30 nóvember 2008

30. nóvember

Afmælisdagur Finns, hann hefði orðið 52 ára í dag.
En í dag á Sigga lögga afmæli og líka hún Eva Dís sem er þrítug í dag. Afmæliskveðjur til þeirra beggja.
Líf mitt sem farlama gengur vel. Ég er komin með smá harðsperrur í brjóstvöðvana á að hoppa um á hækjum, en hann Maggi minn stjanar við mig og kettina svo ég þarf svo sem ekkert að vera mikið á ferðinni.
Ég verð samt örugglega orðin hundleið á að hanga hér í hægindastólnum áður en margir dagar líða - ég ætti ekki að kvarta því það fer svo ljómandi vel um mig.
Svo er ágætt að fá smá áminningu um hvað ég er heppin að eiga góða heilsu.

|

28 nóvember 2008

Komin heim skorin og snyrt

Þá er spítalavistin mín á Norðfirði um garð gengin.
Þetta gekk ljómandi vel. Ég var heppin að Maggi fór með mér. Það var blindbylur á Fagradal í morgun og í skriðunum ofan við Reyðarfjörð voru nokkrir bílar út af veginum, m.a. einn stór jeppi.
En við mættum á réttum tíma á spítalann og þar fékk ég afskaplega notalega umönnun.
Einu sinni hafði ég mikla fordóma fyrir sjúkrahúsinu í Neskaupstað og var búin að segja mínum nánustu að ef ég missti meðvitund vildi ég frekar fara á haugana en á Norðfjarðarspítala.
Það er mörg ár síðan ég fékk að kyngja þessum fordómum og hroka enda hafa mínir nánustu fengið mjög góða hjúkrun þar og ég er mjög ánægð með mína vist á fjórðungssjúkrahúsinu.
Ég fékk afskaplega góðan stofufélag, frænku mína Erlu Óladóttur frá Borgarfirði eystra. Þetta varð því bara hin skemmtilegasta spítaladvöl.
Maggi beið eftir að búið yrði að snyrta á mér hælinn og við vorum komin heim fyrir kvöldmat.
Veðrið var nú skárra á heimleiðinni en mikið var gott að koma í Skógarkotið og hreiðra um sig í gamla hægindastólnum.
Nú hoppa ég um á hækjum og Maggi er eins og engill af himnum sendur og snýst eins og skopparakringla í kringum mig.
En að ástandinu í þjóðfélaginu. Mikið vildi ég að í öllum þessum fjöldauppsögnum væri haft að leiðarljósi að einungis annað hjóna missi vinnuna. Það er skelfilegt ef báðar fyrirvinnur heimilisins standa uppi tekjulausar.

|

27 nóvember 2008

Tilbúin í úrbeiningu.

Ja, kannski ekki alveg úrbeiningu en næsti bær.
Það á eitthvað að krukka í hælbeinið.
En ég er tilbúin, allt er þvegið og fínt í Skógarkoti og ég er að þvo af rúminu. Ég er búin að fylla körfu við hliðina á hægindastólnum mínum. Í henni er útsaumsdót, krossgátur og spennusaga. Svo byrjaði ég í gær að lesa um Önnu á Hesteyri og held áfram að lesa hana þegar ég kem aftur af spítalanum. Mér sýnist hún nafna mín hafa staðið sig vel í skrifunum um Önnu.
Mig vantar bara Orðspor Gunnars Hersveins og þá er ég alveg sátt við að vera farlama í einhvern tíma.
Ég er búin að fá hækjur til að nota þegar ég kem heim og ég verð að viðurkenna að ég er ekki lipur að hoppa um á hækjum. Gott ef það eru ekki holur í gólfinu þar sem ég var að æfa mig.
Annars er svo sem spurning hvort ég kemst á Norðfjörð á morgun, veður og færð eru ekki upp á það besta. En Maggi er kappi á góðum jeppa og hann hlýtur að koma mér yfir Fagradal og Oddsskarð í fyrramálið og aftur heim síðdegis á morgun.
Þá er bara að fá sér gott kaffi og hefja svo föstuna.

|

26 nóvember 2008

Veðurhorfur næsta sólarhring

Alveg væri ég til í að vera veðurteppt heima hjá mér á morgun.
Mér þykir afskaplega notalegt að kósa mig heima í Skógarkoti þegar stórhríðin hamast handan við stofugluggann.
Ég sé fyrir mér að ég sitji í náttfötunum í stofunni, pökkuð í teppi, með heitt kakó og góða bók. Maggi og malandi kettir halda mér félagsskap.
Samt held ég að það verði ekkert vont veður hér á Egilsstöðum, þrátt fyrir veðurspánna. Það er oft þannig að það er brjálað veður allt í kring, upp á Jökuldal og niður á fjörðum, en gott veður hér á Héraði.
Ég vona að veðrið verði gengið niður á föstudaginn en þá þarf ég að fara á Norðfjörð og láta gera við annan öklann. Ég sé fram á að skæklast um á hækjum alla aðventuna.
Það er víst best að búa sig undir það og skúra, skrúbba og bóna í kvöld svo ég afberi það að vera farlama.

|

23 nóvember 2008

Að versla á útsölu

getur verið varasamt fyrir gamla konu eins og mig.
Ég er komin í smá aðventuskap og er að spá í jólaseríur utan á Skógarkotið. Ég hef legið á netinu og reynt að finna falleg ljós á viðráðanlegu verði en ekki fundið neitt.
Allt í einu mundi ég eftir því að ég hafði farið í Rúmfatalagerinn eftir jól í fyrra og keypt nokkrar seríur á tombóluprís og þær bíða þess inn í geymslu að fá að fara upp í þakskeggið. Það hefði verið hálf neyðarlegt ef ég hefði keypt mér nýjar.
Ég er að reyna að fylgjast ekki of mikið með fréttum því ég verð svo reið þegar ég les og heyri um allt þetta sukk sem fjármálamenn hafa stundað með góðum stuðningi ráðamanna og forsetans.
Svo get ég bara alls ekki skilið hvernig í ósköpunum það á að vera hægt að fara í stórfellda eignaupptöku almennings í landinu meðan forsprakkarnir í þessu sukki fá að spranga um og halda áfram að sukka á okkar kostnað.
Ég vil að eignir þeirra verði gerðar upptækar og notaðar til að greiða fyrir þetta klúður. Þó að þetta hafi allt átt að heita löglegt sem þeir gerðu þá er það svo yfirgengilega siðlaust að það á ekki að líðast.
Á stríðstímum eru gerðir stríðandi stjórnvalda kannski ekkert rosalega ólöglegar en ég veit ekki betur en að nazistar hafi verið hundeltir fram til dagsins í dag.
Það á að gilda það sama um þessa menn sem hafa rænt okkur eignum okkar og ekki síst rænt mannorði íslensku þjóðarinnar.
Svo legg ég til að Flugfélag Íslands bjóði pakkaferðir - flug og mótmæli. Það hefur ekki vafist fyrir þeim að bjóða flug og hótel, flug og leikhús o.s.frv.
Við landsbyggðarmenn, margir hverjir alla vega, gætum vel hugsað okkur að mæta á Austurvöll.
Annars á ég svo mikið af flugpunktum að það er spurning hvort ég noti þá ekki bara til að skella mér suður til að þrusa nokkrum eggjum - ég baka hvort sem er engar smákökur fyrir jólin.

|

Sorgardagar

Það hvílir sorg yfir Borgarfirði eystra.
Í gær var til moldar borin Bergrún Jóhanna Ólafsdóttir frá Gamla Jörfa. Andlát hennar var mjög óvænt, en hún varð bráðkvödd í Reykjavík fyrir hálfum mánuði.
Við Begga deildum sömu kjörum á Landspítalanum sumarið 2004 þegar mennirnir okkar lágu þar saman á deild og báðar urðum við ekkjur það sumar. Þetta sumar mynduðust mjög sérstök tengsl og mikil vinátta milli okkar Beggu.
Í gær dó Helgi Arngrímsson eftir erfitt stríð við krabbamein. Hann var næst elsta barn Arngríms og Elsu í Sæbergi. Helgi var lengi framkvæmdastjóri Álfasteins en hann bjó mest alla sína ævi á Borgarfirði.
Þegar ég var krakki í sveit á Borgarfirði var ég alltaf eins og grár köttur í Sæbergi. Helgi var myndarlegur, brosmildur og hann var hljómsveitargæi. Mér fannst hann alltaf vera einn flottasti frændi minn.
Ég votta aðstandendum Beggu og Helga samúð mína og bið Guð að vera með þeim öllum, sérstaklega Elsu í Sæbergi og Bryndísi, ekkju Helga.

|

22 nóvember 2008

Að morgni kreppunnar

Ég er sjálf lítið farin að finna fyrir kreppunni.
En ég er að búa í haginn til að mæta því sem verða vill. Búin að endurskipuleggja eitt og annað í fjármálum eins og t.d. að yfirfara allan tryggingapakkann minn. Hækka sjálfsábyrð og breyta heimilistryggingunni. Þannig náði ég útgjöldum niður um slatta af þúsundköllum.
Ég hef haft það rosalega gott undanfarin misseri og ekki þurft að neita mér um nokkurn skapaðan hlut. Ég lenti í smá innri átökum í vikunni því að ég hef verið að leita að góðum hægindastól til að hafa í litlu stofunni minni. Þessir sem mig langar í hafa bara verið svo rosalega dýrir að ég hef ekki tímt að kaupa mér nýjan stól.
Svo rakst ég á draumstólinn minn á netinu og hann er bara á ótrúlega góðu verði - kostar bara rúman helming af því sem þeir kosta sem ég hef verið að skoða. Ég var næstum fallin í þá freistni að kaupa hann. En ég þorði því ekki, maður veit ekki hvað er framundan svo ég dró bara gamla hægindastólinn minn, sem ég var búin að planta út í bílskúr, inn í stofu.
Hann passar ekkert rosalega vel í nýju stofuna en einhverra hluta vegna fyllist ég öryggiskennd að hafa hann hérna. Kolgríma var líka mjög glöð að fá gamla uppáhaldsstólinn sinn af Reynivöllunum inn í stofu og hertók hann undir eins.
En framtíð mín er eins björt og hún getur verið á Íslandi í dag. Ég er ekki með erlent lán, ég er ekki með bílalán og ég er ríkisstarfsmaður - það þótti reyndar ekkert rosa flott fyrir nokkrum vikum síðan, en ég er í góðum málum.

|

21 nóvember 2008

Hin nýja ímynd bankanna.

Bankinn minn hefur myndskreytta heimasíðu.
Eins og eflaust flestir bankar. Fallegar auglýsingar, prýddar ungu heilbrigðu fólki á framabraut. Áhyggjulaust og fallegt.
En nú er komin ný auglýsing og ný mynd á heimsíðu bankans míns.
Þarna er mynd af myndarlegri konu sem eflaust hefur langan starfsferil í bankanum, það hefur ekki farið mikið fyrir henni enda sýnist mér hún vera svona baksviðs, ekki í afgreiðslunni. En hún er tilbúin að hjálpa þér út úr klúðrinu sem jakkafata- og dragtarklæddu frísklegu framagosarnir hafa komið þér í.
Já, það er best að treysta miðaldra konum, þær gera allt sem þær geta til að leysa hvers manns vanda.

|

20 nóvember 2008

Í takt við tímann

Það er kominn hávetur á Héraði.
Jörð er alhvít, það snjóar og hefur gert síðan í gærkvöldi. Nú er tíminn til að kósa sig framan við arineld með kakó í bolla. Jólaljósin mættu alveg fara að sjást.
Guðlaug mágkona gaf mér þessar líka fínu grifflur sem hún prjónaði sjálf. Þær eru alveg yndislegar á mínar fimmtugu hendur, ekki síst þar sem ég er með ganglion á öðrum úlnliðnum. Ég er eins og nirfill í sögu eftir Dickens þar sem ég spóka mig með fínu ullargrifflurnar.
Annars er ég greinilega komin á viðhaldsaldur. Næsta þriðjudag fer ég á Norðfjörð að hitta bæklunarlækni sem ætlar að skoða hægri öklann, en það er kominn einhver kúla aftan á hann auk þess sem hásinin er búin að vera bólgin í marga mánuði.
Ég sem hef alltaf verið hreystin uppmáluð, nú er ég farin að finna alls konar krankleika í liðum og ég er ekki eins sterk og áður.
Það er af sem áður var þegar Anna systir var að láta flytja píanó og fyrsta kraftamanneskjan sem henni datt í hug að fá til að aðstoða sig var ég. Svo braut hún heilann hvort hún þekkti nógu sterka karlmenn til að halda undir píanóið með mér.
En hvað um það, maður bara lagar sig eftir aðstæðum, alveg jafnt hvað heilsuna varðar og efnahaginn.

|

19 nóvember 2008

Lítill snáði

Sigga lögga fæddi dreng í morgun.
Hann ku vera mesti myndardrengur en ég fæ ekki að sjá hann strax.
Hér á Egilsstöðum má geta börn en það má ekki fæða þau. Það verður að fara í aðrar sveitir til þess að koma litlu krílunum í heiminn.
Konur geta valið um að fara til Norðfjarðar, Akureyrar eða Reykjavíkur. Það kemur samt fyrir að konur ali börn sín heima því sem betur fer eru enn til konur hér á Héraði sem búa yfir þeirri þekkingu að taka á móti börnum. Það er bara engin opinber fæðingaraðstaða í sýslunni.
Konur hafa lent í því að vera neitað um flugfar suður af því að þær hafa átt eftir stutta meðgöngu, en Sigga slapp, enda í góðri fylgd.
Hún flaug suður til Reykjavíkur á mánudag, útréttaði í borginni í gær og fæddi svo drenginn í morgun. Hún ætlar greinilega ekki að eyða of miklum tíma í borginni.
Ég hlakka til að þau mæðgin komi heim og ég fái að sjá litla fósturömmubarnið mitt.
Til hamingju Sigga mín með drenginn þinn.

|

18 nóvember 2008

Sápukúlur

Þessa dagana lifi ég ljúfu lífi í sápukúlu.
Innan hennar er bara það sem ég vil hafa.
Ég svíf um í áhyggjuleysi, umvafin ást og vináttu. Ég rifja upp yndislega helgi þar sem vinir mínir og vandmenn glöddu mig með nærveru sinni.
Í sápukúlunni minni er ekki hlustað á fréttir, það er slökkt á útvarpi og sjónvarpi.
Æi, þetta er ágætt líf.
Í dag þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni var óvart kveikt á útvarpinu í bílnum og þá heyrði ég í manni sem líka lifir í sápukúlu og hefur greinilega dvalið lengi inni í sinni kúlu. Það hefur enginn heyrt í honum og nú hefur hann loksins sloppið út úr kúlunni og náð sambandi við umheiminn. Hann lýsti því í útvarpinu hvernig hann sem seðlabankastjóri hefði ítrekað varað við í hvað stefndi.
Enginn kannast við að hafa heyrt í honum.
Svona er lífið í sápukúlu einangrað.

|

17 nóvember 2008

Er ég ekki dama?

Er ég búralegur kuldabolti?
Þegar Anna systir varð fimmtug fékk hún voða lekkera skartgripi frá systkinunum og mömmu. Sérhannað íslenska smíði.
Þegar ég varð fimmtug gaf fjölskyldan mér öflugan rafmagnshitara til að hafa úti á palli.
Þegar Gleðikvennafélag Vallahrepps heiðraði Þórunni Alfreðs fékk hún eldrautt blúndukorsilett.
Þegar sami félagsskapur heiðrar mig, hvað er mér þá fært?
Ullarsokkar með bremsubólum!
Jæja, vinir og vandamenn líta alla vega ekki á mig sem glysgjarna gliðru. Mínar gjafir hafa mikið notagildi og koma sér vel í kreppunni.

|

16 nóvember 2008

Takk kærlega fyrir mig

Afmælið mitt tókst aldeilis vel.
Alla vega frá mínu sjónarhorni séð.
Skógarkot rúmaði vel alla gestina, maturinn lukkaðist vel og allir voru kátir og glaðir. Það var sungið, farið með gamanmál og rifjaðar upp margar skemmtilegar sögur frá liðnum árum.
Það var með ólíkindum hvað menn létu lítið áfengi ofan í sig, en sem betur fer gekk maturinn vel ofan í menn. Ég bað menn ítrekað að vera duglegir að bjarga sér í mat og drykk, en samt var næstum helmingurinn af áfenginu afgangs.
Ég sem var dauðhrædd um að ég hefði ekki keypt nóg og sagði mest í gamni að Maggi mætti eiga afganginn ef einhver yrði því ekki drekk ég.
Nú á Maggi marga bjórkassa og nokkrar léttvínsbeljur. Ég ætla rétt að vona að hann drekki þetta ekki allt í einu.
Ég er svo þakklát fyrir hvað menn voru duglegir að leggja á sig langt og dýrt ferðalag til að koma og eiga með mér þessa kvöldstund, því það voru margir sem komu fljúgandi að sunnan.
Ég þakka ykkur öllum kæru vinir og vandamenn fyrir að þið skylduð gefa ykkur tíma til að koma og gleðja mig með nærveru ykkar, já og takk kærlega fyrir rausnarlegt framlag til nýrnasjúkra, en það var drjúgur sjóður sem kom upp úr söfnunarkassanum.

|

15 nóvember 2008

Kreppunni úthýst

Í kvöld verður kreppunni úthýst úr Skógarkoti.
Ég á von á vinum og vandamönnum til að fagna með mér 50 ára afmælinu. Dætur mínar og tengdasynir eru komin austur, öll systkini mín eru á svæðinu og æskuvinkonurnar úr Kópavoginum koma með hádegisvélinni.
Maggi er búinn að snúast eins og skopparakringla fyrir mig síðustu dagana í undirbúningi og garðhústjaldið sem Þórhallur bróðir reisti á pallinum hefur staðist veður og vind alla vikuna.
Malarvinnslugjaldþrotið setur að vísu strik í reikninginn því það er óvíst hvernig verður með tónlistarmennina í kvöld. Einn fór á sjó þegar hann missti vinnuna og hinir eru á einhverju flandri í atvinnuleit.
En það kemur í ljós eftir hádegi hverni tónlistamálin þróast.
Það er allt tilbúið fyrir kvöldið. Mirek tengdasonur minn fer í eldamennskuna þegar hann vaknar, en ég ætla að breiða sængina aftur yfir mig og kúra fram eftir morgni.
Æi, það er ágætt að hafa tilefni til að gera sér glaðan dag og eiga góðan vinafund á þessum síðustu og verstu tímum.
En það verður bannað að tala um efnahagsmál þjóðarinnar í Skógarkoti í kvöld.

|

13 nóvember 2008

Því skyldi ekki hlakka í Bretum?

Ég var á Höfn í Hornafirði í gær.
Þar hitti ég Hornfirðing sem sagði með bros á vör: Jæja, er hún þá hrunin spilaborgin ykkar þarna á Egilsstöðum?
Þetta stakk mig óneitanlega. Ég hafi að vísu heyrt að það hlakkaði í einhverjum niður á fjörðum yfir því að Egilsstaðabúar hefðu fengið þann stóra skell að Malarvinnslan fór á hausinni.
En því skyldu Bretar hafa samúð með okkur? Því skyldu þeir ekki gera það sem þeir geta til að beygja okkur í duftið? Ef þetta er samstaðan og samhugurinn innanlands að það hlakki í mönnum þegar heilt byggðarlag verður fyrir þeirri blóðtöku að einn stærsti vinnuveitandinn fer á hausinn. Það er ekki bara það að gamalgróið fyrirtæki heyrir sögunni til. Bak við þetta er sú harmsaga að fjöldi heimila hér á Egilsstöðum sér fram á stórskertar tekjur eða jafnvel tekjuleysi því það var nokkuð um það að hjón væru bæði að vinna hjá Malarvinnslunni.
Hvernig væri að snúa bökum saman á þessum erfiðu tímum og leggja þennan niðurdrepandi hrepparíg á hilluna. Ætla Austfirðingar aldrei að vaxa upp úr því að hafa horn í síðu Fljótsdalshéraðs?
Sýnum samstöðu, þó ekki væri nema að sýna andlegan stuðning.

|

11 nóvember 2008

Til hamingju Pólland

Í dag er þjóðhátíðardagur Pólverja.
Ég sendi öllum Pólverjum á Íslandi kveðju í tilefni dagsins, sérstaklega Mirek og Bozenu.
Það er hvít jörð á Egilsstöðum. Bara smá föl, rétt svona til að lýsa upp skammdegið. En ég held að þessi snjór hverfi fljótt aftur. Ég vona að það verði fært yfir Öxi á miðvikudaginn þegar ég fer á Hornafjörð og svo ligg ég á bæn og bið um að það verði ekki hvasst á laugardaginn. Hitastigið skiptir mig litlu máli, bara að það sé ekki mikill vindur.
Hvað er langt síðan það var hætt að mæla í vindstigum og farið að mæla metra á sek.? Ég hef enga tilfinningu fyrir þessu metraveðri, vindstigin eru miklu skiljanlegri fyrir mig.

|

10 nóvember 2008

Lán í óláni

Í upphafi kreppunnar endurskoðaði ég heimilisútgjöldin.
Ég fór m.a. yfir tryggingamálin mín og ég breytti um heimilistryggingu. Fékk einhverja sem ekki inniheldur trygginar á ferðalögum erlendis - enda sé ég ekki fyrir mér utanlandsferðir næsta tryggingaárið. Svo bætir þessi sem ég valdi mér ekki tjón vegna barna undir 16 ára aldri og það gerir ekkert því ég á ekki einu sinni barn undir tvítugu.
Það kom mér því þægilega á óvart þegar ég hafði samband við tryggingafélagið mitt í morgun og það kom í ljós að líklega fæ ég þvottavélina bætta. Þeir komu í dag og mynduðu líkið af henni í bak og fyrir. Dáðust að nýju vélinni í leiðinni og létu í ljós að ég hefði aldeilis verið flott á því í þvottavélakaupum. Ég sem keypti ódýrustu vélina sem til var á Egilsstöðum. Ég hefði kannski átt að láta mér nægja þvottabretti.
En hvað um það. Súbbi minn fór í skoðun í morgun og kettirnir til dýralæknis svo hér í Skógarkoti er allt á réttu róli. Bíllinn með fulla skoðun og Kolgríma og Klófríður bólusettar og ormahreinsaðar.

|

09 nóvember 2008

Hverjum á að fyrirgefa?

Nú hefur einhverjum dottið í hug að þjóðin eigi að fyrirgefa.
Fyrirgefa þeim sem hafa sett samfélagið okkar á annan endann og enginn veit hvað er framundan.
Ég skil ekki hverjum við eigum að fyrirgefa og hvað við eigum að fyrirgefa. Hefur einhver beðist fyrirgefningar? Hefur einhver lýst því yfir að hann harmi að hafa gert eitthvað rangt?
Ef við eigum að íhuga fyrirgefningu verður fyrst að verða á vegi okkar einhver sem iðrast.
Jæja, daglegt líf hér í Skógarkoti hefur sinn vana gang og ég reyni að leggjast ekki í þunglyndi yfir ástandinu.
Hér hefur verið mikið að gerast um helgina. Þvottavélin mín batt enda á sitt eigið líf og líf þvottabalans. Ég hef því bæði fengið nýjan þvottabala og nýja þvottavél.
Svo bað ég Þórhall bróður að hjálpa mér að tjalda yfir hluta af pallinum en hann gerði sér lítið fyrir og smíðað bara hálfgert garðhús. Ég vona að ég verði ekki látin borga fasteignagjöld af veislugarðhúsatjaldinu.

|

08 nóvember 2008

Jæja gæskur, hvaða ár er?

2008? Og íslenskar glímufréttir í útvarpinu á undan boltafréttum.
Bráðum koma kannski skipafréttir. Hekla siglir á Austfjarðahafnir, kemur til Eskifjaðar í nótt. Esja er á leið til Reykjavíkur. Dettifoss er í Gdansk, siglir áleiðis til Íslands á þriðjudag. Brúarfoss kemur til hafnar í New York annað kvöld.
Kannski að þetta sé handan við hornið.
Alveg hefði ég verið til í að vera á Austurvelli í dag, ég sendi baráttukveðjur suður.
Svo legg ég til að við Íslendingar tökum upp tvo sérstaka vinahátíðardaga, 29. júlí og 11. nóvember.

|

Nú skall hurð heldur betur nærri hælum

Eins gott að Maggi var í Skógarkoti í nótt.
Ég setti þvottavélina af stað í gærkvöldi áður en við fórum að sofa. Eitthvað hefur blessuð vélin misskilið hvaða hlutverki hún gegnir á heimilinu því hún fór flikk flakk heljarstökk út á gólf, sleit vatnsslönguna og lagðist á hliðina ofan á þvottabalann minn og braut hann.
Ekki rumskaði ég við þetta. En sem betur fer gerði Maggi það því vatnsbunan stóð út á gólf og allt fór á flot í þvottahúsinu.
Maggi reyndi að kalla til mín úr þvottahúsinu þegar hann sá verksummerkin, en ég svaf bara á mínu græna eyra og sveif um í draumalandi þar sem allt er ljúft og gott og engin kreppa ríkir.
Það hefði verið þokkalegur fjandi ef vatnið hefði streymt í alla nótt. Ég er hrædd um að ég hefði vaknað upp heimilislaus í morgun því parketið, innréttingarnar og gifsveggirnir eru ekki sérlega vatnsþolin.
Spurning hvort að þvottavélin hafi lifað þetta af eða hvort hún var að fyrirfara sér með þessari undarlegu hegðun.

|

06 nóvember 2008

Klukkan langt gengin í 50 ár

Í Skógarkoti miðast tímatalið við fyrir og eftir afmæli.
Ég hef ekki tíma til að gera eitt og annað skemmtilegt fyrr en eftir afmæli. Núna er ég að skemmta mér í undirbúningi.
M.a. er ég búin að skanna líf mitt í myndum og ég verð að deila einni með ykkur. Þetta erum við mamma og Anna Guðný, ásamt dúkkunum Huldu og Gínu. Takið eftir að Gína er rauðhærð, ég hef ekki kynnst annarri rauðhærðri dúkku og hún fylgir mér ennþá.
Þessi mynd er tekin á Hveravöllum, trúlega sumarið 1965 eða 1966.

|

Hvers eiga Norðmenn að gjalda?

Það er óhætt að segja að hér fari úlfur í sauðagæru.
Litli drengurinn sem útsaumsgarnið, sakleysið uppmálað.
Jæja, hann hefur vonandi keypt nokkrar Dior-dragtir handa tengdamömmu sinni blessaður.

|

Draumur

Mikið varð mér létt þegar vekjaraklukkan hringdi í morgun.
Mig dreymdi alveg skelfilegan draum. Mér fannst ég vera á ferðalagi í útlöndum og viðmótið sem ég fékk var eins og maður er að lesa um að íslendingar fái erlendis þessa dagana.
Þetta var alveg hræðilegur draumur og mér varð sannarlega létt þegar ég vaknaði og var bara í bólinu mínu heima á Íslandi.

|

05 nóvember 2008

Fjáröflun í kreppunni

Í gær komu tvær væntanlegar fermingarstúlkur í Skógarkot.
Þær voru að safna fyrir Hjálparstofnun kirkjunnar. Sem betur fer var ég með skotsilfur í dós svo ég gat látið þær hafa smávegis í baukinn.
Nú er akkúrat að koma sá tími þegar krakkarnir fara á stúfana að afla fjár til nemendafélaga eða íþróttastarfs og mér finnst mjög mikilvægt að við fullorðna fólkið tökum vel á móti þeim.
Auðvitað er þröngt í búi á mörgum heimilum en flestir geta nú séð af fáeinum krónum. Krakkarnir hér á Egilsstöðum hafa staðið sig mjög vel með jólakortasölu, klósettpappírssölu, sölu á bakkelsi o.fl. fyrir Hött, fimleikadeildina, í ferðasjóð o.s.frv. og mér finnst það samfélagsleg skylda okkar íbúanna að gera okkar besta að í að styðja við þetta starf.
Ég man þegar ég var skátastúlka í Kópavoginum og maður var sendur í hús, það var ótrúlega niðurdrepandi að fá kaldar móttökur.
Nú er bara að gæta þess að eiga nokkra hundraðkalla handbæra, nú ef ekki, þá alla vega sleppa því að vera með kreppusöng framan í börnin sem banka á dyrnar - eins og ég hef heyrt að hafi gerst hér. Það er alger óþarfi að vera með ónot við saklausa krakka sem leggja sitt af mörkum í fjáröflun.
Enda er efnahagsástandið síst þeim að kenna.

|

Ja, hver hefði nú trúað því

að árið 2008 yrðu Íslendingar heimsfrægir og forseti USA blökkumaður.
Mér hugnast ekki heimsfrægðin en ég er ánægð með úrslit kosninganna í Bandaríkjunum.

|

03 nóvember 2008

Sakleysismörk

Hvað er verið að eyða tíma í skattamál Jóns Ólafssonar?
Þetta eru bara smáaurar, 361 milljón. Ef það er rétt að nýi ríkisbankinn, Kaupþing, sé að gefa mönnum upp sakir upp á 50 milljarða þá veit ég ekki hvað er verið að eltast við nokkrar millur. Eru valdamenn að spila Matador?
Er það kannski þannig að það séu komin einhver sakleysismörk í þjóðfélaginu? Ef þú stelur yfir milljarð þá ertu stikkfrí? Þarft ekki að taka afleiðingum gjörða þinna? Er það bara sauðsvartur almúginn sem á að taka afleiðingunum?
Ég er svo gersamlega búin að tapa áttum í þessu nýja samfélagi okkar. Hvað er rétt og hvað er rangt? Hverju á maður að trúa og hverju ekki? Hvernig á maður að átta sig á fjármálastöðunni hjá sjálfum sér? Það er eins og ég sé lent inn í spilavíti þar sem ég þekki ekki leikreglurnar.
Öll gömlu gildin um réttlæti, ráðvendni og heiðarleika eru horfin út í buskann.

|

Spillingarleysi

Einhverjar kannanir í sumar sýndu að á Ísland væri lítil spilling.
Hér væri spilling með því minnsta sem þekktist.
Ég er að velta því fyrir mér, ef þetta er rétt, hvernig er þá spillt ríki?

|

Hún á afmæli í dag

Hún Klófríður mín er eins árs í dag.
Ég þarf að muna eftir því þegar ég fer í Bónus í dag að kaupa eitthvað gott handa afmælisbarninu.
Klófríður er ótrúlega skemmtileg kisa. Það þarf bara rétt að reka í hana puttann þá er hún farin að mala. Hún bankar þegar hún vill koma inn. Reyndar er þetta kannski frekar að hún klórar, hún hamast með litlu loppurnar sínar á glerinu á garðdyrunum.
Ég mæli með kisum sem gæludýrum. Þær eru yndislegar og ekki síst á svona tímum.

1. Þær tala ekki um kreppuna.
2. Þær hanga ekki yfir enska boltanum.
3. Þær hafa engar fjárhagsáhyggjur.

Kisur eru frábær félagsskapur og miklir gleðigjafar. Alla vega mínar kisur, Kolgríma og Klófríður. Þær eru svo ólíkir persónuleikar. Kolgríma vill lítið láta hnoðast með sig en Klófríður elskar að láta halda á sér, klappa sér og klóra.
Báðar eru samt þannig að þær vilja vera þar í húsinu sem ég er að bardúsa. Þær vilja vita af mér nálægt sér.
Speki dagsins: Hlátur er lyf fyrir hjartað.

|

02 nóvember 2008

Þetta fer aldrei verr en illa

Ég átti gott spjall við frænku mína á Borgarfirði eystra í dag.
Hún sagðist ekki skilja hvers vegna þjóðin væri að tapa geðheilsunni, þetta færi hvort sem er aldrei verr en illa.
Er þetta hið sanna æðruleysi? Eða er þetta kaldhæðni?

|

Aðgát skal höfð í nærveru sálar

Er ekki nóg að missa eigur sínar þó menn missi ekki vitið líka?
Ég er ekki sérlega sögufróð, en mér þykir fyrirsögn í Mogganum í dag alveg ótrúlega eitthvað út í hött. Staðan ekki alvarlegri síðan í móðuharðindunum.
Margt hefur gerst á Íslandi frá því í móðuharðindum og fram til dagsins í dag. Snjóflóðin fyrir vestan 1995, í Neskaupstað 1974, Vestmannaeyjagosið 1973. Þetta eru staðbundnar hörmungar en fólkið sem lenti í þeim er vonandi ekki að fara upplifa eitthvað enn verra í dag.
Hvað með kreppuna 1930 í því þjóðfélagi sem þá var? Hvað með frostaveturinn mikla 1918? Spönsku veikina? Hafísárin 1880?
Hvað með Öskjugosið 1875 þegar askan lagðist yfir stóran hluta Austurlands og menn tóku að streyma til Kanada? Hvað með vistabandið?
Á að fara að bjóða menn upp á manntalsþingum? Á að fara taka börnin af þeim sem lenda í greiðsluerfiðleikum og koma þeim til vandalausra? Horfa á eftir þeim þangað sem þau lepja dauðann úr skel, verða látin þræla myrkranna á milli og kannski lamin og barin í kaupbæti.
Nei, ég held að við ættum aðeins að minnast þess að við eigum lífvænlegra samfélag en þetta. Að úrræðin eru önnur í dag en fyrir 100 árum.
Þó útlitið sé dökkt, þá ættu menn aðeins að gæta tungu sinnar, það er ekki á ástandið bætandi þó menn leggist ekki í þunglyndi í hrönnum.
En hvað um það. Það er sunnudagsmorgun í Skógarkoti. Klófríður og Kolgríma eru farnar út að leika sér og ég ætla að fara að hafa til huggulegan morgunmat. Að honum loknum verður kannski kúrt aðeins lengur í bólinu og hugsað um eitthvað annað en kreppu.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er: Þó þú gerir ekki annað í dag en sýna elskusemi öllum þeim sem þú hittir hefur þú staðið þig með prýði.

|

01 nóvember 2008

Mannanöfn

Ég er að brjóta heilann um mannanöfn.
Skyldu atburðir dagsins í dag hafa áhrif á nafngiftir?
Ætli nöfn eins Davíð, Björgúlfur og fleiri nöfn sem kalla fram reiði hjá núlifandi Íslendingum lifi áfram?
Ef maður lítur fyrst til postulanna 12, þá lifa nöfn þeirra góðu lífi nema nafn Júdasar. Ætli nokkur maður í heiminum beri það nafn?
Mörður kemur ekki fram sem mannsnafn í manntölum fram til 1950. Ætli Mörður Árnason sé ekki fyrsti maður sem ber þetta nafn frá því á sögutíma Íslendingasagna?
Jón Thoroddsen gerði næstum útaf við nafnið Gróa með sköpun persónunnar Gróu á Leiti.
Hvað um það. Það er fallegt veður á Egilsstöðum og ég nota daginn til að taka til í bílskúrnum og breyta honum í partýpleis. Það styttist í fimmtugsafmælið mitt og það er eins gott að Skógarkotið verði komið í veislubúninginn á réttum tíma.

|