30 desember 2007

Óveður og rafmagnsleysi

Það er gott að búa í Skógarkoti.
Regnið lemur húsið og stormurinn sveigir trén í skóginum í mestu hviðunum. Rafmagnið kemur og fer. Það hefur verið rafmangslaust í mest allt kvöld en ég hef haft kveikt á mörgum kertum og við Kolgríma og Rúsína höfum haft það afskapleg notalegt. Súbbi er inn í bílskúr og ég er alveg áhyggjulaus.
Það hefur lítið fokið hér í götunni, reyndar hefur það komið mér á óvart því það er svo mikið af byggingadóti sem hefði getað lagt af stað í veðurhamnum.
Ég fór út í kvöld og gekk frá dóti sem kom í ljós undan snjónum úti á palli svo það hefur allt sloppið hér hjá mér.
En það hefur bara verið ein og ein ljóstíra niður í þorpi og það hefur nánast verið kolniða myrkur á Héraði.
Rúsína hoppar um í rúminu mínu, er í miklum veiðiham, en Kolgríma kúrir á stól framan við dyrnar. Henni er ekkert gefið um það að vera nálægt þessum kettlingi. En hún er aðeins sáttari við litlu kisu í dag en í gær.
En fátt er svo með öllu illt. Það er gott að þetta veður gengur yfir landið í dag fyrst það þurfti endilega að koma, það hefði ekki verið gaman að hafa þetta veður á morgun. Það er líka gott að nú hefur tekið upp allan snjó af pallinum því annað kvöld á hann að gera mikið gagn þegar ég og gestir mínir förum að horfa yfir byggðina og dáðst að öllum flugeldunum sem ég vona að Egilsstaðabúar sendi upp í loftið.
Sjálf keypti ég bara knöll og stjörnuljós, en til að geta horft á flugeldana með góðri samvisku þá setti ég bara smá pening í flugeldasýninguna hjá björgunarsveitinni okkar. Ég er ekki með skothæfileika. Anna Berglind fór að háskæla þegar hún var lítil og ég var að bardúsa við að skjóta upp flugeldum, hún var svo hrædd um að ég myndi skjóta niður tunglinginn.
Ég er ekki frá því að veðrið sé að ganga niður.

|

29 desember 2007

Rúsína

Í gær fjölgaði hér í Skógarkoti.
Ég fór norður í Fellabæ og ég fékk obbolítinn og yndislega sætan kettling.
Fyrst var ég að hugsa um að láta kisu litlu heita Lilju Fönn í höfuðið á Lilju og Fannari sem ætluð að fá kisu litlu en urðu að hætta við.
Núna þegar ég er búin að eiga þessa litlu rúsínu í sólarhring þá held ég að ég láti hana bara heita Rúsínu. Hún er ótrúlega skemmtileg og góð.
Kolgríma hefur verið í fýlu síðan Rúsína kom. Hún er búin að húka í allt kvöld undir rúmi í gestaherberginu. Æi, hún hlýtur að jafna sig.
Ég tók Rúsínu með mér á Seyðisfjörð til að sýna mömmu hana. Það er nefnilega svo gott að á sjúkrahúsinu á Seyðisfirði eru mannlegir þættir í hávegum hafðir og maður má koma með gæludýr í heimsókn. Enda lifnaði yfir heimilismönnum þegar þessi litla sæta kisa kom.
Það kom blik í augu sem starað höfðu líflaus út í loftið og bros færðist á andlit. Allir sem vildu fá að halda á kisu fengu það og það var svo gaman að sjá gleðina sem lifnaði hjá gamla fólkinu.
Núna liggur kisa litla í sófanum við hliðina á mér og malar og malar. Ég vona að Kolgríma mín sætti sig fljótt við að við erum orðnar þrjár í kotinu og að kisurnar verði góðar saman.

|

28 desember 2007

Andi jólanna

Hver er hann þessi jólaandi?
Hann er svona eitthvað í ætti við ástina. Eitthvað sem maður upplifir inn í sér, ljúfsár tilfinning sem ekki er hægt að lýsa.
Maður hangir í bernskuminningum, heldur í gamlar hefðir en samt koma jólin hvering sem á stendur og hvort sem maður gerir allt sem telst ómissandi eða ekki.
Þó maður sé lokaður inn á sjúkrahúsi með ástvini, tepptur einhvers staðar út í heimi og veit ekki hvort maður komist heim fyrir jól.
Hangikjöt, rjúpur, piparkökur, laufabrauð og jólablanda. Ora baunir og rauðkál. Jólatré, jólalög, jólakort, jólaföt og jólasveinar.
Það sem mér finnst allra mest jóla, er Heims um ból. Það fara alltaf að trilla niður tár þegar ég heyri það. Sú nóttin var svo ágæt ein, ég fæ alltaf kökk í hálsinn. Ég hugsa um löngu liðin jól með Binna frænda, pabba og með Finni.
Alveg sama hendir mig um áramótin þegar Nú árið er liðið er sungið eftir að gamla ártalið er horfið af skjánum og nýtt ártal birtist. Þá fyllist ég alltaf sömu saknaðartilfinningunni, sem samt er svo ljúf og falleg.
Jólakveðjurnar í útvarpinu, ef jólaandinn er ekki farinn að láta á sér kræla er alveg öruggt að hann flæðir um sálina þegar Gerður G. Bjarklind fer að lesa jólakveðjurnar. Hvað ætlar Rúv að gera þegar Gerður safnast til feðra sinna? Hætta þá jólin að koma?
Svo er það kókauglýsingin, hún er sko alveg ómissandi. Ég verð 14 ára á nóinu, hún er næstum eins ómissandi og Gerður G. og Heims um ból.

|

27 desember 2007

Í ævintýralandi

Æi, ég veit að þið eruð orðin hundleið á að lesa um Skógarkotið.
Mér líður bara svo vel hérna. Það er búið að vera svo kósý hjá okkur Kolgrímu í kvöld. Litla jólatréð mitt er augnayndi. Það er snjór yfir öllu og það er svo falleg að horfa niður í gegnum skóginn á jólaljósin þarna niður í þorpi. Ég vona að allir hafi jólaljósin sín í það minnsta fram á bóndadag.
Ég er að brjóta heilann um hvort ég eigi ekki að stíga á stokk um áramótin eins og oft áður. Ég þarf að laga svo margt í fari mínu sem ég verð að lofa sjálfri mér að taka föstum tökum.
Bæta mataræðið, mæta í ræktina, hætta að vera svona löt á morgnanna (skil það nú ekki, ég sem hef alltaf verið morgunhani) o.s.frv. o.s.frv.
Svo þetta klassíska sem ég hef strengt heit mörg undanfarin áramót - léttast um 10 til 15 kg á næsta ári. Kannski ég sleppi því bara ég er svo oft búin að svíkja það loforð.
En það er eitt sem ég er að bræða með mér hvort ég ætti að hafa sem nýársheit. Ég veit varla hvort ég eigi að þora að segja frá því. Ég hef nefnilega aldrei lært að dæla bensíni á bílinn og hef alltaf keypt bensín þar sem er þjónusta. Einu sinni ætlaði ég að taka bensín í Nesjunum en þar var bara sjálfafgreiðsla svo ég snéri við niður á Höfn til að taka bensín hjá Esso. Þó ég sé nú af framsóknarætt er þetta kannski full mikið af því góða. Enda er þetta ekki af pólitískum rótum runnið, Esso hefur bara lengst haldið í þjónustu á bensínstöðvunum hér fyrir austan.
En ég er eiginlega farin að skammast mín fyrir þennan aulagang - svo fer hvort sem er að líða að því að hann Eðvald hætti í bensíninu og þá er ekkert lengur gaman að taka bensín, hann nefnilega spjallar alltaf.
Ég hef afsakað mig með því að ég vil ekki sulla bensíni á mig og það vita það nú allir sem hafa setið til borðs með mér að mér hættir alveg rosalega til að sulla niður á mig. Skil þetta ekki, eins og ég er annars pen kona.
Jæja, þá er það bara spurning, ætti ég að strengja þess heit að læra á bensíndælu?

|

Heima er best

Þó ljúft sé hjá dætrunum og tengdasonunum.
Ég flaug sem úttroðinn engill austur á Fljótsdalshérða í gær. Lenti á alþjóðavellinum á Egilsstöðum kl 17.00 og kl. 21.30 í gær var ég búin að taka upp úr töskunum og ganga frá dótinu, fara í eitt jólaboð og eta á mig gat, setja upp og skreyta jólatré, liggja í freyðibaði, knúsa Kolgrímu mína og hlusta á þrotlaust og þindarlaust malið í henni.
Óhemju vorum við kátar að sjá hvor aðra.
Það er svo kósý í Skógarkoti að mér finnst synd að þurfa að fara til vinnu í dag og á morgun og hinn líka ef vel ætti að vera.

|

25 desember 2007

Jóladagsmorgun

Þá er maður úttroðinn af góðgæti.
Krakkarnir, dæturnar og tengdasynirnir, gáfu mér alls konar dekurdót í jólagjöf. Hálfs fermetra konfektkassa frá Anton Berg, allsherjar dekur á snyrtistofunni minni heima, bók að lesa og yndislegt freyðibað. Ég verð eins og dekurdúlla í stjörnuklassa á næstunni.
Mér var lofað kaffi í rúmið, það var ekki einu sinni að ég hefði beðið um það. Mér var bara sagt að ég hefði staðið mig svo vel í matreiðslunni að ég fengi kaffi í bólið og af því að hreindýrið lukkaðist svo vel var tilkynnti að ég fengi líka með því. En eitthvað virðist þetta hafa gleymst, alla vega sofa húsráðendur á sínu græna eyra.
Æi, ég nennti nú ekki að bíða fram yfir hádegi með að fá kaffið í rúmið svo ég er búin að færa mér það sjálf.
Í dag er hinn árlegi náttfatadagur hjá mér. Reyndar þurfum við hér í Reykjavíkurhálendinu að bregða okkur niður á láglendið í 101 til Gunnhildar og Mireks og borða jólahangikjötið í kvöld og þá verð ég víst að fara í eitthvað annað en náttföt. Jafnvel þótt þetta sé bleiku blúndunáttfötin sem ég valdi mér undir söng Páls Óskars þar sem hann var að syngja, hann sjálfur í eigin persónu, í Hagkaup í Holtagörðum.
Vona að þið öll eigið afskaplega ljúfan jóladag, liggið á meltunni, njótið jólagjafanna sem þið fenguð og látið ykkur dreyma fallega dagdrauma.

|

24 desember 2007

Aðfangadagur

Afsakið'i allan þennan reykinni...
Þá er maður farinn að huga að steikinni.
Eins og glöggir lesendur Lötu Grétu hafa e.t.v. veitt athygli eru allar myndirnar dottnar út af síðunni.
Guðmóðir Lötu Grétu, Tóta á Hallormsstað, var að reyna að útskýra þetta fyrir mér um daginn en hún missti sig út í of mikið tæknimál til að ég gæti skilið hvað hér væri að gerast.
En það sem ég skildi er að það mun vera hægt að lagfæra þetta aftur og verður það gert eftir jólin.
Haldið því gleði ykkar og eigið friðsæla og fallega jólahátíð. Vona að þið fáið öll eitthvað gott í gogginn í kvöld, en fyrst og fremst vona ég að þið eigið ánægjulegt kvöld í vændum með þeim sem ykkur þykir vænst um.
Góðar stundir.

|

23 desember 2007

Þorrláksmessukvöld

Á þessum bæ er jólaundirbúningi lokið.
Nú er bara að bíða eftir að tími komi til að byrja að elda hreindýrslærið, brúna kartöflurnar, búa til sósu og salat og svo rjómalagaðan hrísgrjónagraut í eftirmat. Hann heitir auðvitað fínu frönsku nafni, ris'alamand, en hjá mér heitir hann rjómagrautur.
Já og ekki má gleyma því að það verður humar í forrétt.
Ekki veit ég hvaða hrekkir það eru hjá almættinu að láta mig vera að fá enn eina skítapestina núna þegar þessi veisluhöld eru framundan. Ég hef síðastu tvö árin tekið út æviskamtinn af pestum. í 47 ár varð mér ekki misdægurt, en nú orðið má ég ekki frétta af manni að hnerra á Akureyri án þess að ég sé komin með hálsbólgu. Ég er orðin svolítið leið á þessu.
En kæru vinir og vandamenn. Allir þeir sem lesa Lötu Grétu.
GLEÐILEG JÓL

|

21 desember 2007

Til hamingju Kiddi

Skemmtileg frétt af Kidda í Vídeóflugunni á visir.is.
Bara að fara til Jamaika með Rúnari Júl og Bjartmari! Æðislegt.
Kiddi er sko frábær. Hann er svo duglegur að framkvæma það sem honum dettur í hug. Ég veit ekki um marga sem hafa hugsað eins vel um foreldra sína. Hann er kattavinur fram í fingurgóma og hann gerir ekki flugu mein.
Skemmtu þér konunglega á Jamaika Kiddi.

|

20 desember 2007

Heimilisfangið skiptir ekki máli

... kortin komast samt til skila.
Starfsfólkið hér á pósthúsinu á Egilsstöðum er ekki að láta smámuni eins og heimilsföng vefjast fyrir sér. Pósturinn minn kemst til skila.
Frá Gróu frænku minni í Grindavík fékk ég jólakort með póstfanginu 720 Borgarfjörður. Ekkert mál.
Áðan fékk ég kort frá Reykjavík með heimilisfanginu Einhvers staðar út í Egilsstaðaskógi á leiðinni til Reyðarfjarðar.
Ég held að samt til öryggis sé rétt að hafa heimilisfangið sem gefið er upp í símaskránni á netinu.

|

Hagstofa Íslands

Ég held að Hagstofan hafi frumlegasta símsvarann.
Eða öllu heldur frumlegustu svörun á símsvara.
Ég átti erindi við þjóskrá í morgun og hringdi á Hagstofuna. Þá svarar þessi sjálfvirka talmaskína og ósköp vinaleg kvenmannsrödd heyrist; veldu 1 fyrir hagskýrslusvið, veldu 2 fyrir þjóðskrá sem sér um flutningstilkynningar, vottorð, kennitölur og fl.
Nú, ég ýtti á 2 og hvað heyri ég þá? Þjóðskrá heyrir ekki lengur undir Hagstofuna.
En þá velti ég því fyrir mér, til hvers er þessi Hagstofa? Hefur hún það eina hlutverk að safna skýrslum? Þarf sérstakt ráðuneyti til að safna skýrslum? Eða er kannski Hagstofan hætt að flokkast sem ráðuneyti? Gæti Hagstofan ekki bara verið ein deild á Þjóðskjalasafninu?

|

19 desember 2007

Að missa andlitið

Mér brá ekkert lítið í morgun.
Ég var bara að drekka morgunkaffið í rólegheitum, var búin að blogga og fór að spjalla við örverpið á msn. Sat bara svona frekar fáklædd inn í stofu enda er ég nánast ein í heiminum í Skógarkotinu mínu. Kolgríma var að nusa af jólakortunum og við vorum bara í góðum gír saman.
Nema hvað, allt í einu sé ég að það er karlmaður á pallinum framan við stofugluggann! Úbbs, Jóli á ferð svona snemma morguns? Allt í einu sé ég að það er búið að koma ljóskastara fyrir og það kviknar á honum. Ljósgeislinn fellur á húsið og þar með stofugluggana!
Jesús, Pétur og Jóhannes og ég á brókinni og smá sloppgopa!
Þegar ég sá að maðurinn brá sér frá þá skaust ég inn í herbergi og í föt. Fór svo út að athuga málið.
Þá var þetta bara einn af smiðunum að koma rafmagnstengingu í skorsteininn. Hann var ekkert á vegum jólasveinsins, bara á vegum Viðhaldsins.

|

Að halda andlitinu

Þessi orð hafa öðlast nýja merkingu.
Ég var að lesa slúðurdálka dagblaðanna, eða netmiðlanna öllu heldur. Þar les ég að aumingju Michael Jackson heldur andlitinu saman með post it. Þegar ég skoða vandlega myndina með fréttinni held ég að þetta sé nú óþrafa illkvittni hjá blaðamanninum, kappinn er límdur saman með plástri en ekki post it miðum.
Stundum hvarflar að mér að láta laga svona eitt og annað sem ég er ósátt við í andlitinu en þegar ég les um hann Mikka þá læknast ég alltaf af þeiri þrá.
Hér í Skógarkoti gengur jólaundirbúningurinn með ágætum. Ég er langt komin með að skrifa jólakortin og Kolgríma lætur ekki sitt eftir liggja. Hún nusar af kortunum og þarf að skoða allt mjög vandlega sem ég er að stússa við. Verst að þurfa að skilja hana eftir eina heima yfir jólin, en ég er búin að semja við gott fólk um að hugsa um hana meðan ég er í burtu þannig að hún kemur til með að hafa það ósköp ljúft.

|

18 desember 2007

Ólíkar jólahefðir

Á að opna jólakortin þegar þau berast eða á aðfangadagskvöld?
Þetta var sú jólavenja sem okkur Finni gekk verst með þegar við fórum að halda saman jól.
Við komum af ólíkum heimilum með ólíkar venjur og ég var ótrúlega sveigjanleg í samningaviðræðum um hvaða venjur yrðu teknar upp á okkar heimili.
Mér var alveg sama þó við myndum alltaf borða rjúpur, heima var ekki föst venja hvað var borðað á aðfangadag, bara eitthvað gott. En laufabrauðið var absalút eitthvað sem ég vildi halda áfram að fá á jólunum enda hafði ég vanist því frá blautu barnsbeini.
Þetta olli engum deilu. Ekki heldur hangikjötið á jóladag og að jólapakkarnir yrðu opnaðir eftir matinn á aðfangadagskvöld - mjög fastar venjur.
En þegar kom að jólakortunum ætlaði allt um koll að keyra. Finnur ólst upp við að kortin voru opnuð strax og þau bárust en ég ólst upp við að þau voru opnuð á aðfangadagskvöld og pabbi las upphátt á kortin. Síðan gengu kortin hringinn og allir skoðuðu þau. Svona hafði það alltf verið og svona vildi ég hafa það áfram. Mér fannst allt eins hægt að opna pakkana fyrir matinn eins og að opna kortin fyrir jól.
En til að hægt væri að halda jól án þess að deila um það allan desember hvernig ætti að meðhöndla kortin þá sömdum við um það að önnur hver jól mátti opna þau fyrir jól og hin jólin ekki fyrr en á aðfangadag.
En eitthvað vildi þetta riðlast því Finni minnti alltaf að síðast hefði þau verið opnuð á aðfangadag.
Svo til að kóróna allt þá er ég farin að opna kortin bara þegar þau koma, ég man aldrei hvernig þetta var um síðustu jól.
Ég er sem sagt farin að laumast í jólakortin og í gær þá spilaði ég jólakortið frá Fróða, hann var svo sniðugur að leika nokkur jólalög á disk og senda sem jólakort.
Jóladiskurinn minn í ár.

|

16 desember 2007

Macintos skiptimolamarkaður

Kærleikskúlurnar seldust ekki eins vel og um síðustu helgi.
En það var gaman í Barra. Ég tók þátt í vali á Kjötkrók Austurlands 2007. Bændur mættu með heimareykta hangikjötið sitt. Minn bóndi mætti ekki, hann hefði nú skorað hátt í þessari keppni. En ég átti erfitt með að gera upp á milli hvort kjötið úr Möðrudal eða frá Flúðum var betra, annars var allt hangikjötið gott.
Það var boðið upp á Rússasúpu. Uppskrift frá Hrafni heitnum á Hallormsstað. Geyma soðið af hangikjötinu og þegar búið er að borða á jóladag er afgangurinn af hangikjötinu skorinn niður í bita sem settir eru í soðið ásamt afgangnum af rauðkálinu, grænu baununum og makkarónusalatinu - sem er sérstakur Vallaréttur, upprunninn úr Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Þetta er svo allt hitað á annan í jólum og borðað með laufabrauði og smjöri. Ágætis súpa með sögu.
En ég hitti þau hjónakorn Jón Gunnar og Sillu. Þau fóru að ræða Macintos-bloggið mitt og komu með þá snilldar hugmynd að á þrettaándanum gætum við haldið Macintos-skiptimolamarkað. Þangað mæta allir með vondu gestamolana sína og skipta þeim út fyrir góða mola. Ég t.d. á alltaf þessa appelsínu- og jarðarberjamola eftir, mér þykja þeir vægast sagt ... vondir. Það er til fólk sem þykja þetta góðir molar og það mætir með sína gestamola og skiptir við mig og fá mína gestamola.
Þannig getum við látið allt konfektið ganga upp.
Ef enn verður eitthvað eftir vill Jón Gunnar stofna til áheita og að Eiríkur bæjarstjóri borði allra verstu molana til styrktar góðu málefni.

|

Kjöt og kærleikskúlur

Jæja, þá er maður eins og mús að draga í holu.
Frystirinn er að fyllast af villibráð og öðru góðgæti. Tilboðssteikum úr Bónus, hreindýrakjöti og fuglum sem í haust flögruðu um hér á Héraði og heiðunum í kring. Þetta er akkúrat rétti tíminn til að pakkfylla frystinn. Eins og maður nái svo sem að elda þetta allt um jólin, sumt geymist fram að páskum og svo eru firningar þegar vorið kemur og grilltíminn byrjar.
En í dag er jólamarkaður í gamla Barrahúsinu á Egilsstöðum og þar verð ég ásamt Soroptimistasystrum mínum að selja kærleikskúlur til styrktar lömuðum og fötluðum. Þessar kúlur eru eigulegir gripir sem listamenn þjóðarinnar hafa hannað. Í ár er kúlan eftir Eggert Pétursson og heitir Árstíðirnar.
Nú er bara að taka peningaveskið sitt og storma í Barra, kaupa jólatré og kærleikskúlur og kíkja á skemmtilegan jólamarkað. 1.000 kr. af hverri seldri kúlu verða eftir í heimabyggð og í fyrra var ágóðinn notaður til að kaupa þjálfunarbekk fyrir sjúkraþjálfunina á sjúkrahúsinu hér á Egilsstöðum.
Skúli í Barra ætlar að vera búinn að finna handa mér jólatré. Ég vil fá 50 cm hátt blágreni í Skógarkotið. Svo skreyti ég það annað hvort með litlum rauðum eplum eða litlum rauðum hjörtum sem mamma heklaði fyrir mörgum árum síðan.

|

15 desember 2007

Heima í kotinu

Ótrúlega er notalegt að taka lífinu með ró á laugardagsmorgni.
Ég hef það svo huggulegt með kaffibolla við kertaljós og kisa er hér á vappi. Allt voða fínt af því að Dandý kom til að taka myndir til að nota sem sýnishorn í fasteignaauglýsingunum hjá INNI.
Ég ætla að kúra aðeins lengur en svo fer ég með Sigurði mági mínum upp í Vallanes að setja jólaljósin á leiðin.

|

14 desember 2007

Konan með brennda brjóstið

Ég er með eindæmum mikill hrakfallabálkur.
Alla vega á sumum sviðum.
Nú geng ég um með brunasár á öðru brjósinu. Og hvernig skyldi það nú hafa komið til. Jú, Gréta,Fúsi og Maggi komu og borðuðu með mér eitt kvöldið og þó svo að Gréta sé hætt að drekka kaffi, þá náttúrulega lagaði ég kaffi handa herrunum eftir matinn.
Þetta átti að vera gott pressukönnukaffi en mér gekk illa að ýta síunni niður svo ég ætlaði að beita mínum kvenlega þunga á könnuna en eitthvað misreiknaði ég heildarþungann og ekki tókst betur til en svo að allt gusaðist út um allt og aðallega á hægra brjóstið á mér.
Þetta er nú svo sem ekki það versta sem ég hef gert sjálfri mér um æfina, það var t.d. verra þegar ég var að setjast inn í bíl og gleymdi að hafa hausinn með inn áður en ég skellti hurðinni, það var vont.

|

12 desember 2007

11. desember

11. desember er merkilegur dagur hjá okkur systrum.
Anna Guðný fæddist þann dag 1956 en ég var skírð þann dag 1958.
Í tilefni dagsins í gær fór ég í kvöldkaffi niður í Kelduskóga, úðaði í mig gúmmelaði og gotterí og spjallaði við Önnu Guðnýju og afmælisgestina.
M.a. var það rifjað upp að þetta væri nú skírnardagurinn minn. Þegar Anna Guðný var skírð voru teknar fjölskyldumyndir í bak og fyrir. Pabbi, mamma, amma Rannveig, strákarnir og litla prinsessan. Pabbi að rifana úr monti yfir að hafa loksins í 5. tilraun tekist að búa til stelpu.
Svo kom ég tæpum tveimur árum seinna. En það var nú frekar hversdagslegur viðburður, ég var ekkert óvenjuleg. Augu, eyru, nef og munnur. Bara lítil stelpa og 6. barnið hjá hjónunum á Neðstutröðinni.
En það varð nú samt að ausa gripinn vatni og koma krílinu í kristinna manna tölu. Vinir og vandamenn fengu boð um kaffisamsæti og það vantaði ekki að myndavélin var dregin upp.
Og hvert var nú myndefnið? Skírnarbarnið? Skírnarbarnið, pabbi, mamma og systkinin með ömmu?
Nei, ó, nei. Myndirnar sem til eru úr skírninni minni sýna frú Sigríði prestsfrú meðal annarra veislugesta, veisluborðið og afa með spenntar greipar yfir bumbunni sinni á spjalli við séra Gunnar.
Ekki ein mynd af mér, ekki einu sinni að það glitti í mig á meðal veislugesta.
Kannski var ég aldrei skírð, kannski var þetta bara eitt stórt samsæri.

|

11 desember 2007

Hvurslags eiginlega er þetta

... með okkur Austfirðinga?
Þegar fornminjar eru annars vegar og gamlir merkir hlutir virðumst við Austfirðingar ekki fatta að þeir tilheyra menningarsögunni.
Það vefst ekki fyrir okkur að sökkva hálendinu okkar og byggja álverksmiðju, nei, þá þarf ekki að brjóta heilann mikið, ekki frekar en þegar forngripir eru annars vegar.
Á 19. öld fann bóndi í Skriðdal sverð frá landnámstíð. Happafundur fyrir fátækan bónda sem bræddi sverðið upp og smíðaði sér skaflaskeifur.
Gamla Grímsárbrúin sem byggð var fyrri hluta 20. aldar, brú eins og Fnjóskárbrúin gamla. Hún var sprengd upp í skjóli nætur 19. júní 1983.
Gamla kirkjan á Ketilsstöðum, kirkja með óvenjulega og skemmtilega sögu. Það var ekki hægt að setja pening í að endurbyggja hana svo hún var bara rifin.
Miðhúsasjóðurinn, hann var ekta og hann var fluttur suður, sem betur fer annars hefðum við brætt hann upp og smíðað eitthvað úr honum.
Valþjófsstaðahurðinni var sem betur fer bjargað suður á Þjóðminjasafnið, annars má Guð vita hvað við hefðum fundið upp á að gera við hana.
Nýjasta dæmið er auðvitað þessi skandall á Seyðisfirði. Vantar heilasellur í fólk sem bara gengur um og brýtur og bramlar þessar fallegu innréttingar.
Ég sá þessar innréttingar auðvitað oft meðan eina verslun ÁTVR á Austurlandi var þarna til húsa. Þegar Héraðsmenn fóru yfir Alkahólinn, sem heitir víst Fjarðarheiði, og keyptu sér brjóstbirtuna á Seyðisfirði. Þetta var fyrsta áfengisversluni sem ég verslaði í, en það er nú önnur saga.
Ég var svo heppin, stuttu eftir að ÁTVR lagði niður starfsemi í þessu húsnæði, að fá að koma og skoða þessar fallegu innréttingar. Ég verð að viðurkenna að ég hefði ekki einu sinni trúað því upp á okkur Austfirðingar að skemma þessa fallegu hluti.
Okkur hér fyrir austan er hvorki treystandi fyrir landinu né sögunni.

|

09 desember 2007

Dagur með mömmu

Ég átti afar ljúfan dag með mömmu í gær.
Ég var komin niður á Seyðisfjörð um hádegi, ég hafði tekið að mér smá verkefni og ákvað að sitja hjá mömmu meðan ég væri að vinna það.
Ég held ég ætti að gera þetta oftar, málið er ekki að halda uppi stöðugum samræðum, þetta snýst bara um nærveru. Og þó mamma spyrji mig oft sömu spurninganna gerir það ekkert til, ég læt sem ég hafi aldrei heyrt þær fyrr þó ég sé búin að svara þeim nokkrum sinnum síðustu mínúturnar. Aðalatriðið er að hún er að brjóta heilann og við erum saman.
Hún var að spyrja mig um tengdasyni mína, hvað þeir heita og hvað þeir gera. Hvort þetta væru góðir menn og hvort dætur mínar væru hamingjusamar með þeim. Það er ljúft að heyra að mömmu er annt um afkomendur sína.
Ég er þakklát fyrir hvað mamma heldur sinni ljúfu lund þrátt fyrir heilabilunina. Það er dapurlegt að sjá í augum gamla fólksins að hugurinn er í raun farin, það er ekki lengur hægt að ná sambandi við einstaklinginn sem á þessi fjarrænu augu og þetta svipbrigðalausa andlit.
Meðan enn færist brosglapi í augu mömmu og andlitið ljómar þegar ég kem þá læt ég mig það litlu skipta hvort hún spyr mig einnar spurningar hundrað sinnum eða hundrað spurninga einu sinni.

|

07 desember 2007

Lúxusvandamál

Ég á við smá lúxusvandamála að stríða og leit aðstoðar.
Þannig er að hann Súbbi minn er óttalegur sóði og þegar hann hefur dvalið næturlangt í heitum og góðum bílskúrnum, skilur hann eftir sig svartar tjöruklessur á gólfinu.
Ég hef reynt að þrífa þetta jafnóðum en þegar ég er að drífa mig í vinnuna á morgnanna, þá hef ég bara ekki tíma til að skúra bílskúrsgólfið. Ég hef því látið það bíða þar til ég kem heim aftur að kvöldi.
Nú vill svo leiðinlega til að það eru svartar rákir og taumar á gólfinu og mér leiðist að hafa gólfið svona.
Í gær skrúbbaði ég og skrúbbaði með einhverjum skrúbbiefnum en þetta fór ekki.
Því leita ég til ykkar kæru lesendur. Kannist þið við gott ráð til að hreinsa svona óþverra af bílskúrsgólfum?
Góðar stundir.

|

06 desember 2007

Hver er sinnar gæfu smiður

... ef hann er heppinn.
En sumir fá aldrei neinn efnivið í gæfusmíði.
Ég las grein í Mogganum um síðustu helgi og mynd sem var með greininni hefur greipst í huga minn. Ég hef reyndar séð þessa mynd áður og hún hafði þá líka svona mikil áhrif á mig.
Myndin sýnir lítinn dreng í stuttbuxum, hann hleypur brosandi á móti ljósmyndaranum, er greinilega að fagna komu hans. Í bakgrunn er annað fagnandi barn á hlaupum og stórt gamalt hús.
Myndin er tekin um miðjan 7. áratuginn á Kumbaravogi.
Um þær mundir sem þessi mynd er tekin átti ég áhyggjulausa og hamingjusama bernsku í Kópavoginum. Ég fór í sveit austur á Borgarfjörð til Sillu frænku, ég ferðaðist um hálendið með pabba, mömmu og systur minni, ég átti yndislega daga upp við Elliðavatn í áhyggjulausum leik. Ég fór ásamt systkinum mínum með Binna frænda í bíó eða niður á Tjörn að gefa öndunum.
Lífið var gleði, leikur og suðandi fiskiflugur.
Ég viðaði að mér efni í mína gæfusmíði síðar á lífsleiðinni.
Það er svo undarlegt að hugsa til þess að á okkar ástkæra Íslandi hafi á sama tíma verið hópur barna sem rændur var barnæsku sinni og það skipulega á vegum opinberra aðila. Þetta gerðist ekki í Rússlandi eða Bandaríkjunum, einhvers staðar langt, langt í burtu þar sem vondu hlutirnir gerast. Þetta gerðist á okkar litla landi, hjá okkar fámennu þjóð þar sem maður hélt að allir væru jafnir.
Hvað getum við gert til að gera þessu fólki sem dvöldu sem börn á Silungapolli, Kumbaravogi eða í Breiðuvík ævina bærilega? Við getum ekki gefið þeim aftur bernskuna sem þau voru svipt, en hvað getum við gert?
Sögur frá Breiðavík eru eins og hryllingssögur frá Síberíu.
Litli brosandi drengurinn á myndinni í Mogganum átti ekki ljúfa ævi, hann var ekki bara á Kumbaravogi, hann var líka í Breiðavík og hann var ekki nema rúmlega tvítugur þegar hann fannst látinn og það veit enginn hvers vegna hann dó. Skiptir það kannski engu máli af því að hann var einn af þessum drengjum sem barnaverndaryfirvöld drógu út á kaldan klakann?

|

04 desember 2007

Þá er hann kominn í hús

... 2007 árgangurinn af Macintos.
Hann veldur mér vonbrigðum. 1970 árgangurinn var auðvitað bestur og svo hefur þessu nammi farið smá hrakandi undanfarin ár.
1970 var uppáhalds molinn minn þessi fjólublái sem var með hnetu umlukinni karamellukvoðu. Nú er hnetan löngu farin og þessi moli er ekki svipur hjá sjón.
Svo var uppáhalds molinn minn maltkaramella sem er búið að taka úr boxinu fyrir nokkrum árum. Eftir áralöng vonbrigði fann ég mér nýjan uppáhalds mola. Það var súkkulaðihjúpuð karamella í eldrauðum pappír.
En hvað hefur nú gerst? Það er búið að dulbúa þennan mola í brúnleitan pappír og eini munurinn á þessum mola og óætum gestamola með appelsínujukki innan í, eru nokkrar rifflur á bakinu á mínum mola.
Eru engin takmörk fyrir breytingum í heiminum? Ég fer að skilja Tiddu þegar hún saup hveljur yfir því að í þessu gerspillta heimi væru menn jafnvel farnir að leyfa sér að hafa flatkökurnar ferkantaðar.
Ég bara spyr, hvar endar þetta?

|

02 desember 2007

Ég skil ekki

... hvað er svona heillandi við flugfreyjustarfið.
Ef ég ætti að vinna við að bera fram kaffi, hreinsa upp ælur og róa fólk á barmi taugaáfalls, þá vildi ég frekar hafa fast land undir fótum í vinnunni.
Í dag flaug ég heim. Fékk ótrúlega fínt flug miðað við hvað veðrið er leiðinlegt á austanverðu landinu. Voðalega gott að koma heim í kotið til Kolgrímu. Maggi tók á móti mér, eða öllu heldur stóru ferðatöskunni minni. Ekki gott að vera að koma af skurðarborði og vera að asnast með ferðatösku upp á 31 kg.
Ég vildi að ég fengi að vera veðurteppt heima á morgun. Jæja, kannski óþarflega eigingjörn ósk. En ég á nefnilega nýju bókina hans Jóns Kalman og Sviss miss þannig að þetta er bara svona ljúfur draumur.
Í dag ranglaði ég um Kringluna, af því að ég er svo íslensk - keypti mér eldrauða jólaskó, lakkskó með pinnahæl. Ég sá fullt af fólki sem ég þekkti. Dorit forsetafrú, Pétur Blöndal alþingismann, Margréti Blöndal útvarpskonu og nokkra leikara.
Ég sá bara einn sem þekkti mig. Bjössa þeirra Tótu og Skúla. Það yljar mér alltaf þegar synir og dætur vina minna heilsa mér á förnum vegi og spjalla.

|