30 maí 2008

Nú er lag

Ég hef verið að skoða myndir úr húsum á Suðurlandi.
Þar er aldeilis allt í drasli og verk að vinna fyrir margar hendur. Væri ekki bara upplagt fyrir Skjá einn að renna austur fyrir fjall og taka upp nokkra þætti af Allt í drasli?
Kæmi sér örugglega vel fyrir íbúana.

|

Það er gott að búa á Austurlandi

Við stöndum á svo gömlu bergi hér fyrir austan.
Þetta er alveg skelfilegt þarna á Suðurlandi. Hræðilegt að lenda í því að innbúinu er bara rústað í jarðskálfta.
En gott að enginn slasaðist alvarlega.
Vonandi stendur þjóðin saman í að lagfæra það sem aflögu fór og að íbúar Suðurlands fái tjón sitt bætt eins og hægt er.

|

28 maí 2008

Össur Skarphéðinsson

... er ekki minn maður.
En í dag var ég hrifin af honum. Það var verið að ræða við hann á einhverri útvarpsstöð og hann talaði um nauðsyn þess að íslensk stjórnvöld færu að huga að því að sá tími kemur að við þurfum að skipta um orku á bílnum okkar. Hætta að nota bensín og olíu og nota þess í stað rafmagn eða vetni.
Það væri frábært ef okkur tækist að koma því við að sem allra flestir ækju um á bílum sem gengju fyrir innlendri orku.
Skipin og flugvélarnar verða sennilega að nota olíu öllu lengur en bílarnir.
Þessi vika hefur verið ævintýri líkust hér í Skógarkoti. Gróðurinn hefur sprungið út og veðrið verið eins og best verður á kosið. Miðnætursólin kemur í veg fyrir að ég hafi mig í háttinn enda hef ég haft þvílíka listsýningu fyrir augunum undanfarin kvöld.
Svo verð ég að monta mig smá, því ég hef farið minna ferða hjólandi í dag.

|

Klæðnaður áskilinn

Það er óþægilega heitt hér í dag.
Í gamla daga, þegar ég var að vinna í Hallormsstaðaskógi, hefði maður bara klætt sig í eina brók á svona degi.
En núna er ég í vinnu þar sem klæðnaður er áskilinn svo ég sit hér sveitt og heit.
Það er spáð rigningu á morgun. Mér finnst það bara gott, ekki síst fyrir gróðurinn, en líka fyrir mig.

|

27 maí 2008

20°C

Það er sól og sumar og klukkan er farin að ganga fjögur.
Hitinn er um 20°C og það er búið að vera mjög heitt hér í dag. En samt skást hjá mér, stelpurnar hinum megin í húsinu koma til mín til að kæla sig.
Sólin nær ekki að skína inn til mín fyrr en síðdegis, ég er með opinn glugga og viftu á fullu, þannig að þó það sé allt of heitt er þetta samt svalasti staðurinn á hæðinni.
Ég fylgist með klukkunni og bíð eftir að komast út. Hvernig væri að skella sér bara í ísbúðina og fá sér einn með dýfu. Nammi, namm. Eða heim og blanda fallegan ávaxtadrykk. Ég elska appelsínusafa með ananaskurli og cocossýrópi.

|

26 maí 2008

H-dagurinn

40 ár síðan við fórum yfir á hægri akrein!
Ég man hvað þetta var merkilegur dagur 26. maí 1968. Þó ég væri bara tæplega 10 ára fannst mér þetta stórmerkilegur atburður.
Það var búið að dreifa alls konar kynningarefni og ég var svo hrifin af límmiðunum sem á var prentað eitt stórt H. Þetta voru líka fyrstu límmiðarnir sem ég eignaðist, áður hafði ég bara þekkt glansmyndir, sem voru auðvitað miklu fallegri, en límmiðinn var svo nýstárlegur svona sjálflímandi. Samt var hann óttalega litlaus þegar ég hugsa um hann. Næstu límmiðar sem maður fékk var STP, einhver smurolíuauglýsing. Þeir voru litríkari en H-miðinn.
Að morgni 26. maí 1968 fór ég með pabba og tveimur elstu bræðrum mínum í bíltúr. Pabbi ætlaði að leyfa þeim að æfa sig að aka í hægri umferðinni í Reykjavík. Göturnar í Kópavogi voru bara moldartroðningar svo það var ekki eins gaman að æfa sig þar.
Við fórum á gamla Rússajeppanum og ég man einhvern veginn best eftir okkur á Snorrabrautinni.
Ég held að í allri bílasögu Íslands hafi menn aldrei verið eins tillitssamir og brosmildir í umferðinni eins og þennan vordag 1968.

|

25 maí 2008

Vorkvöld í Skógarkoti

Það er mjög fallegt yfir að líta héðan úr Skógarkoti.
Ég hef gamla Selstaðaskóginn hér í forgrunn, eða svona einhverjar leifar af honum. Birkið hefur verið að springa út um helgina.
Það er sem himininn logi yfir Smjörfjöllunum, eldrauður og stek gulur. Sambland af gráum, ljós bláum og bleikum lit er á himninum yfir Kollumúlanum. Þessi undarlega litaði kvöldhiminn sem einkennir Fljótsdalshérað.
Ég tími ekki að fara að sofa. En það er vinnudagur á morgun svo ég verð að láta mig hafa það.

|

50.000

Mér sýnist að gestur nr. 50.000 gæti litið inn í dag.
Veðrið er yndislegt á Héraði. Kolgríma er horfin út í skóg en Klófríður er öll að hressast. Ég ætla að nota daginn til að bera á pallinn.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er: Með hverju kærleiksverki sem þú vinnur í dag vefur þú nýjan gullþráð í ábreiðuna sem skýlir þér á morgun.
Hvernig væri nú að þið kæru vinir mynduð vefa ykkur nýja gullþræði og hjálpa mér í þessu stússi mínu.
En ef þið eruð ekki í vefstuði, þá bara vona ég að þið njótið dagsins til sjávar og sveita.

|

24 maí 2008

Sjúkrahúsið Skógarkot

Klófríður litla er að braggast.
Hjörtur lét mig hafa smyrsl í augun á henni, því hún hefur fengið sýkingu í þau. Ég ráðfærði mig við hann í gærkvöldi og hann sagði mér að það væri eðlilegt að kisa væri slöpp í 3, 4 daga, en hann vildi fá að kíkja á hana á mánudaginn ef hún væri ekkert að hressast.
Hún er á sérfæði, fær afganginn af kjúklingabringunum frá því í gærkvöldi. Það var nefnilega matarboð hjá mér og það lukkaðist svona líka vel hjá mér að grilla kjúklingabringur með beikoni. Kisa litla borðar þær með bestu lyst þegar ég er búin að hreinsa utan af þeim.
Kolgrímu finnst hún fá óþarflega litla athygli hér á heimilinu en hún er alla vega farin að vera góð við Klófríði.
Fressinn reyndist ekki vera einn heldur eru þeir tveir alveg eins, ég sá það loksins í gær, enda fannst mér skrítið að hann var stundum með ól og stundum ekki.
Boði kattaeftirlitsmaður kemur með gildru eftir helgi og losar mig við þessa leiðindafressi. Ég var hikandi að hafa samband, hélt að þeim yrði umsvifalaust lógað, en það er ekki þannig, þeim er haldið í viku og eigendum gefst kostur á að nálgast þá og gera bragarbót. Ógeltir fresskettir eru ekki heppileg gæludýr í íbúðahverfi.
Þó að báðar kisurnar mínar séu nú ófrjóar þá var haldið áfram að syngja ástarsöngva við gluggann okkar í nótt.
Í dag setur Guðmundur Þorsteinn hennar Nínu upp hvíta kollinn. Gaman að það skuli vera svona fallegt veður við stúdentsútskriftina.
Til hamingju Guðmundur og hamingjuóskir til ykkar allra sem útskrifisti úr Menntaskólanum á Egilsstöðum í dag.

|

23 maí 2008

Góðir dagar framundan

Veðuspáin er fín næstu daga fyrir mína sveit.
Verst að helgin er bara laugardagur og sunnudagur. Í næstu viku mætti hún líka gjarnan vera mánudagur, þriðjudagur, miðvikudagur, fimmtudagur og föstudagur.
En svona er lífið, maður verður bara að sætta sig við það. Vinnan er böl þess sem vill vera úti í garði að leika sér. Eða eins og presturinn sagði, vinnan er böl hinna drekkandi stétta.
Klófríður litla er að vakna úr svæfingunni, eftir sólarhrings svefn. Hún er ósköp aum litla skinnið. Augun eru skelfileg á að líta og mallakúturinn rakaður, samasaumaður og sterk blár eftir eitthvað sull sem Hjörtur dýralæknir bar á skurðsvæðið. Hún var með 5 kettlinga og ég er með nagandi samviskubit yfir að fara svona með litla skinnið.
Kolgríma er ekki nein Florens Nightingale, hún hvæsti á Klófríði í gær þegar hún kom heim. Núna er því Kolgríma úti í sólinni að leika sér en Klófríður fær að vera í næði heima.

|

22 maí 2008

Aumingja Klófríður

Núna liggur Klófríður litla á skurðarborðinu.
Ég fór með hana til Hjartar dýralæknis í morgun og henni fannst svo vont að fá svæfingarsprautuna að hún beit mig duglega í vísifingur.
Ég er eiginlega alveg viss um að hún er kettlingafull en þeir fara með leginu þegar það verður tekið.
Aumingja litla kisa, hún er allt of lítil til að eignast kettlinga. En fressinn ástsjúki hefur merkt sér Skógarkot svo rækilega að það kemur ekki nokkur maður nálægt húsinu. Hann kom í morgun og söng við garðdyrnar til að reyna að lokka kisurnar út.
Svona er lífið í kattheimum. En Kolgríma var afskaplega glöð þegar ég var búin að koma Klófríði út í bíl í morgun og hún fékk loksins að éta eftir 12 tíma föstun, Klófríði til samlætis.
Ég er að farast úr samviskubiti yfir að fara svona með hana kisu mína, en það er víst ekki annað að gera.

|

21 maí 2008

Frjósemisvatnið

Á lögreglustöðinni á Egilsstöðum er vatnskútur.
Vatnið í þessum kút hefur sérstaka verkun sem menn voru svolítinn tíma að átta sig á. Eftir að vatnskúturinn var settur upp hefur sýslumaður fengið hverja tilkynninguna á fætur annari frá starfsmönnum sem eru að fara í fæðingarorlof.
Við þetta fámenna embætti eru 5 löggur að eignast erfingja á árinu, annar sýslufulltrúinn er kominn með myndarlega kúlu og til að kóróna allt þá er fíkniefnahundurinn hvolpafullur.
Það er spurning hvort ekki megi afla fjár í ríkissjóð með því að selja vatn úr þessum frjósemistanki.

|

Ósköp

... eru þetta dapurlegar fréttir frá Akranesi.
Ég trúi því ekki að meirihluti bæjarbúa treysti sér ekki til að taka á móti palestínska flóttafólkinu. Hvar eru nú þessir kátu karlar sem við höfum sungið um í gegnum tíðina? Þessir sem sóttu sjó á kútter Haraldi? Ég hélt að þeir kölluðu ekki allt ömmu sína þarna á Skaganum, en svo kemur í ljós að þar hafa menn óvenjulega lítil hjörtu.
Svona er lífið, við erum alltaf að velta því fyrir okkur hvort við eigum að gæta bræðra okkar. Sumir finna til ábyrgðar en aðrir til hræðslu.

|

19 maí 2008

Alkomin heim

Æi, hvað það er alltaf gott að koma heim aftur.
Nú er ég búin að vera 3 daga í burtu og kisurnar voru svo kátar þegar ég opnaði útidyrnar að þær hlupu beint út í skóg, enda búnar að vera lokaðar inni allan tímann.
Það var nú ekki í kot vísað í Goðaborgum og Anna Berglind og Nonni hugsuðu voða vel um mig. En ég var út um víðan völl, á ráðstefnu allan laugardaginn, í fermingu í Úthlíðarkirkju í Biskupstungum í gær og svo var mér ekið milli helstu verslana í höfðuborginni í dag.
Ég uppgötvaði það á leiðinni út á völl að ég hafði ekkert komið í Kringluna eða í Smáralind og það þarf að leita langt aftur í tímann til að finna Reykjavíkurferð þar sem ég hef ekki kíkt á annan staðinn.
Ég sat mjög aftarlega í flugvélinni á leiðinni heim. Þegar búið var að stöðva vélina og opna til að hleypa farþegum út, þá kom þessi líka yndislegi vorilmur sem einkennir Egilsstaði. Egilsstaðabændur hafa verið iðnir að bera á túnin um helgina.
Ég heyrði að flugfreyjan sagði við fólk þegar það gekk út "Má bjóða þér?" og ég braut heilann um það meðan ég þokaðist hægt nær dyrunum hvort Flugfélag Íslands væri tekið upp á að bjóða lavanderklúta við komuna til Egilsstaða - hefði ekki veitt af því. En þetta var þá bara eitthvað nammi. Kannski hugmyndin að trufla lyktarskynið með sterku bragði í munninn.

|

15 maí 2008

Keðjusagir og kolamolar

Við Maggi áttum rómantíska stund í rjóðrinu í gær.
Hann mætti með keðjusögina sína, hann hefur verið að dunda við að koma henni í lag. Ég rændi keðjusöginni hans Þórhalls bróður og sýndi bara nokkur tilþrif með hana í höndunum.
En það lenti nú aðallega á Magga að saga trjáskæklur úr rjóðrinu og nú er þetta bara að verða nokkuð snyrtilegt.
Ég vildi auðvitað gera vel við manninn eftir þetta puð og var búin að undirbúa grillun á barbíkjúlegnum kjúklingabitum.
Það skal tekið fram að ég hef aldrei áður grillað á gasgrilli og hef ekki grillað síðan á síðustu öld. Ég vissi því ekki alveg hvernig þetta virkaði.
Það er nú skemmst frá því að segja að ég henti kjúklingabitunum á grillið og fór svo bara inn að leika mér í kúluspili meðan ég beið eftir að þetta grillaðist af sjálfu sér.
Obbobob, svona á ekki að grilla. Ég tók af grillinu þá svörtustu kolakjúklinga sem ég hef á ævinni séð. En Maggi er svo lítillátur og hrósaði matnum í hástert.
Reyndar átti ég smá lamabakjötslufur sem ég gat grillað í sárabætur, en alla vega nú er ég búin að læra hvernig á EKKI að grilla og leiðin getur bara legið upp á við í grillmennskunni.

|

14 maí 2008

Sjörnuspáin mín

er flott í dag:
Sporðdreki: Þú ert djarfur í dag og til í að stökkva af hæsta stökkbretti lífsins til að finnast þú geta flogið, jafnvel þótt þú munir lenda í köldum polli raunveruleikans.
En hvað gengur máttarvöldunum til? Er verið að reyna að einangra okkur Austfirðinga? Þjóðvegur 1 farinn í sundur á stórum kafla uppi á Fjöllum og ekki bara einhvers staðar, heldur á sýslumörkum Norður Múlasýslu og Þingeyjarsýslu. Við gömlu fjórðungsmörkin við Biskupsháls.
Að lokum, af hverju eru allir hættir að kommenta á bloggið mitt???

|

13 maí 2008

Ammæli

Skyldi vera boðið upp á kaffi og kökur?
Síðasta bloggfærsla Konna kynlega er árs gömul í dag.

|

Vor á pallinum

Það er aldeilis allt í sómanum í Skógarkoti.
Kisurnar njóta lífsins og ég hef það hreint út sagt gott.
Veðrið í gær var unaðslegt og það var svo mikið líf í hverfinu mínu. Börnin úti að leika sér og foreldrarnir í smíðavinnu, garðvinnu eða á spjalli við nágrannana.
Ég komst að því að á einum stað á pallinum mínum er alger suðupottur, ég hélst bara ekki við þar og þá var yndislegt að geta farið fyrir húshornið og fengið hafgoluna til að kæla sig.
Fína grillið var vígt í gær. Maggi kom og hann fékk að standa við grillið, ég gætti þess að hrósa honum reglulega. Hef sennilega hrósað honum aðeins of mikið því kjötið var aðeins of mikið grillað, en rosa gott samt.
Þetta er munurinn á körlum og konum við eldamennskuna. Við bara eldum þótt enginn taki eftir því. Það þarf að halda körlum við efnið með því að hrósa þeim reglulega, annars hætta þeir að hafa gaman af eldamennskunni og gefast upp.
En það er nokkuð ljóst að ég flyt út á pall í sumar ef hann hangir þurr. Ég er byrjuð að bera á garðhúsgögnin og svo þarf ég bara að fá einhvern til að festa upp markísuna.

|

11 maí 2008

Mig vantar að skilja

af hverju menn vantar að vita.
Mig vantar að borða af því að ég á ekkert að borða. Mig vantar að lesa af því að ég hef enga bók til að lesa.
Ef mig vantar að vita er það þá af því að ég veit ekkert?
Stundum þarf ég að vita, en ég ætla að vona að mig vanti aldrei að vita.
Kópavogskaupstaður á afmæli í dag, hann er 53 ára. Til hamingju Kópavogur.
Ég bjó tæp 16 ár í Kópavogi og ég man alltaf eftir 11. maí. Ég hef búið á Fljótsdalshéraði í næstum 30 ár, en ég hef ekki hugmynd um hver stofndagur kauptúnsins er.
Getur einhver frætt mig á því hvaða dagur það er?

|

10 maí 2008

Gálgafrestur


Hjörtur dýralæknir er ekki í uppáhaldi núna.
Klófríður átti að fara í aðgerð í gær og af því tilefni varð hún að fasta í 12 tíma. Kolgríma varð að gjöra svo vel og fasta henni til samlætis.
Þegar við Klófríður mættum niður á dýraspítala í gærmorgun kom í ljós að Hjörtur var veikur og það hafði láðst að láta okkur vita.
Eftir fýluferðina á spítalann varð kisa bara að koma með mér í vinnuna og vera með mér þar fram að hádegi. Sem betur fer var kisumatur í bílnum svo hún fékk að borða strax og við komum upp í vinnu.
Það er kominn nýr starfsmaður til okkar, Hildur Briem, og henni finnst þetta einstaklega heimilislegur vinnustaður. Um daginn var Tryggur, íslenski hundurinn hennar Ragnheiðar í vinnunni, Hildur mætti með lítinn son sinn og svo kom kisa í heimsókn.
Tekur Klófríður sig ekki vel út sem skrifstofukisa?

|

09 maí 2008

Til hamingju Kópavogur

Flott hjá Kópavogi að vinna Útsvar.
Eftir að Fljótsdalshérað datt úr keppninni, eftir frábæra frammistöðu, þá auðvitað hélt ég með mínum gamla góða bernskubæ, Kópavogi. Ekki fæðingasveit minni Reykjavík.
Þegar ég var að alast upp í Kópavogi var sagt að það væri bær milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og þangað væri safnað saman öllum hálfvitum sem ekki fengju að búa annars staðar. Garðbær hét bara Garðahreppur þá og var varla á kortinu.
En nú verða Reykvíkingar að endurskoða þessa gömlu afstöðu sína til Kópvogs.
Segið svo að hrepparígur fyrirfinnist bara á landsbyggðinni.

|

Dómsmál

Við erum alltaf að frétta af afbrotum útlendinga á Íslandi.
Maður fær það næstum á tilfinninguna að Íslendingar gangi hér um með geislabauga og svo komi vondir kallar frá útlöndum og berji þá þegar minnst varir.
Ég held að það mætti aðeins skoða þátt fjölmiðla í þessum efnum.
Í gær féllu nokkrir dómar í Hæstarétti, eins og venja er á fimmtudögum. Þar á meðal var dómur sem mikið er fjallað um í netmiðlum, en tveir Litháar (takið eftir að þjóðernið er alltaf látið fylgja) eru dæmdir í 5 ára fangelsi fyrir hrottafengna nauðgun.
Sama dag er kveðinn upp dómur í Hæstarétti þar sem ÍSLENDINGUR er dæmur í tveggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Ég hef hvergi séð minnst á þennan dóm í fréttum. Þó er merkilegt við þennan dóm að Hæstiréttur þyngir dóminn frá héraðsdómi.
Ég verð að segja að mér þykir þetta undarlegur fréttaflutningur. Er það aðal fréttin að útlendingar nauðga en ekki að konum er nauðgað? Er það ekki frétt að Hæstiréttur tekur skref til refsiþyngingar í nauðgunarmálum?

|

08 maí 2008

Spjátrungur

með montprik og kúluhatt.
Í teinóttum jakkafötum, á blankskóm. Spásserandi í Austurstræti, blístrandi lagstúf og brosandi framan í þá sem leið eiga hjá.
Þetta er það sem mér dettur í hug þegar ég les um nýja miðborgarstjórann í Reykjavík.

|

Bærinn sundurgrafinn

Voðalega er þetta eitthvað lítið skemmtilegt.
Að hafa flestar götur bæjarins sundurgrafnar. Maður ætlar að fara á tiltekinn stað eftir venjubundinni leið, en að aka um Egilsstaði í dag er eins og að aka um í völundarhúsi þar sem maður er alltaf að koma í blindgötur og þarf að snúa frá.
Ekki veit ég hvað þessi gröftur á að fyrirstilla, það er verið að leggja einhverja sver svört rör í jörð. Ekki veit ég hvað er í þessum rörum. Mér sýnist líka að flest fyrirtæki bæjarins séu að verki.
Þetta minnir mig á fyrst árin hér á Egilsstöðum, þá voru götur alltaf í sundur. Fyrst komu símamenn og grófu og mokuðu yfir, svo komu rarikmenn og grófu á sama stað og mokuðu yfir og svo komu bæjarstarfsmenn og grófu, kíktu á lagnir og mokuðu yfir aftur.

|

06 maí 2008

Vorverkin

Þá er nú Súbbi minn kominn á sumardekkin.
Á morgun fer hann í snyrtingu í Bílamálun. Strákarnir þar eru vanir að ganga hringinn um bílinn minn einu sinni á ári og bletta hann og Súbbi minn er nokkuð hruflaður eftir veturinn, grjótkast og svona. Það á líka að laga skrámuna sem hann fékk um daginn þegar Ítalinn var að þvælast fyrir mér á planinu við Húsasmiðjuna og bakkaði á mig þar sem ég var í mesta sakleysi að bakka út úr stæðinu á móti.
Ég er búin að fara í klippingu, svo fer ég í plokkun á snyrtistofunni á fimmtudaginn og Klófríður á tíma hjá dýralækninum á föstudaginn.
Hún er farin að fara í kvöldgöngur í vorblíðunni með fressketti hér í hverfinu svo ég neyðist til að fara með hana í ófrjósemisaðgerð.
Ég fékk hræðilegt samviskubit yfir að vera búin að panta tíma hjá dýra í kvöld þegar ég horfði á eftir henni skottast með kærastanum út í skóg, svona líka léttfætt og ánægð með tilveruna. En í gærkvöldi náði ég henni ekki inn fyrr en um miðnætti og það er náttúrulega ekki við hæfi að sómasamlegar læður séu á flandri úti á nóttunni.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er svona, sönn hamingja byggist á því að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur.

|

05 maí 2008

Túnfífill

Það gaf á að líta þegar ég fór á fætur í morgun.
Skafheiður himinn og glaðasólskin í skóginum, en yfir þorpinu niður í kvosinni lá þokusæng, eins og risavaxin dalalæða.
Sólin skín sæt og fín og þegar ég kom í vinnuna heilsaði mér þessi líka fallegi túnfífll. Hann treður sér upp á milli stéttarinnar og hússins hér á Lyngásnum og sl. 15 ár hefur hann glatt mig því hann er alltaf fyrsti útsprungni túnfífillinn sem ég sé á vorinn. Ég hef beðið um að hann fái að vera þarna óáreitttur.
Túnfíflar eru uppáhalds garðablómin mín, blómkrónan er mjög falleg og fátt er sumarlegra í mínum huga en útspruninn, glaðlegur túnfífill.
Ég vona að hann finni garðinn minn og setjist að þar.

|

04 maí 2008

Þokusúld

Í dag er góð speki á dagatalinu mínu:
Betra er að setja sér markmið og ná þeim ekki en hafa aldrei sett sér þau.
Ég er alltaf með alls konar háleit markmið í farteskinu. Hefja nýtt heilsusamlegt líf, fara í megrun, gæta aðhalds og sparnaðar.
Mér tekst þetta kannski ekkert rosalega vel, sérstaklega þetta megrunarmarkmið, en alla vega ég hef að einhverju að stefna.
Við Nína drifum okkur í pollagöllum út að hjóla í rigningarúða og þoku í morgun. Mig langaði svolítið að renna yfir pollana eins og maður gerði í bernsku. Voðalega getur maður verið smáborgaralegur að láta ekki svona skemmtilegar hugdettur eftir sér.
Jæja, við hjóluðum norður að Fljóti og heim til Nínu í kaffi og slúður. Voða notó.
En það sem er fréttnæmt úr þessu ferðalagi er að mér tókst að hjóla alveg heim að dyrum. Það er kannski ekki merkilegt í augum þeirra sem ekki eru staðkunnugir, en hinir vita að ég þarf að fara upp langa brekku hér í skóginum.
Ég verðlaunaði sjálfa mig með aukaskamti af rúsínum út í AB mjólina.

|

03 maí 2008

Lóan er komin

... að kveða burt snjóinn.
Þessi litla sæta elska var að spóka sig við Einbúablánna í dag. Mig langaði mest að taka í vænginn á henni og bjóða hana hjartanlega velkomna.

|

3. maí

Í dag er ungfrú Klófríður 6 mánaða.
Hún hefur setið úti á pallahandrið í morgun og virt fyrir sér umhverfið. Hlustað á fuglana kvaka í þokunni kannski furðað sig á hvað orðið hefur af þorpinu sem er vant að sjást af pallinum. Loks fékk hún leið á að hanga á handriðinu og er komin inn að fá sér morgunmat.
Við Kolgríma höfum aftur á móti haft það notalegt saman. Kúrt í bólinu, ég að lesa spennusögu en Kolgríma hefur legið ofan á mér og malað. Hún nýtur þess endrum og sinnum að fá næðis að njóta.
Nú er Klófríður komin í stuð og friðurinn úti hjá henni Kolgrímu minni, hún verður að taka þátt í eltingaleik með litlu Kló.
Það hefur legið þoka yfir bænum í morgun, en núna er að létta til, svei mér ef sólinni hefur ekki tekist að senda einn og einn geisla til okkar.
Jæja, kisurnar lagstar útaf og í Skógarkoti ríkir kyrrð og friður. Ætli ég klári ekki bara morgunkaffið og fari að huga að því að skipuleggja daginn.
Eigið öll góðan dag gæskurnar mínar.

|

02 maí 2008

Mánudagsföstudagur

Ég er alveg rugluðu í kollinum í dag.
Mér finnst endilega vera mánudagur og ég er búin að gleðjast oft í morgun þegar ég hef fattað að það er föstudagur en ekki mánudagur. Það er bara alveg stimplað í hausinn á mér að það sé mánudagur.
Helgin framundan. Ég ætla bara að taka því rólega í faðmi fjölskyldunnar, þ.e.a.s. með Klófríði og Kolgrímu. Kósýkvöld og furnálafreyðbað. Skreppa til mömmu á Seyðisfjörð ef einhvern tíma dregur úr snjókomu.
Í kvöld er stjórnarfundur hjá Ferðafélagi Fljótsdalshéraðs, við þurfum að taka ákvörðun um hvort við seljum alla fjallaskálana okkar, 5 stykki, eða hvort það sé einhver von til að við getum rekið þá áfram.
Endurnýjun og viðhald skála FFF byggist á sjálfboðaliðsstarfi og það er bara orðið svo erfitt að fá fólk í vinnuferðir.
Ég vil alla vega frekar selja FÍ skálana en að sjá þá grotna niður og fara í skítinn.
Það er spurning hvort skálarnir opni ekki leið heimamanna til aukinna áhrifa í þjóðgarðinum, þar sem þessir fimm skálar okkar eru allir innan marka Vatnajökulsþjóðgarðs. En ef ekkert fé fæst í reksturinn og menn hætta að taka þátt í sjálfboðaliðsstarfi þá er sjálfhætt.
Við eigum áfram skálana í Breiðuvík og Húsavík. Svo er framundan bygging skála í Loðmundarfirði.
Það má því segja að starf Ferðafélags Fljótsdalshéraðs sé að færast ofan af fjöllum og niður í fjöru.

|

01 maí 2008

Fram þjáðir menn í þúsund löndum.

Til hamingju með daginn allir vinnandi menn og konur.
Tók mér skóflu í hönd og mokaði Súbba minn út úr bílskúrnum, svona í tilefni dagsins.
Annars verður deginum að mestu varið í faðmi Fellbæinga. Afmæli hjá minni kæru vinkonu Guðrúnu Láru og svo frönsk súkkulaðikaka hjá Grétu í kvöld.
Eigið góðan dag til sjávar og sveita.
En af því að það er 1. maí en ekki Dagur íslenskrar tungu, þá kannski stautið þið ykkur í gegnum þetta.

|