31 ágúst 2008

Fyrsti skóladagurinn

Á morgun byrjar örverpið mitt í Háskóla Íslands.
Mér líður svolítið eins og þegar hún var að hefja skólagönguna 6 ára gömul. Ég er svo stolt af henni og ég er svo ánægð með að hún skuli vera að byrja aftur í skóla eftir nokkurra ára hlé.
Eitt af því sem kom upp í hendur mínar þegar ég var að fara í gegnum allar myndirnar mínar, var mynd af Önnu Berglind þegar hún var að fara fyrstu ferðina í skólabílnum, frá Strönd og upp í Hallormsstað.
Guð, það er svo stutt síðan örverpið mitt byrjaði í Hallormsstaðaskóla.
Já og í dag er akkúrat ár síðan ég flutti í Skógarkot.

|

29 ágúst 2008

Liðin tíð

Undanfarin kvöld hef ég verið að skoða gamlar myndir.
Ég hef farið í gegnum marga kassa og mörg albúm með myndum frá því ég var lítil, frá því ég var unglingur, frá því ég var ung móðir, tveggja barna móðir, myndir af fjölskyldunni í leik og starfi.
Hvað væri ég ekki til í að gefa fyrir að fá að faðma dætur mínar aðeins meira. Fá að hverfa augnablik 20 ár aftur í tímann og knúsa þær smávegis.
En ég verð bara að fá að halda áfram að knúsa þær þó þær séu orðnar fullorðnar.
Ekki veit ég hvað ég hef verið að taka myndir af fjöllum og fossum. Ég hefði átt að taka meira af myndum af samferðafólkinu, það eru skemmtilegustu myndirnar.
Svo er eitt sem ég hef verið mjög upptekin af. Alla mína ævi hef ég upplifað mig sem feitustu konuna í hópnum, ekki nógu flott og ekki nógu fín. Svo þegar ég skoða þessar gömlu myndir sé ég að ég hef bara verið falleg og fín í vextinum. Fallegt barn, hraustlegur unglingur og bara myndarleg kona.
Af hverju gat ég ekki fattað þetta fyrr? Af hverju fatta ég þetta ekki fyrr en ég er raunverulega vel bólstruð kona? En ég ætla að láta þetta mér að kenningu verða. Nú bara horfi ég í spegilinn og minni mig á að í dag er ég flott, ég ætla ekki að uppgötva það eftir 20 ár að árið 2008 leit ég bara ágætlega út.
Hvað er þetta með okkur konur?
Ég legg til að allar konur líti í spegil í dag og segi: Ég er falleg, hraust og heilbrigð kona. Ég er sátt við sjálfa mig og ber höfuðið hátt.

|

28 ágúst 2008

Biskupinn okkar

Þá er hann látinn blessaður biskupinn okkar.
Í mínum huga hefur Sigurbjörn Einarsson alltaf verið hinn eini sanni biskup á Íslandi. Hann bar með sér vísdóm og gæsku. Magnea biskupsfrú á fínu peysufötunum sínum var hin sanna ímynd prestmaddömmunar í mínum huga. Þetta voru svo falleg hjón.
Þegar ég var krakki á Borgarfirði eystra vísiteraði Sigurbjörn og messaði í Bakkagerðiskirkju. Auðvitað mætti ég í messuna, prúðbúin og fín. Ég var örugglega í bláum kjól sem mamma heklaði á mig.
Að athöfn lokinni stóðu þau hjónin í kirkjudyrunum. Veðrið var fallegt, sólin skein og Sigurbjörn tók í hönd allra kirkjugesta, þar með talið í hönd mína.
Ég gleymi þessu handataki aldrei. Ég hef aldrei tekið í hönd merkari manns.

|

27 ágúst 2008

Hvar er Dorrit?

Ég bara spyr.
Af hverju var Dorrit ekki með stórustu strákunum í dag?

|

Þjóðarstolt

Ég finn þjóðarstoltið fara um æðar mínar.
Frábært að sjá silfurstrákana okkar í sjónvarpinu, hvað þeim er vel fagnað, enda hafa þeir sannarlega unnið til þessarar móttöku.
Mín litla íþróttasál samgleðst þessum köppum og er stolt af þeim. Ég hef hreiðrað um mig í stofusófanum með nýja IKEA-listann og horfi á sjónvarpið með öðru en IKEA-dót með hinu. Það er bara seytjánda-júní stemning í höfuðstaðnum.
Ég var svo útkeyrð eftir annan dag í vinnu eftir sumarfrí að ég skreiddist beint í bólið þegar heim kom í dag og steinsofnaði.
Maggi er ekki svona slappur eins og ég. Í gær festi hann upp sóltjaldið á pallinn og hann hafði aldeilis tekið til hendinn í kúlugrjótmokstri í garðinum mínum meðan ég var að leka niður í vinnunni.
Áfram Ísland, flottir silfurstrákar sem við eigum.

|

25 ágúst 2008

Í dag ...

heimsótti ég mömmu.
Fór með rusl í Sorpu.
Þreif ég ísskápinn.
Fór í þennan líka frábæra sveppamó með Nínu vinkonu.
Þvoði og gekk frá þvotti.
Tók smávegis til á heimilinu.
Pallaolían heldur áfram að sitja á hakanum og bókakassarnir hvíla óáreittir í bílskúrnum.
En það koma fleiri dagar.

|

Í dag langar mig ...

að hitta Nínu vinkonu.
Að fara í sveppamó.
Að heimsækja mömmu.
Að taka til á heimilinu.
Að mála handriðið á pallinum.
Að fara með drasl í Sorpu.
Að gramsa í bókakössunum.
Að þvo og ganga frá þvotti.
Að þrífa ísskápinn.
Að komast að niðurstöðu með hvað ég á að taka mér fyrir hendur í dag.

|

24 ágúst 2008

Andlegt niðurbrot

Við Inga fórum á flandur saman í dag.
Ég upplifði nokkuð sem ég hef aldrei áður upplifað, þrátt fyrir að hafa dvalið mikið upp við Elliðavatn. Við fórum í ökuferð hringinn um vatnið. Þegar við komum í grennd við Elliðavatnsbæinn sá ég aftan á umferðamerki og þegar ég leit til baka sá ég að það var bannað að aka bifreiðum á þessum vegslóða sem við höfðum ekið eftir. Ég á því tæplega eftir að fara annan bíltúr hringinn um Elliðavatn.
Við ákváðum að heimsækja Siggu sem hafi tekið Menningarnótt með trompi. Fyrst fórum við í bakaríi til að kaupa smávegis meðlag með okkur á kaffiborðið.
Ég pantaði þrjár tertusneiðar, afgreiðslustúlkan horfði á mig og sagði: "Ætlar þú að borða þær hér eða viltu taka þær með þér?" Halló, þó ég sé svolítið bólstruð þá sit ég ekki á kaffihúsi og gúffa í mig þremur tertusneiðum.
Ég fékk smá uppreisn æru í flugvélinni á leiðinni heim þegar ég var spurð hvort ég hefði verið í Reykjavík til að taka þátt í maraþoninu. Sem er reyndar lítið raunhæfari spurning.
En það var gott að koma heim eftir vel lukkaða suðurferð. Maggi var búinn að elda gæs og það er ljúft að vera komin aftur austur á Hérað.

|

Til hamingju Ísland

Strákarnir stóðu sig aldeilis vel.
Þetta var ekkert 14-1 tap gegn Frökkum og silfrið er rosa flott.
Í gærkvöldi var ég upp við Elliðavatn að fagna fimmtugsafmæli Önnu Stellu. Við mættum allar Kópavogsskvísurnar og það var tekin flott mynd af hópnum.
Veislan var glæsileg eins og við var að búast hjá afmælisbarninu sem er með myndarlegustu húsmæðrum landsins. Borð svignuðu og mjöðurinn rann.
Emilíana kom til landsins til að mæta í afmæli mömmu sinnar og hún söng eitt lag með hinni lítt þekktu hljómsveit Ólafíu, sem er band sem á uppruna sinn á bæjarskrifstofu Kópavogs. Bæjarlögmaðurinn þandi húðirnar og fulltrúi hans sá um sönginn. Það var slegið upp dansiballi í bílskúrnum, við urðum allar 15 ára aftur. Hreyfingarnar kannski ekki eins snaggaralegar í dansinum og í denn, svolítið svona penni, en dúndurfjör.
Takk fyrir mig Anna Stella og enn og aftur, til hamingju Ísland. Þá er Vilhjálmur Einars loksins búinn að fá sjá einhverja Íslendinga feta í fótspor sín, 52 árum eftir að hann tók við silfrinu í Melbourne.

|

22 ágúst 2008

Sumarfrí á enda runnið

Þá er síðasti sumarleyfisdagurinn runninn upp.
Reyndar fæ ég mánudaginn líka af því að ég var kölluð til vinnu sl. þriðjudag.
Fannar og Magnús Atli mættu í bröns til okkar Önnu Berglindar, Nonna og Magga. Það var afskaplega ljúft.
Núna eru Maggi og Nonni á fullri vinnu hjá mér. Búnir að setja upp tvær langar spýtur á bílskúrsveggina. Ég var búin að festa helling af krókum á spýturnar svo nú get ég hengt upp allt sem mig langar án þess að þurfa að grenja út borun í þessa þykku steinveggi.
Núna eru þeir kappar úti í garði að steypa niður snúrustaurinn minn.
Í mínum augum eru þeir ekki minni hetjur en handboltalandsliðið. Það er alveg frábært hvað þessir handboltastrákar standa sig vel. Ég hef ekkert verið að horfa á leikina, ég veit að ég myndi yfirspennast. Sama ástæða liggur að baki því að ég vil ekki læra suduko, ég veit að ég yrði alveg húkt á því.
En, til hamingju Ísland! Þó við fáum ekki gullið þá er þetta alveg stórkostlegur árangur. Svo þykir mér líka silfur fallegra en gull.

|

20 ágúst 2008

Heima í fríinu

Þá er sumarfríið alveg að verða búið.
Ég var búin að ráðgera að vera sem allra mest heima í Skógarkoti í sumarfríinu en ég hef haft svo mikið að gera við að skemmta mér að ég hef eiginlega ekkert mátt vera að því að vera heima.
Ég hef verið marga daga á fjöllum með Magga. Fór hringinn um landið með Nínu. Á morgun förum við Maggi til Akureyrar. Á laugardaginn fer ég suður í Kópavog og fagna fimmtugsafmæli minnar gömlu góðu vinkonu Önnu Stellu Snorradóttur.
Nú og svo er það bara vinnan eftir helgi. Ég gæti vel hugsað mér eina viku í viðbót til að koma einhverju í verk hér á heimilinu - en þetta hefur verið yndislegt frí.
Núna er ég að sjóða stóran pott, fullan af saltkjöti og baunum. Það verður margmennt hjá mér við matarborðið í kvöld. Maggi kemur af fjöllum, Anna Berglind og Nonni koma aftur austur, Fannar og Lilja koma með Magnús Atla og svo ætlar Anna systir að borða með okkur.
Það verður kátt í kotinu í kvöld.
En svona þar fyrir utan, þó ég hafi lítinn áhuga boltaíþróttum, þá er gaman hvað handboltalandsliðinu gengur vel á Olympiuleikunum.

|

17 ágúst 2008

Heilabrot

Ég er að brjóta heilann um eitt og annað.
M.a. þá skil ég ekki af hverju menn eru að fara til fjalla, reykja þar og henda frá sér stubbunum út í guðsgræna náttúruna. Geta menn nú ekki haft þessa stubba með sér heim aftur í farteskinu?
Bæði í Hvannalindum og við Geldingafell var ég að tína upp sígarettustubba, suma greinilega eldgamla. Þó þetta séu litlir hlutir þá er þetta rusl í náttúrunni þannig að ég vil beina því til fólks að skilja ekki eftir sig sígarettustubba á víðavangi.
Svo eru það smábörn á útihátíðum sem valda mér heilabrotum. Ég er reyndar svo gamaldags að mér finnst lítil börn eiga að fá að vera í kyrrð og ró heima hjá sér fyrstu vikur ævinnar. Ég er alla vega alin upp við að það á ekki að hafa hávaða þar sem smábörn eru.
Um daginn þegar ég var á Gay pride þá voru þar mjög ung börn með þunnar húfur og engar eyrnahlífar í þessum líka hræðilega hávaða. Þetta var reyndar bara gleði og gaman fyrir mig og aðra fullorðna, en ég er að velta því fyrir mér hvernig smábörn skynji þessi læti. Hvernig skyldu þessi litlu kríli upplifa allt sem fyrir þeirra litlu augu og eyru ber?
Það ættu að vera til litlar eyrnahlífar handa börnum, svona eins og vélamenn og aðrir sem vinna við hávaða nota.
Svo eitt að lokum. Ég er svo hrifin af Pierce Brosnan, hann er einn af mínum uppáhalds leikurum. Núna eru paparassar á eftir honum og hans frú af því að hún er svo fjallmyndarleg á ströndinni með honum. Ég segi nú bara að hann Brosnan er flottastur af því að hann heldur sig bara við sína konu þó hún sé svolítið pattaraleg.

|

16 ágúst 2008

Að bregðast við ábendingum

Fyrir nokkrum vikum síðan ritaði ég tölvupóst.
Innihald hans voru kvartanir og ábendingar vegna ástandsins hér í götunni. Það hefur ekki verið lokið við að ganga frá jarðvegi sem mokað var upp á malbikið meðan á byggingaframkvæmdum stóð, það bólar ekkert á gangstéttarframkvæmdum og það er rusl og drasl hér á lóðum þeirra húsa sem ekki hafa verið seld.
Það er vægast sagt leiðinleg aðkoma hingað að Skógarkoti og þegar vinda fer að hreyfa í haust má búast við að þetta lausadót og timbur verði eins og skæðadrífa hér um götuna, ef ekki bara um hverfið.
Ég sendi tölvupóstinn til bæjarstjórans, bæjartæknifræðingsins, lögmanns Bjarkasels ehf. sem á óseldu húsin og til skiptastjóra Viðhalds fasteigna ehf. sem sá um framkvæmdir hér.
Fátt hefur verið um svör. Bæjartæknifræðingurinn svaraði og sagði að farið yrði í gangstéttarframkvæmdir í sumar. Ekki bólar nú enn á því.
En meðan ég var áhyggjulaus upp í Geldinafelli þá bregður svo við að bæjarstarfsmenn hafa tekið sig til og hreinsað smávegis hér í kringum mig. Ekki þetta sem ég var að kvarta yfir, heldur hafa þeir gert sér lítið fyrir og hreinsað burtu alla birkibolina sem ég var búin að draga að mér þegar ég grisjaði rjóðrið hér fyrir neðan og ætlaði að saga í eldinn.
Ég verð að viðurkenna að ég skil ekki þessi vinnubrögð.

|

15 ágúst 2008

Í byggð

Þá er ég komin af fjöllum.
Við höfum verið að mestu sambandslaus við umheiminn síðustu þrjá daga og það er bara fínt. Maður hefur sloppið við að fylgjast með nýjasta farsanum við Reykjavíkurtjörn. Makalaust hvað Reykvíkingar búa við ótrausta borgarstjórn og það er auðvitað ekkert einkamál þeirra því þetta er jú höfuðborgin okkar allra.
Má ég biðja um að það verði sett saman borgarstjórn sem þarf ekki að hanga saman á límingunum það sem eftir er af kjörtímabilinu.
En ég hef sem sagt dvalið áhyggjulaus með Magga á fjöllum. Þar er helst að maður sjái fugl á flugi, heyri nið í ám og lækjum, gnauð í vindi eða gleymi sér við að horfa á fegurð landsins. T.d. fagurgrænan dýamosa ramma inn tæran læk.
Í gær komumst við mjög nálægt lítilli hreindýrahjörð, þetta voru 11 eða 12 dýr, okkur Magga ber ekki saman í svona stórri talningu. Það var gaman að liggja í leyni og fylgjast með dýrunum sem lengi vel vissu ekkert af okkur.
Í dag renndum við yfir í Snæfell og lentum á tal við hreindýraveiðimenn. Mér finnst þeir svolítið fyndnir í þessum stríðsgöllum sem eiga að vera feluföt en eru mjög áberandi í sandinum og á melöldunum.
Ókum framhjá stórri hreindýrahjörð, örugglega hátt í hundrað dýr. Það verður allt fullt af veiðimönnum inn við Snæfell um helgina, það eru víst margar hjarðir þar.
Verst að við komum svolítið seint heim og ég var bæði þreytt og baðþurfi þannig að ég sleppti bæjarhátíðinni í kvöld. En hún stendur alla næstu viku svo ég get gert mér glaðan dag.

|

13 ágúst 2008

Geldingafell

Við Maggi erum að hafa okkur til í fjallaferð.
Nú er ferðinni heitið í Geldingafell. Maggi lofar bongóblíðu og ég er búin undir gamaldags lystitúr.
Vonast til að ná heim áður en bæjarhátíðin hefst, en hún byrjar með hverfagrilli kl. 17.00 á föstudag og karnival á Vilhjálmsvelli um kvöldið. Ég er búina að merkja við allt á Ormsteitinu sem ég má ekki missa af eins og DJ Kiddi Vídeófluga, opnun á sýningu hjá Jennýju Steinþórs, þorparakvöld á Kaffi Nielsen o.fl.
Í gær tók ég til í bílskúrnum, raðaði öllu dótinu, skúraði gólfið og nú er bílskúrinn orðinn íbúðahæfur. Súbbi fær hann svo aftur í vetur.
Þórhallur bróðir var að hjálpa mér í gær að koma saman bókaskápum svo ég get farið að ganga frá bókasafninu. Hann setti líka hurðarnar á gömlu borðstofuskápana mína sem standa núna penir og prúðir, hlaðnir postulíni í bílskúrnum. Gamla borðstofusettið mitt er líka í bílskúrnum þannig að nú er ekkert að vanbúnaði að slá upp stóri matarveislu.

|

11 ágúst 2008

Bíbí og sveppur

Við Gréta Aðalsteins fórum í sveppamó í dag.
Fórum innst inn í Hallormsstaðaskóg og fundum einn svepp. En það gerði ekkert til þótt við finndum ekki fleiri því við fórum bara með teppi, kaffi og nesti í lautarferð í Atlavík í staðinn. Gréta sá fyrir sér næg verkefni fyrir tengdamóður sína og er að ráðgera að planta henni í hrútaberjalyngið í skóginum í haust þegar hún verður búin að hreinsa allt kræki- og bláberjalyngið hérna útfrá.
Ég hafði það svo loksins af að klára Bíbí í dag. Mér er alveg fyrirmunað að skilja fyrir hvað þessi bók var tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna 2007. Hvorki stíllinn né sagan sjálf finnst mér kalla á verðlaunaveitingar.

|

Magnús Atli

Þá er litli maðurinn á Húsavík búinn að fá nafn.
Hann heitir í höfuðið á afa sínum og Maggi er sæll og ánægður með að vera búinn að fá nafna.


Hér eru þeir kappar Jón Magnús, Hrafnkell Fannar og Magnús Atli. Myndarlegir feðgar á fæðingardeildinni.
Við Berglind Rós og Nína lögðum af stað frá Reykjavík í gærmorgun með kaffi í brúsa og nesti í boxi. Við byrjuðum á því að heimsækja það allra, allra myndarlegasta sveitabýli sem ég hef á ævinni séð. Vatnsleysa í Biskupstungum. Jafnvel hestarnir stóðu í fallegri röð. Okkur var vel tekið og ég fékk að heilsa upp á köttinn Dag sem ég hef heyrt margar sögur af, enda er þetta bæði fallegur og gáfaður köttur.
Eftir að hafa skoðað okkur um í garðinum og dáðst að öllu innan dyra og utan, fórum við með Ragnheiði í nýja sumarhúsið sem hún og Eymundur hafa byggt sér handan við bæjarhólinn. Þar var líka allt myndarlegt og fínt og við þáðum kaffi og veitingar áður en við brunuðum áfram heim í Hérað.
Ferðin heim tók 12 tíma eins og suðurferðin, enda vorum við í sannkölluðum sumarleyfisgír og þetta var alveg virkilega vel heppnað ferðalag hjá okkur.
Ég þakka þeim mæðgum Nínu og Berglind Rós fyrir skemmtilega Reykjavíkurferð. Nú fer ég í að þvo og pakka í næstu ferð en planið er þriggja daga ferð með Magga í Geldingafell á miðvikudaginn.

|

10 ágúst 2008

Á heimleið

Þá er þessum gleðidögum í borginni lokið.
Í gær fór ég með Gunnhildi á Gay pride. Það var virkilega skemmtilegt.
Birna frænka mín Þórðardóttir slæmdi í mig pískinum sínum þegar hún gekk framhjá mér á Laugaveginum og Júlli í Vallanesi reyndi að fá Gunnhildi upp á trukkinn sem hann var að dansa á.
Litadýrðin og gleðin var hreint ótrúleg, veðrið fínt svo þetta var sannkölluð karnivalstemning.
Í gærkvöldi var svo lokaþáttur skemmtidagskrár okkar Nínu en við fórum ásamt Berglind Rós að sjá Mamma Mía. Það var náttúrulega bara gleði og gaman þó ég taki undir þau orð að það er einhvern veginn voðalega skrýtið þegar Pierce Brosnan hefur upp raust og fer að syngja. Ekki alveg hans stíll. En maður lætur það ekki trufla sig mikið, samt undarlegt, hann er enginn söngfugl.
Við förum suðurleiðina austur og byrjum á að heilsa upp á Ragnheiði og Eymund á Vatnsleysu í Biskupstungum. Síðan brunum við beina leið heim á Hérað og þó þessi kaupstaðaferð sé búin að vera stanslaus skemmtun þá hlakka ég mikið til að koma heim, þar er eitt og annað sem ég hlakka til að sjá.
Í dag verður herramaður Fannarsson skírður á Húsavík og það verður spennandi að frétta hvaða nafn litla manninum verður gefið.

|

09 ágúst 2008

Í 7. himni

Tónleikarnir með Clapton voru betri en orð fá lýst.
Við Nína vorum ekki nema fáeina metra frá miðju sviðinu og stubburinn ég sá allt sem fram fór.
Trommuleikarinn var ótrúlegur. Stór og mikill rumur með tröllslega kjuða í höndunum og svo kraftmikill á trommunum að ég fann taktinn skella á bringunni á mér og hríslast niður allan líkamann.
Þegar lýsingunni var breytt þannig að fram í salinn og um sviðið fóru fíngerðir silfurlitir sólstafir þá vissi ég hvað var í vændum. Wonderful tonight.
Ég bara fáeina metra frá Eric Clapton þar sem hann var að spila Wonderful tonight - ótrúleg upplifun. Ég ætla ekki að reyna að lýsa því hvernig mér leið.
Svo vippuðu þeir sér beint yfir í kraftmikið Cocaine. Það átti að vera lokalagið en eftir mikið uppklapp tóku þeir eitt aukalag.
Við Nína vorum búnar að svitna nokkrum lítrum af vökva þannig að við fórum beint í næstu sjoppu eftir tónleikana og svolgruðum í okkur hvor sínum vatnslítranum. Svo löbbuðum við meðfram sjónum í kvöldkyrrðinni, sléttur sjór og Snæfellsjökull með roðagylltan bakgrunn.
Þetta kvöld á seint eftir að líða mér úr minni.

|

08 ágúst 2008

08.08.08

Flott dagsetning.
Jæja, þá er tónleikadagurinn runninn upp og veðrið í Reykjavík er yndislegt. Esjan tekur sig vel út í eldhúsglugganum í Goðaborgum.
Sex and the city var bara skemmtileg. En ég upplifði tvennt mjög óvenjulegt í tengslum við bíóferðina í gær.
Í fyrsta lagi þá var það þannig þegar við komum að Félagsstofnun stúdenta að umferðin var öll í hnút. Þegar nær hringtorginu við Þjóðminjasafnið dró kom í ljós hver ástæðan var. Þar voru tveir lögregluþjónar að stjórna umferðinni í hringtorginu.
Ekki nema von að það vanti lögreglumenn í Reykjavík ef þeir þurfa að fást við svona verkefni.
Þegar inn í Háskólabíó kom varð ég fyrir lífsreynslu sem ég hef aldrei upplifað þó ég hafi stundað bíó í Reykjavík í hátt í 50 ár. Það var ekkert poppkorn að fá.
Popplaust bíó, ekki nema það þó. Mér finnst þetta kreppuástand í þjóðfélaginu vera farið að teygja sig ansi víða.

|

07 ágúst 2008

Á þönum

Það er mikið að gera í Reykjavík.
Ég hélt reyndar í morgun að allt væri ónýtt hjá mér því ég fann ekki minnisbókina mína þar sem ég hafði skrifað niður það sem ég ætlaði að gera í borginni.
Eftir mikla leit gafst ég upp, settist út í bíl og ákvað að láta kylfu ráða kasti hvort ég gæti munað eitthvað. En sem betur fer lá minnisbókin mín í bílnum.
Byrjaði í IKEA. Það gekk bara vel á efri hæðinni, gat skoðað mig um í rólegheitum, en þegar ég kom á neðri hæðina kárnaði gamanið. Þar voru börn á hjólaskóm, þeyttust um með ærslagangi og ég mátti þakka fyrir að verða ekki fyrir slysi. Ég bara skil ekki hvað fólk er að gera með svona smáfólk með sér í búðir, nær að fara með krakkana í Heiðmörkina og leyfa þeim að hlaupa þar á meðan foreldrarnir versla í rólegheitum.
Svo var það Smáralindin og skemmtilegar heimsóknir til vina og vandamanna.
Í kvöld förum við Nína svo að sjá Sex and the city - ég sá aldrei tangur eða tetur af þessu þegar það var í sjónvarpinu - þetta er víst eitthvað sem allar konur eiga að hafa gaman af. Kemur í ljós í kvöld hvort ég hef gaman af þessu.

|

06 ágúst 2008

Á ferðalagi

Þá er ég mætt í höfuðborgina.
Við Nína og Berglind Rós lögðum af stað í bítið kl. 9 í morgun frá Egilsstöðum.
Ferðin suður tók 12 tíma upp á gamla móðinn. Við stoppuðum í Víðidal, settumst út í móa og fengum okkur kaffi og smurt brauð. Reyndum að ímynda okkur hvernig hefði verið að búa þarna svona hátt upp á fjöllum við frumstæð skilyrði.
Síðan lá leiðin að Goðafossi þar sem við blönduðum okkur í hóp túrista sem voru að dáðst að fossinum.
Loks var langt stopp á Akureyri enda þurftum við að taka út verslunarmenningu Norðlendinga.
Þá var langt liðið á dag og lítið um stopp þar til við renndum inn í Hafnarfjörðinn og ég skilaði þeim Nínu og Berglind Rós af mér á Hringbrautinni.
Sjálf er ég núna í góðu yfirlæti í Goðaborgum þar sem Anna Berglind og Nonni höfðu skilið eftir uppbúið rúm fyrir mig, þessar elskur.

|

04 ágúst 2008

Heima er best

Óskaplega er huggulegt heimilislífið hér í Skógarkoti.
Kisurnar sofa, við Maggi, Anna Berglind og Jón Árni látum líða úr okkur eftir ljúffenga grillmáltíð. Teygjum úr okkur hér í stofusófunum, hvert með sína fartölvuna í fanginu.
Við Maggi spjöllum á msn til að krakkarnir heyri ekki hvað við erum að tala um.
Já, íslenskt fjölskyldulíf er notalegt.

|

01 ágúst 2008

Dýrðarinnar dásemdardagar á fjöllum

Allt tekur enda, líka góðir dagar á fjöllum.
Síðustu dagar hafa verið yndislegir. Við Maggi byrjuðum á að leysa skálaverðina í Kverkfjöllum af og á þriðjudag fluttum við okkur yfir í ponsulitla húsið í Hvannalindum.


Það var notalegt að búa þar í nokkra daga. Ekkert rafmagn - fyrir utan það sem sólarsellan safnar fyrir litla ljósaluktir, ekkert rennandi vatn og ekkert símasambandi í kotinu.
Ég hélt ég myndi sakna tölvunnar og kóksins, kannski baðkarsins og rúmsins. En það var ekki það sem ég saknaði sérstaklega.
Það sem ég saknaði allra, allra mest, meira en Klófríðar og Kolgrímu, var vatnssalerni. Ég hef einhverja ólýsanlega kamarfóbíu sem kemur sér illa fyrir konu eins og mig sem elskar lífið á fjöllum. Svo var það ekki til að bæta úr að það var hálf dagleið út að kamri. Sem hefur reyndar líka sína kosti.
Við fórum víða. Maggi rúntaði með mig inn í Hveragil, að rústunum þar sem þjóðsagan segir að Halla og Eyvindur hafi hafst við. Það var steikjandi hiti og sól þegar við gengum þar um, upp með Lindaáinni, yfir hrauntunguna og aftur niður að rústum. Við fórum að Jökulsá við Upptyppinga og þar skoðuðum við flottasta graffití sem ég hef séð.


Þetta flokkast auðvitað sem náttúruspjöll en ég get ekki annað en dáðst að hvað þetta er vel gert. Beinar línur og falleg stafagerð. Það eru mörg ár síðan þetta var gert og ég get ekki ímyndað mér hvernig einhver hefur haft kjark til að hanga þarna yfir beljandi Jökulsá á Fjöllum og dunda við að mála ættartölu Völsunga.


Þessi fjalladvöl líður örugglega seint úr minni.
Framundan er verslunarmannahelgin, ætli ég skelli mér ekki bara á Álfaborgarséns, alla vega á sunnudaginn.

|