Sparsöm eyðslukló
Ég gleymi stundum að fara eftir stjörnuspánni minni.
Hún er svona í dag; Sporðdreki: Þú þarft virkilega að slaka á í eyðslunni. Hingað og ekki lengra! Auðvitað þarf góða ástæðu til að hætta brjálæði. Skoðun vinar er góð ástæða.
Æi, ég gleymdi að hugsa um þetta og pantaði mér ógeðslega flott, rautt, eðalfínt leðursófasett í Skógarkot. Þetta var nú ekkert svo dýrt, bara hræódýrt satt að segja. Þið getið séð það í bæklingnum frá Húsgagnahöllinni.
Ég er í sparnaðarskyni búin að minnka garðpallinn niður í 50 m2 svo ég mátti nú alveg fá fína sófa.
Í gær valdi ég gólfflísarnar og flísarnar sem verða við eldhúsvaskinn. Svo er það stéttin við innganginn og innkeyrslan. Ég get ekki að því gert að þó mér þættu óðalssteinarnir flottir þá valdi ég frekar borgarsteina því hinir hefðu alltaf minnt mig á Árna Johnsen. Ég veit að þetta jaðrar við rasisma, ég hef ekkert á móti Vestmanneyingum svona yfir höfuð, mér fellur mjög vel við þessa fáu Vestmanneyinga sem ég þekki persónulega. En óðalssteinar, nei, ég held að það gangi ekki.
Ég er að fara með systrum mínum í Soroptimistaklúbbnum á eftir að þrífa fyrsta húsið sem verður afhent í Bjarkarselinu. Við fáum sko fullt af peningum í líknarsjóðinn okkar með þessu móti. Svo bara hlakka ég til að fara með systrum mínum að þrífa mitt hús fyrir afhendingu.