31 maí 2007

Sparsöm eyðslukló

Ég gleymi stundum að fara eftir stjörnuspánni minni.
Hún er svona í dag; Sporðdreki: Þú þarft virkilega að slaka á í eyðslunni. Hingað og ekki lengra! Auðvitað þarf góða ástæðu til að hætta brjálæði. Skoðun vinar er góð ástæða.
Æi, ég gleymdi að hugsa um þetta og pantaði mér ógeðslega flott, rautt, eðalfínt leðursófasett í Skógarkot. Þetta var nú ekkert svo dýrt, bara hræódýrt satt að segja. Þið getið séð það í bæklingnum frá Húsgagnahöllinni.
Ég er í sparnaðarskyni búin að minnka garðpallinn niður í 50 m2 svo ég mátti nú alveg fá fína sófa.
Í gær valdi ég gólfflísarnar og flísarnar sem verða við eldhúsvaskinn. Svo er það stéttin við innganginn og innkeyrslan. Ég get ekki að því gert að þó mér þættu óðalssteinarnir flottir þá valdi ég frekar borgarsteina því hinir hefðu alltaf minnt mig á Árna Johnsen. Ég veit að þetta jaðrar við rasisma, ég hef ekkert á móti Vestmanneyingum svona yfir höfuð, mér fellur mjög vel við þessa fáu Vestmanneyinga sem ég þekki persónulega. En óðalssteinar, nei, ég held að það gangi ekki.
Ég er að fara með systrum mínum í Soroptimistaklúbbnum á eftir að þrífa fyrsta húsið sem verður afhent í Bjarkarselinu. Við fáum sko fullt af peningum í líknarsjóðinn okkar með þessu móti. Svo bara hlakka ég til að fara með systrum mínum að þrífa mitt hús fyrir afhendingu.

|

29 maí 2007

Hvar eru velsæmismörkin?

Ég get bara ekki orða bundist.
Eru dagskrárgerðarmönnum í þessum sjónvarpsheimi engin takmörk sett? Flokkast þetta undir skemmtiefni eða hvað? http://www.mbl.is/mm/frettir/frett.html?nid=1271892
Hvað verður það næst? Viltu vinna heila? Viltu vinna hjarta?

|

Sólin skín ...

... sæt og fín á Fljótsdalshéraði í dag.
Af því tilefni hjólaði ég í vinnuna, hreystin uppmáluð eftir að vera loksins góð eftir þennan svarta dauða eða spönsku veiki sem hrjáði mig í síðustu viku. Ég hef bara ekki orðið svona hundlasin síðan á síðustu öld.
En nú er komin betri tíð með blóm í haga.
Fór í gönguferð í skóginum um helgina og þegar ég kom niður í framtíðarhverfið mitt þá hitti ég væntanlegan granna minn Hákon Aðalsteinsson. Við Konni erum sammála um að Bjarkarselið sé besta gatan í Selskógi. Hann sýndi mér slotið sitt. Eldhúsinnrétting frá Tyrklandi - gleymdi að spyrja hann hvort Halim Al hefði útvegað honum hana.
Bæjaryfirvöld keppast við að gera hverfið mitt fínt áður en ég flyt þangað, þökuleggja og snyrta.

|

27 maí 2007

Sagan af Rómeó og Júlíu

Kötturinn Garpur stendur stundum framan við húsið
þar sem við Kolgríma höldum til þessa dagana. En hann fær ekki að koma inn.
Ég fæ sting í hjartað að horfa á þessa elsku þar sem hann mænir með sínum fallegu augum inn um gluggann og skilur ekkert í því að ég skuli ekki bjóða honum í bæinn.
Í dag sat hann við garðdyrnar og Kolgríma lá í stofuglugganum. Þau horfðu hvort á annað og ég fékk næstum tár í augun að sjá til þeirra, ég hélt að þau væru svona leið yfir að fá ekki að hittast.
Ég lét Kolgrímu út á stigapallinn en hún gerði sér lítið fyrir og lamdi Garp í hausinn og dreif sig svo inn aftur þegar Garpur skrunaði niður í garðinn.
Ástin er óskiljanleg á köflum.

|

26 maí 2007

Sextíu og sex ...

... tíminn skríður áfram og nú eru 66 dagar eftir á vergangi.
Ég fékk þá óþægilegu tilfinningu núna í vikunni að ég væri að gera akkúrat ekki neitt. Allir eru að gera eitthvað. Á kafi í félagsmálum, á kafi í pólitík, á kafi í vinnunni.
Ég er bara á kafi í draumalandi, skoða húsgögn á netinu, spái í liti og hvernig á að hengja upp myndir. Sinni varla vinnunni, tek varla nokkurn þátt í samfélaginu og blanda varla geði við nokkurn annan en Kolgrímu.
Jæja, þetta er bara ár framtíðardrauma. Kannski að félagslífið komi við sögu á næsta ári.

|

24 maí 2007

Lítil maístjarna

Hún var rétt í þessu að skjótast í heiminn.
Frumburður Önnu Maríu og Benna. 10. afkomandi Þórhalls bróður og Guðlaugar, 40. afkomandi pabba og mömmu.
Hún var búin að láta bíða svolítið eftir sér, átti að koma fyrir viku síðan, en allt hefur sinn tíma.
Ég bið Guð og gæfuna að fylgja Önnu Maríu og fjölskyldu.
Nú er ég orðin afasystir 16 barna og það 17. er á leiðinni þegar líður á sumarið.

|

23 maí 2007

Ráðskonustörf

Lífið hjá okkur Guðnýju Rós gengur ágætlega.
Við erum mest tvær einar hér á Faxatröðinni með kisurnar okkar. Kolgríma er orðin sátt við að búa hér og það hefur verið ákveðið að þó ég haldi áfram vergangi mínum í sumar muni Kolgríma búa hér þar til ég verð búin að koma okkur fyrir í Skógarkoti. Það er ekki hægt að leggja á hana allt þetta rót.
En ég er sem sagt ráðskona hér á bæ meðan húsmóðirin er til lækninga í höfuðborginni. Ég var eitthvað hvumpin við unglinginn í morgun þegar hún eymdin uppmáluð tilkynnti mér að hún treysti sér ekki í skólann, henni væri svo kalt og illt. Nú, ég sagði henni að úr því að hún færi ekki í skólann þá myndi hún nota daginn til að taka til í herberginu sínu og læra. Mér leiðist aumingjauppeldi.
Sjálf var ég hreystin uppmáluð og hjólaði í vinnuna, enda í heilsuátaki. Eitthvað fór nú heilsunni að hraka þegar leið á morgun og í hádeginu var ég keyrð heim af því að mér var svo kalt og mér var svo illt.
Sjálf hef ég notað daginn til að skjálfa undir teppi í svellþykkum sokkum en unglingurinn hefur haft sína hentisemi.

|

21 maí 2007

Heilsuátak

Við Nína ákváðum í síðustu viku að hefja heilsuátak saman.
Okkur gekk svo rosalega vel í átakinu sem við vorum í fyrir nokkrum misserum og ætlum að reyna að ná sama árangri aftur.
En hvað skeður, íþróttahúsinu bara lokað daginn sem heilsuátakið átti að byrja. En við sáum nú við þessum bellibrögðum hjá honum Steina og fengum okkur góðan göngutúr í skóginum. Auðvitað liggur einn stígurinn niður í hverfið mitt og skv. skipulaginu á að koma einn stígur úr endanum á Bjarkarselinu beint út í skóg.
En svo til að trufla fína heilsuátakið er Nína rosalega upptekin í bæjarstjórninni og það er ekki nóg, það verður að gera hlé á nýbyrjuðu heilsuátaki af því að Nína er að fara suður til að mynda nýja ríkisstjórn.
Hvers á heilsa mín að gjalda?

|

Eggjahljóð

Hreiðurgerð á Þingvöllum virðist miða vel áfram.
Þau eru búraleg skötuhjúin þegar þau koma fram í lágreistar dyrnar og brosa framan í alþjóð, segja nokkur orð og snúa svo aftur inn til að huga að eggjunum.
Þetta er alveg ný mynd af maddömunni sem maður fær þessa dagana, af hverju er hún ekki í peysufötum úr því að hún er komin í hreiðurgerð austur fyrir Ártúnsbrekkuna? Ég hélt að hún myndi ekki slíta sig frá Tjörninni.
En Geir þarf alla vega ekkert að vera hræddur um að þessi stúlka fari að eiga við vin hans Jón.

|

20 maí 2007

Dansiball

Brá mér í Valaskjálf í gær.
Þar hefur ekki verið haldið ball í háa herrans tíð svo það voru stórtíðindi að boðað var til dansleikjahalds. Sjálfur Magni Supernova ásamt hljómsveit sinni sá um fjörið.
Ég var satt að segja ekki í neinu stuði til að fara, en þar sem Toyota bauð þeim sem reynsluóku bíl hjá þeim í gær, á ballið og Nína vinkona hafði fyrir því að reynsluaka fyrir tvo aðgöngumiða, þá var víst ekki um annað að gera en hafa sig af stað.
Ég varð að byrja á að hreinsa hárlubbann af fótleggjunum, hef ekki mikið verið að spá í hárvöxtinn undanfarið og ekki hreinsað leggina síðan ég var á Tenerife. Það mátti því varla á milli sjá hvort ég eða Kolgríma vorum með loðnari sköflunga.
Ég var ekki í góðri æfingu svo ég hreinsaði smá skinn með og þar fór ásetningurinn um að vera í pilsi. Plástraðir leggir eru ekkert flottir, svo það voru bara síðbuxur.
Það var pakkfullt út úr dyrum og þegar ég vildi komast heim þá var ekki vinnandi vegur að hleypa mér út um aðaldyrnar því það hékk fullt af fólki á hurðarhúninum. Ég var því leidd inn í eldhús og hleypt út bakdyramegin.
Í dag skín sól og ég er farin í gönguferð í skóginum.
Góðar stundir.

|

18 maí 2007

Tapaðar áttir

Ég er lítið betri en Kolgríma.
Ég var mjög niðursokkin í eigin hugsanir á leiðinni heim. Komst til meðvitundar þegar ég var komin langt inn í gömlu götuna mína. Kannski að nýir húsráðendur á Reynivöllunum þurfi ekki bara að sætta sig við Kolgrímu mænandi inn um stofugluggann heldur líka við mig á hurðahúninum.
Ég verð nú að viðurkenna að eins og ég er nú mikil bjartsýnismanneskja og get fyrirgefið veðurguðunum eitt og annað að þá finnst mér þetta skítaslagveður hér á Héraði núna eiga betur heima í október en í maí.

|

17 maí 2007

Kolgríma ...

... skilaði sér ekki heim af sjálfdáðum.
Nýju húsráðendurnir á Reynivöllunum hringdu og létu mig vita af henni þar sem hún stóð í garðinum og mændi inn um stofugluggann þar sem allt er á fullu í málningarvinnu.
Ég varð að sækja hana, en það yljaði mér um hjartarætur að hún var mjög kát að sjá mig.
Ég er alltaf jafn þreytt, þessi þreyta er sest að í mínum gamla skrokki.
Reyndar fann ég það út að það er ekki rétta leiðin að vera alltaf að mæðast og nota hverja stund til að leggjast fyrir og loka augunum. Ég skrapp út í dag og ég hresstist ótrúlega við það.
Af hverju eru skynsamlegu leiðirnar alltaf þær sem skila mestum árangri en ekki þessar sem eru léttastar og maður þarf að hafa minnst fyrir?
Það er víst ekki um annað að gera en bretta upp ermarnar og hætta þessu væli. Við Nína vinkona ætlum að hefja nýtt heisluátak í þrekasalnum eftir helgina.

|

Aumingja Kolgríma

Þessi vergangur fer alveg með Kolgrímu.
Ég hélt í gær að hún væri loksins að átta sig á því að við erum á vergangi en búum ekki lengur á Reynivöllunum.
Á kosningakvöldinu sótti ég hana holdvota og skælandi niður á Reynvelli og hún fékk held ég bara hálsbólgu og kvef eftir það volk. Eftir það hefur hún haldið sig hér í Faxatröðinni þar til í morgun að hún lagði land undir fót og þegar mig fór að lengja eftir henni fór ég á Reynivellina og hitti nýja húsráðandann. Þar var allt á fullu í málningarvinnu og framkvæmdum.
Kolgríma hafði verið á vappi í garðinum kl. 11 í morgun en var farin þegar ég kom núna eftir hádegi.
Grey kisa, ég vona að hún eigi eftir að fyrirgefa mér þetta flandur og að hún fari að skila sér. Hún fékk sér ekki einu sinni morgunmat áður en hún fór að heiman.

|

14 maí 2007

Fallegur dagur á Héraði

Það er afskaplega fallegt á Fljótsdalshéraði í dag.
Fljótið er spegilslétt, kosningasnjórinn er farinn og við blasa grænar grundir. Lerkið er sprungið út og birkið er farið að bruma.
Ég sá uppáhaldsfuglinn minn í morgun, litla sæta maríuerlu. Fyrsta maríuerlan sem ég sé í vor. Ég hef ekki séð neinn spóa og einhvern tíma heyrði ég að maður gæti ekki verið öruggur með að veturinn væri farinn fyrr en spóinn væri kominn. Reyndar sá ég einn spóa á Tenerife í mars, en hann telst ekki með.
Í dag fer ég á Hornafjörð og ég vona að það verði stillt og fallegt veður á leiðinni því það er svo fallegt í Berufirði og Álftafirði þegar sjórinn er spegilsléttur.
Núna eigum við Kolgríma lögheimili í Skógarkoti.

|

13 maí 2007

Mæðradagur

Þá er kosningum lokið og kominn mæðradagur.
Ekki hef ég nú heyrt í dætrum mínum í tilefni dagsins, ég geri ráð fyrir að þær séu ekki komnar á fætur eftir vöku í nótt.
Þegar ég var krakki í Kópavoginum fór maður til Þórðar á Sæbóli og keypti blóm á sérstöku mæðradagstilboði til að færa mömmu.
Ég nenni ekki að spá í þessar kosningar hér, þið kíkið bara á mbl.is. En það var gaman að vera í kjörstjórn og ég er núna ýmsu nær um hverjir búa í sama sveitarfélagi og ég. Mér fannst eiginlega merkilegasta upplifunin að sjá fólk sem í mínum huga eru enn börn, vera komið með hrukkur og önnur einkenni þess að aldurinn er að færast yfir. Krakkar sem voru skólasystkini dætra minna mæta á kjörstað með hálfstálpaða krakka í eftirdragi.
Ég er að spá í að hafa enga spegla í Skógarkoti - ég ætla bara að halda áfram að vera 25 ára og vera ekkert að horfast í augu við þá staðreynd að skv. skilríkjum er ég miðaldra kona.

|

11 maí 2007

Margfalt húrra!!!

Ég afhenti húsið í kvöld.
Ég er eins og undin tuska en ótrúlega líður mér vel.
Þær voru með mér nokkrar systur mínar úr Soroptimistaklúbbnum og engillinn hún Gréta Aðalsteins. Tuskurnar og moppurnar gengur ótt og títt, kassarnir flugu út úr húsinu ásamt rusli og óhreinindum.
Ég ætla að fara í bað og liggja þar þar til ég leysist upp.
Annars þarf ég víst að mæta á kjörstað kl. 8 í fyrramálið og verð þar með tveimur góðum hléum fram til kl. 22.00 annað kvöld. Ekki að ég verði svona lengi að kjósa heldur er ég í kjörstjórn.
Á fundi kjörstjórnar í gær minntist einhver á það hvort við fengjum ekki kaffi meðan á þessu stæði. Ég upplýsti það að þegar ég var í kjörstjórn í Vallahreppi hinum forna, þá var standandi hlaðborð fyrir okkur allan daginn upp á Hallormsstað og skólastýra hússtjórnarskólans kom reglulega og bætti kræsingum á borðið. Þetta þótti kjörstjórninni hér að vonum til mikillar fyrirmyndar.
Mér finnst það nú skítt ef maður þarf að hafa með sér samloku og kaffi á brúsa.

|

10 maí 2007

Ég trúi á engla

Ég hitti einn á msn í morgun.
Ég hef haft það á tilfinningu síðustu dagana að ég væri búin á batteríinu. Svo í morgun þá sendi Gréta Aðalsteins mér skilaboð á msn um að hún myndi koma eftir vinnu og hjápa mér að klára að moka út áður en hreingerningaflokkurinn mætti á staðinn.
Þó Gréta hefði ekki gert neitt annað en að koma og halda mér selskap þá hefði það gert gagn, en hún lét ekki þar við sitja, hún henti draslinu hægri, vinstri í ruslið svo nú er þetta alveg að verða búið. Það fór reyndar eitthvað í kassa og út í gám.
Þetta er alveg rétt að hafast og gámurinn fer upp í Skógarkot á morgun.

|

09 maí 2007

Í upphafi skyldi endinn skoða ...

... en alls ekki spá í það sem er þarna á milli.
Þá myndi maður aldrei gera neitt.
Ég er gersamlega búin að fá upp í kok. Ég er þreytt, þreytt, þreytt.
Þessar innansleikjur eru mun efnismeiri og seinafgreiddari en ég hafði reiknað með. Ég var að vonast til að ég myndi klára í kvöld, en nei, ó nei, minnst 6 tíma verk eftir. Mér er skapi næst að sækja skóflu og moka þessu dóti upp á Sorpu, en þar sem þetta er nú aðallega eldhúsdótið sem eftir er, þá er víst gáfulegra að taka það með í Skógarkot.
Ég var búin að panta flutning á gáminum á morgun en ég verð að fá honum frestað til föstudagsins. Ég vonast samt til að geta afhent húsið á laugardaginn þó samningurinn segi á þriðjudaginn. Þá er ég bara laus allra mála.
Það er sko á hreinu að ég ætla ALDREI aftur að flytja og næst þegar búslóðinni minni verður pakkað niður verður það þegar dætur mínar pakka mér saman og senda mig á elliheimili.
Eða kannski öllu heldur þegar örverpið sendir mig á elliheimli, frumburðurinn vill meina að 18 ár sé ekki svo mikill aldursmunur og að við verðum saman á elliheimilinu.
En ég fer í það í næstu viku að einbeita mér að því að hlakka til sumarsins og að Skógarkot verði tilbúið.

|

08 maí 2007

Júróvisjón

Það styttist í Júróvisjón.
Ég sá það á netinu að Finnar væru heillaðir af framlagi Íslands og Eiríkur nyti mikill vinsælda í Helsinki.
Gott að okkar maður gerir það gott, en einhvern veginn hef ég ekki neitt rosalega trú á að það sé mælistika á hvernig öðrum þjóðum hugnast íslenska lagið.
Kom á síðustu stundu upp í Skógarkot í dag til að forða rafvirkjanum frá því að draga bandvitlaust í. Hann var með gamla og úrelta teikningu að draumahúsinu og var ekki búinn að sjá margra síðna doðrantinn minn um breytingar og séróskir.
En þetta gekk nú allt vel og ég hef nú á tilfinningunni að með þessu áframhaldi verði húsið tilbúið fyrir Jónsmessu.
Skrýtið að koma inn og það er búið að setja upp milliveggi, þetta er allt að taka á sig mynd.

|

06 maí 2007

Fluttar

Þá erum við Kolgríma fluttar.
Núna búum við hjá Þórhalli og fjölskyldu á Faxatröðinni.
Kisa er hálf rugluð yfir þessu tilstandi, hún er ekki vön að fara í önnur hús.
Það kom vaskur flokkur og snaraði öllu innbúi mínu út í gám. Veðurguðirnir hlífðu okkur við snjókomunni eða öllu heldur kannski slyddunni rétt á meðan, en nú er leiðinda votviðri.
Það er ekki eins og allt sé búið, innansleikjurnar eru eftir og um næstu helgi kemur hreingerningaflokkurinn.
Þetta leggst allt vel í mig og ég veit að þetta sumar verður flogið framhjá áður en ég veit af. Svolítið skrýtið að hlakka til að sumarið taki enda, venjulega vill maður að það líði nú hægt og rólega svo maður nái að njóta þess.

|

Hefst nú vergangan

Þá er fyrsti dagur á vergangi hafinn.
Búin að pakka rúmfötunum og bíð eftir burðarliðinu sem kemur upp úr hádegi.
Ég var að velta fyrir mér þessu orði, vergangur. Við Kolgríma erum ekki að fara að ganga í verið, við ætlum að halda okkur hér í 40 - 60 km fjarlægð frá sjónum. En við fetum í spor Sölva Helgasonar og látum fótinn fæða okkur í sumar.
Það er að ýmsu að hyggja sem Sölvi þurfti ekki að gera þegar hann fór á flæking. Það þarf að lesa af rafmagninu, hitanum, gera ráðstafanir út af þráðlausu nettengingunni og örugglega eitthvað fleira sem ég man ekki eftir í augnablikinu.
Jú, flytja lögheimilið sem breytist úr Reynivöllum 14 í Skógarkot. Þau á bæjarskrifstofunni vilja kannski hafa það eitthvað obbolítið öðruvísi. Götunafn og húsanúmer, en ég vil hafa það Skógarkot og húsið verður merkt með fínu Skógarkotsskilti sem ég er búin að láta útbúa.

|

05 maí 2007

Síðasta nóttin

Þá er komið að því.
Í nótt er síðasta nóttin okkar Kolgrímu hér á Reynivöllunum áður en við förum á verganginn.
Ég afhendi húsið að vísu ekki fyrr en eftir 10 daga, en það þarf að fara með öll húsgögnin á morgun og þar með talið rúmið mitt.
Um næstu helgi koma systur mínar í Soroptimstaklúbbi Austurlands og gera allt hreint og fínt fyrir afhendingu.
Þetta verða ekki eins þægilegir flutningar og flutningarnir í sögunni um Lötu stelpuna, sem nágrannarnir kölluðu lötu og leiðinlegu Grétu. Þar fóru húsmunirnir sjálfir í burtu meðan Gréta svaf.
Ég verð sjálf að sjá til þess að þeir fari út úr húsinu og á morgun koma nokkrir hjálpsamir vinir og vandamenn og bera eigur mínar út í gám, þ.e.a.s. það sem ég er ekki þegar búin að bera út.
Skrýtið að hugsa til þess að fyrir hátt í 5 árum þegar við fluttum hingað þrjú inn í þetta hús, við Anna Berglind og Finnur, þá var það mjög fjarri mér að ég myndi flytja ein úr húsinu eftir svona stuttan tíma.
En svona er lífið, eins og konfektkassi og þú veist aldrei hvaða mola þú færð.

|

04 maí 2007

Ég er snobbuð

Ógeðslega erfitt að sætta sig við það.
Ég fór í búðir í dag og var að skoða borðstofumubblur. Sá ekkert i IKEA sem mig langaði í. Kíkti í Eggið og þar var flott borð en ekki úr rétta viðnum.
Ég var búin að heyra að í Rúmfatalagernum væri fínt borð og úr því að ég var í Smáranum munaði svo sem engu að kíkja.
Þar var flottasta borðið sem ég sá í dag. Eiginlega fúlt að viðurkenna það, en ég efast um að ég sjái fínna borð.
En ég bara fíla einhvern veginn ekki ef einhver spyr mig hvar ég hafi keypt borðstofuborðið að segja; Í Rúmfatalagernum.
Ég bara verð að viðurkenna að ég ætla að kíkja í fleiri húsgagnaverslanir.
Ef ykkur finnst fínt borðstofuborðið sem ég kaupi í Skógarkot og ég verð eitthvað vandræðaleg ef þið spyrjið hvar ég keypti það; Hummmm, já, þið fóruð bara til berja í haust eða þannig, þá er bannað að spyrja aftur.

|

Kortalaus í borginni

Mér líður hálf undarlega hér í Reykjavík.
Ég á mjög erfitt með að lenda í því að vera á síðustu stundu, það fer ferlega með mig.
Í gær þegar ég kom heim úr vinnunni kl. tuttugu mínútur fyrir fimm, þá mundi ég eftir því að ég átti eftir að pakka niður fyrir borgarferðina og átti að vera mætt út á flugvöll eftir 20 mínútur.
Ég dreif einhverjar tuskur sem ég taldi vera föt, ofan í tösku og brunaði út á völl.
Þegar ég var að tékka mig inn uppgötvaði ég að ég var ekki með peningaveskið og þar sem var heilt korter í brottför taldi ég mig hafa tíma til að skjótast heim og sækja budduna, sem ég og geri.
Fann hana auðvitað ekki svo ég snarast til baka og þegar ég kem aftur út á völl stendur starfsmaður út á bílaplani og kallar; Fljót, fljót, hlauptu, vélin bíður eftir þér. Svo ég hljóp í gegnum flugstöðina, út á völl og upp í vél. Ég heppin, í sæti nr. 13 og þurfti að labba fram hjá öllum farþegunum.
Ekki tók betra við þegar ég var lent í Reykjavík og ætla að kveikja á símanum. Hann var bara dauður og ég bölva því í sand og ösku að hafa skipt úr Nokía síma yfir í Sony Eriksson því ég hafði gleymt hleðslutækinu heima og dætur mínar eiga báðar Nokía. En Selma bjargaði mér.
Svo til að kóróna þessar hrakfarir, þá kom það í ljós þegar ég fór í háttinn og fór að kíkja í ferðatöskuna að ég hafði hent ofan í hana þvottastafla sem ég hafði verið að brjóta saman af snúrunni heima en náttfötin mín voru hvergi sjáanleg.
Jæja, ég vona að ég finni sjálfa mig aftur þegar ég verð búin að standa í þessu pakkelsi, en það eru 11 dagar fram að afhendingu.

|

01 maí 2007

1. maí

Bestu kveðjur til verkamanna í dag.
Gámurinn er kominn svo það er ekki til setunnar boðið hér hjá mér. Það vildi ég að allir sterkir vinir mínir ættu erindi við mig í dag, því mig vantar nokkrar hraustar manneskjur.
Ég verð að vera dugleg að hlaða gáminn og koma honum í burtu því hann stendur leiðinlega í götunni og ég veit að nágrannar mínir á móti eru ekki kátir.
Ef þeir fara að kvarta þá vísa ég bara á hann Bigga við hliðina. Ægir á Samskipum kom og setti gáminn við lóðina hjá mér í gær, hann gat ekki sett hann niður alveg eins og ég vildi af því að það er svo þröngt í götunni og Ægir var á stórum gámaflutningabíl. Svo Biggi snaraðist og sótti lyftara og snéri gáminum þannig að það er mjög þægilegt fyrir mig að hlaða hann en Dagný á móti verður að bakka nýju Toyotunni sinn gætilega svo hún bakki ekki á gáminn.
Þegar Þórunn Gréta fékk píanóið sitt þurfti að safna fílelfdum mönnum til að koma því heim í hús. Fyrsta sem Anna Guðný hugsaði var ; Já, ég fæ Rannveigu systur og svo einhverja sterka karla, en hverjir eru þeir???
En að öðru, ég opnaði út til að hleypa inn fersku lofti, en hvað fæ ég? Eau de Egilsstaðir; fnykurinn af Egilsstaðatúnunum. Þetta er búið að standa yfir alla þessa góðviðrisdaga, mikið rosalega hafa Egilsstaðakýrnar skitið mikið í vetur. Ég fer nú að setja spurningarmerki við þessa lífrænu ræktun, þetta er ekki nein smá loftmengin. Fuglarnir eru vankaðir og syngja falskt.

|