30 júní 2008

Pestarsumarfríi lokið

Núna er klukkan að verða fjögur og sumarfríð búið.
Þ.e.a.s. fyrra sumarfríið. Aðal sumarfríið mitt er í ágúst.
Ég hef gert heilan helling en þar fyrir utan hefur kvefpestin verið áberandi í þessu fríi.
Garðurinn minn er eins og græn vin hér í byggingamörkinni og grannkonur mínar hafa lýst ánægju sinni með að sjá gras hér innan um allar framkvæmdirnar. Þetta eru líka konur með lítil börn og lítil börn fara svo vel á grænu grasi.
En þar sem ég ligg nú hér í bóli mínu þá verður mér hugsað til þeirra sem fyrir 90 árum voru að veslast upp í spænsku veikinni í Reykjavík. Það hefur verið ömurlegt. Liggjandi hundlasinn og bíða dauðans í lélegum húsakynnum og við slæman aðbúnað.
Ég ligg hér í hreina húsinu mínu, undir dúnsæng í mjúka rúminu mínu og úti er grasið að skjóta rótum á lóðinni. Ef mig vantar eitthvað þá þarf ég ekki annað en að hringja í vini og vandamenn og þeir uppfylla óskir mínar.
Ég hlýt að lifa þessa drepsótt af við þessar góðu aðstæður.
Þetta hefur verið fjölbreytt pest. Beinverkir, kvef, hausverkur, hiti, hálsbólga og núna hnerra ég og hnerra. Þetta hefur ekki allt sótt að mér í einu, heldur hefur þetta verið kaflaskipt. Spennandi að vita hvað verður á morgun, en þá á ég að byrja aftur að vinna.
Ég fæ 2 aukafrídaga út á þessi veikindi og þá daga ætla ég að nota með Magga í Hvannalindum, en hann verður landvörður þar í viku í júlí. Þá fæ ég tækifæri til að setja mig í spor Höllu þegar hún dvaldi með Eyvindi á fjöllum. En Maggi býður upp á betri dvalarstað en Eyvindur og vonandi verður ekki illa fenginn matur á boðstólum.

|

29 júní 2008

Pest á pest ofan

Skógarkot er eins og sjúkrahúsið í Svartaskógi.
Hér eru alltaf einhver veikindi. Ég er búin að vera með pestarsull mest allt sumarfríið, ég held ég sé bara komin með þráláta kvefpest.
En það er nú ekki alvarlegt, ég næ því úr mér einn daginn. Mér leist hins vegar ekki á hana Kolgrímu mína í gær, hún var svo hundlasin litla skinnið. Ældi lunga og lifur í gær og var orðin svo þróttlaus í gærkvöldi að ég hélt að hún ætlaði bara að gefa upp öndina.
Þegar ég fór að sofa, lá hún eins og hveitipoki undir rúminu mínu. En í morgun var hún búin að jafna sig, fékk sér vatnssopa og dreif sig út.
Ég hef hana grunaða um að hafa étið skógarmús sem hefur farið svona illa í magann.
Ég ætla að nota daginn í að dáðst að garðinum mínum milli þess sem ég skúra, skrúbba og bóna. Í þessum lóðaframkvæmdum eru gólfin hjá mér runnin saman við garðinn og ég er hætt að sjá hvar er mold og hvar er parket.
Annars finnst mér þetta sumar hér á Fljótsdalshéraði frekar klént, það er snjór í Fjarðarheiði og kuldi í lofti. Það voru bara 8°C í morgun.

|

27 júní 2008

Að loknu golfmóti

Þá er fyrsta TAK-golfmótinu lokið.
TAK stendur fyrir Tengslanet Austfirskra kvenna.
Ég fór auðvitað heim með viðurkenningarskjal auk þess sem ég hlaut 3 golfkúlur í verðlaun.
Maður náttúrulega hugsar í hinum sanna ungmennafélagsanda, aðalatriðið er að vera með, ekki að vinna - svona svipaður andi og ríkir hjá okkur ríkisstarfsmönnum.
En hvað um það, ég fékk þetta líka fína skjal sem vottar það að ég fór völlinn á flestum höggum.
Kannski gengi mér betur í golfi ef kúlan væri svolítið stærri og þyngri. Alla vega leist mér vel á það sem ég las í golfgrínbók: Ég er góð í golfi, innra með mér. Minn innri maður kemur bara ekki í ljós þegar ég spila golf.

|

Að rækta garðinn sinn

Þá get ég farið að rækta garðinn minn.
Jónsmenn hafa lokið allri jarðvinnu og Uppsalamenn eru búnir að þökuleggja garðinn við Skógarkot.
Í dag ætla ég að draga saman grjót til að raða við neðri lóðarmörkin og keyra svolítið af kúlugrjóti að lóðarmörkum. Það er ótrúlega spennandi að standa í þessu garðastússi. Svo er bara eftir að tengja garðljósin í steinabeðinu og að setja niður skjólbelti og einn reynivið - þá er þetta bara alveg tilbúið. Ljósin koma á morgun en afgangurinn ræðst af afkastagetu minni.
Í gærkvöldi skemmtum við Maggi og Nína okkur á Jazzhátíðinni í Valaskjálf, í kvöld fer ég í grill út á golfvelli - smá golfmót á undan. Annað kvöld förum við Maggi á Seyðisfjörð að hlusta á lokatónleika Jazzhátíðarinnar en þá spilar Bloodgroup og Beady Belle í Herðubreið.
Þessi hálfi mánuður sem ég hef verið í sumarfríi hefur flogið frá mér og það hefur verið svo mikið að gera að ég veit að það verður bara hvíld fyrir mig að komast aftur í vinnuna á þriðjudaginn.

|

25 júní 2008

Jazzgeggjarar

Þá er Jazzhátíðin byrjuð á Egilsstöðum.
Við Nína fórum á opnunartónleika í Fljótsdalsstöðinni, 300 m inn í fjalli.
Þetta var alveg ótrúleg upplifun, tónlistin falleg og hljóðfæraleikurinn frábær. Ég sá dansatriðin ekki nógu vel, en það sem ég sá var mjög flott.
Reyndar var ég mikið með augun lokuð bara til að njóta tónlistarinnar.
Hitti frumkvöðul Jazzhátíðar á Egilsstöðum, hann Árna Ísleifs. Hann er alltaf sprækur og gaman að hann skuli koma hingað austur til að setja Jazzhátíðina.
En garðurinn minn er tilbúinn að öðru leyti en því að grasið vantar. Þökurnar verða lagðar á föstudag. Alveg með ólíkindum hvað þetta hefur gengið fljótt og vel. Kapparnir Þórir hjá Jónsmönnum og Maggi hafa hamast í allan dag. Ég sat reyndar ekki auðum höndum því ég var að skrúfa allar skrúfurnar sem átti eftir að skrúfa í pallinn hjá mér - hátt í annað hundrað skrúfur.
Svo fór ég í barnaafmæli, Tóta kom og borðaði með mér fiskisúpu, kíkti á tölvuna mína og við fórum svo saman á golfnámskeiðið. Ég næ engum tökum á þessu golfi, slæ oftast allt of fast og ef ég hitti kúluna fer hún bara margfallt lengra en henni er ætlað. Alla vega í gærkvöld og í kvöld þegar við vorum að læra að pútta.
Ég fór m.a. gröf í höggi, þegar ég sló út af púttvellinum og inn í kirkjugarð. Mér var bent á að sennilega ættu kraftlyftingar betur við mig en svona penn leikur eins og golf.

|

Vinnandi menn

Í gær var byrjað að vinna í garðinum mínum.
Þetta eru öflugir karlar og garðurinn verður tilbúinn annað kvöld með grasi og öllu nema stikklingunum sem ég ætla að dunda mér við að stinga niður í beðin þegar karlarnir hafa lokið sínu verki.
Núna sitja þeir í kaffipásu úti á stétt og gæða sér á vöfflum sem ég myndaðist við að baka í morgun. Maður verður að gera vel við svona duglega vinnumenn.
Annars erum við að bíða eftir hellum sem koma frá Reyðarfirði fyrir hádegi. Alveg með ólíkindum hvað þetta gengur vel.
Ég ætlaði ekki að hafa mig í bólið í gærkvöldi því miðnætursólin var svo einstaklega falleg. Himininn var rauður og gulllitur. Svo fór sólin að koma upp þegar ég hafði mig loks í háttinn.

|

23 júní 2008

Lata Gréta lærir golf

Ég skráði mig á golfnámskeið fyrir konur.
Fyrsta kennslustund var í kvöld og ég verð að segja að þetta er bara gaman. Auk þess hitti ég nokkrum sinnum á kúluna og tvisvar flaug hún í fallegum boga langt út á völl og þar að auki í rétta átt.
Oftast tók hún vitlausa stefnu ef ég hitti á hana á annað borð.
En þetta var nú bara fyrsti tíminn og ég þarf að æfa sveifluna, þegar ég er búin að ná henni þá get ég farið að skoða það að fara í golfferðalag til útlanda.
Annars er allt í sómanum hér í Skógarkoti. Anna Berglind missti röddina og það varð til þess að hún framlengdi dvölina hjá mér þar til annað kvöld. Hún er óvinnufær með þessa rámu hvíslrödd sína þar sem hún er nú einu sinni talsímavörður þessi elska.
Nú er ég orðin alger ljóska. Ég fór á hárgreiðslustofuna í morgun og lét uppræta þennan skítaskolitað náttúrulit minn sem var farinn að verða ráðandi í hári mínu.
Og að lokum skal þess getið að hún Tölvu-Tóta er búin að lofa mér því að setja myndirnar aftur á síðuna mína, hún hafði óvart hent þeim.

|

22 júní 2008

22. júní

Þá er daginn farið að stytta aftur.
Sumarsólstöður í gær, lengsti dagur ársins. En vonandi gott sumar framundan.
Í gær var Runuslútt. Við vorum 15 í mat og glatt á hjalla.
Stella á Lindarbakka kom snemma í grillið því hún var svo boðin í mat annars staðar.
Það var skálað í Aalaborgarákavíti í minningu pabba, en annars var nú drukkið allt frá Bónus-freyðivíni yfir í frönsk rauðvín með matnum enda voru nokkrir veislugestir annað hvort ekki búnir að fá úthlutað áfengiskvóta eða þá að þeir voru búnir að klára hann fyrir aldur fram.
Í dag ætlum við Anna Berglind að fara í bíltúr, kíkja á Seyðisfjörð og inn í Fljótsdal og allt þar á milli.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er: Láttu áhyggjurnar ekki ná tökum á þér. Þá áttu lítið rúm eftir fyrir jákvæðar hugsanir.

|

20 júní 2008

Er það nú sumar

Bara skítakuldi og snjór í fjöllum.
Kominn 20. júní - hvað á þetta að þýða?
Jæja, ekki öll nótt úti enn, sumarið sem ég lærði að liggja í sólbaði þá var líka skítakuldi um miðjan júní. Svo brast á með sól og hita sem entist út sumarið - alla vega í minningunni.
Við systkinin höfum síðustu vikuna verið að vinna í Runu. Auðvitað var það miklu meira verk að skipta um klæðninguna en við höfðum átt von á, en það hefur samt gengið mjög vel. En verkið verður klárað í áföngum í sumar. Runa verður orðin klæðskiptingur í haust, eða þannig.
Á morgun er Runudagaslútt, grill og gaman. Í stað þess að vera í stuttbuxum eins og við hæfi er á slíkri samkomu, þá mætir maður bara í föðurlandinu og í lopapeysu. Vona samt að Dyrfjöllin láti sjá sig. Annars voru þau afskaplega falleg um síðustu helgi og fram eftir viku, en í dag létu þau ekkert sjá sig.
Örverpið mitt lenti á Egilsstaðaflugvelli kl. 20.00, kom og smellti einum á kinnina á móður sinni og var rokin út að hitta vini sína.
En það er ljúft að vita af henni á staðnum.

|

19 júní 2008

19. júní

19. júní 1977 vaknaði ég með hræðilega verki.
Finnur var hjá mér og ég vakti hann upp og sagði að það hlyti eitthvað að vera að gerast. Svo fór ég og vakti pabba og mömmu því ég var enn í föðurhúsum á þessum tíma.
Ég gat alls ekki verið kjurr, ég var á stjákli um húsið og allir komnir í viðbragðsstöðu. Það var nefnilega lítið barn á leiðinni í heiminn.
Svo missti ég vatnið og lagðist á stofugólfið. Mamma vildi að ég legðist í stofusófann en ég þverneitaði, ætlaði ekki að fara að subba hann allan út, það væri betra að subba út parketið á stofugólfinu.
Finnur skalf eins og hrísla þar sem hann kraup við hliðina á mér. Ég man að mamma leit á hann og sagði "Hva, er þér virkilega svona kalt Finnur minn?"
Svo kom sjúkrabíll og það var farið að reyna að koma mér út úr húsinu. Þá kom babb í bátinn því það var ekki hægt að fara með sjúkrabörur út um forstofuna, það var 90° horn milli hurða og ekki hægt að beygja með börurnar. Svo mér var pakkað í teppi og borin þannig út. Þessi uppákoma varð til þess að mamma pantaði smiði og lét breyta húsinu, gat ekki hugsað sér að búa í húsi sem ekki væri hægt að fara með sjúkrabörur út úr.
Mamma og Finnur fór með mér niður á spítala og voru þar með mér allan daginn, en fæðingin tók 12 tíma. Það endaði reyndar með því að ég var klippt í tvennt til að ná krakkanum út.
En þarna á fæðingadeildinni á Egilsstöðum birtist hún Gunnhildur mín, sæt og fín. Til hamingju með daginn gæskan.

|

18 júní 2008

Bangsaæfing

Ég er að stúdera viðbrögð ef maður hittir ísbjörn.
Ég rakst á mjög gagnlegar upplýsingar og nú er ég að temja mér það sem hér er kennt:

Nálgist aldrei ísbjörn, aldrei ögra birni, og alls ekki lenda á milli birnu og húna. Ef þið sjáið ísbjörn og hann veit ekki af ykkur: Ganga rólega burt af svæðinu, halda ró sinni, fylgjast með birninum og forðast að láta vindinn bera lykt ykkar til bjarnarins. Ef björninn veit af ykkur; ganga rólega til baka, engar snöggar hreyfingar og alls ekki að hlaupa því þá gæti hann litið á ykkur sem bráð. Og þá er betra að björninn róist og geti nýtt þefskynið til að fylgjast með ykkur.Fylgist með birninum en ekki horfast í augu við hann.

Ekki ögra. Ísbirnir eru forvitnir um menn en þeir eru líka skræfur og hræðast auðveldlega menn en ef ísbjörn gerir sig líklegan til að ráðast á ykkur þá er vopnlausum ferðalöngum ráðlagt að hræða hann í burtu með því lyfta höndum upp eða flík, láta sig þannig sýnast stærri og öskra og garga á björninn. En þá verður hann að hafa flóttaleið. Standið saman í hóp. Komið ykkur burt af svæðinu en alls ekki hlaupa.

Ef menn lenda í slag er best að standa fastur fyrir og berjast á móti með tiltækum vopnum, spýtum eða hnífum. Ísbjörninn kemst ekki á lista yfir hættulegustu dýr jarðar en þar er móskítóflugan á toppnum með tvær milljónir mannslífa á ári, en síðan koma snákar, sporðdrekar, krókódílar, fílar, býflugur, ljón, flóðhestar, marglyttur og hákarlar, og er þá maðurinn sjálfur undanskilinn.


Ég ætti nú bara að vera nokkuð örugg ef bangsi verður á vegi mínum því ég er alveg afleit í að hlaupa, satt að segja finnst mér engin hreyfing eins leiðinleg.

Ég ætla samt að halda mig við það sem segir í upphafi "Nálgist aldrei ísbjörn".

|

17 júní 2008

17. júní

Gleðilega þjóðhátíð.
Ég er nú bara dauðþreytt á þessum þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga. Ég hef verið í vinnubúðum í Runu og það hefur gengið mjög vel hjá okkur systkinunum að gefa Runu andlitslyftingu í tilefni af 30 ára afmæli hennar.
Verkinu er samt alls ekki lokið, vinnubúðirnar munu verða starfræktar fram að næstu helgi.
En það vakti athygli mína þessi klausa í frétt á ruv.is Hvítabjörninn á Skaga hefur verið felldur. Björninn var aldraður og kvenkyns. Spurning hvenær ég verð slegin af, ég verð kannski einn daginn öldruð og ég er kvenkyns.

|

13 júní 2008

Sumarfrí

Þá er ég komin í sumarfrí.
Reyndar tek ég bara hálfan mánuð núna og svo afganginn í ágúst.
Það er margt spennandi á döfinni hjá mér. Ég var búin að skipuleggja fríið mitt þannig að ég yrði sem mest heima, en ég byrja á að vera nokkra daga á Borgarfirði með systkinum mínum. Það eru árlegir tiltektardagar í Runu.
Svo kemur nú örverpið mitt í helgardvöl til mömmu gömlu eftir viku. Þá verða hátíðahöld í Skógarkoti.
23. júní á ég von á flokki vaskra manna sem ætla að útbúa handa mér eitt stykki garð með grasi og öllu sem einn garður þarf á að halda. Ég hlakk mjög mikið til að ganga frá lóðinni.
Nú svo er það jazzhátíðin okkar. Maggi var svo hufflegur að gefa mér miða á alla tónleikana svo ég verð að vera dugleg að nota mér það.
Annars er ég svo ánægð með að ég er aftur komin með mikinn áhuga á ræktun. Ég hef ekki fundið fyrir grænum fiðringi í puttunum síðan ég bjó á Strönd. Núna eru stikklingarnir sem ég klippti í vor hér úti í kössum að róta sig. Ég er komin með nokkur ker af blómum á stéttina, sum þeirra fara á pallinn. Svo er ég komin með marga litríka og glaðlega blómapotta í eldhúsið. Í þeim eru kryddjurtafræ að búa sig undir að láta kryddjurtir vaxa.
Sem sagt. Lífið er yndislegt og ég geri það sem ég vil - skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til?

|

12 júní 2008

Fylgihlutir með fimmtugri konu

Það er nokkrir hlutir sem eru að vaxa fastir við mig.
Minnisbók, veski, farsími, minnisbók, andlitskrem, maskari, minnisbók, visakort, ilmvatn, minnisbók, varalitur, minnislykill, auðkennislykill, fartölva.
Að ógleymdum öllum þessum lyklum sem fylgja mér.
Ég er svo hrifin af bíllyklinum, þessum með fjarstýringunni. Ég reyni stundum að opna Skógarkot með honum en það gengur ekki.
Af hverju þarf ein miðaldra kona sem hefur gullfiskaminni að druslast með lykla að húsinu sínu, bílnum, útidyrunum í vinnunni, skrifstofulykla, lykil að bankahólfi og svo nokkra lykla sem ég er að geyma fyrir vini og vandamenn.
Ég myndi vilja eiga lykil sem virkar eins og bíllykillinn minn og myndi ganga að öllu sem ég þarf að nota lykla við. Ég myndi þannig bara ganga með einn lykil í staðinn fyrir 20 stykki.

|

11 júní 2008

Óþarfa áhyggjur

Ég hef haft léttar fjárhagsáhyggjur undanfarið.
Bensínið hækkar og hækkar, vextir hækka, matvöruverð hækkar.
Ég hef séð fyrir mér að "Rannveig lætur eitthvað á móti sér" færi yfir á hættustig og yrði "Rannveig lætur allt á móti sér".
En Guði og ríkisstjórninni sé lof, þetta eru óþarfa áhyggjur. Alla vega ef ég tek mark á þessari frétt sem ég rakst á í gær.
Ég mun því bruna áhyggjulaus á mínum bensínfák til Hornafjarðar í dag. Ég var farin að velta því fyrir mér hvort ég yrði að láta mér duga að fá mér pylsu í sjoppunni, en nú hef ég engar áhyggjur og fæ mér bara eitthvað gott upp úr sjónum á Humarhöfninni - en það er matsölustaður sem Hornfirðingar reka í gamla kaupfélagshúsinu.
Kannski að ég sleppi því samt að fara í Lónið, uppáhalds fatabúðina mína utan Egilsstaða, ef ske kynni að fjármálaráðherra hefði ekki alveg rétt fyrir sér.

|

10 júní 2008

Ekið til síns heima.

Ekki varð kaupstaðaferðin löng.

|

09 júní 2008

Lífið í sveitinni

Ég man þá tíð að sauðfé gekk hér frjálst um götur Egilsstaða.
Oft urðu garðeigendur argir þegar þeir komu á fætur á morgnanna og búið var að bíta blómin af stjúpunum og morgunfrúnum. Svo ekki sé nú talað um kálplöntur sem horfið höfðu ofan í lömbin.
Jafnvel einn og einn bolakálfur sást á vappi. Það er ekki langt síðan ég sá hestastóð rekið í gegnum bæinn.
Svona er lífið í sveitinni.
En nú á hreppslandið að vera girt og girðingarnar eiga að halda búfénaði utan kauptúnsins.
Þess vegna kom mér það á óvart í dag þegar ég sá kind með tvö lömb á leið yfir Seyðisfjarðarveginn, sem skilur hverfið mitt frá aðal byggðinni.
Mér fannst ekki síður athyglisvert að þetta var vel upplýst kind sem fór með lömbin sín yfir á merktri gangbraut og bílarnir stoppuðu til að hleypa þeim yfir.
Mér sýndist kindin taka stefnuna í Litluskóga þangað sem Jón dýralæknir býr. Kannski að eitthvað hafi amað að lömbunum hennar.

|

07 júní 2008

Kvennahlaup og þjóðgarður

Byrjaði daginn á að fá mér labbitúr í Kvennahlaupinu.
Það var auðvitað hressandi. Ég fór bara meðalveginn og tók 2 km.
Það er mjög gaman að taka þátt í svona viðburði, allir kátir og skemmtileg stemning.
Svo var bara að fara heim, skella sér í bað, fara í skárri föt og taka rútu upp í Skriðuklaustur. Þar var hátíð vegna stofnunar Vatnajökulsþjóðgarðs. Falleg dagskrá og skemmtileg. M.a. las Hákon Aðalsteinsson úr ljóðum sínum.
Þetta er búið að vera nokkuð langt ferli, stofnun þjóðgarðsins og ég mér fannst sem ég væri að taka þátt í merklegri stund í sögu landsins.
Ég vona að vel takist til með þennan stærsta þjóðgarð Evrópu og að hann eigi eftir að efla mannlíf í þeim sveitarfélögum sem að honum standa og að þjóðin og ráðamenn meti hann að verðleikum.
Annað kvöld hef ég fengið boð um að koma út í sveit og gefa nokkrum heimalningum. Það er alltaf svolítið spennandi.

|

06 júní 2008

6. júní

1999 bar sjómannadaginn upp á 6. júní.
Þann dag var Anna Berglind fermd í Vallaneskirkju og Gunnhildur og Mirek gefin saman í borgaralegt hjónaband á Egilsstöðum.
Pápi minn var búinn að kaupa kampavín og rauðar rósir og koma því fyrir í Runu og Stella á Lindarbakka var fengin til að setja drifahvít sængurföt á rúmið. Pápi minn vildi nefnilega að brúðhjónin eyddu brúðkaupsnóttinni á Borgarfirði og þetta var víst allt voða vel lukkað og huggulegt.
Fljótsdalshérað skartaði sínu fegursta þennan dag og allir voru kátir. Anna Berglind klæddist upphlut ömmu sinnar á Gunnlaugsstöðum og var fín og sæt fermingarstúlka.
Til hamingju með daginn krakkar mínir.

|

05 júní 2008

Besínokurverð

Rosalega er bensínið orðið dýrt.
Undanfarið, þegar Súbbi minn hefur verið að klára bensínskammtinn sinn og ég fer að hugsa um að á morgun verði ég að taka bensín, þá kemur alltaf frétt um hækkun bensínverðs.
Ég held að síðustu fjögur skipti sem ég hef tekið bensín hafi alltaf verið hækkun frá því næst á undan.
Jæja, Súbbi verður að fá sopann sinn, en ég verð líka að vera duglegri að hjóla.

|

Ísbjörn

Voðaleg viðkvæmni er þetta út af þessum bangsa.
Auðvitað var slæmt að hann skyldi asnast til Íslands, en hvað átti að gera við hann þegar búið væri að svæfa hann? Láta hann sofa einhverjum Þyrnirósarsvefni, eða fljúga með hann guðmávita hvert? Auglýsa eftir fjölskyldunni hans?
Ekki vildi ég alla vega hafa bangsa á vappi hér í nágrenni Egilsstaða og ég held að menn væru ekkert hrifnir af að hafa hann í Tjarnarhólmanum þó hann kynni örugglega vel við sig þar með nóg æti í kringum sig. Endur, gæsir og örugglega er eitthvað fiskikyns í Tjörninni.
Hvað slátrum við mörgum dýrum á ári til að borða eða búa til leður til að föndra úr? Og það án þess að nokkur felli tár.
Þetta minnir mig bara á fólk sem situr og smjattar á kjúklingum og mæðist yfir því að kettir veiða fugla.

|

04 júní 2008

Hálsmáladraumur

Í nótt hrökk ég upp af hræðilegum draumi.
Hann var fullur af spennu og ofbeldi. Ef kvikmyndaeftirlitið hefði farið yfir hann hefði hann verið stranglega bannaður börnum.
Ég sem þoli ekki ofbeldismyndir.
Í draumalandi lokar maður ekki augunum og enn síður að maður geti stungið hausnum niður í hálsmálið.

|

03 júní 2008

Er Austurland að fara til andskotans

Rotturnar eru farnar að stökkva frá borði.
Minnir á sökkvandi skip. Mogginn búinn að loka svæðisskrifstofunni hér fyrir austan, Iceland Express hætt að fljúga frá Egilsstöðum og í vetur lagði Fasteignamat ríkisins niður skrifstofuna hér fyrir austan.
ÍAV hætt starfsemi, en það var nú fyrirséð. Þeir komu bara til að vinna ákveðið verkefni.
Ég fer samt ekki ofan af því að það er gott að búa á Austurlandi og nú er bara að spýta í lófana, bretta upp ermarnar og taka upp þráðinn frá því fyrir virkjun.
Svo getum við glaðst yfir því að næsta laugardag er formleg opnun Vatnajökulsþjóðgarðs og húllum hæ á Skriðuklaustri.

|

01 júní 2008

Mér þykja hnetur góðar

en nú verð ég að hætta að borða þær.
Eins og ég hef áður sagt, allt sem er gott er bannað.
Ég fór til læknis í gærkvöldi og niðurstaðan er sú að ég er trúlega búin að koma mér upp hnetuofnæmi. Maður er búinn að heyra svo margar tröllasögur af hnetuofnæmi að mér fannst þetta næstum eins og dauðadómur. En ofnæmi og ofnæmi er víst ekki það sama og mitt brýst út í húðinni en ekki í öndunarveginum svo ég get andað rólega.
Appelsínuhúð er bara falleg við hliðina á hraunhelluhúðinni sem ég er með á fótunum.
Ég fékk svo roslega góða kúskúsuppskrift um daginn og sá fyrir mér að þetta yrði sumarrétturinn í Skógarkoti. En þar sem það er hellingur af hnetum í réttinum verð ég að hætta við það, nú eða sleppa hentunum í uppskriftinni - ég held að ég geri það bara.
Við Elva og Guðrún Lára fórum í skemmtiferð til Akureyrar í gær. Sem betur fer hafði ég misskilið veðurspánna og var í þægilegum sumarbuxum, hélt að það ætti að vera sól en svo var bara rigning fyrir norðan. En þessi misskilningur bjargaði deginum því ég hefði ekki haldið út í venjulegum buxum af því að ég var orðin svo vond í húðinni.
En dagurinn var skemmtilegur og þar sem það rignir ekkert á Glerártorgi var þetta bara fínt.
Ég er ekki góður náttúrufræðikennari því upp á Möðrudalsöræfum sá ég útundan mér aftan á grábrúnan fugl hefja sig til flugs og sagði við Guðrúnu Láru "Nei, sjáðu, þarna er spói." Við nánari skoðurn reyndist þetta vera gæs. En það var örugglega spói sem ég sá á leið minni í Vallanes fyrir helgi. Ég sá framan á þann fugl.
Í dag er skafheiður himinn á Héraði og ætla að finna mér eitthvað skemmtilegt að gera. Svo þarf ég að endurskoða matseðil kvöldsins, ég fæ gesti í mat og ætlaði auðvitað að hafa kúskúshentusalatið með matnum. Það er vonandi svona fallegt veður á skjálftasvæðinu fyrir sunnan svo menn séu ekki háðir því að vera undir þaki.
En ég fann það út í gær að Hagkaup er okurbúlla við hliðina á Bónus. Einn skammtur af kattamat sem kostar 56 kr. í Bónus kostar litlar 125 kr. í Hagkaup.

|