labbið á götum Barcelona. Maggi hins vegar er farinn að pakka niður fyrir nokkra daga fjallatúr með félögunum en við Klófríður og Kolgríma ætlum að hafa það huggulegt heima.

|

10 apríl 2008

Egilsstaðir - Barcelona

Ég er farin þangað sem sólin skín.
Þangað sem veðrið hæfir fötunum mínum - eins og segir í laginu úr Midnight Cowboy.
Guðrún Lára vinkona mín í Fellabæ ætlar að líta eftir Kolgrímu og Klófríði, með aðstoð móður sinnar, þannig að ekki þarf ég að hafa áhyggjur af kisunum mínum.
Snjókornin hanga í skýjunum hérna fyrir ofan mig og ég heyri í tækinu sem hreinsar flugvöllinn.
Í gær var ég á Hornafirði. Veðrið var yndislegt á leiðinni og ég sá marga hópa af hreindýrum, álftir og gæsir. Í Berufirðinum spókuðu sig tveir tjaldar í fjörunni.
Vorið hlýtur að fara að koma á Austurlandi.

|

08 apríl 2008

Kolgríma

... er að horfa á sjónvarpið.
Hún er búin að fylgjast grannt með fræðslumynd um fugla og er komin alveg upp að skjánum. Ég skil vel að henni finnist þetta skemmtilegt, þetta er mjög falleg mynd.
Kannski að hún sé farin að bíða eftir vorinu.
Klófríður kann vel við sig hér í skóginum. Í gær klifraði hún upp í tré. Greinarnar voru ekki burðugar svo hún missti jafnvægið og hékk á hvolfi svolitla stund þar til hún lét sig falla niður í snjóinn.
Í dag fann hún sverara tré að klifra í og hoppaði fimlega yfir í næsta tré við hliðina.
Kannski að við séum allar að bíða eftir vorinu, þó Klófríður viti sennilega ekki hvað sú árstíð er yndisleg. Hún hoppar um í snjónum og nýtur lífsins.

|

Að hefta för

Ég skil vel að Geir Haarde sé svekktur.
Ég flaug heim frá Reykjavík í gær og þegar ég heyrði allt bílflautið, um það bil sem ég var að leggja af stað frá Hverfisgötunni og út á Reykjavíkurflugvöll, þá rann mér kalt vatn milli skinns og hörunds. Skyldi ég missa af vélinni? Ég úthugsaði allar leiðir á völlinn en sem betur fer þá slapp ég.
Það er líka súrt fyrir ráðherra að verða fyrir því núna þegar hann er að útskýra á Alþingi hversu tími hans sé dýrmætur og réttlæta einkaþotunotkunina, að komast svo ekki leiðar sinnar í miðbænum. Að þurfa að sóa þessum dýrmæta tíma í umferðarteppu af völdum flutningabílstjóra.
Annars finnst mér þetta einkaþotumál hafa á sér hlið sem ég hef ekki séð fjallað um. Fyrir utan að það er verið að sóa féi almennings á samdráttartímum, þá er einkaþotuflug mikill mengunarvaldur. Koltvísýringsframleiðsla á hvern farþega er margföld á við hvern farþega í áætlunarflugi.
Það er kannski ágætt að hafa það í huga núna þegar Al Gore er að dásama Íslendinga fyrir notkun á endurnýtanlegum orkugjöfum.
Landsfeðurnir mættu sýna betra fordæmi.

|

07 apríl 2008

Heilbrigðismál

Mig langar að vekja athygli á þessari grein sem birtist í Læknablaðinu.
Þar fjallar Runólfur Pálsson nýrnalæknir um nauðsyn þess að samhæfa störf heilsugæslulækna, sérfræðilækna og sjúkrahúslækna.
Þetta er mér mikið hjartans mál því ég er sannfærð um að ef þessi mál væru ekki í þeim molum sem þau eru í dag þá væri hann Finnur minn enn lifandi.
Það er fjöldi sjúklinga, ekki síst á landsbyggðinni, sem á allt sitt undir því að úrbætur verði gerðar á þessu sviði.

|

06 apríl 2008

101 Reykjavík

Ég fékk fínt flug suður.
Það var bjart og fallegt að líta yfir landið okkar. Ég held að flugstjórinn búi í Hafnarfirði og hafi þurft að líta eftir einhverju í garðinum heima hjá sér fyrir lendingu því við tókum einhverja nýstárlega slaufu yfir Hafnarfirði með annan vænginn vísandi beint niður í bæinn.
Við Gunnhildur brugðum okkur í Smárann og á leiðinni þangað sáum við alveg ótrúlega fyndna sjón. Það æddi fram úr okkur mótorhjól með engum smá töffara við stýrið. Leðurdressaður frá toppi til táar. Nema afturendinn, hann stóð að mestu leyti ber út í loftið og maður sá næstum niður á endaþarm á manninum.
Þvílík sjón. Enda voru menn í næstu bílnum allir skellihlæjandi.

|

Enn og aftur

... er farið að snjóa.
Jæja, ég er alla vega þakklát fyrir hvað veðrið var fallegt í gær. Kveðjuathöfnin var einstaklega falleg og ég hef aldrei verið við svona fjölmenna útför. Bæði kirkjan og íþróttahúsið var þéttskipað.
Þegar ég fór í háttinn í gærkvöldi var stjörnubjartur himinn, en nú er aftur alskýjað og snjókoma.
Ég hlakka til þegar við Maggi förum til Barcelona næsta fimmtudag. Það verður ljúft að komast úr snjógallanum í 4 daga og láta sólina verma sig. Þangað til á ég reyndar eftir að skreppa til Reykjavíkur og á Hornafjörð, þannig að fimmtudagurinn verður runninn upp áður en ég veit af.
Maggi hefur ekki fengið nóg af snjónum og fór ásamt fleirri fjallakörlum í Geldinafell strax eftir útförina í gær. Á Fljótsdalsheiði og þar fyrir innan er allt á kafi í snjó og þungt færi.
Ég flýg til Reykjavíkur eftir hádegi og í kvöld ætla ég með örverpinu mínu í bíó. Vonandi kemur frumburðinn minn líka með.

|

05 apríl 2008

5. apríl

Það er fallegt veður á Héraði í dag.
Í dag kveðjum við Birgi Vilhjálmsson.
Ég hef hugsað mikið um það síðustu dagana hvað við Finnur vorum heppin þegar við fluttum í Reynivelli 14. Öðru megin við okkur bjuggu Elva Rún og Bjarni Þór og hinu megin Biggi og Birna.
Við vorum umvafin yndislegust nágrönnum sem hægt var að eignast. Það var ekki lítils virði í veikindum Finns og eftir að hann var dáinn.
Alltaf voru þessir góðu grannar tilbúnir að liðsinna og bara það eitt að vita af þeim þarna var ómetanlegt.
Ég stend í mikill þakkarskuld við hann Bigga. Fyrir utan það að vera einn af þessum mönnum sem dreifa lífsgleðinni í kringum sig, þá var hann einhver sá traustasti maður sem hægt er að hugsa sér.
Biggi sýndi mér ómetanlegan stuðning þegar ég hóf mína edrúgöngu og hann og Birna sýndu mér dýrmætan stuðning þegar Finnur dó.
Elsku Biggi minn, hafðu þökk fyrir allt.

|

03 apríl 2008

Frétt dagsins

... héðan að austan á mbl.is
Hvað er verið að senda snjóplóg út í þetta veður ef hann gerir ekki annað en að festa sig svo smábílarnir komast ekki leiðar sinnar.
Annars sá ég skemmtilega frétt á mbl.is mæli með að þið lesið þetta. Svona fólk er yndislegt.

|

Afmæli

Þær eiga báðar afmæli í dag kisulórurnar í Skógarkoti.
Klófríður kjáni er fjögurra mánaða í dag. Hún heldur uppi fjörinu á heimilinu, er óttalegur óþægðargemsi, en yndislega góð og skemmtileg.
Hún heldur að hún sé íslenskur hundur og gengur um með hringaða rófu. Reyndar er hún ekki hringuð inn eins og á íslenska hundinum, heldur myndar þessi langa rófa hennar oftast spurningarmerki og er hringuð út. Ég hef aldrei séð kött sem gengur um með rófuna svona.
Svo er það elsku dúllan og primadonnana hún Kolgríma mín Högnadóttir. Húsbóndinn á heimilinu, hún er þriggja ára í dag. Hún er ósköp góð við Klófríði litlu, en fer stundum fram í bílskúr þegar hún vill næðis njóta.
Þær eru miklir gleðigjafar þessar elskur, eins og ég hef aðeins drepið á hér á síðunni. Og þó að það sjái á heimilinu eftir kisurnar og þó að það þurfi alltaf að vera að þurrka af, sópa og ryksuga þá elska ég þessar kisur og fyrirgef þeim þeim þó þeim verði eitthvað á. Enda hafa þær annað mat á því en ég til hvers leðursófi og aðrir hlutir eru.
Svo á hún Sissa mágkona líka afmæli í dag. Til hamingju með daginn gæskan.
Í tilefni dagsins er hér kveðskapur sem Steinrún Ótta sendi mér.

Klófríður og Kolgríma,
kattavina-andi.
Kúldrast upp við kamínu
í Katta-landi
Kenjóttar en krúttlegar
í kattavina-bandi
Kassavanar kisulórur
í katta- sandi.
Kyssir Gríma Klófríði
í kattavina-standi
Kærleikur í Kotinu.
Malandi.

|

02 apríl 2008

Og enn

... snjóar.
Við Maggi förum til Barcelona eftir viku, eins gott að það snjói ekki þar.

|

01 apríl 2008

Það snjóar

Það snjóaði í gær
það snjóaði í fyrradag
það snjóaði daginn þar áður.
Það er 1. apríl og það snjóar.

|