31 október 2008

Hvað er að vera fátækur?

Ég er að velta þessu hugtaki fyrir mér.
Blasir fátækt við íslensku þjóðinni? Hvenær er maður fátækur og hvenær ekki?
Langamma dætra minna var hreppsómagi. Hún var boðin upp á manntalsþingum og hún kynntist fátækraþurrki á eigin skinni þegar hún, lítil stúlka, þrufti að fara í kjólinn sinn blautann ein jólin því hann náði ekki að þorna. Hún var alin upp við mikla fátækt og lélegan kost, en hún endaði ævina sem jarðeigandi á Völlum.
Þegar langamma mín var lítil stúlka á Bóndastöðum á Úthéraði dó pabbi hennar. Yfirvöld gripu til þess ráðs sem oft var gert þegar ekkjur stóðu uppi einar með börn sín, systkinahópnum var tvístrað og komið til vandalausra.
Amma mín, dóttir þessarar langömmu minnar, var ekkja með tvö börn í kreppunni um 1930 í Reykjavík. Hún var mjög stolt kona og einsetti sér að þyggja aldrei krónu af því opinbera. Henni tókst að standa við það og henni tókst líka að koma börnum sínum til mennta. Með útsjónarsemi og aga tókst henni þetta, enda voru börnin farin að vinna strax og stætt var á því og þau skiluðu hverri krónu til heimilisins.
Ég er ekki viss um að þessar konur myndu samþykkja það að fátækt blasti við almenningi á Íslandi í dag, án þess að ég sé að gera lítið úr vanda þeirra sem eru að missa vinnuna.
Ég er stolt af því að bera nafn Rannveigar ömmu minnar, nafnið sem hún fékk frá fósturmóður langömmu minnar frá Bóndastöðum. Ég held að ef ég hef fengið eitthvað af seiglunni hennar ömmu með nafninu þá kemst ég klakklaust í gegnum það sem framundan er.

|

Neyðarkall

Maggi er genginn til liðs við Björgunarsveitina.
Nú ver hann öllum kvöldum í félagsskap við einhvern Dodge Ram.
Ég held ég fái mér bara neyðarkall.

|

30 október 2008

Viðsnúningur

Mér varð um og ó sumarið 1997 þegar frumburðurinn hélt út í heim.
Hún réði sig sem au pair í Warsjá í Póllandi og mér fannst hún vera að fara í afskaplega famandi veröld frá því sem ég þekkti.
Allar fréttir sem við fengum frá Austur Evrópu á þeim tíma voru á einn veg, vöruskortur og fátækt.
En Gunnhildur mín lét áhyggjur mínar sem vind um eyru þjóta og hélt á vit ævintýranna.
Ég var ekki í rónni fyrr en ég var búin að fá þær fréttir að hún væri komin heilu og höldnu á leiðarenda. Hvað vissi ég svo sem um samgöngur í Póllandi? Myndin sem fjölmiðlar höfðu dregið upp lýsti öllu þarna fyrir austan svo úr sér gengnu að ég átti allt eins von á að frumburðurinn væri týndur einhvers staðar í ónýtri járnbrautalest eða einhverju enn verra. Svo myndi hún kannski bara ekki fá almennilegt að borða. Einhver ráðlagði henni að taka með sér ársbyrgðir af dömubindum því svoleiðis munaðarvarningur fengist ekki í búðum í Póllandi.
En áhyggjur mínar voru ástæðulausar. Gunnhildur var sæl og ánægð með lífið í Warsjá. Hún sagði að hún hefði það alveg eins gott og heima og það væri enginn skortur á neinu. Pólverjar væru yndislegir þótt þeir væru ekki helteknir af lífsgæðakapphlaupi eins og Íslendingar.
Hún hitti líka ástina sína hann Mirek, hann flutti með henni til Íslands og þau giftu sig á sjómannadaginn 1999.
Til skamms tíma hafa þau lifað góðu lífi í Reykjavík.
En nú er heldur betur að hlutirnir eru að snúast við. Nú er komið að foreldrum Mireks að hafa áhyggjur af honum í fátæktinni á Íslandi. Fjölmiðlar ytra draga upp mjög dökka mynd af ástandinu og nú eru það foreldrar Mireks sem hafa áhyggjur af því að hann fái kannski bara ekki almennilegt að borða á Íslandi.
Svona geta hlutirnir snúist við.

|

Hreindýragúllas

Í gær ákvað ég að úthýsa kreppunni og eldaði hreindýragúllas.
Svo var ís með heitri súkkulaðisósu í eftirmat, við arineld, voða kósý.
En hreindýragúllasið minnti mig á rétt sem ég fékk oft þegar ég var krakki og eldaði á fyrstu búskaparárunum mínum.
Steikt lambahjörtu í brúnni sósu. Bragðið er ekkert mjög ósvipað.
Nú er bara að kaupa sér slatta af lambahjörtum og setja þennan rétt inn á matseðil heimilisins. Svakalega verður maður orðinn þjóðlegur eftir nokkrar kreppuvikur.

|

29 október 2008

Bifrastarmenn eru rausnarlegir

... að bjóða Færeyingum fría skólavist.
En skyldu Íslendingar ekki geta kennt Færeyingum eitthvað nytsamara en viðskiptalögfræði?
Það er að heyra að framundan séu þeir svörtustu tímar sem nokkur núlifandi Íslendingur hefur þekkt. Ég trúi því ekki að þetta verði verra en maður les um að hafi verið um 1930. Þá var fátæktin svo gífurleg og húsakostur þjóðarinnar lélegur.
Tengdamamma var fædd 1920, hún sagði mér að þegar mamma hennar var að búa til rabbarbarasultu þá hefði hún ekki átt almennileg ílát undir sultuna. Það hefu verið dregnar fram allar könnur og skálar sem til voru til að geyma sultuna í.
Mér verður stundum hugsað til þessarar sögu þegar ég er að henda sultukrukkum og ósjálfrátt er ég farin að hugsa mig um hvort ég ætti kannski að geyma glerkrukkur sem falla til í staðinn fyrir að henda þeim.

|

90% aðspurðra

... vilja Davíð burt.
Það er af sem áður var þegar hann var elsaður og dáður.
Geir ku ekki vilja reka hann af ótta við klofning í Sjálfstæðisflokknum. Hvað með það þótt Sjálfstæðisflokkurinn klofni, það yrði hvort sem er bara flokkurinn og svo klofningsarmurinn Davíð og Sigurður Kári.
Kannski að það sé trompið sem Geir ætlar að spila út þegar allt annað þrýtur, að senda Davíð heim og gleðja þjóðina.
Ég er að reyna að setja sjálfa mig í fréttabann, ég held að krónan standi hvorki né falli þótt ég liggi yfir fréttunum og fari á límingunum út af ástandinu.
Það er bara svo erfitt að stilla sig um fylgjast með hvað er að gerast. Ég er alltaf að frétta af fleiri vinum og kunningjum sem er sagt upp í vinnunni og þetta er alveg skelfilegt ástand.
En lífið í Skógarkoti gengur sinn vanagang. Klófríður og Kolgríma halda sínu striki þrátt fyrir allt krepputal. Ég held samt að Klófríður spjari sig betur í kreppunni, hún étur hvað sem er, en Kolgríma vill bara innfluttan kattamat og villibráð.

|

28 október 2008

Það er ekki að spyrja að

... hverjir eru vinir okkar.
Ég segi það enn og aftur, allar jólagjafirnar frá mér þetta árið verða keyptar hjá Jakúp í Rúmfatalagernum.
Kreppan hefur vakið upp hina myndarlegu húsmóður innra með mér sem legið hefur í dvala síðan löngu fyrir góðærið. Nú er það ekki bara heimabakað brauð og vellingur heldur líka slátur og annar þjóðlegur matur.
Frænka mín á Seyðisfirði er komin með íslenskar hænur í kofa í bakgarðinum. Kannski maður fari að hennar dæmi. Það er reyndar ekki víst að nágrannarnir yrðu kátir að vakna upp við hanagal og Kolgríma mín gæti aldrei látið fiðurfénað í friði.
En óneitanlega myndi það minna mig á bernskudagana í Kópavogi þar sem eitt og eitt hænsnabú var inn í miðjum bæ og maður var sendur með litla fötu að kaupa egg.
Ég nenni ekki að lesa eða hlusta á þessi viðtöl þar sem menn hvítþvo sig af því hvernig komið er fyrir þjóðinni. Enn síður hef ég áhuga á þessum drengjum sem lýsa því yfir að þeir muni leggja fé og krafta sína í að endurreisa Ísland.
Hvað halda þeir eiginlega að þeir séu? Að þjóðin komist ekki af án þeirra?
Nei takk, má ég biðja um að Ísland verði endurreist án þess að fjárglæframenn komi nálægt því.

|

27 október 2008

Nú já,

... er ástandið svona alvarlegt!
Það er ansi hreint vetrarlegt um að litast á Egilsstöðum núna. Akkúrat veðrið til að hreiðra um sig í stofusófanum og gæða sér á Prins Póló.

|

26 október 2008

Ilmur

Í fyrradag eldaði ég siginn fisk.
Reyndar eldaði ég hann úti í bílskúr, ég vildi ekki að lyktin myndi loða við allt í húsinu.
Í dag eldaði ég svið. Mér þykja þau rosalega góð með rófum og kartöflustöppu.
Ég þurfti að bregað mér af bæ. Þegar ég kom heim aftur fann ég sérstaka lykt í húsinu. Þetta er lyktin sem var á bernskuheimili mínu og minnir mig á áhyggjulausa æskudaga. Lyktin sem minnir mig á að ég er Íslendingur.
Ljúfsár ilmur.

|

Speki dagsins

á dagatalinu mínu:
Frelsi án ábyrgðar er eins og barn sem hefur enga umsjá.
Nú hefur litla frjálsa bankabarnið hrapað fyrir björg og kærulausir foreldrarnir hafa verið sviptir forræðinu.
Það ríkir kyrrð og friður í Skógarkoti í dag. Klófríður og Kolgríma eru báðar búnar að fara út og gá til veðurs, en það er kalt og blautur snjór svo þær eru báðar komnar afur inn í hlýjuna.
Ég hugsa að við þrjár verðum allar í letigírnum í dag.

|

25 október 2008

Aftur til fortíðar

Það er alveg ótrúlega fallegt veður í dag.
Ég dreif mig út og fór upp að vatnstankinum sem er hér ofan við húsið mitt. Þvílíkt dýrðarinnar útsýni sem er þaðan. Allur fjallahringurinn og alveg út að sjó. Mikið afskaplega er sveitin mín falleg. Ég fór bara næstum að syngja ættjarðarlög. Blessuð sértu sveitin mín. Kolgríma kom mjálmandi á móti mér þegar ég kom aftur niður í götuna mína og fylgdi mér síðasta spölinn heim.
Það hefur verið um það rætt undanfarið að við séum komin aftur til ársins 1975, Abba og Vilhjálmur Vilhjálmsson eiga vinsælustu tónlistina, gjaldeyrishöft, óðaverðbólga í augsýn o.s.frv.
Ég hef bætt um betur og keypti mér þessa fínu vetrarkápu í Sentrum í vikunni. Hún minnir óneitanlega á gömlu Álafossúlpurnar. Dásamleg flík. Svo keypti ég mér líka þá bestu skó sem ég hef fengið í 30 ár. Þykkbotna leðurskó með grófu mynstri.
Mér er ekkert að vanbúnaði að taka á móti vetrinum.
Við Maggi erum búin að fylla alla frystana okkar af kjöti og fiski, við erum rétt eins og langömmur okkar og langafar hvað forðasöfnun varðar. Þetta er reyndar ekki súrsað, saltað og reykt í dag. Það vantar bara maðkað mjöl í tunnu, en ég á Vídalínspostillu svo það væsir ekki um okkur.
Nei, ég kvíði ekki vetrinum, verst að starfmenn bæjarins skyldu stela öllum eldiviðnum sem ég var búin að draga að mér.
Það verður kósýkvöld í Skógarkoti í kvöld. Arineldur, súkkulaði og ís.

|

Spennufall

Jæja, við sjáum þó alla vega til lands.
En það er þungur róður framundan og það er víst að þegar við loks náum landi þá verða ansi margir orðnir máttfarnir.
Það er alla vega gott að það er búið að ganga frá málum gagnvart Alþjóða gjaldeyrissjóðnum þó það sé neyðarbrauð að þurfa að þyggja aðstoð. En það voru ekki margir kostir í stöðunni.
Í gær var svo mikil spenna búin að safnast fyrir í sálu minni að ég var farin að rifja upp ýmis orð sem ég hef ekki tekið mér í munn síðan einhvern tíma á síðustu öld. Alls konar orð sem ekki eru prenthæf. Ég var farin að óska nokkrum einstaklingum alls hins versta.
Það eru blikur á lofti hér á Egilsstöðum. Það er búið að segja upp 30 manns í Malarvinnslunni og það eru örugglega uppsagnir yfirvofandi á fleiri stöðum. Það verður erfiður vetur hjá mörgum barnafjölskyldum hér sem annars staðar á landinu.
Það verða ekki sérlega gleðileg jól á þeim heimilum sem missa helminginn og kannski ríflega helminginn af framfærslutekjunum og allir eru bundnir á skuldaklafa út af íbúðakaupum o.fl.
Það er mjög brýnt að fundin verði leið til að koma í veg fyrir að fjöldi heimila verði gjaldþrota og að fólk sem af bjartsýni og eljusemi hefur verið að koma sér þaki yfir höfuðið standi uppi eignalaust þegar loks við náum landi eftir þetta hrun bankanna.
Það er yndilegt veður á Fljótsdalshéraði og mig langar mest til að fara út í skóg og viðra mig. Kannski ég bara láti verða af því að haltra með mína löskuðu löpp út í náttúruna - það kyrrir hugann og byggir upp sálina.
Speki dagsins á dagatalinu mínu er góð sem endranær: Ef áform þín hafa mistekist athugaðu hvot ekki finnist einhver önnur betri leið sem þú hefur ekki uppgötvað.
Góðar stundir.

|

23 október 2008

Enn um banka

En þessi geymir ekki krónur eða pund.
Hvað verður um íslenska genabankann ef DeCODE verður selt úr landi? Fylgja genaupplýsingar þjóðarinnar með í kaupunum?
Snjóflóðahætta á Vestfjörðum, aukin skjálftavirkni við Upptyppinga.
Jæja, hvernig var nú berjasprettan í haust? Fór einhver til berja?
Kerti og spil, leggur og skel, verða það ekki bara jólagjafirnar í ár.
Svo er bara að bíða eftir að hafísinn láti sjá sig í vetur. Skyldu ísbirnir ganga á land?
Það er nú bara að verða nokkuð spennandi að búa á Íslandi, bara eins og að vera þátttakandi í reifarakenndri skáldsögu.

|

Er ég reið?

Ég er bara ekki alveg viss.
Ég er að reyna að skilgreina þess tilfinningu sem ég finn fyrir. Það eru svo mörg ár síðan ég varð reið að ég man ekki einu sinni eftir því hvenær það var. Það fauk í mig fyrir fjórum árum út í afgreiðslumann í Símabúðinni sem eitt sinn var hér á Egilsstöðum. En mér líður ekki eins og þá.
Ég held að ég sé bara eitthvað dofin, mér finnst allt eitthvað svo absúrd og óraunverulegt. Er ég stödd í Undralandi?
Ég vil að menn verði dregnir til ábyrgðar. Ég vil að þeir sem eiga sökina á þessu risavaxna bankaæxli fái að svara fyrir gerðir sínar.
Ég vil að eignir þeirra verði gerðar upptækar til ríkissjóðs, þetta eru eignir sem við eigum að fara að borga fyrir þannig að þjóðin hlýtur að eiga þetta góss.
Það hefur ekki vafist fyrir stjórnvöldum hingað til að taka landareignir bænda eignarnámi hægri vinstri, svo það hlýtur að vera hægt að finna lagaheimildir til að gera eignir útrásarmanna upptækar. Það er venja í sakamálum að góssið er gert upptækt.
Nú ef ekki finnast lagaheimildir, þá ætti ekki að vefjast fyrir þingheimi að setja lög um það.
Svo vil ég að stjórnmálamenn sem sköpuðu jarðveg fyrir þetta bankaæxli sæti ábyrgð.
Ég vil fyrst sjá eftirlaunalög ráðherra afnumið, þeir eiga ekki skilið betra ævikvöld en almenningur í landinu.
Næst þegar við komum í land vil ég að það verði skipt um áhöfn í brúnni. Það er lágmark að þeir sem stjórna skútunni kunni á einfaldan áttavita.
Ef þjóðin sæti ekki uppi með þetta bankaskrímsli þá væri heimskreppa eitthvað sem við hefðum leikandi létt siglt í gegnum.

|

22 október 2008

Syndaaflausn

Það gengur einhver undirskriftalisti á netinu.
Þar eru þeir félagar Brown og Darling beðnir að trúa því að Íslendingar séu ekki hryðjuverkamenn.
Ég ætti nú ekki annað eftir en að setja nafn mitt á þennan lista! Ég hef ekki gert Bretum neitt, ég þarf ekki biðja þá afsökunar á neinu og hef ekkert við syndaaflausn frá þeim að gera.

|

Líðan mín er ekki í takt við ástandið.

Tilfinningar mínar eru á skjön við þjóðfélagsástandið.
Mér líður alveg ótrúlega vel, ég er glöð í sálinni, hlakka til að halda upp á afmælið mitt og ég er farin að hlakka til jólanna.
Hreindýrið liggur með lerkisveppina við hliðina á sér í frystinum og bíður eftir jólunum. Í gær kom heimsmeistarinn í hrútaberjasultugerð, Arndís Hólmgrímsdóttir, og færði mér tvær krukkur af þessu líka fallega hlaupi.
Nú bara tel ég dagana fram að jólum, þeir eru 63. Og hafið þið skoðað dagatalið? Það eru frábær jól í vændum.

|

Ferðir og ferðalög

Það eru dapurlegar fréttir sem maður les um framkomu við landann í útlöndum.
Ég get ekki sagt að mig langi mikið til útlanda og ég sé ekki fyrir mér að ég eigi eftir að fara út fyrir landsteinana næstu misserin.
En það gerir ekkert til, við eigum svo fallegt land sem gaman er að ferðast um. Ég þarf ekki annað en að setja á mig gönguskóna og halda út í hina fögru náttúru Fljótsdalshéraðs. Svo ekki sé nú talað um alla fegurð Austurlands og Íslands í heild.
Nei, ég kvíði því ekki að halda mig heima við næstu árin.
Mér þykir verra með unga fólkið sem er að halda út í heim og getur átt von á óblíðum móttökum fyrir það eitt að vera Íslendingar.
En við skulum líta í eigin barm. Hversu oft erum við ekki búin að koma illa fram við einstaklinga fyrir það eitt að vera frá einhverjum ákveðnum löndum.
Annar tengdasonur minn, hann Mirek, er frá Póllandi og þess vegna hefur það alltaf stungið mig í eyrun hvernig talað er um Pólverja hér á Íslandi. Við dæmum fólk frá öðrum löndum eftir einhverjum (rang-)hugmyndum sem við höfum um viðkomandi land.
Danir fara í danska hólfið, Pólverjar í pólska hólfið, Asíufólk í asíska hólfið og svo framvegis. Við metum ekki einstaklingana heldur dæmum þá út frá þjóðerni.
Ég vona að þetta ástand sem nú ríkir kenni okkur þá lexíu að kynnast fólki út frá mannlegum gildum en ekki út frá landafræðinni.
Hinn tengdasonur minn, hann Jón Árni sem kemur líka úr fyrrum kommúnistasamfélagi, Norðfirði, hann á afmæli í dag og ég óska honum til hamingju með daginn.
Speki dagsins á almanakinu mínu á vel við tíðarandann: Svikið loforð er eins og löðrungur í andlitið. Loforð sem staðið er við er betra en dýrasta kampavín.

|

20 október 2008

Það þarf sterk bein til að þola góða daga

og bein í nefið til að þrauk þá sem á eftir koma.
Ég er að reyna að átta mig á þessu fárviðri sem geysar á fjármálamarkaðinum.
Það er eitt sem ég fæ bara alls ekki til að ganga upp í hausnum á mér. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að úr því að breskir sparifjáreigendur treystu betur stuttbuxnadrengjum frá Íslandi en gamalgrónum breskum bönkum fyrir pundunum sínum, hvernig er hægt að fá það út að hversdagslegir Jónar og Gunnur á Íslandi eigi að súpa seyðið af því að Bretar tapi þessum pundum sínum?
Af hverju eiga almennir Íslendingar að missa eigur sínar og tapa lífeyrinum sínum? Af því að Bretar ætluðu að ávaxta sitt pund í ótraustum bönkum. Bönkum sem almenningur á Íslandi hafði örugglega enga hugmynd um að væru svona risavaxnir, sem almenningur á Íslandi hefði örugglega aldrei vilja ganga í ábyrgð fyrir ef spurt hefði verið.
Hvernig er hægt að láta almenna launþega vera ábyrga fyrir svona starfsemi? Einu sinni tíðkaðist að menn skrifuðu upp á ábyrgðir á lánum og ég minnist þess ekki að ég hafi persónulega skrifað upp á það að ég væri ábyrgðarmaður út af einhverjum bankaviðskiptum í Bretlandi.
Pápi minn sagði við mig þegar ég varð fjárráða að ég ætti aldrei að skrifa upp á skuldbindingar nema að ég væri borgunarmanneskja fyrir því sem um væri samið og ekki skrifa upp á fyrir aðra en þá sem ég sætti mig við að borga fyrir. Ég skyldi gera mér grein fyrir að skuldin gæti fallið á mig.
Ég hef alltaf haft þessi góðu ráð föður míns að leiðarljósi og ég er alveg með það á hreinu að ég hef ekki skrifað upp á þessar skuldbindingar bankanna.
Ég get bara engan veginn séð neitt réttlæti í þessu máli.
Svo hef ég megna óbeit á þessum Gordon Brown. Ég vona að það verði farið í þessi málaferli og ég vona að Íslendingar vinni málið.

|

19 október 2008

Sunnudagsmorgun í Skógarkoti

Ef allt væri eins og það var væri ég að hafa til fínan morgunmat.
Beikon og egg og alls konar góðgæti sem hæfir sunnudagsmorgni í Skógarkoti.
En nú er allt breytt og breskur morgunmatur hefur verið tekinn af matseðlinum. Nú verður borið á borð heimabakað brauð, íslenskur ostur, íslenskt smjör, kaffi frá Brasilíu og ávextir frá heitari löndum en Bretlandi.
Ég var að lesa bloggið hennar Önnu Kristjáns. Þar eru vangaveltur sem eru mér að skapi.
En varðandi efnahagsástandið þá er það mín skoðun að það eru stjórnvöld sem hafa komið okkur í þessi vandræði. Þau brugðust okkur algerlega í öllu fjármálaeftirliti, stjórnin svaf í klettagjá og þjóðin flaut með sofandi stjórn að feigðarósi.
Það er ekki hægt að ætlast til þess að heimilin í landinu axli ábyrgðina á þessu ástandi. Að fólk missi húsnæðið meðan það á varla fyrir salti í grautinn. Nú þegar ljóst er að verðbólgan á eftir að æða upp úr öllu þá finnst mér að afnema eigi hina illræmdu verðtryggingu.
Fyrst eru menn kvattir til að taka öll heimsins lán og svo fá þeir margfaldan bakreikning. Kaupa allan heimsins óþarfa, ekkert út og fyrsta afborgun einhvern tíma í fjarlægri framtíð. Hvað með þá sem notuðu þetta ótrúlega tilboð um 90% íbúðalán? Svo ekki sé nú talað um þessi grimmu bílalán sem minna mest á sögur um að selja Skrattanum sál sína.
Úr því að bankarnir fengu eftirlitslaust að valsa svona út um víðan völl þá verða þeir sem áttu að hafa eftirlit með málunum að finna aðra lausn en að svipta hinn almenna Íslending húsnæðinu.
Ég þakka nú Guði fyrir að litlu bankadrengirnir höfuð það ekki í geng að koma Íbúðalánasjóði fyrir kattarnef.

|

18 október 2008

Höndla ekki hroka

Ég var í Bónus áðan.
Svo sem ekkert merkilegt með það nema að við kassann var einhver karl sem var bæði hranalegur og ókurteis við mig. Ég vissi ekki alveg hvað maðurinn var eiginlega að hugsa. Trúlega er ekki í lagi heima hjá honum.
En ég hugsaði um það á leiðinni heim hvað það hlýtur að vera ömurlegt að vera Íslendingur í útlöndum og lenda í leiðindum út af þjóðerninu.
Og þetta er það sem ég á verst með að sætta mig við í núverandi ástandi.
Efnahagssviptingar er eitt en glatað mannorð er annað. Ég get bara alls ekki sætt mig við að þjóðin hafi í heild glatað mannorðinu. Ég get ekki einu sinni beitt heimspeki Pollýönnu á þetta ástand.
Það má svo sem segja að það mátti skrúfa niður í þjóðarrembunni hjá okkur, en þetta er samt of mikið af því góða.
Ég held að ég fari ekkert út fyrir landsteinana næstu árin, ja, ekki nema þá að maður bregði sér til Vestmannaeyja eða Grímseyjar, já eða bara út í Papey. Svo ef ég fyllist virkilegri ævintýraþrá, þá held ég að ég treysti mér alveg til Færeyja.

|

16 október 2008

Speki dagsins

Eins og svo oft áður hittir speki dagsins á dagatalinu mig vel í dag.
Þegar skýfall dembist yfir líf þitt og allt í kringum þig er rok og rigning, þrumur og eldingar, er kominn tími til að leita skjóls undir regnhlíf fyrirheita Guðs, halda kyrru fyrir og bíða átekta. Sá sem stjórnar vindunum myndar líka regnboganum.
Það er víst ekki annað að gera í þessum hvirfilvindum sem blása um okkur Íslendinga núna, maður leitar vars og bíður þess að öldurnar lægi.
Meðan ég bíð ætla ég að njóta þess að eiga góðar stundir með mínum nánustu.
Annað kvöld á ég von á systkinum mínum í mat til mín. Kjötsúpa og nýbakað brauð, arineldur og huggulegheit. Ætli við horfum ekki bara saman á Útsvarið.

|

Jamm og já

... ÞETTA hlýtur að vekja gleði hjá Bretum.

|

15 október 2008

Góð hugmynd

Ég heyrði um hugmynd sem fékk mig til að brosa.
Kannski svolítið af illkvittni, en hugmyndin er samt brilljant.
Seljum Rússum eignir Íslendinga í Bretlandi! Verðið skiptir ekki öllu máli.
Ég vil svo bæta því við að við gefum frændum vorum Færeyingum Magasin DeNord, bara svona af því að þeir sendu okkur hughreystandi kveðju þegar allt var að hrynja og við horfðum á mannorð þjóðarinnar hverfa í öldurótinu um daginn.

|

14 október 2008

Stofufangelsi

Kolgríma og Klófríður eru í stofufangelsi.
Það kemur ekki til af góðu. Það er verið að steypa stétt hér í götunni og þegar ég var að fara í vinnuna eftir hádegismatinn þá heyrði ég hróp og köll. Ég gaf því engan gaum, þetta voru bara karlarnir í steypuvinnunni og ég hélt að þeir væru í samskiptum innbyrgðis.
En aldeilis ekki, einn stökk fram og stoppaði mig þegar ég var að aka frá húsinu. Hann spurði hvort kötturinn minn væri úti. Ég sagði að önnur kisan væri nýlega farin út að leika sér. Þá krossbölvaði hann og sagði að kötturinn væri búinn að valda stórtjóni með því að valsa um í blautri steypunni.
Ég fór að skoða verksummerkin og það fór ekki á milli mála, það hafði köttur verið að vaða þarna í rennblautri steypunni. Aumingja kötturinn.
Ég reyndi að kalla en Kolgríma var komin langt út í skóg, eða lét sem hún heyrði ekki í mér.
Þegar ég kom heim síðdegis beið hún eftir mér og var dauðfegin að komast inn, en það var steypuslóðin eftir hana inn allt parketið svo það fór ekki á milli mála hver skemmdarvargurinn var.
Klófríður fær ekkert að fara út og hún er ekki par hrifin af því. En svona eru laun heimsins, við höfum nú fengið að kynnast því undanfarið. Einn brýtur af sér og annar fær að greiða fyrir það.
En þegar ég fór út að hjóla í blíðunni hitti ég karlana aftur, þar sem þeir eru að steypa hér innst í götunni. Ég sagði þeim að kisurnar væru báðar lokaðar inni. Þeir sögðu að það væri eins gott, þær yrðu snúnar úr hálsliðnum ef þær létu sjá sig því þeir hefðu ekki haft undan að laga skemmdir eftir kisu mína í dag.
Þeir tóku það ekki einu sinni í mál að trúa því að það væru nú fleiri kettir hér í hverfinu. Nei, það komu ekki aðrir kettir til greina.
Jæja, ekki ætla ég að fullyrða það. Kolgríma er vel vís til að hafa spásserað endan á milli í götunni og að hafa haft áhuga á að skoðað þessar framkvæmdir.

|

13 október 2008

Fóruð þið til berja í haust?

Þessi setning hefur sérstaka merkingu á mínu heimili.
Þannig var að systir hennar tengdamömmu var að borða með okkur á Strönd ein jólin. Eitthvað fannst henni óþægilegt að hlusta á okkur Finn pexa um eitthvað ómerkilegt atriði svo hún segir svona upp úr eins manns hljóði "Fórst þú til berja í haust Rannveig?"
Upp frá því var þessi setning notuð hjá okkur ef umræðan fór að verða óþægileg og einhver vildi skipta snöggt um umræðuefni.
Þess vegna segi ég "Íslendingar, fóruð þið til berja í haust?"
Málið er nefnilega að mér leiðist að heyra menn heimta hefndir núna. Við höfum öðrum hnöppum að hneppa. Við þurfum að standa saman og byggja kjark og þor hvert hjá öðru.
Sérstaklega þykir mér leiðinlegt að lesa það sem Ögmundur Jónasson lætur frá sér fara, mér þykir það oft bera vott um barnalega hefnigirni og öfund.
Í sumar var eitthvað verið að ræða um sukk og svínarí hjá bönkunum. Ögmundur kom með þá snjöllu hugmynd að skikka hæstráðendur í bönkum til að selja glæsijeppana sína.
Halló, hver átti að kaupa þá? Og hvaða lausn var fólgin í því að selja þessa jeppa? Værum við kannski betur stödd núna?
Þegar Geir stóð eins og klettur alla síðustu viku þegar kerfið gliðnaði í sundur og himnarnir hrundu yfir okkur, þá sé ég á netinu að Ögmundur segir að það þurfi að flýta kosningum.
Halló, er ekki nær að pólitíkusar snúi bökum saman og finni leið út úr kreppunni heldur en að þeir fari að ferðast um landið og rífast um atkvæði.
Nei, ég segi nú bara "Fórstu til berja í haust Ögmundur?"

|

12 október 2008

Þjófnaður

Stundum botnar maður ekkert í hlutunum.
Eins og þessa dagana. Ég skil þetta ástand í þjóðfélaginu ekki. Eða öllu heldur ég skil ekki hvernig það gat gerst að bankarnir fengu að byggja þessar spilaborgir þegar þjóðin á alls konar hagfræðinga, peningamálasérfræðinga, Seðlabanka, fjármálaeftirlit og Guð má vita hvað við vorum með margar tegundir af sérfræðingum, lærðum og leikum, á súperdúperlaunum við að koma öllu í kalda kol hjá okkur. Af hverju sáu þessir spekúlantar ekki í hvað stefndi? Eða öllu heldur, af hverju var ekkert gert þegar skýrslur fóru að berast um að allt stefndi í óefni?
Jæja, þetta er allt búið og gert og víst til lítils að spyrja af hverju, nema kannski til að læra af því.
Ef maður með nælonsokk yfir hausnum labbar sér inn í banka og skipar gjaldkeranum með illu eða góðu að fylla skjattann hans af peningaseðlum, þá sjá allir hver ásetningur hans er og það vefst ekki fyrir ákæruvaldinu að heimfæra slíka hegðun undir almenn hegningarlög.
Ef aftur á móti maður kemur fínt uppdubbaður í rándýrum fötum inn í sama banka, labbar sér inn á fína skrifstofu sína, pantar far á Saga Class út í heim (á kostnað bankans) - ef það býður hans ekki bara einkaþota út á velli. Leikur sér að eignum bankans (sem einu sinni var þjóðareign) byggir upp alls konar skýjaborgir í útlöndum fyrir peningana sem grandvarar ömmur og afar hafa lagt til hliðar af mikilli sparsemi. Skammtar sjálfum sér margföld laun hvers vinnandi manns í landinu og við horfum bara aðgerðarlaus á. Vonumst samt eftir því að okkur verði líka boðið upp í dansinum í kringum gullkálfinn og reynum að taka nokkur spor með ef færi gefst. Vonumst eftir því að kokkurinn verði spilaður svo allir komist út á gólf, það eru ekki dömufrí í þessum dansi.
Hinn grandvari hversdagslegi Íslendingur spyr sjálfan sig hvort þessi dans í kringum gullkálfinn sé ekki glapræði en landsfeðurnir klappa bankamanninum á bakið og greiða götu hans í útlöndum.
Svo finnst ekki nein grein í almennum hegningarlögum sem hægt er að heimfæra þess hegðun undir. Enda ekki von, hvernig áttu menn að fatta það 1940 að það væri þörf á slíkri lagagrein.
En ég verð að segja að mér finnst að ríkissaksóknari ætti að endurskoða þá ákvörðun sína að heimila að farið verði í að rannsaka einhverja þætti Hafskipsmálins að ósk Björgúlfs. Mér finnst ekki brýnasta þörf á því núna að verja opinberu féi í að hreinsa mannorð manns sem var einn af þeim sem svipti Ísland og Íslendinga ærunni.

|

11 október 2008

Ég var að baka ...

... baka brauð.
Ég bakaði þessi líka fínu brauð í dag. Mér hefur aldrei nokkurn tíma tekist svona vel með gerbakstur.
Ég veit ekki hvað veldur því að þetta lukkaðist allt í einu hjá mér. Kannski er það bakaraofninn eða kannski var það uppskriftin. Ég held að það sé hvort tveggja.
Ég fékk svo fína uppskrift hjá Kristjönu frænku minni. Ég kalla þessi brauð Oddvitabrauð með orðbragði, því Kristjana stóð krossbölvandi yfir brauðbakstri í eldhúsinu í Kirkjumiðstöðinni á Eiðum. Á þeim tíma var Kristjana oddviti á Borgarfirði.
En brauðin voru svo góð hjá henni, þrátt fyrir orðbragðið, að ég fékk uppskriftina og þetta er frábær brauðuppskrift. Fínt kreppubrauð enda kyrrar það hugann að hnoða brauð.

3 brauð.

5 dl blanda af hafragrjónum, kornfleksi, sesamfræjum, sólblómafræjum, eða öðrum fræjum. Má líka hafa saxaðar rúsínur.
15 dl hveiti
2 deildir ger
2 tsk salt
Öllu blandað saman
2 msk púðursykur eða sýróp, leyst upp í 8 dl. af vel volgu vatni og blandað við þurrefnin.

Látið hefast. Brauðin pensluð með vatni (ég notaði úðabrúsa) og bakist í 35 mín. í 200°C heitum ofni.

Verði ykkur að góðu!

|

10 október 2008

Refsiaðgerðir

Ég hef ákveðið að beita Breta refsiaðgerðum.
Í ljósi óendanlegs hroka breska forsætisráðherrans Brúna Godda, hef ég ákveðið að kaupa ekki Makkintos-konfekt fyrir jólin eins og ég er vön. Enda er fyrir löngu búið að taka uppáhalds molann minn úr dósinni - maltkaramelluna.
Mackintosh´s frá Quality Street er hvort sem er bara óhollt jukk.
En í þakklætisskyni fyrir vináttu Færeyinga í okkar garð ætla ég að kaupa allar jólagjafirnar í Rúmfatalagernum hjá vini vorum Jakúp frá Færeyjum.

|

Frændur vorir Færeyingar

Mikið var ljúft að fá svona fallega kveðju.
Gott að vita að þegar við höfum glatað mannorðinu á alþjóða vettvangi þá skuli leynast einhvers staðar í veröldinni vinveitt þjóð. Guð blessi Færeyinga.
Aftur á móti blöskrar mér viðbrög forsætisráðherra Bretlands. Hann ætti aðeins að hugsa áður en hann framkvæmir. Þessi viðbrögð hans geta tæpast verið til annars en að reyna að afla sér vinsælda enda ku maðurinn vera óvinsælasti leiðtogi Verkamannaflokksins frá upphafi.
Það er ekki nóg með að Bretar búi til vondan mat, þeir eiga líka ljótan forsætisráðherra. Aumingja Bretar.
Tenórinn var mjög skemmtilegur. Hæfileg blanda af gamni og alvöru.

|

09 október 2008

Davíð tókst það

Hljómar reyndu en þeim tókst það ekki.
Change reyndu og þeim tókst það ekki heldur.
En Davíð kom sá og sigraði og gerði Ísland frægt á Bretlandi á einni nóttu.
Nú reynir á Geir hvernig hann höndlar þessa óvæntu frægð okkar.
Ég ákvað að hlusta ekkert á kvöldfréttirnar. Ég er búin að dubba mig upp og við Anna systir erum að fara á leiksýningu. Við ætlum að sjá leikrit Guðmundar Ólafssonar, Tenórinn en hann er á leikferð um landið og verður í Valskjálf í kvöld.

|

08 október 2008

Sjá roðann í austri

Ja, nú dámar mér.
Við sem erum búin að þamba kók í mannsaldur, hesthúsa mörgum pökkum af Ceerios og Coco puffs, tyggja upp heilu skipsfarmana af amerísku tyggjó og horfa á fleirihundruð og fimmtíu amerískar kvikmyndir. Svo eiga Rússar að bjarga okkur frá hungurdauða.
Ótrúlegt að hugsa sér forustu Sjálfstæðisflokksins fara með betlibauk austur að Kremlarmúrum.
Hvað skyldu þeir spjalla um yfir morgunskattinum fyrir handan þeir félagar Ólafur Thors, Einar Olgeirsson, Geir Hallgrímsson og Lúðvík Jósepsson?

|

07 október 2008

Hvað er að gerast?

Flóðgáttir himnanna hafa verið opnar í tvo sólarhringa.
Hér rignir og rignir. Það er alla vega ekki vatnsskortur í kreppunni.
Ekki nóg með það. Egisstaðabændur eru að tæma skíthúsin og það er þvílíkur fnykurinn yfir bænum að það er örugglega ekki til maður hér í bænum með stíflaða nös.
Ég fór í Bónus og á leiðinni heim var ég nánast viss um að það hefði belja skitið í aftursætið á Súbba mínum.
Ég hef reynt að forðast að hlusta mikið á fréttir í dag, en auðvitað hef ég ekki alveg geta stillt mig um að fylgjast aðeins með. Ég var bara svo úrvinda í gærkvöldi eftir allt sem á gekk í gær að það var ekki til orkuarða í kroppnum á mér þegar ég skreið í bólið.
Annars verð ég að segja að mér finnst Geir standa sig vel og það er ágætt að hafa hagfræðimenntaðan forsætisráðherra á svona tímum.
Það sem ég hef heyrt frá pólitíkusunum okkar finnst mér þeir bara flestir standa sig ágætlega á þessum þrengingatímum.
Ég er bara hrædd um að kreppan sé eins og borgarísjaki sem við erum bara búin að sjá lítið brot af. Kannski að íslenska hagkerfið sé eins og Titanik, bara spurning hverjir komast í björgunarbátana.

|

Á krepputímum

Nú er um að gera að standa saman.
Ekki skaðar að fara með æðruleysisbænina: Guð gefi mér æðruleysi til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt, kjark til að breyta því sem ég get breytt og vit til að greina þar á milli.
Við Gréta Aðalsteins vorum að rifja upp kreppu-sælkerarétti. Svo getur maður fundið upp nýja. Við vorum að semja kreppudrykk sem er góður í staðinn fyrir gos. Að sjóða upp engiferrót, blanda hunangi við og kæla drykkinn svo. Þetta er ljómandi fínn drykkur og hollur að auki.
Í gær ræddi ég við mína nánustu og sem betur fer kemur litla fjölskyldan mín til með að spjara sig í gegnum þessar þrengingar. Mirek er að semja alls konar góðar uppskriftir þar sem lambalifur er aðaluppistaðan. Við snúum bara bökum saman og tökum upp ný lífsgildi, eða öllu heldur setjum gömul gildi í öndvegi. Eins og að efla fjölskyldu- og vinabönd.
Því miður eru sumir, mér nákomnir, að ganga í gegnum mjög erfiða tíma núna og ég bið Guð að gæta þeirra.
Sameinaðir stöndum við, sundraðir föllum vér.

|

06 október 2008

Er tímabært

... að örvænta?
Ég verð að viðurkenna að fréttir síðustu daga eru farnar að brjótast út sem frunsa á neðri vörinni á mér og hnútur í maganum.
Samt hef ég persónulega ekki ástæðu til að örvænta, það er allt í góðum gír hjá mér. En þegar stjórnarandstaðan er ekki með yfirlýsingar, búið er að loka á viðskipti með fjármálafyrirtæki í Kauphöllinn, Landsbankinn selur evrur á 183 krónur þegar gengið er skráð á 155 og forsætisráðherra ítrekar að ekki sé ástæða til að örvænta, þá held ég að það sé full ástæða til að örvænta.
En samt held ég bara mínu striki og stefni á að eiga afmæli í næsta mánuði. Í gær byrjaði ég að baka og svei mér þá, það lukkaðist aldeilis vel. Svo gróf ég nautakjöt, svo hér í Skógarkoti fær lífið bara að tifa sinn vana gang.

|

05 október 2008

Sunnudagsmorgun

Veðrið er yndislegt á Héraði á þessum sunnudagsmorgni.
Venjulega vakna ég upp á sunnudagsmorgnum og hugsa um hvað ég eigi að taka mér fyrir hendur á slíkum drottins degi.
Í dag er ég reyndar búin að ráðstafa deginum, en þar fyrir utan er ég að brjóta heilann um efnahagsástandið. Þegar efnahagsástandið er skriðið upp í ból til mín á sunnudagsmorgni er eitthvað meira en lítið að gerast.
Hvað skyldi verða um lífeyrissparnaðinn okkar? Ég hef frá upphafi verið í viðbótarlífeyrissjóðssparnaði og séð fram á góða daga í ellinni, en nú fer ég að efast um að hann verði tiltækur þegar ég þarf á honum að halda.
Svo er ég að brjóta heilann um hvernig ég get dregið saman seglin á þessum síðustu og verstu tímum.
Þá horfi ég fyrst á bílinn. Það liggur beinast við að draga úr notkun á Súbba. Það er líka bara holt og gott að ferðast um á reiðskjótum postulanna.
Svo kemur sterklega til greina að taka slátur. Það er mikil búbót að eiga slátur í frystinum (og muna eftir að borða það).
Ætli ég taki svo ekki upp matseðlinn sem við Finnur höfðum á námsárunum, hrísgrjónagrautur í flest mál.
Alla vega held ég að það eitt að skipuleggja matarinnkaupin í það minnsta viku fram í tímann skili miklum sparnaði.
Ég ætla að hugsa um fleiri sparnaðarleiðir í dag meðan ég dunda mér í verkefnum dagsins.

|

04 október 2008

Ammæli

Í dag var ég í sextugsafmæli Gissurar bróður.
Ósköp sem maðurinn er orðinn gamall, kominn á sjötugsaldur. Og ég svona kornung, bara 49 ára.
Annars er það merkilegt með þennan aldur, maður er alltaf á besta aldri hvað sem maður er gamall. Ég hitti áttræða konu á Spáni um daginn. Hún bar aldurinn vel og var við góða heilsu. Hún hugsar alveg eins og ég, þ.e.a.s. henni finnst hún bara vera tvítug inn í sér. Ég ætla alltaf að vera tvítug inn í mér, líka þegar ég fer á elliheimilið í rauða pallíettukjólnum.
Það var ágæt áletrun sem ég sá á bol einum, Ég er ekki 50 ára, ég er 18 ára en hef þar að auki 32 ára lífsreynslu.
Þá er það bara spurning hvort við sækjum um aðild að Evrópubandalaginu eftir helgina. Það er nú tæplega þannig að við bara bönkum upp á og okkur verði hleypti inn án skilyrða.
Hvar ætli við værum stödd ef við hefðum látið það eiga sig að stofna lýðveldið 1944 og værum enn undir Dönum? Það væri gaman að vita, en svör fást víst ekki við því.

|

03 október 2008

Hið ljúfa líf

Hvað er betra en að eiga helgina framundan?
Föstudagskvöld, úti er snjór og kuldi en hér í Skógarkoti er hlýtt og kósý.
Kisurnar letilegar, Klófríður snyrtir sig og Kolgríma kúrir hér við hliðina á mér. Garpur kom með Magga og hann flatmagar á gólfinu.
Afskaplega getur lífið verið ljúft og gott og tilhugsunin um að þurfa ekki að fara á fætur fyrr en ég nenni í fyrramálið er frábær.
Hátta með góða bók, vitandi það að í fyrramálið verður lagað gott kaffi og framreiddur góður morgunmatur, beikon, egg og ávextir.
Það er næstum hægt að ímynda sér að hagkerfið gangi smurt og þjált og að smjör drjúpi af hverju strái á Íslandi.
Annars var ég að hugsa um það í dag að miðað við þann aðbúnað sem íslenska þjóðin bjó við um 1930 þegar heimskreppan skall á, þá þurfum við ekki að kvarta svo sárt. Fólk bjó í óupphituðum hreisum en ekki í húsum með hita og rennandi vatni. Fátæktin var svo skelfileg að ég held að ég og mín kynslóð getum ekki einu sinni reynt að ímynda okkur hvernig lífið var.
En ég ætla að njóta þess að það er föstudagskvöld og helgin framundan.

|

Lífið gengur sinn vana gang

Hér í Skógarkoti er allt í ró og spekt.
Klófríður og Kolgríma hafa ekki áhyggjur af efnahagsástandinu. Þær skokkuðu saddar og sætar út í haustsólina og Kolgríma hélt á vit ævintýranna út í skógi með Klófríði í eftirdragi.
Í dag eiga þær systur Magga Dís og Kristín Halldóra Halldórsdætur afmæli. Líka örverpið mitt hún Anna Berglind. Svo er Einar Frosti sonarsonur Magga tveggja ára.
Afmæliskveðja til þeirra allra.
Ég ætla að einbeita mér að því að njóta haustfegurðarinnar á Fljótsdalshéraði í dag og láta landsfeðurna um að vera með hnút í maganum. Ég hef bara samúð með öllum þeim fjölmörgu barnafjölskyldum sem horfa fram á þrengingar í atvinnu- og efnahagsmálum.

|

01 október 2008

Nauðsyn brýtur lög

Ég er ekki alveg að ná atburðarásinni.
Ekki efast ég um að það hafi verið nauðsynlegt fyrir Davíð, ég meina Seðlabankann að taka þá ákvörðun að ríkissjóður, án samráðs við Alþingi, tæki Glitni eignarnámi, ég meina keypti stærsta hlut bankans.
Ég er bara ekki búin að skilja hver var í nauðum staddur.
Svo er ég ekki enn búin að fatta hver staða Davíðs er í þrígreiningu ríkisvaldsins. Kannski eru fjórar greinar á íslensku ríkisvaldi - hver veit?

|

Myndir frá Marokkó

Á veitingahúsi


Beðið eftir veislukrásum


Stuðmenn leika fyrir matargesti

Hjá teppasala


Teppi af öllum stærðum og í ótal litum


Búin að tapa áttum innan um gólfvasa og aðra skrautmuni

Lífselexír


Kynning á afurðum náttúrunnar - allt frá ilmsápu yfir í víagra.

|