31 október 2005

Benzi

Hvað lætur maður ekki hafa sig út í.
Nú er ég búin að láta telja mér trú um að Benzi minn muni aldrei læra að aka í snjó og hálku, fyrst hann er ekki enn búinn að læra það orðinn 15 ára gamall.
Ég er búin að vera að reyna að kenna honum það sl. þrjá vetur og honum hefur nú svo sem gengið ágætlega á köflum, stundum sýnt smá framför meira að segja. Ég skal viðurkenna að við förum aldrei út fyrir bæinn frá því að fyrstu snjókorn falla og þar til snjóa leysir á vorin en hann hefur bara staðið sig vel innanbæjar greyið litla. Liggur vel á vegi og er þægilegur í akstri. Við erum nú búin að fara saman tvo hringi um landið, fyrst norðurleiðina í fyrra og svo suðurleiðina í sumar. Hann Benzi minn er sérstaklega þægilegur ferðafélagi á langferðum.
En svona er nú lífið og veturinn gengur óvenju snemma í garð, svo nú er ég farin að horfa eftir 4x4 bíl sem getur flutt mig um nærsveitir og yfir fjallvegi allan ársins hring. Ég var hálftíma að koma Benza mínum úr hlaðinu í gær í fingurdjúpum snjónum.
Það er líka spurning hvort það sé ekki bara gott fyrir hann Benza að leggjast í vetrardvala og fá svo að koma aftur á götuna með vorinu. Það myndi henta okkur báðum.
En það er nú ekki sopið kálið þótt maður ákveði að finna annan bíl. Það er ljóta flækjan þessar bílasölur. Ég bara skil ekki hvernig menn nenna að skipta um bíl á hverju ári og jafnvel oft á ári. Ég myndi fara yfirum ef ég þyrfti að standa í því. Það ægir þarna saman alls konar drasli og ekki nokkur leið að henda reiður á hvað er í boði.
Það væri lágmark að reyna að raða bílnum eftir einhverju skipulagi á planið, maður fengi betri yfirsýn yfir framboðið ef þeim væri t.d. raðað eftir lit. Mig langar t.d. ekki í bíl í tilteknum litum og þá þyrfti ég ekkert að eyða tíma í að horfa á þann hluta af planinu. Ég vil helst hvítan eða svartan bíl, dökkblár eða dökkrauður koma líka til greina.
Það er ekki spurning að það á að raða bílum eftir lit.

|

30 október 2005

Sunnudagur

Vaknaði í morgun við að Kolgríma var á tásluveiðum.
Kisa er tekin upp á því að veiða á mér tærnar í morgunsárið. Það er ekki beint notalegt að vakna upp með kattaklær á kafi í stórutánni. En kisu finnst þetta afskaplega skemmtilegur leikur.
Kolgríma hefur tamið sér nýja drykkjusiði. Nú stekkur hún upp í baðvaskinn og bíður þess að ég skrúfi frá krananum svo hún geti fengið sér vatnssopa. Hún hefur komið mér í skilning um að henni líki ekki tannkremið mitt (þetta ódýra úr Bónus) og að henni líki ekki ef ég þvæ vaskinn ekki nógu vel eftir að ég hef lokið við að tannbursta mig. Hún notar alveg sömu tjáningaraðferðir og hún notar til að sýna mér að henni líki ekki maturinn sem henni er ætlaður. Hún er nefnilega afskaplega matvönd og ef ég set eitthvað miður gott í skálina hennar teygir hún framloppurnar fram á gólfið og viðhefur leikræna tilburði eins og hún sé að moka sandinum yfir það sem fer í klósettið hennar.
Kolgríma dreif sig út eftir að hún var búin að koma mér á lappir. Þó það hafi frosið í nótt er efsta skænið á snjónum ekki alveg nógu traust fyrir hana og af og til lætur það undan og hún er á kafi í snjóskafli.
Hún finnur upp á ótrúlegustu hlutum. Hafið þið séð kött klifra í rifsberjarunna? Það er ekki laust við að það sé skemmtileg sjón. En Kolgríma gefst ekki upp á að finna sér eitthvað skemmtilegt til dundurs.
Fyrir hálfum mánuði var ég grenjandi hér yfir lítilli velgengni í skólanum. Þá var ég að vinna verkefni og nú er ég búin að fá niðurstöðurnar úr því og ég hef svo sannarlega ekki ástæður til að grenja meira. Ef ég næ ekki prófinu um jólin er ástæðan bara sú að ég hef ekki verið dugleg að lesa, ekki að námsefnið hafi vaxið mér yfir höfuð.
En svona til að fyrirbyggja jólafall þá verður dagurinn notaður til að drekka í sig fróðleik um íslenskt mál að fornu.

|

28 október 2005

Smásjárskoðun

Sigga vinkona mín úr Kópavoginum kom degi á undan áætlun.
Það var bara gaman, verst að ég var ekki búin að fjarlægja öll Bónussjampóin af baðinu áður en hún kom. Hún er nú einu sinni að selja hárgreiðslustofunum fínar hárvörur svo ég var auðvitað ekkert rosalega hrifin að vera staðin að því að nota bara ódýrustu sjampóin úr Bónus, af öllum búðum.
Hún hringdi til mín í gærkvöldi og sagði mér að koma upp á hárgreiðslustofuna mína í hárdekur, djúpnæringu og höfðunudd.
Ég lét ekki segja mér það tvisvar og dreif mig. Þetta var alger unaður.
Sigga vildi líka hárgreina mig. Hafið þið heyrt það áður??? Hárgreining??? Ég greindist alla vega vera með hár á hausnum. Svo fékk ég að skoða hársvörðinn minn í smásjá. Ekki þessari venjulegu sem þeir nota í CSI heldur alveg sérstakri smásjá. Minnir á sónartæki eins og óléttar konur eru skoðaðar með.
Þið ættuð að sjá hársvörð í smásjá, hann er ekki neitt augnayndi. Minnir mest á glært gel, ég sá æðar og svo voru hárin eins og nálar í nálapúða og langt á milli þeirra. En það var alla vega engin lús og engin flasa - hefði samt verið svolítið gaman að sjá eitthvað svoleiðis í smásjánni.
Ég reyndist hafa alveg sérstaklega heilbrigt hár, miklu hraustlegri hárleggi en voru þarna á einhverjum viðmiðunarmyndum. Þökk sé öllum ódýru sjampóunum.
Samt fór ég út með fangið fullt af dýru og fínu hárdóti sem á að gera hárið á mér ennþá fínna, eða öllu heldur fallegra, það er nógu fínt, næstum eins og dúnn og lekur líflaust eftir höfuðkúpunni - gæti verið Bónussjampóinu að kenna.
Frumburðinn gladdi aldraða móður sína í kvöld með því að hringja og tilkynna heimkomu um næstu helgi. Hún er að byrja að vinna í BA-ritgerðinni sinni og hvar annars staðar en á Héraðsskjalasafninu okkar er mesta heimildarnáman.
Mikið hlakka ég til að fá þessa elsku í kotið, elda uppáhalds matinn hennar og eiga notalegar stundir.

|

26 október 2005

Fimbulkuldi

Ekki hlýnar á Héraði.
Nú er -10°. Ég var að koma heim af kvöldgöngu, hélt ég yrði úti, en komst í hús áður en frostið náði að gera út af við mig. Ég skil ekki hvað ég er orðin hræðilega kulvís, eins og ég er vel bólstruð. Þetta hlýtur að vera aldurinn. Ég var samt vel klædd og með húfu og vettlinga. Ég segi bara ekki annað en að úr því að það er orðið svona hræðilega kalt í október, hvernig verður þetta þá í janúar og febrúar. Ég held ég fari að undirbúa að leggjast í vetrardvala eins og bangsarnir.
Lambið mitt komst heilu og höldnu til Tyrklands. Þökk sé almættinu. Vona bara að hún skemmti sér vel og vandlega. Það hlýtur að vera óborganlegt ævintýri að koma til Tyrklands, næstum eins og að hverfa inn í 1001 nótt.
Kolgríma er búin að vera á músaveiðum í 3 daga. Hún var svo kát yfir að ég skyldi loksins þrífa heimilið og færa til húsgögn til að skúra undir þeim því þá komu ýmis leikföng sem hún á í ljós. Meðal annars uppáhalds músin hennar. Henni voru færðar 3 mýs í vor og tvær þeirra eru bara alveg týndar. Þær hljóta að koma í ljós í jólahreingerningunni. En þangað til verður Kolgríma bara að veiða þessa einu mýslu sína.

|

25 október 2005

Lambið mitt

Nú verð ég að fara með bænirnar mínar.
Lambið mitt er að fljúga með Turkish-airlines frá Kaupmannahöfn til Instanbúl á morgun. Skyldi Guð á himnum vera í sambandi á þessu svæði eða er það Allah? Kannski að þeir skipti heiminum á milli sín eins og símafyrirtækin og þarna verði örverpið mitt utan þjónustusvæðis.
Það er svo kalt hér á Héraði í dag, ég er frosin inn að beini og það er töluverð vegalengd. Þurfti að leggjast í 50° heitt bað til að ná úr mér hrollinum þegar ég kom heim úr vinnunni. Samt er ég bara að vinna innivinnu. Aumingja þeir sem þurfa að vinna úti í þessum fimbulkulda. Ég held að hitamælirinn á húsinu mínu sé ekki réttur, hann sýnir bara - 5° það hjóta að eiga að vera -25°. Ætli maður verði ekki að sofa í föðurlandi með hitapoka undir sér í nótt.

|

24 október 2005

Baráttudagur kvenna

Fundurinn hér á Egilsstöðum var vel lukkaður.
Við ætluðum að koma saman á Hótel Héraði en það var engan veginn pláss fyrir allar þessar konur þar, svo Karen Erla hringdi í íþróttahúsið, lét Hrein Halldórsson - Strandamanninn sterka - stöðva fótboltaleik hjá strákunum og við stormuðum allar þangað og héldum fundinn í íþróttasalnum.
Mér fannst besta ræðukonan vera ung menntaskólastúlka - kröftug og hnitmiðuð ræða hjá henni.
Svo er bara að sjá hvort það verði enn þörf á baráttufundi eftir 30 ár.
Einhvern tíma las ég að lægst launaði hópurinn á vinnumarkaðinum væru giftar konur en hæstu launin fengju giftir karlar - þetta er náttúrulega fáránlegt ef rétt er. Þurfa giftir karlar hærri laun en ógiftir og ef svo er þurfa þá giftar konur ekki líka hærri laun en ógiftar? Hvað kemur hjúskaparstaðan launum við?

|

22 október 2005

Laugardagsverkin

Nú á ég skilið að fá laugardagsorðu húsmæðra.
Ég er búin að ljúka hinni mánaðarlegu helgarhreingerningu. Miðað við hvað ég þurfti að skipta oft um skúringavatn hlýtur að vera langt síðan það var laugardagshreingerning hér á þessu heimili.
Ég er búin að fá nýjan skúringadisk og hann er svona rosalega góður að ég var hálftíma á undan áætlun að þrífa. Meira að segja þó svo að ég setti tvisvar í þvottavél og færi út að höggva í eldinn.
Nú get ég notað daginn til að læra og svo verð ég með smá matarboð í kvöld. Þetta á að verða voðalega huggulegt, kveikt upp í arninum, kjúklingur með hvítlauksostasósu, smjörsteiktum sveppum, grænmeti og ofnbökuðum kartöflukúlum. Í eftirmat verður svo döðluterta með kornfleksmarens, þeyttum rjóma og jarðarberjum.
Hvort sem þið trúið því eða ekki þá bauð ég karlmanni í þennan mat og hann afþakkaði pent. Jafnvel þó hér yrðu þrjár dömur og læða sem myndu halda honum félagsskap. Meðalaldur kvenveranna er rúm 30 ár (ef kisa reiknast með) og samt sagði hann bara nei takk. Er ekki í lagi með sumt fólk? Það er örugglega fullt af körlum þarna úti sem hefðu bara verið guðslifandifegnir að fá þetta boð.
Ég þreif sérlega vel í gestaherberginu því vinkona mín úr Kópavoginum kemur um næstu helgi og ég get ekki boðið henni að sofa í einhverju skítaskúkkelsi sem lyktar eins og fjóshaugur eftir metangaseiturhernað Egilsstaðabænda. Það er nefnilega svo furðulegt að allar gömlu vinkonurnar mínar úr Kópavoginum eru hver annarri myndarlegri. Það mætti halda að þær væru aldar upp í húsmæðraskólum, samt fór engin þeirra á slíka menntastofnun. Ég hlýt að vera fædd sóði því ég kemst ekki með tærnar þar sem þær hafa hælana. Samt eru þær alltaf að reyna að kenna mér eitthvað gagnlegt, eins og að búa til góðan mat.

|

21 október 2005

Opinber heimsókn

Ég sá það í blöðunum nú í vikunni að forseti vor og frú hans brugðu sér í mikið ferðalag. Alla leið frá Álftanesinu suður til Hafnarfjarðar.
Ansi er orðið lítið í ferðasjóði forsetans ef hann hefur ekki tök á viðameira ferðalagi en þetta. En það er kostur við svona stutt ferðalag að ekki þarf að láta handhafa forsetavalds taka við. Kannski að forseti vor og fylgdarlið hans heimsæki næst bernskustöðvar mínar í Kópavoginum.

Lífið gengur bara sinn vana gang hjá okkur Kolgrímu. Ég er samt svolítið hrædd um að hún sé í einhverju strákastandi, hún hegðar sér frekar furðulega. Hún er með verri unglingaveiki en dætur mínar fengu, hoppar upp á borðum í eldhúsinu þó hún sé löngu búin að læra að þar á hún alls ekki að vera. Ég er stöðugt að úða úr vatsnbrúsanum á hana, en hún bara hoppar aftur upp á borð þegar hún heldur að ég sjái ekki til.

|

19 október 2005

Metangas

Ég held það sé verið að svæla burtu íbúa Egilsstaða.
Í dag er 3. dagurinn í röð sem upp gýs þessi ótrúlegi fnykur af Egilsstaðatúninu. Þurfa svona áburðardreifingar ekki að fara í umhverfismat? Er eitthvað saman við þetta gums úr haughúsinu?
Ef farfuglarnir hafa ekki allir verið flognir til sinna vetrarheimkynna þá hafa þeir örugglega drifið sig suður á bóginn í gær.
Ég bið Guð að gefa að áburðardreifingunni sé lokið eða að hann fari að snúast í austanátt.

|

18 október 2005

Rjúpur

Jæja, þá er tími hinna týndu rjúpnaskyttna hafinn.
Svo er það spurningin um hvort maður hefur rjúpur á jólunum eður ei. Þessi tvenn rjúpnalausu jól voru alveg ljómandi fín og ég held ég nenni ekki að standa í að reita rjúpur oftar. Þetta er allt of mikil vinna fyrir lítinn mat, að vísu rosalega góðan mat.
Hvað er maður að velta sér upp úr því hvað á að borða á aðfangadag? Í hitteðfyrra var ég með hreindýr, það var mjög gott en ég hafði lambalæri í fyrra og ég ætla að hafa það þessi jól - lambalæri klikkar aldrei. Svo auðvitað humar handa frumburðinum sem borðar ekki kjöt.
Um tíma leit út fyrir að ég yrði ein með kisu um jólin. Dæturnar ætluðu báðar að vera í útlöndum. Nú er staðan hins vegar sú að það verða fullar heimtur hjá mér um jólin og ég fæ báðar dæturnar og báða tengdasynina heim. Þið sem voruð búin að sjá aumur á mér og bjóða mér til ykkar á jólunum getið því andað léttar, við Kolgríma verðum heima hjá okkur.
Það er ljúft til þess að hugsa að fá alla krakkana heim í kotið.

|

17 október 2005

Helgin

Helgin var bara góð þegar upp er staðið.
Við Nína fórum á alveg óborganlega tónleika með Hvanndalsbræðrum á föstudaginn. Ekkert smá flottir í tauinu þessir gleðipinnar. Samt ekki með sama búningahönnuð og Stuðmenn. Ég skemmti mér alveg konunglega og það gerðu allir hinir tónleikagestirnir líka.
Á laugardag rambaði ég á barmi taugaáfalls. Það skildu himinn og haf milli mín og námsefnisins sem ég á að vera að læra. Hringdi í Maríönnu skólasystur mína og grenjaði fyrir hana í símann, þetta er svo erfitt, þetta er svo flókið, þetta er svo gersamlega óskiljanlegt. En Maríanna minnti mig á að ég væri aumingi ef ég gæfist upp.
Samþykkti allt sem Maríanna sagði og það fór aðeins að rofa til í hausnum á mér í gær, en samt ekki að gagni fyrr en ég hafði farið að ráðum skólasystur minnar á Akureyri og hlustað á fyrirlestrana á netinu.
Ráðgert var að nokkrar gamlar gleðikonur mættu til mín í sunnudagsmorgunmat, en þar sem þær þurftu að drekka skógarmannaskál á laugardagskvöld risu þær ekki árla úr rekkju á sunnudag - það rís náttúrulega enginn árla úr rekkju daginn eftir skógarmannagleðskap. En Nína mætti og við höfðum alla vega nóg að borða.
Slúttaði svo helginni í fimmtugsafmæli í gærkvöldi. Flott veisla, hreindýrasúpa, hreindýrapaté og alls konar góðgæti.

|

15 október 2005

Köttur á köldu bárujárnsþaki

Ekki veit ég hvað hún Kolgríma er alltaf að koma sér í vandræði.
Í sumar varð Rumurinn að koma og bjarga henni niður úr elritré, nokkru seinna komst hún í sjáfheldu í birkitrénu úti í garði. Um daginn varð Bjarni granni að hjálpa mér að ná henni ofan af húsþakinu og núna er hún nýkomin ofan af þaki nágranna míns. Eins gott að húsin hér í hverfinu er öll á einni hæð, annars veit ég ekki hvernig ég ætti að ná kisu niður.
En að öðru. Mikið er nú gaman að Margrét Þórhildur og Hinrik hafa eignast þriðja sonarsoninn - og þessi er krónprins. Nikolai og Felix eru búnir að fá lítinn frænda og ég ætla bara rétt að vona að hann Friðrik reynist betri heimilsfaðir en hann Jóakim bróðir hans. Ég hef aldrei skilið hvers vegna hann Jóakim reyndist henni Alexöndru ekki betri eiginmaður, eins og þetta er sjarmerandi kona. Mary hans Friðriks er líka voðalega hugguleg, en kannski ekki eins dugleg að læra dönsku og Alexandra. Merkilegt með þessa dönsku konungsfjölskyldu að þurfa alltaf að vera að giftast útlendingum. Hinrik er franskur, Alexandra frá Hong Kong og Mary frá Nýja Sjálandi.
Maður verður að fá sér danskt smörrebröd í tilefni dagsins og hlusta á danska tónlist.

|

14 október 2005

Símabögg

Ég var að spjalla við Nínu í símann í gærkvöldi. Í miðri slúðru hringir hinn síminn - til hvers er maður að hafa tvo síma? Nú, en þar var myndarleg karlmannsrödd, ávarpaði mig með nafni og kynnti sig. Ég hélt að nú hefði hlaupið á snærið hjá mér, en nei, aldeilis ekki. "Ég er að hringja frá Stuð tvu og er með tilboð sem þú getur ekki hafnað." Áður en maðurinn las mér allan pistilinn tókst mér að stoppa hann og sagði að ég hefði ekki áhuga á Stöð tvö. "Já, en Idolið er byrjað." Ég sagði honum að mér væri sama, ég horfði nánast ekkert á sjónvarp og það varðaði mig litlu hversu margar stöðvar væru í sjónvarpinu þegar ég kveikti eiginlega aldrei á því. "Já, en þetta kostar bara 150 kall á dag." Nú er ég búin að reikna það út að ég get grætt rúmar 4.000 kr. á mánuði með því að hafna þessu tilboði.
Fyrir nokkrum árum ákvað ég að drýgja tekjur mínar með því að gerast símasölukona fyrir útgáfufyrirtæki. Það var skelfilegt, ég entist tvö kvöld. Ég skildi allt of vel fólkið sem ég var að ofsækja.
Ég hringdi í einn karl sem var nokkuð góður.
Ég byrja á að bjóða honum Vikuna
Fórnarlambið: "Nei, er hún ekki bara fyrir konur."
Þá bauð ég honum blað um stangveiði.
Fórnarlambið: "Stangveiði, nei, það er allt of dýrt sport fyrir mig."
Þá reyndi ég að bjóða honum Fiskifréttir.
Fórnarlambið: "Já, en góða mín, ég er ekki á sjó."
Gestgjafann?
Fórnarlambið: "Gestgjafann, má ég nú heldur biðja um staðgóðan mat en þessa smárétti sem þar eru, maturinn í Gestgjafanum er ekki upp í nös á ketti."
Loks var það rúsínan í pylsuendanum, hann hlyti að falla fyrir Bleiku og bláu.
Fórnarlambið: "Elskan mín góða ég er löngu vaxinn upp úr því."

Ég lét þetta gott heita og hef ekki reynt fyrir mér sem sölukona síðan - ekki mín deild.

|

12 október 2005

Með tærnar upp í loft

Ég var að brjóta heilann um það eftir Reykjavíkurtúrinn í gær hvort það væri svo sem nokkur skaði skeður þótt flugsamgöngur legðust af við höfuðborgina. Borgin myndi náttúrulega einangrast, en Akureyri gæti tekið við hlutverki Reykjavíkur að miklu leyti. Þangað er hægt að halda uppi flugsamgöngum frá Ísafirði, Egilsstöðum, Höfn og fleiri stöðum og við gætum sótt verslun, leikhús og læknisþjónustu þangað. Er ekki ágætt sjúkrahús á Akureyri? Er ekki líka bara fínt moll þarna?
Verst að ég á svo til enga vini og vandamenn á Akureyri, en það mætti reyna að bæta úr því, kynnast kannski einhverjum fyrir norðan. Alla vega held ég að helgarferðir til Akureyrar gætu bara verið ágætar.
Ég hef verið afskaplega dugleg undanfarna daga og komið ótrúlega mörgu í verk. Ekki samt að taka til á mínu stóra heimili, deyfi bara ljósin svo ég sjái ekki draslið.
Hef ákveðið að gera ekkert af viti í kvöld. Ætla meira að segja að kveikja á sjónvarpinu og hreiðra um mig í stofusófanum með tærnar upp í loft og klappa kisu.

Speki dagsins: Ef þér þykir ekki vænt um sjálfan þig er þess ekki að vænta að öðrum þyki það.

|

10 október 2005

Kvosin

Kolgríma liggur í fanginu á mér og malar. Gott að fá góðar móttökur þegar maður kemur heim í kotið.
Ég skrapp snögga ferð til Reykjavíkur. Það kemur mér alltaf jafn mikið á óvart hvað hann er napur strengurinn frá Esjunni, suður Lækjargötu og í nágrenni Tjarnarinnar. Ég held að Kvosin sé kaldasti staður á jarðarkringlunni.
Fjölskylda mín bjó nokkur ár í Þingholtunum. Frumburðurinn var einn vetur í leikskóla vestan Tjarnarinnar og það hvarflaði stundum að mér að við yrðum úti á leið okkar um Skothúsveginn. Einu sinni var ég að brjótast heim með barnið í fanginu í blindbyl. Þegar við börðumst í storminum yfir Tjarnarbrúnna stoppaði ungur bílstjóri og bauðst til að aka okkur heim. Ég held hann hafi séð fyrir sér að þarna væri sagan í ljóði Jónasar Hallgrímssonar, Móðurást, að endurtaka sig á ofanverðri 20. öldinni. Ég þakkaði ökumanninum hugulsemina en sagði honum að þetta yrði auðveldara þegar við kæmum yfir Sóleyjargötuna. Var samt glöð í hjarta mínu yfir að í borginni fyrirfinndist miskunnsami Samverjinn.
Þetta rifjaðist upp fyrir mér í morgun á leið minni frá Fálkagötunni niður á Lækjartorg. Eyrun á mér voru rétt frosin eftir þennan göngutúr og ég var með grýlukerti á nefinu.
Eftir vinnu skruppum við Visa vinkona mín og ég í Kringluna. Sáum svo sem ekkert sem við vildum hafa með okkur heim, en auðvitað verður maður að kíkja í eitt moll í kaupstaðarferð.

Speki dagsins: Græddur er geymdur eyrir - eða er það kannski gleymdur er eyddur eyrir.

|

09 október 2005

Vetur

Það er kominn vetur.
Jörðin er alhvít og greinar trjánna svigna undan blautum snjónum.
Þegar ég opnaði út í garð í morgun tók Kolgríma undir sig stökk og dreif sig út. Hún snarstansaði í ökladjúpum snjónum og horfði í forundran út í garðinn sem í gær var grænn og þakinn laufum en er nú alhvítur. Hún nusaði af snjónum, ýtti honum til og það mynduðust litlar snjókúlur undir loppum hennar. Snjóflyksurnar festust við feldinn hennar og hún reyndi að hrista þær af sér, tipplaði lítinn hring á pallinum og settist loks undir einn garðstólinn. Fór síðan aftur inn og kom sér fyrir í gluggakistunni í stofunni og lét sér nægja að skoða þennan nýja heim út um gluggann.

Nína hélt innflutningsgleði í nýju íbúðinni sinni í gærkvöldi. Þetta var vel lukkað samkvæmi, menn komu alls staðar að af landinu og allir skemmtu sér vel. Það voru þarna hljóðfæraleikarar, Dætur Satans og mér skilst að þeir hafi leikið í beinni í Popplandi í gær. Þeir upphófu hljóðfæraslátt og söng og sungu m.a. lag og texta sem var sérstaklega saminn um Nínu. Síðan var ljóðalestur en engin ræðuhöld.

Speki dagsins: Maður er manns gaman.

|

08 október 2005

Kolgríma

Ég var að velta því fyrir mér yfir morgunkaffinu hvernig lífið horfir við henni kisu minni.
Hún kom í heiminn í vor og þegar hún fór að hoppa um heiminn var komið sumar. Hún hefur leikið sér í garðinum mínum, innan um tré og runna, bitið gras, veitt fugla og flugur. Fyrsta bráðin hennar var áðnamaðkur sem hún lék sér með úti á palli. Lífið hefur verið ósköp ljúft hjá henni.
Þegar hún dreif sig út í morgun var smá hrím á pallinum og kisa greyið sem hjóp í gleði sinni út varaði sig ekki á þessu og skautaði eftir pallinum og féll út í frosið grasið. Skyldi hún mun hvernig garðurinn var í sumar meðan laufið var á trjánum en ekki á grasinu?
Kolgríma kemur úr fínu húsi á Seyðisfirði. Þar bjó hún hjá mömmu sinni og tveimur bræðrum sínum, hjónum með tvo drengi og labradorhundinum Bjarti.
Högni pabbi hennar Kolgrímu var bryggjuköttur sem lifði bóhemlífi við gamlar og aflagðar bryggjur. Hann var stór og mikill, með lepp fyrir auga, ráma wiskyrödd og bar þess merki að hafa marga fjöruna sopið. Hann hafði um sig hirð katta og sem hlustuðu á ævintýralegar frægðasögur um gamla daga, hættulegar veiðiferðir á eftir stórum rottum og alla hans sigra í lífinu.
Kisa litla í fína húsinu var ekki að þvælast niður á þessar hættulegu bryggjur þar sem vafasamt næturlíf bóhemkattanna fór fram. Högni hins vegar virti ekki landmæri ólíkra menningarheima og þegar hann frétti af þessari nettu og fallegu læðu þá dreif hann sig heim að fína húsinu og lokkaði kisu út með rámum ástarsöng.
Hún var svo lítið lífsreynd og varaði sig ekki á þessum fagurgala. Það sást til hans þar sem hann fíflaði kisu litlu og kom fram vilja sínum. Aumingja kisa. Í fyllingu tímans ól hún þrjá litla kettlinga og hún var svo döpur yfir örlögum sínum að hún vildi ekki að nokkur maður kæmi nálægt sér og kettlingunum. Eini sem fékk að heimsækja hana var Bjartur sem alla tíð var hennar stoð og stytta.
Þegar kisa fór að jafna sig á þessu öllu og sá hvað hún hafði verið auðtrúa, því auðvitað kom Högni aldrei að kíkja á afkvæmin, þá tók hún til sinna ráða. Hún bar alla kettlingana yfir í bælið hans Bjarts og skildi þá eftir þar. Bjartur skyldi gjalda fyrir það sem kynbróðir hans í kattaheimi hafi komið henni í.
Upp frá því var Kolgríma í fóstri hjá Bjarti. Hann hugsaði vel um hana og gætti þess að hún hrykki ekki ofan í kok á honum þegar hann var að þvo henni og hún festist á hans stóru tungu.
Svo var það að við Kolgríma hittumst í veislu í fína húsinu og þá kom okkur saman um að það færi best á því að hún kæmi upp í Hérað og myndi búa hjá mér.
Þannig atvikaðist það að hún kisa mín kom inn í líf mitt.

Speki dagsins: Að elska er að gefa sig á vald þjáningarinnar.

|

06 október 2005

Tímamótablogg

Þetta er tímamótafærsla á bloggferli mínum.

Hingað til hef ég þurft að skrifa það sem mér hefur legið á hjarta hér heima, senda það með hotmailinu upp í vinnu því ég kemst ekki inn á outlookið í tölvunni minni. Ástæðan er sú að ég man ekki leyniorðið. Svo hef ég sent færslurnar úr outlokkinu í vinnunni inn á Lötu Grétu af því að það er ekki hægt að senda þetta úr hotmailinu. Flókið!!! Eina leiðin til að fá óbrenglaða stafi er að nota outlook segir Tóta litla.

Í dag stóð Tóta litla yfir mér til að sjá hvers vegna ég fengi ekki upp rétt tákn og glugga þegar ég ætlaði að blogga. Og viti menn, ég hafði ekki lært rétt aðgangsorð. Tóta litla kenni mér það og nú kemst ég inn í bloggheiminn aðaldyramegin.

En hvernig í ósköpunum á maður að fara að því að læra öll þau númer og aðgangsorð sem maður þarf að kunna til að vera virkur í samfélaginu? Maður þarf að læra einfalda hluti eins og húsnúmerið sitt, heimasímann, bílnúmerið (sem mér gekk illa að læra) og kennitöluna. Svo þarf maður að kunna númerin á bankareikningunum, leyninúmerin inn á þá, pinnnúmer á debet- og krítarkortum, pinnnúmer í gsm-símanum, leyniorð og leyninúmer inn á tölvupóstinn og ég hef þrjú tölvupóstföng, fyrir utan þetta hérna í outlookinu mínu sem ég kemst ekki lengur inn á. Það eru stafa- og númerarunur inn á Ugluna hjá HÍ, svo eru það afmælisdagar vina og vandamanna, aðgangsorð að heimabankanum og svona má áfram telja.

En ég get sagt ykkur það að þrátt fyrir að ég eigi í erfiðleikum með öll þessi númer þá er eitt númer sem ég kann alveg utanað. Það er 16 stafa númerið á krítarkortinu mínu, gildistíminn og þriggja stafa öryggisnúmerið. Þetta kemur reyndar til af því að hann Finnur minn gerði krítarkortið mitt einu sinni upptækt og þó ég sé búin að hafa krítarkortið til frjálsra afnota í nokkur ár þá kann ég númerið ennþá.

Neyðin kennir naktri konu að spinna, var einu sinni sagt, en mér gangaðist betur að læra kortanúmerið, ég hafði engin not fyrir garnið.

Speki dagsins: Ég er ekki að bera á móti því að konur séu heimskar. Guð skapaði þær jú til að vera jafningja karla.

|

Borgarfjörður eystra

Í gær fór ég niður á Borgarfjörð. Þetta var auðvitað fínn fundur eins og alltaf í klúbbnum mínum, en toppurinn var eins og venjulega þegar fundir eru haldnir á Borgarfirði, veisluborð framreitt af heimakonum. Ótrúlegar þessar konur á Borgarfirði.

Það er merkilegt hvað þessi litli staður hefur alið af sér mikið af merkilegu fólki. Pápi minn var Borgfirðingur, nánast í húð og hár, fæddur þar og uppalinn. Hann var vanur að segja að menn bæru þess aldrei bætur að vera Borgfirðingar.

Þessi staður með allri sinni náttúrufegurð og öllu þessu skemmtilega fólki hann togar menn alltaf til sín.

Í mínu ungdæmi tíðkaðist það að senda börnin af mölinni á sumrin og koma þeim fyrir í sveitinni, þau voru rekin á fjall eins og lömbin. Við systkinin tókum þátt í þessum vorflutningum barna og eitt sumarið var bróðir minn sendur til Sillu frænku á Borgarfirði. Silla átti nokkur börn en þau voru öll farin að heiman nema Nonni frændi sem var yngstur. Þeir bróðir minn og Nonni frændi elduðu saman grátt silfur allt sumarið. Þegar leið að hausti þurftu þau hjónin Silla og maður hennar að fara akandi til Reykjavíkur og var bróður mínum skilað heim í Kópavog í leiðinni.

Á leiðinni segir Silla: "Jæja gæskur, ætlar þú ekki að koma aftur til okkar næsta sumar?”

Strákur: “Nei, mig langar ekkert að koma aftur fyrr en það er búið að lóga honum Nonna.”

Silla: “Hvað segir þú drengur?”

Strákur: “Ég ætla ekki að koma aftur fyrr en Nonni er dauður.”

Hann stóð við þetta að því leyti að hann kom ekki aftur á Borgarfjörð fyrr en Nonni var löngu vaxinn úr grasi og farinn að heiman.

En þetta varð hins vegar til þess að ég var send austur á Borgarfjörð og fékk að elda grátt silfur með Nonna frænda fjögur sumur.

Speki dagsins: Mundu að umbera fólk sem er ólíkt þér.

|

05 október 2005

Með mótvindinn í bakið.

Tóta litla stakk upp á því að ég útskýrði fyrir mönnum hvernig speki gærdagsins er til komin.

Þannig var að fyrir u.þ.b. 10 árum efndi Gleðikvennafélag Vallahrepps til hjólreiðaferðar frá Hallormsstað, inn Fljótsdal, út Fell, í Egilsstaði, inn Velli og í Hallormsstað.

Þetta var yndislegur sumardagur en við vorum bara þrjár sem hófum ferðina, við Tóta litla og Guðlaug. Það hafði rignt um nóttina, loftið var tært og skógurinn ilmaði af nýþvegnum gróðrinum. Það var ósköp ljúft og létt að hjóla í morgunkyrrðinni inn í Fljótsdal. Við höfðum sett eiginmönnum okkar fyrir ákveðin þjónustuverkefni í tengslum við þetta ferðalag og Þórhallur Guðlaugarmaður var sérstakur kaffiuppvörtunarmaður. Hann var búinn að dekka borð undir stórum steini hjá Hrafnsgerði, þar var áð og við fengum þetta fína kakó, kaffi og meðlæti. Síðan var haldið sem leið lá upp og niður ása og hæðir í Fellum, ansi hreint strembin ferð á vegi sem var óbreyttur frá því á landnámsöld. Á Egilsstöðum bættust nokkrar gleðikonur í hópinn. Þeirra á meðal Kristbjörg yogi í Vallanesi. Það var ekki laust við að það væri brosleg sjón að horfa á eftir henni á ævagömlu DBS hjóli með framhjólið svo undið að það sveiflaðist til hliðanna þar sem það rann eftir veginum. En Kristbjörg lét ekki svona smámuni hefta för. Við Hafursá, niður við Fljótið, beið Þórhallur með dekkað kaffiborð. Þó svo að við hefðum meðbyr inn Velli á malbikuðum vegi vorum við orðnar lúnar að áliðnum degi þegar við stigum hjólin síðasta spölinn, eftir u.þ.b. 100 km ferðalag. Komu þá ekki bara eiginmenn okkar Tótu litlu á móti okkur með sherryglös á bakka.

Þetta voru ljúfar móttökur. Við konurnar fórum og létum líða úr okkur í sundlauginni á Hallormsstað. Finnur og Rumurinn tóku til við að framreiða grillmat og gullnar veigar. Eða réttara sagt Rumurinn undirbjó og sá alfarið um matseldina en Finnur sagði honum sögur á meðan. Hann var aldrei mikið fyrir eldamennsku hann Finnur minn en aftur á móti var hann góður sögumaður.

Síðan leið þetta ljúfa kvöld yfir góðum mat og drykk í góðra vina hópi á pallinum hjá Rumnum og henni Tótu litlu.

En fyrr um daginn, upp úr hádeginu læddist hafgolan inn Héraðið. Eftir að vera búnar að berjast upp allar brekkurnar á landnámsveginum í Fellunum með strekkings vind í fangið, þá var það okkur mikill léttir að koma á malbikið við Lagarfljótsbrúnna og losna undan baráttunni við blásturinn. Finna vindinn þrýstast á bakið og auðvelda okkur för. Þá hrutu Guðlaugu þessi orð af vörum: Ohhh stelpur, mikið er nú léttara að hjóla þegar við höfum mótvindinn í bakið.

Mér hefur alltaf þótt góð lífsspeki felast í þessum orðum, sem á þessu augnabliki áttu svo einstaklega vel við.

Speki dagsins: Streita er ekki tilkomin vegna aðstæðna okkar heldur hvernig við hugsum um aðstæðurnar og hugsunum má stjórna.

|

04 október 2005

Altsheimer???

Dagurinn í gær byrjaði ósköp vel. Ég lagaði mér gott kaffi, mætti kl. 8 í vinnuna og lagaði mér enn meira af góðu kaffi.

Það var enginn í húsinu og ég hafði gott næði að sötra kaffi og byrja að vinna fyrir kaupinu mínu – sem þið öll eruð svo góð að greiða mér mánaðarlega, ríflega eina krónu hvert ykkar og kunnum við kisa ykkur bestu þakkir fyrir.

Nú ég var ekkert að fylgjast með tímanum fyrr en það er hringt og ég sé að klukkan er aðeins að byrja að ganga 10. Er ekki bara hárgreiðslukonan mín í símanum og ég vissi að það gat bara þýtt eitt, ég hafði gleymt að ég ætti pantaðan tíma.
Hvernig getur kona á mínum aldri gleymt eins mikilvægu atriði eins og að mæta í klipp og stríp ? Hárgreiðslukonan mín er engill og eftir tvær mínútur var ég sest í stólinn hjá henni.

Í fyrra fékk ég bréf frá heilsugæslustöðinni minni. Ég var beðin um að taka þátt í leitinni að altsheimergeninu. Ég??? Hvernig datt lækninum þetta í hug? Ég veit ekki til að þetta gen sé í mínum fórum og enginn ættingi minn kannast við að hafa fengið svona bréf. Annað hvort hefur læknirinn gleymt því að hann bað mig um þetta eða hann hefur fundið þetta blessaða gen einhvers staðar annars staðar.

Áður en ég yfirgaf hárgreiðslukonuna mína bókaði ég hjá henni eina klippingu fyrir Kaupmannahafnarferðina og aðra fyrir jólin. Merkti þetta á öll dagatöl í kringum mig, set þetta á áminningu í tölvunni á eftir (ef ég gleymi því ekki) og svo verð ég að muna að panta líka tíma á snyrtistofunni fyrir jól svo ég verði ekki eins og hottintotti yfir hátíðarnar.

Speki dagsins. Það er svo miklu léttara að hjóla þegar maður hefur mótvindinn í bakið.

|

03 október 2005

Hún á afmæli í dag ...

 

 

Ósköp þýtur þessi tími hratt áfram. Maður er rétt búinn að láta ferma sig þegar börnin fara að koma í heiminn og rétt búinn að baða þau í fyrsta sinn þegar þau eru bara farin að heiman, maður nær varla að þurrka þeim.

 

Svo sitjum við kisa hér tvær einar og grátbiðjum þennan tíma að hægja aðeins á sér svo við getum fengið að njóta augnabliksins.

 

Í dag eru 20 ár síðan litla örverpið mitt leit dagsins ljós. Þetta var ósköp lítið grey, bara 10 merkur og 48 cm. Samt var hún búin að hafa 40 vikur til að búa sig undir komuna í heiminn.

 

Þessi elska hafði verið ósköp róleg alla meðgönguna. Hreyfði sig nánast ekki neitt og ég var löngu hætt að óttast að eitthvað væri að, heldur var ég alveg sannfærð um að það væri eitthvað meira en lítið að. Það kom mér mjög á óvart að þetta pínulitla pons sem mér var sýnt 3. október 1985 væri heilbrigt og hreyfði alla útlimi alveg eins og börn gera. Hún meira að segja gaf frá sér hljóð.

 

Ég fékk hana ekki strax í fangið því þetta litla pons sem nennti ekki að hreyfa sig í móðurkviði hafði alls ekki nennt að troða sér þessa ókristilegu þröngu leið út í lífið sem systir hennar hafði farið með harmkvælum 8 árum fyrr. Og þannig hafa þær systur alltaf farið ólíkar leiðir frá upphafi. Sú eldri lét sig hafa það að troða sér út í ljósið, en sú yngri beið bara salla róleg þar til einhver var svo góður að skera gat á belginn og hleypa henni út.

 

Ég sendi afmæliskveðju til Krogerup og til tveggja bræðradætra minna í höfuðborginni sem líka eiga afmæli í dag.

 

Fósturbörnin fóru frá okkur Kolgrímu í gær. Kisi var búinn að fanga tvo fugla og var á góðri leið með að vinna sér inn heiðursaðild í Fuglaveiðifélagi Íslands. Stúlkukindin varð hins vegar fyrir slysi í gær og henni var skilað með tognaðan úlnlið.

 

Ég hafði brugðið mér af bæ. Fósturdóttirin var á fótboltaæfingu svo ég skildi eftir miða á eldhúsborðinu með gsm-númerinu mínu og skilaboðum um hvert ég fór. Stúlkukindin kemur svo bara slösuð að tómum kofanum en sem betur fer voru foreldrar vinkonu hennar hér í næstu götu heima og þau voru svo góð að fara með hana á slysó þar sem hún var vafin og kysst á bágtið.

 

Ég efast um að við Kolgríma verðum beðnar um það á næstunni að passa. En mamman var ekkert mikið reið yfir þessu gæsluleysi og snæddi með okkur steiktan fugl áður en þær mæðgur og kisi fóru til síns heima.

 

Til að forðast misskilning skal tekið fram að fuglinn sem ég steikti var keyptur út í búð en ekki veiddur úti í garði.

 

Speki dagsins (og lífsmottóið mitt). Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær. Eða eins og við segjum hér á Íslandi, þeir fiska sem róa.

 

|

02 október 2005

Sveitaball

Nína vinkona mín og ég erum báðar af Barbie-árgerðinni. Mjög góður árgangur með dulúðlegan ilm en beiskt eftirbragð fyrir þá sem ekki kunna meta hann.

Við Nína sáum það auglýst að hjómsveit að sunnan ætlaði að koma og halda dansleik í félagsheimilinu okkar. Ekki nein slordóna hljómsveit, heldur bara sjálfir Paparnir.

Ég hafði reyndar aldrei upplifað það sjálf að fara á ball með þeim, en heyrt margar sögur af því hvað þetta væru skemmtilegar samkomur. Nú var tækifærið að sannreyna þessar sögusagnir og ég ákvað að láta það ekki framhjá mér fara.

Aldurinn er obbolítið farinn að setja mörk sín á mig svo ég varð að teikna á mig unglegt og hitaþolið andlit. Síðast þegar ég brá mér á dansleik var nefnilega svo rosalega heitt og loftlaust í félagsheimilinu að maður rennsvitnaði á því einu að sitja kyrr og aðhafast ekki neitt.

Við mættum þarna galvaskar og tylltum okkur við borð. Ég sat þar næstum allt kvöldið því það datt bara ekki nokkrum einasta manni í hug að bjóða mér upp í dans. Nína sat hins vegar ekki eins mikið kyrr og ég því hún líkist Barbie meira en ég, er hávaxin og grönn. Ég líkist meira rússneskri babúsku. En hvað um það, maður fer nú ekki að grenja yfir svona smámunum og ég skemmti mér konunglega. Þetta var dúndurgóð hljómsveit, með fjörug og skemmtileg lög. Og þó engum dytti í hug að bjóða mér í dans, kom fullt af skemmtilegu fólki að spjalla við mig.

Kannski að menn séu almennt sömu skoðunar og maðurinn sem settist hjá mér á balli í sumar og sagði við mig: Ég veit allt um þig. Þú drekkur ekki og þú dansar ekki.

Það er að vísu smá sannleikskorn í þessu, en samt ekki nema 50% sannleikur.

Grislingur er óþarflega duglegur kisi, ekki nema þriggja mánaða gamall. Í gær veiddi hann fugl og var að tæta hann í sundur úti á palli þegar ég kom að honum. Í morgun þegar Nína kom og við sátum, drukkum kaffi og vorum að slúðra um dansiballið, þá vappaði hnöttóttur skógarþröstur framan við pallinn þar sem við sátum í sólinni. Ég sagði við þröstinn að hann skyldi forða sér, þetta væri lífshættulegt svæði sem hann væri kominn inn á, sannkölluð dauðagildra. En hann hlustaði ekki á mig og þrátt fyrir að hann væri bókstaflega að springa af spiki hélt hann áfram að draga orma upp úr jörðinni. Ég bað Guð að gefa að þrösturinn fengi að lifa daginn af, en því miður var ég ekki bænheyrð. Klukkutíma seinna þurfti ég að hreinsa leifarnar af honum af pallinum.

Speki dagsins: Ókunnugir eru vinir sem þú átt eftir að eignast.

|

01 október 2005

Hótel í Kaupmannahöfn

Frumburðurinn og ég ætlum í helgarferð til Köben í nóvember. Aðalerindið er að heimsækja lambið mitt (sjá tengilinn hér á síðunni) en hún dvelur í lýðháskóla í Krogerup. Ég hélt að þetta væri skóli en virðist hins vegar, eftir fréttum að dæma, vera mikill gleðistaður þar sem lífið gengur út á að leika sér – sem er í sjálfu sér tilgangur lífsins.

Við erum búnar að kaupa flugmiðana, ég bókaði hótel á netinu og við ætlum að hafa það virkilega huggulegt. Þetta virtist í fyrstu vera frekar ódýrt hótel, en miðað við færslur á vísareikningnum mínum er þetta alltaf að verða dýrara og dýrara en ég átti von á.

Fyrst var skuldfærð ein bókun og svo önnur og þegar við báðum um leiðréttingu var skuldfærð 3. bókunin. Með þessu áframhaldi verð ég orðin hóteleigandi í Kaupmannahöfn þegar ferðin hefst. Veit ekki alveg hvernig ég á að taka þessu. Ég er mjög sátt við mitt hlutskipti í lífinu, ánægð í vinnunni og líður vel í húsinu hér með henni Kolgrímu. Það er bara gott að búa á Íslandi. Ég hef satt að segja ekkert verið að ráðgera að fara út í hótelrekstur í Danmörku.

Þegar fósturdóttirin kom úr skólanum í gær var Grislingur að skoða sig um á arinhillunni og búinn að henda niður blómavasa sem lá í brotum á gólfinu. En hvað um það, nú er bara minna verk að þurrka af arinhillunni.

Kvöldið var ljúft og við snæddum kjúklingalæri með helling af frönskum og drukkum kók með. Foreldrarnir hvergi nærri, svo við drógum fram daimköku sem við höfðum grafið upp úr frystikistunni í Bónus og súkkulaðiís. Komum okkur svo vel fyrir framan við sjónvarpið og gæddum okkur á þessu gúmmelaði meðan við horfðum á Latabæ.

Í morgun klifraði Grislingur upp í grenitréð í garðinum og við urðum að ná í kúst og sópa honum niður úr trénu.

Allt sukkið í gærkvöldi varð til þess að ég mætti í leikfimi í morgun. Þórveig var í essinu sínu og gerði næstum útaf við mig í body pump. Þríhöfðinn, tvíhöfðinn og læravöðvarnir eru helaumir. Ég var í nýja íþróttabrjóstahaldaranum mínum og hann klessir brjóstunum alvega að bringunni og skorðar þau föst milli rifbeinanna.

Ég held ég hljóti að hafa losnað við allar kalóríurnar sem ég raðaði í mig í gærkvöldi.

Speki dagsins: Þær hitaeiningar sem þú innbyrðir þegar enginn sér til teljast ekki með.

|