29 janúar 2009

Hvað dregur fólk til Íslands?

Ég var á skemmtilegri samverustund.
Einu sinni í viku er opið hús á bókasafninu á Egilsstöðum. Það er ætlað útlendingum sem vilja æfa sig að tala íslensku og skiptist fólk úr Norræna félaginu, Rauða krossinum og Soroptimistaklúbbi Austurlands á að vera þar og spjalla við innflytjendur um hvað sem menn vilja spjalla um.
Í dag kom ungt og áhugavert par frá Tékklandi. Þau hafa búið hér á Egilsstöðum í tvö ár og hafa hugsað sér að vera hér áfram. Strákurinn vinnur í álverinu á Reyðarfirði en stelpan á verkfræðistofu hér á Egilsstöðum.
Þau voru spurð að því hvað hefði dregið þau til Íslands, af öllum stöðum.
Var það munaðarlíf sem hér var til skamms tíma lifað? Luxusvillur? Glæsilegar verslanamiðstöðvar?
Nei, ó, nei. Þau höfðu verið að velta fyrir sér að fara til Kanada, Noregs eða Nýja Sjálands en sáu þá litla mynd sem tekin var á Íslandi. Á myndinni stóð maður og baðaði sig í fossi.
Þetta fannst þeim athyglisvert. Maður að baða sig í heitum fossi út í guðs grænni náttúrunni. Þau tóku sér ferð á hendur, fundu fossinn sem er hér á hálendi Austurlands, í Laugavalladal og fengu sér bað. Og nú eru þau sest að hér á Íslandi.
Það eru ótrúlegustu ástæður sem geta fengið fólk til að leggja upp í ævintýraferðir.

|

27 janúar 2009

Ágreiningur

Það kom upp smá vandamál í gær.
Ég mætti niður á elliheimili til að lesa og þá sátu vinir mínir allir og voru að horfa á sjónvarpið. Þeir voru að fylgjast með öngþeyti íslenskra stjórnmála og hvernig allt er komið í kalda kol í samfélaginu sem þeir hafa varið allri sinni ævi í að byggja upp.
Það var þá spurning hvort menn vildu horfa á stjórnmálin í beinni eða hlusta á mig lesa. Sumir áttu svolítið erfitt með að gera það upp við sig en eftir að greidd höfðu verið atkvæði á lýðræðislegan hátt dró ég upp bókina Útkall - flóttinn frá Vestmannaeyjum.
Einn af mínum dyggustu hlustendum átti mjög erfitt með að slíta sig frá fréttunum og honum var boðið að koma í annað herbergi og horfa þar á sjónvarp. Það yljaði mér um hjartarætur að hann kaus það að lokum að hlusta frekar á lestur.
Enda sagði ég honum að það myndi örugglega ekki gerast neitt merkilegt á Íslandi þessar 45 mínútur sem við myndum hverfa 36 ár aftur í tímann og inn í þá ógnaratburði og hamfarir þegar það hófst gos í Vestmannaeyjum.
Mér fannst dapurlegt að sjá gamla fólkið sem unnið hefur hörðum höndum allt sitt líf vera að fylgjast með því á ævikvöldi sínu að Ísland siglir hraðbyr til glötunar.
Kannski er Ísland í dag í ekkert ósvipuðum aðstæðum og Vestmannaeyjar voru í upphafi goss. Glundroði og óvissa. Hamfarir - ekki af náttúrunnar völdum heldur af mannavöldum. Það er bara vonandi að uppbyggingin gangi eins vel og hún gekk þá.

|

25 janúar 2009

Í draumheimi.

Er raunveruleikinn draumur og draumurinn veruleiki?
Ég velti því fyrir mér. Raunveruleikinn er svo óraunverulegur.
Rithöfundi í heiðurslaunaflokki er gerð grein fyrir því að hann hafi ekki málfrelsi af því að hann þyggi listamannalaun.
Stjórnmálin í rusli, þjóðin eflist í mótmælum og maður veit aldrei hvaða fréttir berast að morgni þegar maður leggst á koddan sinn að kvöldi.
Mitt í þessu ölduróti erum við Maggi lögst í dagdrauma, eins og engin kreppa sé í landinu. Við dveljum í draumheimi.
Látum okkur dreyma um sumarhús á fallegum stað, þar sem grasið grær, sólin skín og fuglarnir syngja.
Ef þið vitið um lítið hús til sölu á svæðinu Aðaldalur, austur um að Höfn í Hornafirði þá megið þið láta mig vita.

|

23 janúar 2009

Eflum íslenskan landbúnað



... og forðumst slysin.
Slettum skyri en ekki skít.
Köstum eggjum en ekki grjóti.

|

22 janúar 2009

Sumar í sveit


... sóleyjar í túni, kýr að jórtra.
Mikið hlakka ég til sumarsins þegar ég horfi á þessa mynd.

|

Sturlungaöld hin síðari

Mér fer nú að hætta að lítast á þessi mótmæli.
Þau eru farin að ganga úr böndum og menn verða að hægja á sér.
Það er réttur okkar að mótmæla en ég vil ekki sjá fólk slasað og að skemmdarverk séu unnin á eignum.
Lögreglumenn eru hluti þjóðarinnar, þeir hafa ekkert orðið betur úti í þessu efnahagsástandi en við hin, þeir eru að vinna vinnuna sína og það er mótmælendum ekki til framdráttar að stórslasa þá. Ekki frekar en það er lögreglunni til framdráttar að beita mótmælendur ofbeldi.
Það er nógur eldmatur í miðbæ Reykjavíkur og menn ættu að gæta að sér þegar verið er að kveikja bálkesti. Ég vil alla vega ekki sjá enn einn stórbrunann í 101 Reykjavík.
Það er eitt að vera með hávaða og annað að beita ofbeldi og vinna skemmdarverk.
Ég vildi að þessi svokölluðu stjórnvöld myndu sýna fram á einhverjar lausnir á ástandinu áður en allt fer gersamlega í bál og brand hjá okkur.

|

20 janúar 2009

Það eru 32 ár frá því ég mætti á mótmælafund

... þar til ég fór á fundinn í Tjarnargarðinu sl. laugardag.
Það var í mars 1977 að haldinn var mjög fjölmennur fundur herstöðvaandstæðina í Háskólabíói. Ég var ólétt, komin 6 mánuði á leið og á þessum fundi lenti ég í þvílíkum troðningi að ég hélt að það ætti að kreista úr mér krakkann. Ég gat ekki verið í fjölmenni í mörg ár.
Það var eins og fólkið ætlaði aldrei að hætta að streyma inn í húsið, það var setið í öllum tröppum og fólk stóð hvar sem hægt var að koma sér fyrir.
Megas og listaskáldin vondu tróðu upp en það sem kannski trekkti mest að á þessum fundi var að í fyrsta sinn var sýnd myndin sem tekin var 1949 á Austurvelli þegar brutust út óeirðir vegna inngöngu Íslands í Nató.
Ég las um Guttóslaginn fyrir mörgum árum og það má Guð vita að ekki átti ég von á að ég myndi lifa þá daga að þvílík mótmæli myndu brjótast út á Íslandi.
En er nokkur furða að menn mótmæli á Íslandi í dag? Í hvaða forarsvað er þessi ríkisstjórn búin að koma okkur með aðstoð helstu frammámanna í fjármálaheiminum. Svo er okkur talið trú um að það séu einhver öfl úti í heimi sem hafa komið okkur í þessa stöðu.
Það líður ekki sá dagur að ekki berist fréttir af einhverri ömurlegri spillingu sem viðgengist hefur á Íslandi undanfarin misseri og skuldatölur þjóðarinnar eru svo háar að ég get ekki einu sinni skilið þær.

|

19 janúar 2009

Nú held ég að afi heitinn brosi út í annað

... hvar sem hann er niður kominn. Gamli Framsóknarkappinn.
Að ég myndi hrífast af Framsókn, ekki hefði ég nú átt von á því.
Mér líst vel á nýja formann Framsóknarflokksins, það litla sem ég hef séð til hans. Hann stóð sig vel í Kastljósi hjá Sigmari og mér fannst flott ábending hjá honum að íslenskur fjármálamarkaður væri búinn að kosta þjóðina meira en allir ríkisstyrkir til landbúnaðar í gengum tíðina.
Auðvitað eigum við að hafa öfluga matvælaframleiðslu í landinu.
Ég vil bara fá mitt íslenska fjallalamb sem hefur fengið að leika sér upp til heiða, í bjartri sumarnóttu áður en það lendir í pottinn hjá mér. Íslenskt grænmeti hef ég alltaf valið hiklaust umfram innflutt, það er ferskara og ég trúi því að það sé hollara, þó það sé stundum dýrara.
Helst af öllu vil ég fá að kaupa landbúnaðarvörurnar milliliðalaust af bændum og ég vona að sá dagur renni upp að okkur verði gert það mögulegt, án þess að brjóta lög.
Ekki vil ég sjá innfluttan kjúkling, nei ó nei, allra síst eftir að ég las Tveir húsvagnar eftir Marina Lewycka.
Það var óneitanlega spaugilegt í upphafi íslensku kreppunnar að allt í einu fóru að heyrast ótrúlegustu raddir um það hversu dýrmætir íslenskir bændur væru - þeir sem hafa mátt hlusta á þann söng í áratugi að þeir væru svo þungur baggi á þjóðinni að réttast væri að skera þá niður.
Stöndum vörð um íslenska matvælaframleiðslu, um íslenskan landbúnað og sávarútveg. Dettur einhverjum í hug að kaupa innfluttan fisk? Mér finnst það næstum flokkast undir landráð.
Að afla þjóðinni fæðu eingöngu með innfluttum matvælum þykir mér álíka búmannlegt og að pannta alltaf pizzu í matinn, í hvert mál.

|

Mótmælafundurinn í Tjarnargarðinum

... var vel heppnaður.
Ræðumenn voru fínir og Ingunn Snædal hélt frábæra ræðu. Fundarmenn létu hundslappadrífu ekki á sig fá og frummælendur létu það ekki trufla sig þótt snjór settist á blöðin þeirra, hann var bara dustaður af.
Í lok fundarins kom fram að það yrði fundur næsta laugardag - ég vona að menn mæti þótt þeir verði kannski svolítið slappir eftir þorrablót. Næsta föstudag er bóndadagur og þar með hefst þorrablótsvertíðin á Fljótsdalshéraði.


|

17 janúar 2009

Laugardagur í leti

Það er náttfatadagur fram að hádegi.
Leti og huggulegheit. Kúri í bólinu með kaffibolla og krossgátublað.
Maggi og félagar eru farnir á fjöll, eða ég held það alla vega.
Í upphafi vikunnar voru þeir að skipuleggja ferð á Grímsfjall. Þegar leið á vikuna var ferðaáætlunin farin að skreppa saman og hljóðaði upp á Geldingafell og Goðahnjúkar. Þegar Maggi kom og kvaddi mig í morgun voru þeir á leið í Snæfell.
Mér kæmi ekki á óvart þó þeir hafi bara rennt upp í Hallormsstað á 44" jeppunum og séu núna í Atlavík að borða nestið sitt.
Veðrið á Fljótsdalshéraði er drungalegt í dag. Drungalegt eins og ástandið í þjóðfélaginu.
Ég ætla að klæða mig vel eftir hádegi og mæta í Tjarnargarðinn á mótmælafund. Ég sé það á Facebook að þar eru 30 manns búnir að tilkynna sig á fundinn.
En hvað sem þjóðfélagsástandinu líður þá ætla ég að njóta þess að eiga mjúk náttföt, heitt og gott ból og þurfa ekki strax á lappir.

|

16 janúar 2009

Forkastanleg vinnubrögð

Alveg blöskrar mér framkoma æðstu manna Landhelgisgæslunnar.
Ekki vildi ég lesa um það á netinu að til stæði að segja upp x mörgum í minni vinnu og enginn fengi að vita hverjum á að segja upp og hverjum ekki.
Hafa yfirmenn Gæslunnar ekki heyrt talað um starfsmannafundi? Af hverju var starfsmönnunum ekki kynnt hvað fyrir dyrum stæði? Af hverju er þeim ekki boðið að taka á sig launaskerðingu eða minnkað starfshlutfall til að allir geti haldið starfi sínu? Kemur almennum starfmönnum Gæslunnar þetta mál ekkert við?
Á sama tíma berast fréttir af spillingu í mannaráðningum innan þessarar frómu stofnunar. Ég var nú svo barnaleg að halda að það heyrði fortíðinni til að forstöðumenn ríkisstofnana hegðuðu sér eins og þeirra stofnun væri þeirra einkaeign og innan veggja sinnar stofununar mættu þeir hegða sér eins og smákóngar. Þetta tíðkaðist fyrir 30 - 40 árum en ég hélt að þetta væri liðin tíð.
Þetta eru gersamlega ólíðandi vinnubrögð en ég á ekki von á að stjórnvöld geri neitt í þessu máli frekar en í öðrum málum þar sem rotið mynstur samfélags okkar er að koma í ljós.
Ísland best í heim!!! Ísland minnst spillta land í heimi!!! Voðalega höfum við verið græneyg og látið spila með okkur.

|

15 janúar 2009

Pollýanna hvar ertu?

Mig langar í lítið útvarp á náttborðið hjá mér.
Um daginn þegar ég var í Reykjavík fór ég inn í eina af stóru verslunum og fór þangað sem raftækin eiga að vera. En ég gekk framhjá röð af tómum hillum, sjón sem maður hefur ekki átt að venjast á Íslandi.
Ég fór svo á netið í gær og skoðaði heimasíðu Elko. Þar er hver myndin af annarri með textanum - Uppselt í augnablikinu.
Ekki það að þessi raftæki skipti svo sem máli, en ég held að þetta sé bara forsmekkurinn af því sem er að skella á okkur. Tómar búðahillur benda til að verslunareigendur séu í vanda og þetta er eins og snjóbolti sem er farinn af stað og er að smá hlaða utan á sig.
Pollýönnuheimspekin á svo vel við mig, en mér finnst einhvern veginn eins og Pollýanna sé í felum. Best að hafa upp á henni svo ég leggist ekki í þunglyndi.

|

12 janúar 2009

Manndrápsfærð

Það er best að vera sem minnst á ferð í dag.
Hér á Fljótsdalshéraði er stórvarasamt fyrir hvort heldur er akandi eða gangandi vegfarendur, sérstaklega á fáförnum leiðum.
Mjöllin þekur ísilagða jörðina þannig að bílarnir dansa og annar hver maður lendir á bossann.
Ég mæli með því að við fáum hláku.

|

11 janúar 2009

Hrakfallabálkurinn ég

Þá er ég komin aftur heim í mína heimabyggð.
Reykjavíkurreisan var vel lukkuð, afmælið hennar Siggu frábært og ég flaug sæl og ánægð heim um hádegisbilið í dag.
Það er nýfallin mjöll hér á Egilsstöðum og ég var varla fyrr komin út úr flugvélinni en ég steig á klakastykki sem faldi sig undir snjónum. Ég fékk heldur betur harkalega lendingu niður á bæði hnén og uppáhalds leggingsbuxurnar mínar hjuggustu í sundur.
Ég ákvað að það væri best að vera ekki að ofnota dýra læknisþjónustu á Íslandi svo ég gerði bara sjálf að sárinu og límdi það saman. Hnén á mér bera hvort sem er mörg merki athafnasemi minnar í bernsku svo eitt ör til eða frá skiptir ekki miklu máli.
Maggi var að bæta inn nýjum myndum á myndasíðuna sína. Krækjan inn á síðuna hans er hér vinstra megin á síðunni.

|

10 janúar 2009

Flug í kreppunni

Í gær flaug ég innanlands í fyrsta skipti í kreppunni.
Það var eins og maður væri kominn 30 til 40 ár aftur í tímann. Við vorum að nudda þetta inn í skýjum alla leiðina og það var bara töluð íslenska í vélinni. Greinilegt að allir erlendir starfsmenn Kárahnjúka eru farnir til síns heima.
Ókyrrð alla leið þar sem aldrei var farið upp úr skýjaþykkninu - alveg eins og var á 8. áratugnum og svo náttúrulega fór vélin að djöflast yfir Þingvallavatni og það sem eftir var í bæinn, nema núna djöflaðist hún bara nokkuð myndarlega.
Ég átti næstum von á að flugfreyjan myndi, eins og í gamla daga, ganga um og bjóða flugvélabrjóstsykur til að fyrirbyggja að maður fengi hellu í lendingunni, en það gerðist ekki.
Þá er það bara spurning hvernig ég nota þennan eina dag sem ég hef í höfuðstaðnum. Á ég að mæta á Austurvöll með eggjabakka eða á ég að fara í Kringluna og Ikea? Það er spurningin sem brennur á mér núna þegar ég sötra morgunkaffið.

|

08 janúar 2009

Vegur eldri borgara

Allir vilja veg eldri borgara sem mestan og bestan.
Líka við hér á Egilsstöðum. En hvernig sem á því stendur er Lagarásinn, gatan sem elliheimilið, sjúkrahúsið, sambýli eldri borgara og íbúðir fyrir eldri borgara, standa við búin að vera nánast ófær í marga mánuði.
Götunni var að mestum hluta mokað upp síðasta sumar og það er hreint með ólíkindum hvað það hefur tekið langan tíma að koma þessari götu í það form að þar sé öku- og göngufært.
Lengi þurfti að klöngrast upp á trébrú til að komast yfir skurð við íbúðir aldraðra. Þetta var ekki greiðfært fyrir fullfríska, hvað þá fyrir gamla og göngulúna fætur.
Ég átti erindi í apótekið í dag, en það stendur líka við Lagarásinn og það var ekki meira en svo að gatan væri rétt jeppafær á kafla.
Mér finnst þetta ástand til háborinnar skammar fyrir sveitafélagið okkar.
Í gær var ég á fundi sem haldinn var í Hlymsdölum. Nýrri og glæsilegri félagsaðstöðu fyrir eldri borgara og í rauna fyrir alla sem vilja nota þetta húsnæði. Félagsmálastjóri bæjarins hélt fróðlegt erindi um þá þjónustu sem sveitarfélagið veitir, m.a. elstu íbúunum. Það er allt til fyrirmyndar heyrðist mér og sveitarfélagið virðist hafa á að skipa bæði vel upplýstum og metnaðarfullum starfsmönnum í félagsþjónustunni.
En það sem mér fannst sorglegt við að koma í þessi fínu húsakynni er að aðkoman að húsinu er með öllu óboðleg. For, drullupollar og klakabunkar. Samt stendur þetta hús ekki við Lagarásinn.
Mér er slétt sama um það þótt það sé kreppa. Elstu íbúar sveitarfélagsins eiga að geta komist leiðar sinnar án þess að stofna lífi og limum í hættu. Ég held að sumir þeirra geti varla nýtt sér þá þjónustu sem í boði er vegna ófærðar af mannavöldum.
Við skulum ekki gleyma því að þetta er fólkið sem lagði grunninn að Egilsstaðaþorpi og það á ekki að þurfa að staulast um þorpið í þeirri verstu færð sem þekkist síðan byggð fór að myndast hér við Gálgaásinn.

|

07 janúar 2009

Gömul kona fer á fætur

Hræðilega er erfitt að fara fram úr rúminu á morgnanna.
Í rauðabítið í morgun var ég búin að snúsa hvað eftir annað þegar ég loksins hafði mig upp á lappirnar og staulaðist fram að kaffivélinni.
Hálf sofandi fór ég inn á bað og þvoði mér í framan og þó ég vaknaði aðeins við að setja ískalt vatn á andlitið þá vaknaði heilinn ekki betur en svo að ég var rétt búin að bera tannkrem í andlitið á mér í staðinn fyrir nærandi krem fyrir andlit fimmtugra kvenna.
Ekki veit ég hvað við hér á norðurhveli jarðar erum að æða á lappir um miðjar nætur, klukkan að ganga átta þegar allt er kolsvart úti.

|

06 janúar 2009

Gatan mín

Það bar ýmislegt til tíðinda í götunni minni í gær.
Það voru 6 af 16 húsum götunnar seld á nauðungaruppboði. Íbúðalánasjóður keypti 5 hús og Landsbankinn eitt hús.
Það er huggun harmi gegn að þessi hús voru í eigu byggingafyrirtækis en ekki einstaklinga.
En það gerðist líka eitt mjög jákvætt, gatan var loksins merkt, rúmu einu og hálfu ári eftir að fyrstu íbúarnir fluttu inn. Nú þarf ég ekki lengur að spyrja fólk hvort það viti hvar Hákon Aðalsteinsson eigi heima þegar ég er að vísa þeim leiðina heim til mín, eða segja að gatan þekkist á því að vera eina ómerkta gatan í hverfinu.

|

05 janúar 2009

Hinn grái hversdagsleiki

Loks er lífið að komast í eðlilegt horf eftir veikindi og jólasukk.
Ekki frídagur fyrr en í apríl svo maður fær víst að vinna fyrir laununum sínum næstu mánuði.
Í dag fór ég loksins á spítalann að lesa fyrir vini mína, ég hef ekki komist á spítalann síðan í endann nóvember svo það var gaman að mæta aftur.
Hún Klófríður mín kom mér heldur betur á óvart í dag. Þegar ég var nýkomin heim úr vinnunni stóð hún mjálmandi við útidyrnar. Þegar ég hleypti henni inn var hún með dauðan snjótittling í kjaftinum. Það hefði ekki komið mér á óvart ef þetta hefði verið hún Kolgríma mín, en Klófríður!!! Hún hefur aldrei veitt neitt mér vitanlega. Ég held hún hljóti að hafa fundið þennan fugl dauðan á víðavangi, enda var hann ekki þesslegur að vera nýveiddur.
Alla vega fékk Klófríður ekki miklar þakkir fyrir að bera þessa björg í bú - þó það sé kreppa.

|

04 janúar 2009

Erum við á Gaza?

Hún var röggsöm litla stúlkan á Austurvelli í gær.
En ekki er ég nú hrifin af því ef menn ætla að fara að beita börnum sínum fyrir sig í mótmælunum.
Það hefur verið bent á að fólk eigi að vernda börnin eins og hægt er í þessu erfiða ástandi sem nú ríkir í þjóðfélaginu, þannig að það að sjá litla stúlku standa á ræðupalli og þruma yfir þjóðinni finnst mér skjóta skökku við. Það er allt of mikil ábyrgð lögð á þessar ungu herðar.
Leyfum börnunum okkar að eiga æsku sína í friði og njóta hennar eins og unnt er. Höldum þeim frá hringiðu mótmælanna og ástandsins í landinu eins og kostur er.
Þetta fer að minna á myndir af börnum í grjótkasti á Gazasvæðinu.

|

02 janúar 2009

Fálkaorðan

Enn einu sinni hefur forseti vor úthlutað nokkrum Fálkaorðum.
Og enn einu sinni gengur hann framhjá mér.
Samt er ég, eins og flestir í hópi þeirra sem fá þessa flottu orðu, opinber starfsmaður sem mæti reglulega í vinnuna og reyni að vinna fyrir laununum mínum.
Af hverju er gert svona upp á milli okkar opinberra starfsmanna ár eftir ár?

|

01 janúar 2009

2009

Gleðilegt ár öll sömul.
Ég ætla rétt að vona að þetta ár verði ekki verra en árið sem var að kveðja, svona á landsvísu.
Þótt það hafi skipst á skin og skúrir í prívatlífinu hjá mér eru björtu stundirnar sem betur fer fleiri en þær dimmu. Það hefur nú samt oft legið betur á mér í upphafi árs en núna.
En það gladdi mig að sjá að Hörður Torfa var valinn maður ársins á Rás 2. Hann er svo sannarlega vel að því kominn. Hann er einn af þeim einstaklingum sem ég ber hvað mesta virðingu fyrir - heiðarlegur, trúr sinni sannfæringu og hann á heiður skilinn fyrir hvað hann hefur verið þrautseigur í áratugi að ferðast um landið og halda tónleika.
Mótmælafundirnir á Austurvelli eru bara enn ein rós í hnappagat Harðar.
Ég byrjaði árið á því að renna yfir Fjarðarheiðina til að heimsækja mömmu sem dvelur á Sjúkrahúsi Seyðisfjarðar. Afskaplega væri þægilegt ef það væru jarðgöng á milli Héraðs og Seyðisfjarðar. Það er ekki nóg með að maður þurfi að fara þessa 600 m upp fyrir sjávarmál til að komast milli byggðarlaga, heldur þarf að aka langan veg þarna uppi og þar er oft allt annað veður en í byggð. Það getur verið besta veður í byggð en bylur uppi á Fjarðarheiði.
Yfir vetrartímann fæ ég oftast hnút í magann þegar ég ætla að skjótast á Seyðisfjörð, þrátt fyrir að ég sé á fjórhjóladrifnum bíl. Það er nefnilega ekki einu sinni símasamband á löngum kafla þarna uppi þar sem veður geta verið válynd.

|