27 júlí 2008

Óbyggðirnar kalla

Málningaferðin í Víkur breyttist í vikudvöl í Hvannalindum.
Maggi er farinn inneftir og tekinn við landvörslu og ég fer á morgun og verð næstu vikuna í hlutverki Höllu á fjöllum.
Ég er búin að fara í Bónus og kaupa vikuforða af mat. Þetta verður nú svolítið þægilegra en var hjá Eyvindi og Höllu en fegurðin á fjöllum er sú sama.
Ég hlakka til að takast á við þessa óbyggðadvöl. Að vera þarna í litla svarta kofanum sem stendur á svörtum klettum og ekkert nema svartur sandurinn umhverfis.
En Lindaáin rennur rétt við kofann og suður af honum eru hvannirnar og gömlu rústirnar þar sem talið er að Halla og Eyvindur hafi hafst við.
Fyrsta verkið á fjöllum verður að leysa skálaverði í Kverkfjöllum af en þau ætla að brega sér yfir í Dreka og taka þátti í fagnaði sem þar verður annað kvöld.
Ég á ekki eftir að sakna sjónvarpsins því ég hef varla kveikt á því í allt sumar en ég á örugglega eftir að sakna tölvunnar og internetsins.
Ég verð örugglega með fráhvarfseinkenni, bæði af tölvuleysi og eins af kókleysi því Coce light verður ekki með í för.

|

26 júlí 2008

Brúðkaup og Bræðsla

Ég hef hlakkað til þessa dags í allt sumar.
Annars vegar af því að í vor keypti ég mér miða á tónleikana í Bræðslunni á Borgarfirði og hins vegar af því að í vor fékk ég boðskort um að mæta í brúðkaup Dandýjar og Kela.
Fram eftir sumri voru tveir 26. júlí í mínum kolli, annars vegar 26. júlí þegar brúðkaupið yrði og hins vegar 26. júlí þegar Bræðslutónleikarnir yrðu.
Svo uppgötvaði ég einn daginn að það var bara einn 26. júlí á dagatalinu.
En það var nú ekki mikið vandamál að velja. Auðvitað fer ég í brúðkaup Dandýjar og Kela. Ég hefði víst geta selt þennan tónleikamiða 10 sinnum, slík var eftirspurnin.
Það verður gaman að fá að vera í Kikjubæjarkirkju í dag þegar sr. Jóhanna á Eiðum gefur brúðhjónin saman. Svo er veisla í Valaskjálf og kvöldið gæti allt eins endað á balli með Sálinni sem verður í Valaskjálf í kvöld.
Vona að allt lukkist vel, bæði í Kirkjubæ og á Borgarfirði.

|

25 júlí 2008

Of feitar

Kannski að það verði næst.
Að við Kolgríma og Klófríður vælum allar í kór yfir að vera of feitar.

|

24 júlí 2008

Hvenær ...

ætla íslenskir blaðamenn að vaxta upp úr svona fréttaflutningi.
Það var lengi gert grín að Akureyringum fyrir að taka það alltaf fram í fréttum sínum að aðkomumaður hefði verið valdur að því að eitt eða annað fór úrskeiðis í bænum.
Af öllum þeim fjölda Pólverja sem búa á Íslandi er örugglega ekkert meira af ógæfufólki en í sama fjölda afkomenda víkinga búsettum á Íslandi.
Gleymum því heldur ekki að það hafa verið svipaðar ástæður fyrir því að víkingar komu til Íslands hér í denn og fá Pólverja til að flytja hingað.
Von um betri lífskjör.

|

Ó Reykjavík ...

... ég vildi að ég væri í Reykjavík.
Þá myndi ég skella mér á tónleika í kvöld og hlusta á þessa höfðingja í Vodafone-höllinni.

|

Flott mynd

Ég var að kíkja á mbl.
Þar er frétt frá Grímsey. Kíkið á þetta. Minnisvarðinn er um Fiske sem gaf Grímseyingum töfl (ft. af tafl) og Gunnar bróðir gerði þetta fína seglskip úr málmi fyrir Grímseyinga. En Fiske kom aldrei til Grímseyjar, hann sigldi bara framhjá eyjunni og fannst hún svona merkileg.

|

23 júlí 2008

Speki dagsins

Ég á eitt forláta dagatal.
Á því eru ekki vikudagar svo ég nota það ár eftir ár. Hins vegar hefur hver dagur góða speki og gott nesti út í daginn.
Í dag segir: Hatur í hjörtum okkar gefur óvinum okkar tækifæri til að bera sigur úr býtum. Fyrirgefningin hjálpar okkur að sigrast á þeim.
Svo mörg voru þau orð. Ég held að hvort sem við erum að reyna að sigra andstæðing eða sjálf okkur þá er fyrirgefning undirstaða sálarheillar og vellíðunar.
Oft er ég sjálf minn versti andstæðingur.

|

Sumar á Héraði

Loksins er hitastigið komið yfir 20°C hér á Héraði.
Verst að þá tollir hálendið ekki lengur á fjöllum, en við á Egilsstöðum vorum í miðju moldarskýi seinnipartinn í gær.
En í augnablikinu er yndislegt sumarveður, það sér til fjalla og út á sjó.
Það er svo mikið um að vera á næstunni. Dandý og Hrafnkell gifta sig næsta laugardag og veislan í Valaskjálf gæti endað sem dansleikur með Sálinni. Ég er búin að kaupa flottan kjól sem ég ætla að vígja í brúðkaupinu.
Gunnhildur og Mirek koma um helgina, á mánudag fer ég í Víkur með Magga að mála fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs og hitta Ingu Rósu sem þá verður orðinn skálavörður í Húsavík.
Síðan eru Anna Berglind og Nonni væntanleg í næstu viku og verða fram yfir verslunarmannahelgi, þannig að það eru bara góðir dagar framundan.
Svo get ég alls ekki þagað yfir því að þó það sé langt þangað til að ég verði fimmtug þá er Maggi búinn að kaupa handa mér afmælisgjöf. Ég mátti velja mér ferð eitthvað út í heim (og aftur til baka) og ég valdi ferð til Torremolinos í september. Ég hlakka ekki lítið til. Hótelið er huggulegt og alveg niður við ströndina.
Ég hef svo margt að hlakka til.

|

22 júlí 2008

Stál og hnífur ...

... sýnist mér að hafi breyst í ál og skífur.
Bubbi er búinn að tapa stórfé á hlutabréfamarkaðinum og það er náttúrulega hundfúlt að lenda í því.
Mér finnst að Björk gæti alveg sungið honum eitt ljúflingslag um fátækt fyrst svona er komið fyrir honum blessuðum karlinum sem eitt sinn var með "blóðuga fingur og illa lyktandi tær".
En svona þar fyrir utan finnst mér að listamenn eigi bara að ákveða það sjálfir hvaða málstað þeir vilja vekja athygli á.

|

21 júlí 2008

Pop up í tölvunni

Það poppar alltaf upp eitthvað furðulegt í tölvunni.
Þegar ég er að vafra um netið kemur æði oft upp gluggi sem í stendur eitthvað á þessa leið "Til hamingju, þú ert gestur nr. 1.234.445.557 og hefur unnið helling af peningum. Þetta er ekki grín. Smelltu hér."
Ég væri sennilega orðin margmúltimilli ef ég hefði svarað þessu öllu og það væri eitthvað að marka þetta.
Nýlega er farinn að poppa upp gluggi þar sem boðið er upp á þátttöku í happdrætti um græna kortið í USA. Ætli það sé múgur og margmenni sem býður eftir að eignast þetta græna kort? Ég hef alla vega ekki áhuga á þessu græna korti, ég er alveg sátt við að búa á Íslandi.
Eins og það virðst vera auðvelt að vinna í einhverju nethappdrætti sem maður hefur ekkert beðið um að fá að vera með í, þá furða ég mig á því að það er eiginlega aldrei sem það kemur fyrir að það sé haft samband við mig frá SÍBS eða Happdrætti Háskólans. Samt spila ég í þessum happdrættum og borga skilvíslega miðana mína.
Ég fatta þetta ekki alveg, enda er mér svo sem slétt sama.

|

20 júlí 2008

Ljúfur sunnudagur

Sólin er búin að skína og veðrið hefur verið gott í dag.
Ég náði að slá grasflötina mína áður en við Maggi fórum á tónleika í Mörkinni á Hallormsstað. Þar voru Bjartmar og Rúnar Júl ásamt hljómsveit, en DJ Kiddi vídeofluga hitaði upp fyrir tónleikana.
Stemningin var fín og við hittum fullt af skemmtilegu fólki. Vorum svo heppin að fá pláss á teppi hjá mágkonum mínum þeim Sissu og Guðlaugu og Síla og Systa voru á næsta teppi við hliðina á okkur.
Eftir að Kiddi var búinn að hita upp gekk hann um og spjallaði við gesti. Hann kom til okkar og heilsaði upp á okkur - ekkert smá hress með daginn.
Núna stendur Maggi við grillið og galdrar fram dýrindis máltíð, T-bone með öllu tilheyrandi.
Já, lífið er bara ljúft á Héraði í dag.

|

19 júlí 2008

Kattarskömm

Ótrúlega getur hún Kolgríma verið óþæg.
Hún er svo mikil veiðikló og veit fátt skemmtilegra en að veiða fugla. Ég veit ekki hvað hún hefur stóran kvóta eða hvort hún hafi yfir höfuð fengið útgefið veiðileyfi.
Alla vega leiðist mér þegar hún er að draga heim dauða fugla, svo ekki sé talað um þegar hún dregur þá heim hálfdauða.
Í morgun var hún búin að klófesta einn en missti hann. Áðan var hún nautnaleg úti á palli að smjatta á þrastarunga.
Ég veit ekki hvernig ég á að fá hana ofan af þessu háttarlagi. Bjallan gerir ekkert gagn.
Jæja, kannski ég eldi mér bara kjúkling í kvöld og hætti að spá í þessa veiðigleði Kolgrímu fuglabana Högnadóttur.

|

17 júlí 2008

Skreppitúrar

Við Maggi skruppum norður að skoða litla manninn á Húsavík.
Hann er voðalega sætur og með eindæmum afslappaður. Ég fékk að halda á honum og dáðst pínulítið að honum. Núna reyni ég að sitja á mér með að suða um barnabörn, en mikið voðalega hlakka ég til ef ég fæ að verða amma einn daginn.
Ég skrapp í Bónus í hádeginu. Var komin þangað rétt áður en búðin opnaði og þar beið fjöldi manns, fullur eftirvæntingar. Ég var að spá í hvort það væri að hefjast listviðburður eða trúarhátíð. Þegar dyrnar opnuðust streymdu allir inn í Jóhannesarhofið, penir og prúðir. Þetta voru nær eingöngu ferðamenn sem komu með Norrænu í morgun.
Síðdegis skruppum við Maggi á Borgarfjörð. Ég var að sýna honum Runu og Stellu á Lindarbakka. Honum leist vel á þær báðar.
Í Runu voru Anna Guðný og Guðlaug að príla á þakinu og strjúka síðustu pensilstrokurnar á þakinu. Það er núna fallega blátt.

|

13 júlí 2008

Heyannir

Í dag sló ég grasið við Skógarkot fyrsta sinn.
Það voru nú ekki margir hestburðir, fyllti einn svartan ruslapoka. En nýslegin flötin er falleg yfir að líta og sláttuvélin var svo góð að rjúka í gang þrátt fyrir að hafa staðið óhreyfð í tvö ár. Það þurfti bara að setja á hana bensín og toga í spottann.
Æskuvinirnir héldu suður í gær og mikið voru kisurnar fegnar. Þær fengu nefnilega ekki að sofa inni í íbúð þar sem tvær vinkonur mínar eru með kattaofnæmi. Klófríður og Kolgríma þurftu því að vera tvær nætur í bílskúrnum.
Í kvöld komu Guðrún og Árni tengdaforeldrar Önnu Berglindar í heimsókn, Maggi kom líka og við borðuðum öll saman. Það var afskaplega huggulegt. En þar sem við sátum og spjölluðum eftir matinn þá skall allt í einu á þvílík hellidemba að ég hef bara ekki séð annað eins hér á Egilsstöðum. En við sáum að það var þurrt í grennd. Það var eins og rigningin væri bara hér í þorpinu. Og þar sem ég sit og skrifa þetta þá hefur aftur verið skrúfað frá krananum og regnið dempist hér niður á pallinn.
10. júlí sl. eignuðust Lilja og Fannar lítinn dreng og á morgun ætlum við Maggi að bregða okkur til Húsavíkur og skoða nýja sonarsoninn hans Magga.
Það verður spennandi að heilsa upp á litla manninn. Ég er búin að sjá myndir af honum og hann er afskaplega myndarlegur.

|

12 júlí 2008

Kátt í koti

Það hefur verið líf og fjör í Skógarkoti síðustu daga.
Æskuvinkonur mínar úr Kópavogi brunuðu austur á Hérað og hafa skemmt mér með nærveru sinni. Þetta eru þær Inga, Sigga H. og Anna Birgitta. Með þeim eru Hjálmar maður Ingu, Addi maður Önnu Birgittu og Steini vinur Siggu.
Það er búið að sitja á pallinum og hugga sig, grilla, fara í Hallormsstað, út að borða, baka vöfflur, spjalla, sprella og hlægja.
Ótrúlega er gaman að eiga skemmtilega vini sem kíkja í kotið. Svo er það einhvern veginn þannig að vinátta frá æskuárunum í Kópavoginum verður dýrmætari með hverju árinu.
Anna Birgitta og Addi eru mikið söngfólk og það var ótrúleg upplifun að sjá þau við minnisvarðann um Þorstein Valdimarsson á Svefnósum á Hallormsstað, þar sem þau stóðu í sumarsólinni og sungu tvíraddað með lækjarnið sem undirleik.

|

09 júlí 2008

Sumarkvöld í steinabeði

Þessir steinar komu upp þegar verið var að grafa grunninn fyrir Skógarkot.
Kannski að það búi í þeim álfar. Hver veit?

|

Til hvers að fara til læknis

... þegar maður á góða vinkonu.
Ég er orðin rosalega leið á að ganga um hnerrandi, hóstandi, sjúgandi upp í nefið og með stíflaðan nebba.
Ég er búin að vera svona í þrjár vikur og lagast ekkert.
Fyrst var ég með pest en svo hélt ég að hún hefði bara tekið sér bólfestu í mér og væri komin með lögheimili hjá mér.
En svo kom Nína loksins heim af landsmótinu og eftir að vera búin að hitta mig tvisvar spurði hún mig hvort þetta gæti ekki verið ofnæmi, þetta væri miklu líkara ofnæmi en kvefi.
Svei mér þá, ég held hún hafi rétt fyrir sér. Ég reyndi að ná í lækni, en þeir eru nú álíka vandfundnir hér á Egilsstöðum og hvítar bláklukkur. Ja, nema einhverjir sem ekki tala íslensku.
Þar sem ég er ráðagóð þá fór ég smá krókaleið og nú bíður mín resept upp á ofnæmislyf í apótekinu.

|

08 júlí 2008

Skógarkot í júlí 2008

Svona lítur nú pallurinn út þegar húsgögnin eru komin á sinn stað.Hér er mynd af grasinu mínu, sem skartar ekki sínu grænasta í dag. Ef grant er skoðað má sjá litlar plöntur í beði, reyniviðarplöntu, tráboli sem bíða þess að verða sagðir í eldinn og steinabeðið mitt fína sem ég get lýst upp þegar fer að dimma.Svo loks ein mynd þar sem horft er upp til húsfreyjunnar í eldhúsinu í Skógarkoti.

|

07 júlí 2008

Ég er búin að fá upp í kok

... af sexköntum og Do it yourself dóti.
Ég var að koma saman stóra garðborðinu sem ég keypti í Rúmfó í fyrra. Leiðbeiningarnar með því voru langt frá því að vera hálfvitaheldar og ég kom sko borðinu ekki saman með því að fara eftir þeim, heldur með því að nota hið kvenlega innsæi.
Það var farið að hvarfla að mér að höggva borðið niður í eldinn í stað þess að berjast við að setja það saman og kaupa bara einfalt plastborð. En það hljóp í mig þrjóska og ég hætti ekki fyrr en borðið var komið saman. Það er ýmislegt hægt að gera á þrjóskunni einni saman.
Ég verð að viðurkenna að ég bölvaði svolítið í huganum þegar ég var að slást við sexkantinn, troða honum í þar til gert gat á skrúfunum og reyna að ná smá snúningi áður en hann rakst utan í einhverja spýtu.
En nú standa öll garðhúsgögin á pallinum og allar runna- og trjáplönturnar eru komnar niður í moldina.
Það er samt langur verkefnalisti eftir og ég hef nóg að dunda við í sumar.

|

06 júlí 2008

Rannveig gerist rafvirki

Ótrúlega er lífið ljúft um þessar mundir.
Ég hef fengið skemmtilega gesti og verið að bardúsa eitt og annað síðustu daga. M.a. var ég í grillveislu í hitanum á Hallormsstað í gær.
Ég er nánast flutt út í garð og ég elska það að gramsa í moldinni og setja niður plöntur. Ég er búin að gróðursetja glansmispil í rúmlega 20 m langt beð á norður lóðamörkunum og í dag ætla ég að setja niður alla stikklingana sem ég hef verið að dunda mér við að gera plöntur úr í vor.
Það voru tengd garðljós út í steinabeiðið mitt en þar sem þau voru sett á sömu grein og pallaljósin, þá reyndist dimmerinn allt of lítill.
Nema hvað, ég bara keypti stærri dimmer, tók gamla dimmerinn úr boxinu og tengdi þann nýja, alveg sjálf og ein.
Ég er búin að monta mig svo mikið af þessu afreki og síðast í gær við Gísla í Sólskógum. Hann sagði að þetta væri bara tákn um eitt, ég væri búin að vera of lengi ein og þ.a.l. orðin alveg sjálfbjarga.
En þetta er ekki eina afrekið mitt. Ég fékk lánaðan litla Krúserinn hans Magga og fínu kerruna hans Fúsa hennar Grétu, fór inn á Velli til að sækja alla glansmisplana í Sólskóga og hrossaskít í Útnyrðingsstaði. Þegar heim kom tókst mér að bakka kerrunni niður með lóðinni og koma öllu hlassinu á sinn stað.
Ótrúlega sem ég er ánægð með sjálfa mig þessa dagana. Mig klæjar í puttana af tilhlökkun að reyna hvort ég hafi smiðshæfileika en ég er með á teikniborðinu hjá mér litla arinviðargeymslu sem ég ætla að reyna að smíða sjálf.
Nína vinkona er fimmtug í dag og hún fær afmæliskveðju frá mér en hún er enn á hestamannamótinu á Hellu þar sem hún hefur haldið til síðustu vikuna.
Sólin skín og ég er farin út í garð. Eigið öll góðan dag.

|

05 júlí 2008

Er gott að búa á Íslandi?


Þegar ég horfi á þessa mynd af þessum litla dreng í fangi móður sinnar þá fer ég að efast um að það sé gott að búa á Íslandi.
Faðir drengsins hefur sennilega aldrei staðið á verðlaunapalli á íþróttaleikvangi, hann flaggar ekki meistaratitlum í skák, hans bíður ekki fangavist í Malaga.
Hans bíður bara dauði og djöfull í Kenýa svo íslensk stjórnvöld sáu ekki ástæðu til annars en að vísa honum úr landi.
Mér finnst það vera Íslandi til háborinnar skammar að hegða sér svona í mannréttindamálum og ég held að ráðamenn ætti aðeins að hugsa sinn gang áður en þeir standa upp á hátíðastundum og dásama það hvað við stöndum okkur vel í málefnum fólks á stríðshrjáðum svæðum jarðar.
Ég vil að þessi litla fjölskylda, Rosmary Atieno, Paul og Fidel Ramses verði boðin velkomin til Íslands og að Fiedel litli fái að alast hér upp með báða foreldra sína hjá sér.
Sækið Paul til Ítalíu, þangað sem hann var fluttur nauðungarflutningum og skilið honum til sonar síns og eiginkonu sinnar áður en hann verður sendur í opinn dauðann í Kenýa.

|

04 júlí 2008

Í útilegu

Ég er að velta fyrir mér hvað ég á að gera ef mig langar í útilegu.
Ef mér tækist að plata Magga eða einhverja vinkonu mína í tjaldferðalag. Sennilega fengjum við hvergi að tjalda miðað við þær reglur sem nú gilda á tjaldstæðum, sbr. þessa frétt.
Ég er 49 ára og vinir mínir á sipuðum aldri, dæturnar farnar að heiman og ég hef engin börn til að hafa með mér sem aðgöngumiða á tjaldstæði.
Ég hugsa að Kolgríma og Klófríður myndu ekki einu sinni duga.
Nei, ég verð víst bara að vera heima í sumar eða fara til útlanda.

|

03 júlí 2008

Hitabylgja

Íslendingar eru svo nægjusamir.
Þeir tala um að hitabylgja sé í vændum þó ekki sé búist við að hitinn fari yfir 20°C.
Ekki skv. veðurspá Veðurstofu Íslands alla vega.

|

Skyldi sumarið vera komið

Nú skín sól á Skógarkot.
Ég vona að veðurspáin rætist því ég er orðin leið á haustveðrinu sem hefur verið síðustu daga.
Í gær kveikti ég upp í kamínunni og það var aldeilis huggulegt. Ég vona að ég geti notað helgina m.a. til að saga meira í eldinn. Þegar við felldum aspirnar á Reynivöllunum fengum við svo mikinn eldivið að hann dugði í nokkur ár. Ég vonast til að fá svo sem eins og árs birgðir út úr haugnum sem ég er að saga niður eftir grisjunina í vor. Svo er ég að gera mér vonir um að mér takist að smíða mér eldiviðargeymslu til að hafa á pallinum. Ég er búin að draga að mér efni og nú er bara að sjá hvort ég hafi smíðahæfileika.
Annars er það helst að frétta úr mínu lífi að ég lemst um með hósta á nóttunni og er orðin meira en lítið leið á þessari þrálátu pest.

|

01 júlí 2008

16 ára

Voðalega flýgur tíminn hratt.
Í dag eru 16 ár frá því að héraðsdómstólarnir tóku til starfa og sýslumenn hættu að vera allt í senn rannsakendur, ákærendur og dómarar í sakamálum.
Reyndar eru lögin um aðskilnað umboðsvalds frá 1989, en það er samt með ólíkindum hvað það tók langan tíma að þrígreina ríkisvaldið á Íslandi.
Reyndar er ríkisvaldið ekki að fullu þrígreint fyrr en löggjafavaldið verður tekið af ráðherrum.

|

Slúðurdálkar dagblaðanna

Mér varð ekki um sel þegar ég kíkti á visir.is.
Hvað haldið þið? Cindy Crowford er af holdi og blóði. Hún ber þess merki að hafa alið börn. Ef þið trúið mér ekki, þá bara skoðið þetta.
Þessar upplýsingar hafa bjargað deginum hjá mér.

|