31 mars 2008

Fyrsti kærastinn minn

... er fimmtugur í dag.
Ég var fjögurra ára stelpuskott og það var von á nýrri fjölskyldu í hina íbúðina á Neðstutröð 8 í Kópavogi.
Ég stóð í karrýgulri, ermalausri rúllukragapeysu á tröppunum og horfði full eftirvæntingar á drossíuna sem renndi í hlað.
Mikið varð ég glöð þegar ég sá lítinn koll kíkja út um afturgluggann á bílnum og sá að ég myndi eignast leikfélaga.
Við Gauti urðum strax góðir vinir, svo góðir vinir að við ákváðum að þegar við yrðum stór þá myndum við verða hjón. Enda mjög heppilegur ráðahagur þar sem við áttum heima í sama húsinu.
En svo bregðast krosstré og ég flutti með foreldrum mínum af Neðstutröðinni þegar ég var 8 ára svo það varð ekkert af ráðahagnum.
Ég sendi mínum gamla vini í Kópavogi bestu hamingjuóskir í tilefni dagsins og vona að hann erfi það ekki við mig þótt ég hafi svikið hann í tryggðum. Enda réði ég víst litlu um þessa búferlaflutninga fjölskyldunnar.

|

30 mars 2008

Harmafregn

Í dag hvílir þungur skuggi sorgarinnar yfir Egilsstöðum.
Í gær lést í vélsleðaslysi sá góði drengur Birgir Vilhjálmsson.
Á morgun stóð til að jarða bróður hans Vilhjálm Rúnar, sem varð bráðkvaddur hér á Egilsstöðum um síðustu helgi.
Þau hjón, Biggi og Birna, reyndust mér góðir grannar á Reynivöllunum. Það var alltaf gott að leita til þeirra, þau liðsinntu alltaf með glöðu geði. "Ekkert mál, við reddum því" var svarið sem ég fékk alltaf hjá Bigga ef ég leitaði til hans.
Það var gaman að fylgjast með þeim Bigga og Birnu, þau voru svo samhent, alltaf að dunda við að gera fínt í garðinum, lagfæra húsið eða hafa það notalegt saman á pallinum.
Hún Dúna á nú tvo syni á líkbörunum, það eru þungar byrðar á hana lagðar. Fyrir tæpum 40 árum missti hún son í bílslysi við Gilsá.
Elsku Dúna mín og elsku Birna. Ég bið Guð að styrkja ykkur í ykkar miklu sorg.

Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fær ekki breytt
Kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.

|

27 mars 2008

Fermingarmyndin mín

|

Maggi vill að mér batni

... á laugardaginn. Ekki fyrr.
Hann missir nefnilega af jeppatúr með strákunum ef við förum til Akureyrar.
Ég ansa þessu ekki, ég er betri núna en í morgun. Mér verður batnað á morgun.
Annars er ég að brjóta heilann um hvort vanvirðing við lítilmagnann geti virkilega náð svona langt út fyrir gröf og dauða eins og ég las á eyjan.is. Hver þiggur sælgæti úr höfuðkúpu?
Ég held að jafnvel forfeður okkar í öllu sínu allsleysi og allri sinni eymd hafi ekki notað líkamsleifar manna sem búshluti. Þetta er næsti bær við mannakjötsát.

|

26 mars 2008

26. mars

Heilsuátakið í gær fór alveg með mig.
Núna ligg ég dúðuð undir sæng með hausverk og beinverki, alveg að farast úr kulda.
Ég verð að láta mér batna fyrir föstudaginn, en þá ætlum við Maggi í leikhúsferð til Akureyrar og kíkja í búðir þar á laugardaginn.
Fyrir 36 árum á pálmasunnudag 26. mars 1972 var ég fermd í Kópavogskirkju.
Eftir athöfnina var farið með mig í myndatöku til Jóns Kaldal á Laugavegi 11, eins og ég gat um hér fyrir nokkru.
Ég fann fermingarmyndina af mér í páskatiltektinni. Voðalega hef ég verið sakleysisleg og sæt þegar ég fermdist. Verst að ég bý ekki yfir þeirri tækni að geta sett myndina á síðuna.
En ég velti því fyrir mér þegar ég horfi á þessa mynd að þegar hún er tekin þá veit ég ekkert hvað framtíðin ber í skauti sér. Enda held ég að ég hafi ekkert brotið heilann mikið um framtíðina á þeim tíma. Lífið snérist bara um pabba, mömmu, Kópavoginn og vini mína.
Þessi 36 ár hafa að vonum verið viðburðarík. Ég flutti með foreldrum mínum austur á Hérað, giftist honum Finni sem ég varð ástfangin af sumarið 75 þegar ég var á Hallormsstað, eignaðist með honum tvær dætur og núna bý ég bara ein með kisunum mínum tveimur. Finnur dáinn og dæturnar búnar að stofna sín eigin heimili í Reykjavík. Lífið heldur áfram og ástvinir koma og fara.
Mín skoðun er sú að hamingjan er ekki undir því komin hvað á vegi manns verður, heldur á hvern hátt maður tekst á við þau verkefni sem falla manni í skaut.
Ég held að lífsgleðin búin innra með manni en sé ekki falin í umhverfinu.

|

25 mars 2008

Frostbitin

og kalin - svona er hið heilbrigða líferni.
Ég fór í klukkutíma göngutúr um bæinn og mér er svo kalt á öllum kinnum að ég á sko skilið heitt og gott freyðibað.
En þetta var hressandi. Aldrei að vita nema ég endurtaki þetta einhvern tíma.

|

Svínakjöt og súkkulaði

... fer ekki vel með mig.
Eftir þessa yndislegu páskahelgi er ég eins og útblásinn súkkulaðigrís með pappírshúð.
Þá er ekki annað að gera en að bretta upp ermarnar og taka upp einfaldari lífshætti.

|

24 mars 2008

Við prinsessurnar

... í Skógarkoti höfum það aldeilis bærilegt.
Ég vaknaði upp við malið í Klófríði og Kolgríma hafði hringað sig niður við fætur mínar.
Þegar við Anna Guðný vorum búnar að gæða okkur á hamborgarhryggnum í gærkvöldi, þá leið mér eins og það væru jólin. Ég útbelgd af góðum mat og húsið hreint og fínt. Svo háttaði ég ofan í tandurhreint rúmið og kom mér vel fyrir með bók - Tveir húsvangar eftir Marina Lewycka.
Fyrst þegar ég byrjaði að lesa þessa bók náði ég ekki alveg sambandi við hana en svo datt ég alveg inn í söguna, þetta er ekki síðri bók en Stutt ágrip af sögu traktorsins á úkraínsku, en ég las þá bók í fyrra.
Þetta er frábær höfundur og ég hlakka til að lesa meira eftir hana.
Dagurinn er frekar óráðinn, en ég sé að ég verð límd við sjónvarpið í kvöld. Ég sem horfi nánast aldrei á sjónvarp. En í kvöld er hver myndin af annarri sém ég þarf að horfa á. Fyrst Mannaveiðar, svo kemur mynd sem ég hef reyndar séð, en gæti alveg horft á aftur. Svo spennumynd sem ég gæti trúað að væri góð, en loks kemur mynd með Pierce Brosnan og hann er í svo miklu uppáhaldi hjá mér að ég verð sko að horfa á þá myndi.
Sem sagt, popp og kók í kvöld.

|

23 mars 2008

Gleðilega páska

Upp er runninn páskadagur.
Ákaflega skýr og fagur. Reyndar skýjahula á himni en fallegt veður engu að síður.
Núna er geymslan mín fínasta herbergi hússins. Ég er búin að fara í gegnum allt dótið sem ég bara fleygði þangað inn þegar ég flutti. Búin að sortera, henda og raða. Ég er mjög ánægð með unnið verk.
Í dag ætla ég svo að skúra, skrúbba og bóna vistarverur mínar. Fara á Seyðisfjörð og færa mömmu páskaegg og svo kemur Anna systir og borðar með mér kvöldmat.
Ekki páskalamb reyndar, lambalærið sem ég á er svo rosalega stórt að það passar í matinn fyrir 6 fílelfda matháka. Ég ætla að elda lítinn hamborgarhrygg, vona að mér fyrirgefist að hafa svínakjöt á páskum.
Í gær fór ég og dáðist að nýja sturtuklefanum hennar Nínu - rosa flottur. Svo fór ég um bæinn og leit eftir köttunum sem ég passa. Þeir voru voða kátir að sjá mig - eða kannski fólst gleði þeirra bara í að fá að borða.
Kolgríma og Klófríður fóru á lappir um leið og ég, en þær drifu sig út á pall að viðra sig, ég fór bara að fá mér kaffi. Klófríður er orðin mjög dugleg að skreppa út og skila sér inn aftur.

|

21 mars 2008

Klófríður kannar heiminn

Kisurnar eru báðar úti að leika sér.
Klófríður hefur nú lítið fengið að fara út hingað til. Ef hún hefur fengið að stíga fæti út fyrir húsið hefur hún verið undir strangri gæslu.
En núna er hún frjáls úti og það líkar henni. Hún er búin að kanna allan pallinn, kíkja undir hann og kanna hvað þar er að finna og núna er hún komin út fyrir landareignina og í skógarrjóðrið hér fyrir neðan hús.
Þetta er svo gisið rjóður að hún týnist ekki þar.
Kolgríma er á vappi og fylgist með litlu systur sinni. Klófríður er ánægð með nýfengið frelsi, ég held að hún verði alger útiköttur.
Jæja, þá eru þær systur komnar inn í hlýjuna. Kolgrím fór beint að matardöllunum en Klófríður heldur áfram að leika sér. Meira fjörið í þessum ketti.
Ég ætla út að ganga í góða veðrinu, kíkja eftir köttunum sem ég er að passa niður í þorpi. Guðlaug, Þórhallur og Guðný Rós eru á Tenerife og ég fer og lít eftir Grisling, Maggi er í fjallaferð með fleiri köppum og ég lít eftir Garpi.

|

20 mars 2008

Kannski

... að ég grafi upp fermingarmyndirnar af mér.
Ég sé að þær eru stórmerkilegar. Jón Kaldal tók þær á ljósmyndastofunni sinni á Laugavegi 11. Svo sé ég bara í heimildarmynd um Kaldal í kvöld að allar myndaplöturnar hans eru varðveittar á Þjóðminjasafninu og þar með fermingarmyndin af mér.
Gunnhildur getur því sparað sér að fara með aldraða móður sína á Þjóðminjasafnið, ég er þegar komin þangað.
Jæja, en fermingarmyndinni verður stillt upp sem hverju öðru listaverki hér í stofunni minni. Ef ég finn hana þ.e.a.s.

|

Páskafrí

Yndislegt að eiga 5 daga frí framundan.
Það er langt liðið á morgun og ég er enn í mjúku flónelsnáttfötunum.
Ég ætla ekki á lappir fyrr en um hádegi, bara kúra með bók og hafa það notalegt.
Venjulega borða ég ekki egg á morgnanna, en á þessum árstíma er ósköp huggulegt að fá sér egg eftir góðan morgunmat. "Margur heldur mig sig" var málshátturinn minn.
Í dag fer ég í fermingarveislu hjá ungfrú Ingu Lind Bjarnadóttur, en mínir gömlu góðu grannar á Reynivöllunum komu heim frá Danmörku til að frumburðurinn gæti látið ferma sig í Egilsstaðakirkju.
Annars verð ég mest heima þessa daga og ætla að kíkja í einhverja kassa sem ég hef ekki opnað eftir að ég flutti. Taka til og þrífa Skógarkot. Njóta samvista við Kolgrímu og Klófríði. Skreppa á Seyðisfjörð og heimsækja mömmu.
Ég hef komist að þeirri niðurstöðu að auk þess sem hún Klófríður mín er greindarskert þá er hún líka með athyglisbrest og ofvirkni. Hún getur aldrei verið kjurr og það er með ólíkindum hvað þessu litla skotti dettur í hug að gera.
Stundum hoppar hún og hoppar upp á einn stofuvegginn, eins og hún sé að reyna að komast að myndunum sem hanga á veggnum. Hún getur hlaupið hring eftir hring á eftir skottinu sínu og svo hefur hún afskaplega gaman af að príla á háu stólbökunum við borðstofuborðið.
En hún er einhver sá skemmtilegasti og yndislegasti köttur sem ég hef kynnst.
Kolgríma er svo virðuleg, horfir stundum á þetta litla skoffín með vandlætingu, samt hefur hún mjög gaman af að leika við hana og tuska hana til.
En stundum fær Kolgríma meira en nóg af látunum í Klófríði og þá fær hún að fara fram í bílskúr þar sem hún á lítið ból og þar getur hún hvílt sig í friði.

|

19 mars 2008

Hvað er málið?

Í janúar var maður af Jökuldal dæmdur í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðislegt áreit gagnvart konu.
Það er nú einu sinni þannig hjá þorra landsmanna að kynferðislegt áreiti telst ámælisvert.
Nú, svo líður tíminn og Jökuldælingar og Hlíðarmenn halda sitt þorrablót. Opinbera samkomu og bjóða til sín gestum úr öðrum sveitum.
Það var sett saman dagskrá eins og venja er á þorrablótum og ekki hefur maður heyrt um að gestir hafi verið látnir sverja þagnareið yfir því sem fram færi á blótinu. Fram til þessa hefur þótt í góðu lagi að birta myndir í fjölmiðlum frá þorrablótum og fjalla um það sem þar er í boði. Venjan er að nefndarmenn leggja mikið í dagskrá og skreytingar og eru kannski svolítið stoltir af vinnu sinni.
En maður hefur nú heyrt eitt og annað af þessu blóti.
M.a. að þema blótsins hafi verið þetta afbrot mannsins, enda var hann í nefndinni. Fyrsta sem ég heyrði var að söngskráin hefði verið eins og brjóstahaldari, en áreitið snérist um brjóstahaldara brotaþola. En það geta menn nú lesið á netinu, enda birtist dómurinn þar eins og lög og reglur gera ráð fyrir og m.a. var fullt nafn og heimili mannsins birt.
Það næsta sem gerist er að vikublaðið Austurglugginn sér ástæðu til að fjalla um þetta "skemmtiatriði" Jökuldælinga, enda óvenjulegt að þolendur í kynferðisbrotamálum verði fyrir svona uppákomum.
Nú virðast Jökuldælingar hins vegar hafa áttað sig á alvarleika málsins og í staðinn fyrir að skammast sín, þá vilja þeir hengja bakara fyrir smið og láta reka ritstjóra blaðsins og stjórnarformann, eins og hér má lesa. Hér sannast hið fornkveðna að sannleikanum er hver sárreiðastur.
Ég stend með Austurglugganum, ég þakka Einari Ben fyrir gott blað. Verst að ég er áskrifandi, annars hefði ég gerst áskrifandi að blaðinu núna. Kannski ég kaupi áskrift handa Kolgrímu og Klófríði til að styrkja blaðið.

|

18 mars 2008

Íslensk veðrátta

og íslenskt efnahagslíf eru alveg eins.
Við Íslendingar tökum hvorki mark á veðurspá né efnahagsspá. Klæðum okkur í sumarföt í 20° gaddi. Látum eins og við búum í Karabíahafi en ekki út í miðju Atlantshafi.
Ef við ætlum okkur eitthvað þá gerum við það, hvað sem öllum blikum á lofti líður.
Ísland - best í heimi - ef þú ert léttgeggjaður.
Ég er léttgeggjuð. Núna í aðhaldi og sparnaði fer ég hverja helgarferðina af annarri. Bara að taka lífinu létt.
Ég kann kortanúmerið mitt utan að svo þó ég hætti að ganga með kortið á mér, þá get ég pantað allt sem mér dettur í hug á netinu. Búin að fjárfesta í Barcelonaferð - Guði sé lof, nú er allt að hækka. Búin að kaupa miða á Clapton tónleikana og í morgun keypti ég miða á Fló á skinni hjá Leikfélagi Akureyrar.
Maggi ætlar að koma með mér norður. Hann langar ekkert að fara, en hann er íslenskt karlmenni og lætur sig hafa það.
Ísland - best í heimi - og verðbólgan farin að nálgast 9%.

|

Voðalegt ástand

... er þetta.
Ég sá í fréttum í gær að ástandið á fasteignamarkaði ætti enn eftir að versna.
Fyrir um 30 árum þegar vinir mínir voru allir að fjárfesta í sínum fyrstu íbúðum og við Finnur vorum enn í skóla, þá hugsaði ég með mér að fasteignakaup væru svo rosalega flókið fyrirbæri að við Finnur myndum aldrei eignast þak yfir höfuðið.
Ég man bara hvað þessi hugmynd var brennd í kollinn á mér. Mér óx þetta svo mikið í augum.
En sem betur fer þá eignuðumst við nú húsnæði eins og lög gera ráð fyrir. Það var ekki eins flókið og ég hafði ímyndað mér. Við vorum líka heppin og keyptum á góðum tíma.
Í dag er þessi fasteignamarkaður svo mikill frumskógur að ég sárfinn til með ungu fólki sem er að kaupa sér sína fyrstu íbúð, svo ég tali nú ekki um ungt fólk sem er í námi á fullum námslánum og á svo eftir að taka húsnæðislán á okurvöxtum.
Fasteignamarkaðurinn á Íslandi er eins og Lottó. Á einum tíma er auðvelt að kaupa og ástandið í þjóðfélaginu léttir þér húsakaupin, á öðrum tíma er þetta eins og að spila rússneska rúllettu og ómögulegt að sjá hvort kaupin eiga eftir að sliga fólk þegar fram líða stundir.
Allir þurfa að eiga heimili og húsnæði. Hvernig væri að stöðugur fasteignamarkaður yrði gert að forgangsmarkmiði? Að þeir sem erfa eiga landið eigi þess kost að gera áætlanir fram í tímann varðandi íbúðakaup en þurfi ekki að spila í þessu íslenska fasteignalottói.

|

16 mars 2008

Mamma 87 ára

Fór til mömmu í gær.
Hún leit ljómandi vel út þrátt fyrir fótbrotið og hafði það huggulegt í stórum Lazy-boy stól sem Þórhallur og Anna Guðný fóru með til hennar eftir óhappið.
Ég var voðalega huffleg og færði mömmu páksaegg sem ég keypti í Súkkulaði og rósir, hjá Eddu Heiðrúni Bachmann. Reyndar smakkaði ég líka vel á egginu, ekkert smá gott súkkulaði.
En afmælisbarnið leit aldeilis vel út og það færðist svo mikil værð yfir mig hjá henni að ég lagðist í bólið hennar og steinsofnaði. Skemmtilegur gestur.
Svo eldaði ég nautalund handa Magga af því að hann átti líka afmæli í gær. Það lukkaðist bara vel, en förum ekki nánar út í það.

|

14 mars 2008

Enn og aftur í borginni

Kom til borgarinnar í gær.
Fór beina leið í Þjóðleikhúsið að sjá Ivanov. Alveg frábær sýning. Lýsingin og sviðið magnað og leikurinn auðvitað frábær enda valinn maður í hverju hlutverki.
Gaman að sjá þetta leikrit eftir að vera búin að sjá Brúðgumann.
Ég vil taka undir ályktun bæjarráðs Fljótsdalshéraðs. Það nær auðvitað engri átt að halda flugmálum þjóðarinnar í svona einokun á 21. öldinni. Svo má nú enn og aftur vekja athygli á að flugstöðin í Reykjavík er örugglega sú frumstæðasta á byggðu bóli. Alla vega á Norðurlöndum. Þetta er hreinlega til skammar.
Það er með ólíkindum að þessar stríðsminjar sem þessi flugstöð er, skuli vera í notkun.
Um daginn þegar ég sótti Nínu á Reykjavíkurflugvöll þá fékk ég bílastæði rétt við afgreiðsluna, það lá við að ég færi að afgreiðsluborðinu og þakkaði sérstaklega fyrir þessi undur og stórmerki. Að fá bílastæði við flugstöðina er næstum efni í fréttir hjá Ruv.
Þegar ég hitti gömlu Kópavogsvinkonurnar mínar um daginn var ég að hvetja þær til að koma austur, en þær báðu bara Guð að hjálpa sér, það væri dýrara að fljúga til mín en til útlanda. Ég er náttúrulega ekki í útlöndum, þannig að þær eiga ekki að setja það fyrir sig, en þetta nær auðvitað engri átt hvað Flugfélag Íslands getur verðlagt innanlandsflugið hátt.
Ég vona að Gísli Marteinn sjái sóma sinn í að standa ekki í vegi fyrir eðlilegu innanlandsflugi og að Iceland Express fái sómaasamlega aðstöðu á Reykjavíkurflugvelli.
Flýg heima í kvöld og ætla að hafa það huggulegt í heimabyggð um helgina. Kíkja á mömmu sem verður 87 ára á laugardaginn og kannski elda eitthvað gott handa Magga sem á líka afmæli á laugardag.
Svo er bara komið að páskum og þá bretti ég upp ermarnar og kafa í kassana sem ég hef ekki enn opnað eftir flutninga. Ætla að reyna að koma skikk á bókasafnið, en það bíða hátt í 50 kassar af bókum eftir að ég skoði þá og gangi frá bókunum í hillur.

|

12 mars 2008

Síðan komin í lag

Loksins eru myndirnar af Lötu Grétu komnar aftur.
Tóta tölvusnillingur fann myndirnar og setti þær á sinn stað og fær hún bestu þakkir fyrir.
Allt annað líf að hafa þessar skemmtilegu myndir. Svo þarf ég bara að fá Tótu til að laga myndalinkana og bæta inn myndum af Klófríði litu.

|

Ég hlakka til vorsins

Áðan var svartaþoka, eins og hendi væri veifað er hún farin.
Í gær snjóaði og snjóaði. Snjórinn settist svo skemmtilega á handriðið á pallinum og á trén. Það var eins og ég væri stödd inn í málverki.
En núna er hitinn kominn yfir frostmark og mikill raki í lofti.
Ég verð fegin þegar vorið kemur, ég er orðin leið á þessari endalausu hálku og ég held ég verði bara ánægð þegar snjórinn hverfur. Það er ekki langt í jafndægur á vori svo nú hlýtur að fara að koma betri tíð.
Annað kvöld fer ég aftur til borgarinnar. Það er út af vinnunni, ég verð að vinna í Reykjavík á föstudaginn. En þetta kemur sér vel fyrir mig því þegar ég var búin að sjá Brúðgumann langaði mig svo að sjá Ivanov í Þjóðleikhúsinu. Við Ragnheiður erum búnar að kaupa okkur miða á sýninguna á fimmtudaginn, svo allar mínar óskir rætast þessa dagana.
Í gær keyptum við Maggi okkur flugmiða til Barcelona. Þar með rætist margra ára draumur minn. Mig hefur alltaf langað til Barcelona og nú verður farið í helgarferð með flugi héðan frá Egilsstöðum 10. apríl.
Ef að veðrið verður skaplegt á laugardaginn og pallurinn verður ekki fullur af snjó, er ég að velta fyrir mér að vígja grillið sem ég keypti í fyrra. Ég hef ekki grillað síðan á síðustu öld og aldrei á gasgrilli - ég er eins og hver annar forngripur. Gott ef Gunnhildur mín fer ekki bara með mig á Þjóðminjasafnið um leið og hún lætur verða af því að fara þangað með hana systur sína eins og hún stefndi að þegar þær voru litlar. Hún skammaðist sín svo fyrir hvað Anna Berglind var forn í tali, enda var sú stutta vön því að fara með ömmu sinni um sveitir og spjalla við bændur.
Nú þegar ég hef lokið við morgunmatinn er aftur komin svarta þoka.

|

10 mars 2008

Þvílíkur dagur

Ekki byrjaði vinnuvikan vel hjá mér. Ég steinsvaf yfir mig og vaknaði við hamarshöggin hjá smiðunum í húsunum í kring.
Svo var allt fullt af verkefnum í vinnunni. Ég reyndi að ráðast skipulega á hauginn, mér hættir svo til að byrja aðeins á einu, fara yfir í það næsta og svo þar næsta, þar til ég er búin að grauta öllu og vinnst ekkert.
En þegar maður er líka að svara fyrispurnum í síma og afgreiða erindi sem ekki þola bið þá er alltaf þessi hætta.
Mér tókst að vinna nokkuð skipulega. Kl. 11.30 hringdi Rósa hárgreiðslukona og spurði hvort ég væri búin að gleyma því að ég ætti tíma í klipp og stríp. Jú, ég var búin að steingleyma því. Fór á handahlaupum út á hárgreiðslustofu og þegar ég var loksins búin þar tveim og hálfum tíma seinna var ég að farast úr stressi yfir verkefnunum sem ég hljóp út frá í vinnunni.
Af hverju þurfa allir á Egilsstöðum að aka á 10 km hraða þegar ég er að flýta mér?
En þegar ég leit yfir allt sem hafði færst úr óafgreitt yfir í afgreitt í lok dagsins þá mátti ég vel við una.
Kvöldið hef ég notað í að ganga frá þvotti með aðstoð Klófríðar. Hún hangir í mér eins og rykhnoðri síðan ég kom heim þessi elska. Liggur núna í fanginu á mér og malar.
Ég hef ekki getað tekið upp úr töskunni því Kolgríma er búin að hertaka hana sem hvíldarstað.
Það sem eftir lifir kvölds ætla ég að nota til að taka saman smá fróðleik fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs - var alveg búin að gleyma því verkefni.
Svo er bara freyðibað og snemma í bólið.
Góðar stundir.

|

09 mars 2008

Að éta ofan í sig

Við Nína byrjuðum daginn á Jómfrúnni í Lækjargötu.
Þangað mættu nokkrar úr Reykjavíkurdeild Gleðikvennafélags Vallahrepps. Með dönsku smurbrauði fékk ég að éta ofan í mig það sem ég hef sagt um fyrirhugað landtöku af Egilsstaðabændum.
Konur úr Reykjavíkurdeildinni vildu að sjálfssögðu fá fréttir af því sem efst er á baugi hér fyrir austan, Nína útskýrði m.a. þetta hitamál og þá komst ég að því að ég hef misskilið þetta mál hrapalega. Ég hélt að það væri verið að ásælast túnin milli þjóðvegarins og Egilsstaðabýlisins en svo er víst aldeilis ekki. Það er verið að ásælast túnin milli Bónus og flugvallarins.
Ég verð því að éta ofan í mig það sem ég hef sagt ljótt um bæjaryfirvöldin á Fljótsdalshéraði, því ég sé nú engan skaða í að byggja á þessu svæði.
Hér sannast því það spakmæli að maður skal hafa orð sín mjúk og mild því maður getur þurft að éta þau ofan í sig aftur.
En nú er ég komin heim úr skemmtilegri höfuðborgarferð og ég fékk afskaplega góðar móttökur hjá Klófríði og Kolgrímu.
Kettir breytir því að koma í tómlegt hús í hlýja heimkomu.

|

Út að borða í borginni

Í gær hitti ég æskuvinkonurnar í bröns upp við Elliðavatn. Fór heim með boðskort í fyrsta fimmtugsafmæli hópsins.
Svo fórum við Nína í mikla gönguferð í Smáralindinni þar sem við gengum lappirnar upp að hnjám og héldum kortunum heitum í kortavélunum.
Þá var nú stefnan tekin á Hverfisgötuna þar sem við komum okkur vel fyrir hjá Gunnhildi og hvíldum lúin bein fyrir kvöldið.
Við ætluðum út að borða og í bíó. Til að vera vissar um að borða í rólegheitum þá fórum við tímanlega á Asíu, fengum borð og pöntuðum okkur eitthvað girnilegt af matseðli. Spurðum í leiðinni hvort það tæki langan tíma að afgreiða okkur. "Nei, nei, bara smá stund" var svarið. Hálftíma síðar spurðum við hvort það væri ekki von á matnum innan tíðar. "Jú, bara eftir nokkrar mínútur" nú, en þegar við vorum búnar að bíða í þrjú korter gengum við fastar á þjónustustúlkuna og spurðum hvort það væri engin von um mat handa okkur. "Ja, það er verið að klára að afgreiða stóran hóp og svo eftir svona 10 mínútur kemur að ykkur".
Við vorum orðnar glorsoltnar og sáum að við færum að verða of seinar í bíóið svo við bara stóðum upp og fórum upp í Smáralind, pöntuðum pizzu á Pizza hut og sáum að þetta myndi sleppa.
En tíminn leið, við spurðum hvort pizzan færi nú ekki að koma. Þjónninn kom með munninn fullan af afsökunum því pöntunin okkar hafði lent til hliðar.
Áttum við bara ekkert að fá að borða í þessari menningarreisu?
Það sem átti að vera "út að borða í rólegheitum" endaði í því að gúffa í sig pizzu á 10 mínútum. En þjónninn baðst margfaldrar afsökunar og gaf okkur heilmikinn afslátt.
Við náðum að setjast inn í bíósalinn í miðjum auglýsingatíma svo þetta slapp fyrir horn. En myndin var góð, Brúðguminn eftir Baltasar. Reyndar þetta típíska í íslenskum myndum, geðveikar og geðstirðar konur, en góð mynd og Inga Rósa tók sig vel út sem kirkjugestur í Flatey. Gaman að verða vitni af fystu sporum hennar í kvikmyndaleik.

|

08 mars 2008

Alþjóðlegur baráttudagur kvenna

Konur allra landa sameinumst.
Ég ætla að nota daginn til að hitta æskuvinkonurnar úr Kópavoginum og halda svo áfram að njóta menningarreisunnar í höfuðborginni með Nínu.
Í kvöld slæst gleðikonan Sif Vígþórsdóttir í för með okkur þegar við förum að sjá Brúðgumann í Háskólabíói.
Kannski verður farið út á lífið á eftir, hver veit.

|

Menningarreisan

Lenti í Reykjavík á fimmtudagskvöldi eftir frekar leiðinlegt flug. Flugtakið var held ég bara það versta flugtak sem ég hef lent í. Vissi eiginlega ekki hvort heldur ég ætlaði að verða flugveik eða hrædd. Maginn var alla vega farinn að reyna að troðast upp í hálsinn og núna veit ég hvers konar tilfinning það er að finnast blóðið frosið í æðunum.
Föstudaginn notuðum við Nína í smá Kringlurangli en fórum svo í Þjóðleikhúsið í að sjá Sólarferð. Ég hefði nú mætt í bikiníi ef ég hefði vitað að það ætti að hafa svona rosalega mikinn hita í leikhúsinu. Við vorum alveg að bráðna. Ég var satt að segja dauðfegin að sleppa aftur út í svalt kvöldloftið. Svo var leikritið eiginlega bara barn síns tíma.
Næst tókum við hús á Vínbarnum. Þar var fullt af fullorðnu fólki sem við nánari skoðun var á svipuðum aldri og við og kannski svolítið eldra líka. En það tók óhemjulega langan tíma að fá afgreiðslu á barnum því maðurinn sem var á undan virtist halda að hann væri staddur í vínsmökkunarhúsi en ekki á venjulegum bar - hann hafði svo rosalega þörf fyrir að stúdera vínin og finna að glösunum. Eftir langa mæðu gat barþjónninn gert honum nokkurn veginn til hæfis og afgreitt mig með kaffi og Nínu með eitt hvítvínsglas.
Svo höldum við bara áfram að upplifa höfuðborgina og drekka í okkur menninguna.

|

06 mars 2008

Kiddi á ferð um heiminn.

Það er svo gaman að heyra hvað hann Kiddi okkar skemmtir sér vel á Jamaika að ég verð að benda ykkur á þessa frétt í Austurglugganum.

|

Samkvæmislífið í blóma

Það er svo mikið að gera að ég kemst varla yfir það.
Um síðustu helgi var það Kverkfjallaferðin, í gær var aðalfundur hjá Soroptimistum á Austurlandi og litla blótið hjá Vallamönnum var haldið á Skriðuklaustri.
Í kvöld flýg ég suður.
Við Nína ætlum að eiga stelpuhelgi í höfuðborginni. Við förum í leikhús annað kvöld og svo förum við að kíkja á næturlífið í borginni, út að borða, í bíó og að stelpast í Kringlunni og Smáralind.
Reykjavíkurdeild Gleðikvennafélags Vallahrepps ætlar að hitta okkur á Jómfrúnni í Lækjargötu svo það verður fjör alla helgina.
Það liggur við að ég taki með mér vegabréfið mitt, mér finnst eins og við Nína séum að fara í helgarferð til útlanda.
Ég er rosalega upptekin við að gera ekki neitt en Nína er rosalega upptekin við að stjórna sveitarfélaginu. Það eru líka mörg mál sem brenna á Héraðsbúum um þessar mundir eins og skipulagsmálin við Egilsstaðabýlið og svo er búið að leggja niður Fasteignamat ríkisins á Egilsstöðum. Það finnst mér alveg ótrúlegt. Núna þegar fasteignir hafa margfaldast hér fyrir austan er Fasteignamatið bara lagt niður, það verður Fasteignamat á Akureyri og á Selfossi en allt landsvæðið þar fyrir austan verður án þessarar þjónustu í heimabyggð.
Maður bara spyr sig hver ætlar að bera ábyrgð á eignatjóni sem getur hlotist af því að eignir eru ekki rétt uppfærðar í Fasteignamatinu? Og á tímum mótvægisaðgerða út af kvótaskerðingu þegar verið er að búa til einhver störf á landsbyggðinni þá er bara lögð niður sjálfsögð þjónusta eins og mat á fasteignum. Sá sem á að þjónusta Austurland frá Akureyri verður eins og útspýtt hundsskinn og ég veit ekki nema að þetta fyrirkomulag verði ekkert ódýrara en að hafa skrifstofu á Egilsstöðum. Það verður t.d. að greiða manninum bæði ferðakostnað og dagpeninga fyrir austurferðir.

|

02 mars 2008

Þorrablótsvertíð lokið

Þetta var fínn fjallatúr þó veðrið hefði mátt vera betra.
Við lentum í alls konar ævintýrum. Keyrðum fram af hengju en sluppum ótrúlega vel, karlarnir fengu nóg af dekkjavandræðum til að skemmta sér við, affelganir og sprungin dekk. Skemmtinefndin lenti í hrakningum og mætti ekki í Kverkfjöll fyrr en undir lok borðhaldsins. Þeir urðu að skilja tvo bíla eftir einhvers staðar á leiðinni. Ég held að þessi skemmtinefnd hafi ekkert lagst í koju, hún skveraði annálnum af, við sungum alla söngbókina hratt og örugglega og svo þegar síðust menn lögðust í koju dreif skemmtinefndin sig aftur til byggða eftir að hafa fengið sér smá þorramat.
Ekki varð ég nú neitt vör við alla þessa jarðskjálfta sem ég frétti ekkert af fyrr en við komum til byggða. Ég hefði kannski látið það eiga sig að fara lengst inn í íshelli ef ég hefði vitað að það léki allt á reiðiskjálfi.
En það var mjög gaman að fara í íshellinn og einhverjir drifu sig í bað. Við Nína létum okkur nægja að dáðst að hellinum og öllum hrímuðu grílukertunum í honum.
En þó veðrið hafi ekki leikið við okkur gerði það ekkert til því við vorum í góðum félgsskap og ég held að allir hafi skemmt sér vel.
Svo má geta þess að þorramaturinn var mjög góður, ég hef ekki fengið svona góðan súrmat síðan fyrir aldamót.

|